Fyrir tuttugu árum

Sumar fréttir eru svo óvæntar og stórar, að allir muna, hvar þeir voru, þegar þeim bárust þær. Árið 1963 var ég tíu ára lestrarhestur á Laugarnesvegi 100. Hinar fjölmörgu bækur á heimili foreldra minna nægðu mér ekki, svo að ég laumaðist oft upp til vinafólks okkar í sama stigagangi og grúskaði í bókum. Ég sat þar við lestur síðdegis föstudaginn 22. nóvember, þegar annar sonur hjónanna í íbúðinni kom að mér og kallaði: „Hefurðu heyrt fréttirnar? Þeir hafa skotið Kennedy!“ Öllum var brugðið.

Haustið 1997 var ég á leið til Torino, þar sem ég skyldi vera gistifræðimaður í nokkra mánuði. Að morgni sunnudagsins 31. ágúst var ég nýlentur í Mílanó (sem fornmenn kölluðu Melansborg) og í leigubíl á leið til járnbrautarstöðvarinnar. Lágvært útvarp á ítölsku var í gangi. Skyndilega hrópaði ökumaðurinn: „Díana prinsessa er látin! Hún lenti í bílslysi!“ Ég var forviða. Það var ótrúlegt, að þessi þokkadís væri öll.

Þriðjudaginn 11. september 2001 var ég nýkominn á gistihús í Bratislava í Slóvakíu, þar sem halda átti svæðisþing Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Laust eftir klukkan þrjú síðdegis hringdi bandarískur kunningi í mig. Hann var í uppnámi: „Komdu upp í íbúðina til mín og horfðu á sjónvarpið með mér. Það er verið að gera loftárás á New York!“ Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. „Eins og í kvikmynd?“ sagði ég. „Já, en þetta er ekki kvikmynd, þetta er veruleiki,“ svaraði hann. Ég fór upp í íbúð hans, við fengum okkur drykki og blönduðum sterkt, settumst fyrir framan sjónvarpið og horfðum þöglir á árásirnar í beinni útsendingu. Þegar áfengisbirgðir þraut úr kæliskápnum í íbúð hans, náði ég í það, sem til var í mínu herbergi.

Ólíkt hörmulegum andlátum Kennedys og Díönu markaði árásin á Bandaríkin tímamót. Þetta var í fyrsta skipti, sem fjandmenn höfðu ráðist inn í landið sjálft. En hryðjuverkasamtökin Al-Kaida höfðu vanmetið styrk Bandaríkjanna, sem lögðu þau að velli á nokkrum misserum, þótt ekki hafi þeim tekist með öllu að uppræta þau. Enginn skyldi samt vanmeta þennan styrk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. september 2021.)


Vinnubrögð Rannsóknarnefndarinnar

Hér hef ég rifjað upp, að Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu varð þegar í febrúar 2009 vanhæf, eftir að einn nefndarmaður tilkynnti í bandarísku stúdentablaði, hverjar niðurstöður hennar yrðu. Óháð því má greina ýmsa galla á vinnubrögðum nefndarinnar.

Af hverju voru yfirheyrslur nefndarinnar ekki opinberar og sjónvarpað beint frá þeim? Og af hverju eru gögn nefndarinnar lokuð inni? Nefndin ákvað ein, hvað birta skyldi úr gögnunum. Ég hef kynnt mér nokkur þeirra og séð margt merkilegt, sem nefndin sleppti.

Mjög orkaði tvímælis, að nefndin fékk friðhelgi að lögum. Borgararnir voru sviptir rétti sínum til að bera undir dómstóla, ef þeir töldu hana hafa á sér brotið. Jafnframt var þeim bannað að skjóta hugsanlegum brotum til Umboðsmanns Alþingis.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að nokkrir ráðherrar og embættismenn hefðu gerst sekir um vanrækslu. En sú niðurstaða var um vanrækslu í skilningi laga nr. 142/2008, sem samþykkt voru eftir bankahrunið. Lög eiga ekki að vera afturvirk.

Sá munur var að lögum á bankaráði Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins, að bankaráðið markaði ekki stefnu bankans í efnahagsmálum, heldur bankastjórnin ein, en forstjóri Fjármálaeftirlitsins átti að bera allar meiri háttar ákvarðanir undir stjórn. Hvers vegna tók nefndin ekki ábyrgð stjórnar Fjármálaeftirlitsins til rækilegrar rannsóknar?

Rannsóknarnefndin horfði nær alveg fram hjá því, að bankarnir uxu hratt árin 2002–2005, en óverulega eftir það. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, formaður bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra hófu allir störf, eftir að bankarnir voru fastir í stærðargildrunni.

Rannsóknarnefndin sakaði forsætisráðherra um að hafa haldið upplýsingum frá bankamálaráðherranum. En það var ekki ákvörðun hans að gera það, heldur formanns samstarfsflokksins.

Rannsóknarnefndin horfði nær alveg fram hjá því, að bankarnir féllu vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu, þar sem Íslandi var neitað um þá aðstoð, sem aðrir fengu. Ekki var til dæmis leitað skýringa á því, að breska ríkisstjórnin bjargaði haustið 2008 öllum öðrum bönkum landsins en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, en í uppgjöri þeirra beggja síðar meir kom fram, að þeir áttu vel fyrir skuldum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. september 2021.)


Bloggfærslur 14. september 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband