Vínarborg, nóvember 2022

Fyrst kom ég í tónlistarhúsið í Vín, Staatsoper Wien, árið 1974. Ég var þá í erindum Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, á ráðstefnu í borginni og skrapp einn míns liðs á söngleik, Don Carlos eftir Verdi, sem saminn var upp úr leikriti Schillers. Mér fannst hann heldur langdreginn. Ég held að vísu, að ég kynni betur að meta verkið nú en þá. Árið 2019 var ég aftur staddur í borginni og horfði þá á listdans, ballet, Pétur Gaut, eftir Edvard Grieg. Tónlistin var afar ljúf og þægileg, og tíminn leið áfram áreynslulaust. Við vorum tveir, og í hléinu fengum við okkur kampavín.

Í nóvember 2022 var ég enn staddur í Vínarborg og átti að halda aðalræðuna til heiðurs viðtakanda Hayek-verðlaunanna þetta árið, en þau hlaut skólabróðir minn frá Oxford, dr. Emilio Pacheco, sem var lengi forstjóri Liberty Fund í Bandaríkjunum. Stofnunin, sem veitti verðlaunin, Hayek Institut, bauð okkur nokkrum fyrst sunnudagskvöldið 6. nóvember í kvöldverð á Rote Bar á Sacher gistihúsinu, þar sem ég hafði stundum átt ánægjulegar stundir áður, og síðan á söngleikinn La Traviata eftir Verdi í söngleikahöllinni, og var uppfærslan mjög kunnáttusamleg. Stefið var auðvitað, að kona með fortíð ætti sér enga framtíð.

Það var þó erfitt að taka hinar sterku ástríður helstu söguhetjanna í Traviata alvarlega. Þær virtust margar vera viti sínu fjær. Og þó. Daginn eftir sóttum við málstofu hjá Hayek Institut um nýútkomna ævisögu Hayeks eftir Bruce Caldwell og Hansjörg Klausinger, fyrra bindi, og þá kom í ljós, að árið 1950 hafði Hayek kastað frá sér öllu til þess að ganga að eiga æskuástina sína. Hann skildi fyrri konu sína og tvö börn þeirra eftir í Bretlandi með allar þær jarðnesku reytur, sem hann hafði eignast, sagði prófessorsembætti sínu í Lundúnum lausu og hélt til Bandaríkjanna, þar sem hann hóf kennslu við Chicago-háskóla. Ef til vill er það þá rétt, sem David Hume hélt fram, að skynsemin væri ambátt ástríðnanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. nóvember 2022.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband