Meiri skatttekjur með minni skattheimtu

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar ritdóm í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2007 um bók Harðar Bergmann, Að vera eða sýnast: Gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins. Þar víkur hann svofelldum orðum að mér: „Eða klisjan, sem Hannes Hólmsteinn endurtekur í hvert sinn sem hann hyggst sanna, að kapitalisminn sé jafnaðarstefna, nefnilega að lækkun skatta á fyrirtæki hafi aukið skatttekjur ríkisins af þeim, og því beri að ganga lengra í lækkun þeirra. Enginn veltir því fyrir sér, að 30 þúsund framteljendur hafa stofnað utan um sig einkahlutafélag til þess að forðast skattlagningu sem launþegar. Skattahagræðing heitir það.“ Hefur Jón Baldvin þessa speki eftir Herði, sem fór sjálfur með hana í Silfri Egils 12. mars.

Þessi skýring á auknum skatttekjum ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja stenst ekki. Hér á 1. mynd má sjá, hvernig skatttekjur ríkisins af tekjuskatti fyrirtækja hafa hækkað stórkostlega, þótt skattheimtan hafi minnkað úr 45% árið 1991 í 18% 2001 (tölur um árið 2007 eru auðvitað áætlaðar):

SkattfyrirÞað er rétt, að einkahlutafélögum hefur snarfjölgað. Þau voru 1.367 árið 1996, en 24.217 árið 2006. (Af hverju segir Jón Baldvin, að þau séu 30 þúsund?) Einkahlutafélögum fjölgaði hraðast árin 1996-1997, en skatttekjur ríkisins af tekjum fyrirtækja jukust mest árin 2005-2007, eins og sjá má á línuritinu. Þetta veitir sterka vísbendingu um, að ekki megi rekja nema lítinn hluta af auknum skatttekjum ríkisins til fjölgunar einkahlutafélaga. Hér skýtur einnig skökku við: Eitt sinn héldu jafnaðarmenn því fram, að æskilegt væri að fjölga smáfyrirtækjum, en einblína ekki á hin stóru. Þegar smáatvinnurekendum fjölgar, bölsótast þeir yfir því!

Munurinn á skattlagningu á einkahlutafélög og launþega er raunar ekki eins mikill og sumir vilja vera láta. Launþegar greiða nú í mesta lagi 35,78% tekjuskatt. (Þeir inna minna af höndum, ef þeir búa í einhverju þeirra fjögurra sveitarfélaga, sem sjálfstæðismenn stjórna og innheimta lægra útsvar, til dæmis á Seltjarnarnesi.) Berum þetta saman við skattgreiðslur eiganda einkahlutafélags. Fyrirtæki hans greiðir fyrst 18% í tekjuskatt af hagnaði. Síðan greiðir það eigandanum út í arð þau 82%, sem þá eru eftir. Af arðinum þarf maðurinn að greiða 10% fjármagnstekjuskatt eða 8,2% af upphaflegum hagnaði. 18% og 8,2% eru samtals 26,2%. Þetta er hið raunverulega skatthlutfall, sem bera má saman við 35,78% skatthlutfall af launum (sem launþegar greiða þó ekki, fyrr en komið er yfir skattleysismörk). Styrmir Gunnarsson ritstjóri hefur réttilega bent á, að eðlilegt sé að samræma skattheimtu af launþegum og eigendum einkahlutafélaga, en hyggilegast er að gera það með því að lækka tekjuskatt á einstaklinga, ekki með því að hækka fjármagnstekjuskatt.

Hér á 2. mynd má sjá, hvernig skatttekjur ríkisins af einstaklingum hafa aukist, þótt skattheimta ríkisins af þeim hafi minnkað úr 30,41% árið 1997 í 22,75% 2007 (tölur um það ár eru vitanlega áætlaðar):

SkatteinstBersýnilega er sú kenning röng, sem Hörður Bergmann og Jón Baldvin Hannibalsson halda fram, að meiri skatttekjur af fyrirtækjum séu vegna þess, að einstaklingar hafi stofnað einkahlutafélög og telji því ekki lengur fram sem launþegar. Sameiginleg ástæða til aukinna skatttekna af fyrirtækjum og einstaklingum er, að atvinnulífið hefur blómgast, ekki síst vegna minni skattheimtu. Það er að vísu rétt, sem Hörður Bergmann bendir á í bók sinni, að ýmis stór fyrirtæki ríkisins voru seld árin 2002-2005, og munar þar mest um viðskiptabankana og Símann. Tap þeirra hefur snúist í gróða, svo að þau greiða nú tekjuskatt, en gerðu það ekki áður. En það er lóðið: Í frjálsu atvinnulífi fást miklu meiri skatttekjur af fyrirtækjum og einstaklingum en í ófrjálsu, því að verðmætasköpun er miklu meiri.

Þeir Hörður og Jón Baldvin gera sömu hugsunarvillu og flestir aðrir jafnaðarmenn: Þeir halda, að þjóðarkakan sé föst stærð, svo að stærri sneið eins feli sjálfkrafa í sér smærri sneið annars. En kakan er ekki föst stærð. Við frjálsa samkeppni í vaxandi atvinnulífi þarf eins gróði ekki að vera annars tap. Hér á 3. mynd má síðan sjá, hvernig skatttekjur ríkisins af fjármagnstekjum hafa aukist á sama tíma og af fyrirtækjum og einstaklingum (enn er talan fyrir 2007 áætluð):

SkattfjarmFyrir 1997 voru fjármagnstekjur ýmist skattlagðar sem launatekjur, til dæmis húsaleiga, eða ekki skattlagðar, til dæmis vaxtatekjur. Það þarf engum að koma á óvart, að skil á húsaleigu hafa til dæmis batnað stórkostlega, eftir að skatthlutfallið lækkaði niður í 10%. Því lægri sem skattar eru, því fúsari verða menn til að greiða þá og því minna verður „neðanjarðarhagkerfið“.

Ríkisstjórnin, sem hér hefur setið frá 1991, fyrst undir forsæti Davíðs Oddssonar, síðan Halldórs Ásgrímssonar og nú Geirs H. Haarde, hefur enn fremur snarlækkað eða nánast fellt niður tvo dulbúna skatta, verðbólgu og skuldasöfnun hins opinbera. Verðbólga var til 1991 miklu meiri en í grannlöndunum. Hún jafngildir skattlagningu á notendur peninga, eins og allir hagfræðingar eru sammála um, meira að segja Þorvaldur Gylfason prófessor, sem hefur skrifað talsvert um það mál. Fyrir 1991 safnaði ríkið skuldum (meðal annars í fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar) og velti þannig eyðslu sinni yfir á komandi kynslóðir. Nú hefur ríkið nánast greitt upp skuldir sínar. Það sparar ekki aðeins með því mikil vaxtagjöld, heldur léttir álögum af komandi kynslóðum. Jafnframt þarf ríkissjóður Íslands ekki að bera sömu byrði vegna lífeyrisskuldbindinga og ríkissjóðir margra annarra landa. Hér eru sjálfstæðir og sterkir lífeyrissjóðir og raunar einhverjir hinir öflugustu í heimi, enda eru lífeyristekjur þegar orðnar að meðaltali hæstar hér á Norðurlöndum og eiga enn eftir að hækka. Lífeyrissjóðir okkar eru að fyllast, á meðan lífeyrissjóðir annarra þjóða eru að tæmast.

Fjármálastjórn hins opinbera frá 1991 hefur verið til fyrirmyndar. Verður henni helst jafnað til röggsemi og aðhalds Magnúsar Stephensen, þegar hann var landshöfðingi, og Jóns Þorlákssonar í fjármálaráðherratíð hans. Umbætur í skattamálum hafa verið stórkostlegar og skilað sér betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Fjármálaráðherrarnir þrír á þessu tímabili, Friðrik Sophusson, Geir H. Haarde og Árni Mathiesen, eiga heiður skilinn. Allir eru einhvers bættari vegna blómlegra atvinnulífs, ekki aðeins ríkissjóður. Til dæmis hækkuðu ráðstöfunartekjur hinna 10% tekjulægstu á Íslandi eftir skatt um 2,7% að meðaltali á ári 1995-2004 samkvæmt tölum Stefáns Ólafssonar prófessors. Þetta var 50% meira en í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, O. E. C. D., þar sem ráðstöfunartekjur sama hóps eftir skatt bötnuðu um 1,8% að meðaltali. Kjör þessa hóps hafa batnað enn meira síðar vegna margvíslegra ráðstafana ríkisstjórnarinnar, meðal annars hækkunar skattleysismarka. Auðvitað geta hörðustu frjálshyggjumenn gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa stóraukið útgjöld til velferðarmála. En jafnaðarmenn eins og Hörður Bergmann og Jón Baldvin Hannibalsson ættu að fagna því, að ríkið er aflögufært í velferðarmálum. Kakan hefur stækkað og sneiðar allra um leið, ríkisins, fyrirtækja, fjármagnseigenda og fátæks fólks, þótt þær séu vissulega misstórar. Það sætir hins vegar furðu, að þeir Hörður og Jón Baldvin leggja ekki á sig að kynna sér einfaldar staðreyndir um skattamál, sem öllum eru aðgengilegar á Netinu, á sama tíma og þeir segjast draga upp gunnfána gagnrýninnar hugsunar.

Heimildir: Heimasíður Hagstofu Íslands, fjármálaráðuneytisins, ríkisskattstjóra, Stefáns Ólafssonar og Þorvalds Gylfasonar.

Lesbók Morgunblaðsins 21. apríl 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband