Ábyrgðin á óeirðunum 2008–9

Heimspekingar hafa síðustu áratugi smíðað sér kenningar um samábyrgð hópa. Ég nefndi hér í síðustu viku greiningu eins þeirra, Davids Millers, á götuóeirðum, en hann telur, að í þeim verði til slík samábyrgð, sem ráðist af þátttöku, en þurfi ekki að fara saman við einstök verk eða fyrirætlanir. Varpaði ég fram þeirri spurningu, hvort samkennarar mínir í Háskólanum, Gylfi Magnússon og Þorvaldur Gylfason, hefðu með þátttöku sinni í götuóeirðunum hér 2008–9 öðlast samkvæmt greiningu Millers einhverja ábyrgð á þeim, þótt þátttaka þeirra hefði einskorðast við hvatningar til þjóðarinnar á útifundum um að losa sig við stjórnvöld.

Nú hefur ungur heimspekingur, Sævar Finnbogason, sem hefur skrifað ritgerðir um samábyrgð Íslendinga á Icesave-málinu, andmælt mér á Netinu. Helsta röksemd hans er, að ekki hafi þá verið um eiginlegar götuóeirðir að ræða. Mótmælin hafi farið friðsamlega fram og þeir Gylfi og Þorvaldur hvergi hvatt til ofbeldis. En Sævar hefur ekki rétt fyrir sér um það, að þetta hafi aðeins verið mótmælaaðgerðir og ekki götuóeirðir, eins og sést af fróðlegri bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings, Búsáhaldabyltingunni. Þetta voru alvarlegustu götuóeirðir Íslandssögunnar, og mátti litlu muna, að lögreglan biði lægri hlut fyrir óeirðaseggjunum. Afleiðingarnar voru líka fordæmalausar: Í fyrsta skipti hrökklaðist ríkisstjórn frá á Íslandi sakir óeirða.

Sævar svarar því ekki beint, sem Miller rökstyður, að allir þátttakendur í götuóeirðum kunni að bera ábyrgð á þeim. Fyrirætlanir og verk þeirra Gylfa og Þorvaldar skipta samkvæmt því hugsanlega ekki eins miklu máli og sjálf þátttaka þeirra í því ferli, sem leiddi til óeirðanna. Sævar nefnir ekki heldur þá játningu Harðar Torfasonar, sem var í forsvari mótmælaaðgerðanna 2008–9, að búsáhaldabyltingin svokallaða hefði verið skipulögð „á bak við tjöldin“. Hver gerði það? Hver kostaði mótmælaaðgerðirnar, sem urðu að götuóeirðum, meðal annars að tilraun til að ráðast inn í Seðlabankahúsið 1. desember 2008? Hver réð því, að aðgerðirnar beindust aðallega að þremur bankastjórum Seðlabankans, sem höfðu fyrstir varað við útþenslu bankanna og síðan gert sitt besta til að tryggja hag þjóðarinnar í bankahruninu miðju? Af hverju beindust þær ekki frekar að manninum, sem hafði tæmt bankana og reynt í krafti fjölmiðlaveldis að stjórna Íslandi, á meðan hann var sjálfur á fleygiferð um heiminn, ýmist á einkaþotu sinni eða lystisnekkju?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júlí 2017.)


Ábyrgð og samábyrgð

Í athyglisverðri bók, sem kom út árið 2007, veltir gamall kennari minn í Oxford-háskóla, David Miller, fyrir sér hugtökunum þjóðarábyrgð og hnattrænu réttlæti. Eitt dæmi hans er af götuóeirðum (National Responsibility and Global Justice, bls. 114–115). Sumir óeirðaseggir veita lögreglumönnum áverka, aðrir valda tjóni á verðmætum. Enn aðrir eru óvirkari, eggja menn áfram, leggja sitt af mörkum til þess, að uppnám myndist og ótti grípi um sig.

Miller telur, að ábyrgð hvers og eins á leikslokum fari auðvitað að miklu leyti eftir verkum þeirra. En í sjálfum óeirðunum verður til eitthvað annað og meira, segir hann. Þar skipta fyrirætlanir manna í upphafi og verk þeirra ef til vill ekki eins miklu máli og þátttaka þeirra í atburðarás, sem leiðir af sér áverka lögreglumanna, tjón á verðmætum, ógnun við góða allsherjarreglu. Þar verður til samábyrgð allra þátttakenda, að sumu leyti óháð fyrirætlunum þeirra og einstökum verkum.

Mér varð hugsað til greiningar Millers, þegar ég rifjaði upp götuóeirðirnar á Ísland frá því um miðjan október 2008 og fram í janúarlok 2009, en þeim lauk snögglega, eftir að vinstri stjórn var mynduð. Bera þeir, sem hvöttu aðra áfram í ræðum á útifundum, til dæmis háskólakennararnir Þorvaldur Gylfason og Gylfi Magnússon, ekki einhverja ábyrgð á áverkum og eignatjóni vegna óeirðanna? Fróðlegt væri að heyra skoðun íslenskra siðfræðinga á því. Ekki væri verra að fá útskýringar Harðar Torfasonar (sem átti þá snaran þátt í því að skipuleggja mótmælaaðgerðir) á því, við hann átti í viðtali við Morgunblaðið um mótmælafund einn haustið 2010: „Það er alveg greinilegt að þessu er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin.“ Á bak við tjöldin? Er hér ekki komið rannsóknarverkefni fyrir samtökin Gagnsæi?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2017.)


Samábyrgð Íslendinga eða Breta?

Í Icesave-deilunni héldu þau Þorvaldur Gylfason, Stefán Ólafsson, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason því fram, að Íslendingar væru allir samábyrgir um Icesave-reikningana og yrðu þess vegna að bera kostnaðinn af þeim (en hann var þá metinn á um 15-30% af landsframleiðslu, meira en Finnar greiddu Rússum í skaðabætur eftir stríðið 1941-1944). Ungur heimspekingur, Sævar Finnbogason, skrifaði 2015 meistaraprófsritgerð undir handleiðslu Vilhjálms, þar sem hann reyndi að styðja þessa skoðun rökum kunnra heimspekinga um þjóðarábyrgð, þar á meðal míns gamla kennara Davids Millers.

Tvær ástæður voru þó til þess, að Sævari hlaut að mistakast. Í fyrsta lagi lá ábyrgð einkaaðila ljós fyrir og var tæmandi. Þetta voru viðskipti Landsbankans, sem þurfti lausafé að láni, og erlendra fjárgæslumanna, sem girntust háa vexti bankans. Það var þessara aðila og eftir atvikum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að bera áhættuna af viðskiptunum, ekki annarra. Í öðru lagi var ekki um neitt tjón hinna erlendu fjárgæslumanna að ræða, því að með neyðarlögunum 6. október 2008 var kröfum þeirra og allra annarra innstæðueigenda á bankana veittur forgangur, og hafa þær nú allar verið greiddar.

Ekki var því um neina samábyrgð Íslendinga á Icesave-reikningunum að ræða. Hinu má velta fyrir sér, hvort skilyrði Millers og annarra heimspekinga fyrir þjóðarábyrgð eigi við um Breta sakir fautaskapar þeirra við Íslendinga í bankahruninu. Þá lokaði stjórn Verkamannaflokksins tveimur breskum bönkum, KSF og Heritable, en bjargaði öllum öðrum breskum bönkum. Lokun KSF leiddi beint til falls Kaupþings. Uppgjör hefur nú sýnt, að KSF og Heritable voru báðir traustir bankar, og ekkert fannst misjafnt í rekstri þeirra. Eini glæpur þeirra var að vera í eigu Íslendinga. Enn fremur beitti Verkamannaflokksstjórnin að nauðsynjalausu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum og birti jafnvel um hríð nöfn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og Landsbankans á lista um hryðjuverkasamtök á heimasíðu breska fjármálaráðuneytisins.

Hefði Sævar Finnbogason ekki heldur átt að hugleiða samábyrgð Breta á þessari hrottalegu framkomu við fámenna, vopnlausa, vinveitta nágrannaþjóð?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2017.)


Bloggfærslur 22. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband