Fyrir tuttugu árum

Sumar fréttir eru svo óvæntar og stórar, að allir muna, hvar þeir voru, þegar þeim bárust þær. Árið 1963 var ég tíu ára lestrarhestur á Laugarnesvegi 100. Hinar fjölmörgu bækur á heimili foreldra minna nægðu mér ekki, svo að ég laumaðist oft upp til vinafólks okkar í sama stigagangi og grúskaði í bókum. Ég sat þar við lestur síðdegis föstudaginn 22. nóvember, þegar annar sonur hjónanna í íbúðinni kom að mér og kallaði: „Hefurðu heyrt fréttirnar? Þeir hafa skotið Kennedy!“ Öllum var brugðið.

Haustið 1997 var ég á leið til Torino, þar sem ég skyldi vera gistifræðimaður í nokkra mánuði. Að morgni sunnudagsins 31. ágúst var ég nýlentur í Mílanó (sem fornmenn kölluðu Melansborg) og í leigubíl á leið til járnbrautarstöðvarinnar. Lágvært útvarp á ítölsku var í gangi. Skyndilega hrópaði ökumaðurinn: „Díana prinsessa er látin! Hún lenti í bílslysi!“ Ég var forviða. Það var ótrúlegt, að þessi þokkadís væri öll.

Þriðjudaginn 11. september 2001 var ég nýkominn á gistihús í Bratislava í Slóvakíu, þar sem halda átti svæðisþing Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Laust eftir klukkan þrjú síðdegis hringdi bandarískur kunningi í mig. Hann var í uppnámi: „Komdu upp í íbúðina til mín og horfðu á sjónvarpið með mér. Það er verið að gera loftárás á New York!“ Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. „Eins og í kvikmynd?“ sagði ég. „Já, en þetta er ekki kvikmynd, þetta er veruleiki,“ svaraði hann. Ég fór upp í íbúð hans, við fengum okkur drykki og blönduðum sterkt, settumst fyrir framan sjónvarpið og horfðum þöglir á árásirnar í beinni útsendingu. Þegar áfengisbirgðir þraut úr kæliskápnum í íbúð hans, náði ég í það, sem til var í mínu herbergi.

Ólíkt hörmulegum andlátum Kennedys og Díönu markaði árásin á Bandaríkin tímamót. Þetta var í fyrsta skipti, sem fjandmenn höfðu ráðist inn í landið sjálft. En hryðjuverkasamtökin Al-Kaida höfðu vanmetið styrk Bandaríkjanna, sem lögðu þau að velli á nokkrum misserum, þótt ekki hafi þeim tekist með öllu að uppræta þau. Enginn skyldi samt vanmeta þennan styrk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. september 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband