Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.8.2008 | 10:06
Solsénitsyn allur
George Orwell óttaðist, að alræðisherrum tuttugustu aldar tækist að leggja undir sig mannssálina. Þeir vildu ekki aðeins ráða því, hvað þegnar þeirra gerðu, heldur líka, hvað þeir hugsuðu. Hrollvekju Orwells, Nítján hundruð áttatíu og fjögur, lauk á því, að söguhetjan elskaði Stóra bróður. Margir þeir, sem bjuggu við kommúnistastjórn fram að falli Berlínarmúrsins 1989, halda því fram, að Orwell hafi farið ótrúlega nærri um eðli og aðferðir alræðisherranna. En um eitt reyndist hann ekki sannspár. Kommúnistum tókst ekki að leggja undir sig sál þegna sinna. Þótt flestir hlýddu þeim og endurtækju jafnvel opinberlega einhverjar af stórlygum þeirra, voru til þeir, sem buguðust ekki.
Einn þeirra var rússneski rithöfundurinn Aleksandr Solsénitsyn, sem lést 3. ágúst 2008 og átti þá aðeins fjóra mánuði í nírætt. Hann barðist í Rauða hernum í heimsstyrjöldinni síðari, en var dæmdur í átta ára fangabúðavist og síðan langa útlegð fyrir ógætileg ummæli um Stalín í einkabréfi. Eftir að hann var látinn laus, notaði hann allar tómstundir til að safna upplýsingum og skrifa um fangabúðakerfi ráðstjórnarinnar, Gúlagið. Uppgjör forystumanna kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna við Stalín 1956 leiddi til tímabundinnar hláku í menningarlífi, og þá var hin snjalla skáldsaga hans, Dagur í lífi Ívans Denisovitsj, gefin út með opinberu leyfi. Hún gerist á einum degi í fangabúðum í Kasakstan.
Hlákunni lauk, og Solsénitsyn fékk ekki leyfi Rithöfundasambands Ráðstjórnarríkjanna til að gefa út fleiri bækur, auk þess sem leyniþjónustan KGB hafði á honum gætur. Naut hann þá ómetanlegrar aðstoðar hins heimskunna sellóleikara Mstislav Rostropóvitsj, sem kom tvisvar hingað til lands og átti hér vini. Solsénitsyn tókst að smygla stórvirki sínu, Gúlageyjunum, úr landi, en þar lýsir frábær sögumaður fangabúðakerfinu í smáatriðum. Lesandinn stígur með Solsénitsyn niður í víti. Þegar Solsénitsyn hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1970, fékk hann ekki að taka á móti þeim í Stokkhólmi, en hann var loks rekinn úr landi og sviptur ríkisborgararétti 1974. Hann bjó síðan lengst í Bandaríkjunum, en sneri heim til Rússlands 1994.
Gúlageyjarnar höfðu mikil áhrif á mig, en ég las þær snemma á áttunda áratug. Ég strengdi þess heit að leggja mitt lóð á vogarskálina með andstæðingum Kremlverja. Ég gerði útvarpsþátt um Solsénitsyn og verk hans 4. júlí 1976 og fékk þá til mín Indriða G. Þorsteinsson, sem var ómyrkur í máli um kommúnisma. Þættinum var illa tekið í Þjóðviljanum. Árni Bergmann hneykslaðist á því 11. júlí, að okkur Indriða væri hleypt í útvarp. Ólafur Ragnar Grímsson, sem skrifaði pistla í blaðið undir dulnefninu A, kvað 20. júlí merka rússneska rithöfunda telja Solsénitsyn stríðsæsingamann og bætti við frá eigin brjósti: Kaldastríðsmaskínan þarf sitt reglulega hráefni, og árásarstefna Solsénitsyns hefur reynst henni hreinn hvalreki á þrengingartímum.
Sem betur fer hlustaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseti frekar á Solsénitsyn en úrtölumenn og sigraði þess vegna í kalda stríðinu. Í Gúlageyjunum sagði Solsénitsyn sögu af fólki, sem rússneskir kommúnistar tóku af lífi með því að setja það á pramma, sem siglt var út á stöðuvatn og sökkt. Fólkið hvarf sjónum okkar. En það má ekki hverfa sjónum sögunnar. Solsénitsyn bjargaði því og öðrum fórnarlömbum kommúnismans frá gleymsku.
Fréttablaðið 7. ágúst 2008.
1.8.2008 | 07:38
Af andfætlingum
Erfitt hlýtur að vera vinstri sinnaður menntamaður eftir hrun vinnubúðasósíalismans í Rússlandi og hnignun vöggustofusósíalismans í Svíþjóð. Hinn sigursæli kapítalismi okkar daga hefur ekki sömu þörf fyrir gáfnaljós af Aragötunni (þar sem prófessorar Háskólans bjuggu í niðurgreiddu húsnæði) og sósíalismi. Kapítalisminn spyr ekki, hvaðan menn eru, heldur hvað þeir geta. Einn af Aragötunni, Stefán Snævarr heimspekingur, hefur eftir langa leit á Netinu fundið land, þar sem kapítalismi á að hafa mistekist. Það er Nýja-Sjáland, og heimild hans er grein í Financial Times 30. ágúst 2000 eftir hagfræðiprófessorinn John Kay. Hér í blaðinu endursegir Stefán hróðugur þessa grein 9. júlí síðastliðinn.
Því miður er greining Kays hæpin og tölur hans úreltar. Einn starfsbróðir hans, prófessor Martin Wolf, skrifar ágæta grein í Financial Times 16. nóvember 2004, þar sem hann hrekur þá skoðun, að frjálshyggjutilraunin í Nýja Sjálandi hafi mistekist. Hún var viðbragð við alvarlegri kreppu, sem ríkisafskiptasinnar allra flokka höfðu komið landinu í á löngum tíma. Tilraunin var í tveimur áföngum. Fyrst hafði Roger Douglas, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins 1984-1988, forystu um lækkun tolla, frjáls gjaldeyrisviðskipti, fljótandi gengi, óhefta fjármagnsflutninga, sölu ríkisfyrirtækja og niðurfellingu styrkja. Síðan hafði Ruth Richardson, fjármálaráðherra í ríkisstjórn hins íhaldssama Þjóðarflokks 1990-1993, forystu um, að einstakir launþegar fengu aftur samningsrétt, en verkalýðshreyfing landsins hafði sem víðar tekið þann rétt af þeim og samið fyrir hönd allra. Sett voru lög um ráðningarsamninga einstaklinga og sjálfstæði seðlabanka.
Nýsjálendingar fóru þessa leið, þegar hin leiðin var fullreynd. Þeim Douglas og Richardson tókst með umbótum sínum að koma í veg fyrir fullkomnar ófarir. Hnignun landsins í samanburði við þróuð, vestræn ríki stöðvaðist. Lífskjör eru oftast mæld í vergri landsframleiðslu, VLF, á mann. Wolf bendir á, að VLF á mann í Nýja Sjálandi var komin niður í 71% af meðaltalinu í þróuðum ríkjum 1992. En árið 2002 var hlutfallið aftur komið upp í 76%. Nýja Sjáland er að hjarna við. (Kay, sem Stefán Snævarr styðst við, notaði annan sjaldgæfari mælikvarða til að mæla lífskjör.) Eftir umbæturnar á vinnumarkaði minnkaði atvinnuleysi verulega, en framleiðni (framleiðsla á hverja vinnustund) jókst. Hagvöxtur var 3,6% að meðaltali árin 1992-2002, sem er vel yfir meðallagi OECD-ríkjanna. Hann hefur síðan verið á bilinu 2-3,6%.
Ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sem komst til valda 1999, hefur ekki hreyft við neinum mikilvægum umbótum. Nú er raunar talið, að sú stjórn hrökklist brátt frá völdum. Frjálshyggjutilraunin á Nýja-Sjálandi mistókst ekki. En hún heppnaðist ekki eins vel og forsvarsmenn hennar höfðu vonað. Fjárfestingar urðu ekki eins miklar og búist var við. Ein sennileg skýring er, að stjórnvöld hafa ekki búið fyrirtækjum og fjármagnseigendum jafnhagstætt skattaumhverfi og hér og á Írlandi. Önnur skýring er, að ólíkt okkur og Írum hafa andfætlingar okkar ekki greiðan aðgang að stórum mörkuðum. Auk hins beina kostnaðar kann það að hafa óbein áhrif á framkvæmdagleði, stuðla að útkjálkahugsunarhætti.
Þótt einstök ríki eins og Nýja Sjáland séu forvitnileg til fróðleiks, verða sósíalismi og kapítalismi vitaskuld ekki dæmd af þeim, heldur af samanburði margra landa til langs tíma. Þar er niðurstaðan ótvíræð, eins og alþjóðleg vísitala atvinnufrelsis sýnir.
Fréttablaðið 1. ágúst 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.8.2008 kl. 15:53 | Slóð | Facebook
11.7.2008 | 09:13
Nýr Blefken?
Íslendingar hafa löngum verið viðkvæmir fyrir illu umtali erlendis. Fjögur hundruð ár og einu betur eru frá því, að Ditmar Blefken gaf út rógsrit um þjóðina í Leyden í Hollandi. Þóttist hann þekkja vel til á Íslandi og fræddi umheiminn á ýmsum furðusögum, sennilega með aðstoð hraðlyginna Íslendinga. Arngrímur lærði Jónsson tók þá saman Anatome Blefkeniana (Greiningu á Blefken), sem kom út í Hamborg 1613, og hrakti fullyrðingar Blefkens lið fyrir lið.
Nú er nýr Blefken kominn til sögunnar, þótt hann láti sér nægja stutta grein í breska blaðinu Financial Times 1. júlí. Þar heldur Robert Wade, stjórnmálafræðiprófessor í Hagfræðiskóla Lundúna, því fram, að íslenska hagkerfið standi á brauðfótum. Bankarnir hafi verið seldir óreyndum aðilum, tengdum íhaldsmönnum, eins og hann orðar það. Líklega muni ríkisstjórnin brátt springa, þegar Samfylkingin slíti samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Væntanlegur kosningasigur Samfylkingarinnar sé kærkominn, því að þá muni Ísland aftur hverfa í röð norrænna velferðarríkja, sem leyfi ekki fjármagninu að vaða uppi óheftu, eins og verið hafi.
Grein Wades er tímasett, svo að hún komi íslenskum bönkum sem verst í þeim vanda, sem þeir hafa ratað í á lánamörkuðum erlendis (og sést best á háum skuldatryggingarálögum), en auk hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu gjalda íslensku bankarnir þess, hversu hratt þeir hafa vaxið og hversu marga öfundarmenn þeir eiga meðal erlendra keppinauta. Ekki þarf hins vegar að leita lengi að íslenskum heimildarmanni hins nýja Blefkens. Wade endurtekur í meginatriðum það, sem Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor hefur skrifað vikulega hér í blaðið síðustu árin.
Ragnar Árnason hagfræðiprófessor hefur hér í blaðinu 18. apríl hrakið fullyrðingar um það, að Ísland hafi horfið úr röð norrænna velferðarríkja. Hefur Ragnar lagt fram alþjóðlegar mælingar á tekjuskiptingu, sem sýna, að hún er síst ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.
Þeir Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessor og Richard Portes, hagfræðiprófessor í Hagfræðiskóla Lundúna, hafa síðan í Financial Times 4. júlí rekið ofan í þá Þorvald og Wade fullyrðingar þeirra um íslenskt efnahagslíf. Þeir benda á, að hreinar skuldir Íslendinga séu stórlega ofmetnar. Eignir hafa aukist ekki síður en skuldir. Íslensku lífeyrissjóðirnir eru til dæmis einhverjir hinir öflugustu í heimi miðað við höfðatölu, og fjármagn, sem áður lá verðlaust, er nú orðið verðmætt í höndum einkaaðila. Friðrik Már og Wade minna einnig á, að íslensku bankarnir starfa við sömu reglur og hliðstæðar stofnanir annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu. Þeir halda því fram, að niðursveifla síðustu mánaða sé að miklu leyti eðlileg leiðrétting á (og afleiðing af) þenslu síðustu ára.
Við þetta er að bæta, að Ríkisendurskoðun gerði þrjár rækilegar skýrslur um sölu viðskiptabankanna og komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert væri athugavert við hana. Ég er líka sammála þeim Friðrik Má og Portes um það, að íslenska hagkerfið standi traustum fótum, þegar til langs tíma er litið. Fiskistofnar okkar eru nýttir skynsamlega, gjöfular orkulindir bíða frekari nýtingar, og hagræðing hefur orðið í rekstri fyrirtækja. En á erfiðum tímum má ekkert út af bregða. Þess vegna getur hinn nýi Blefken orðið okkur skeinuhættari en hinn gamli.
Fréttablaðið 11. júlí 2008.
Tvær stuttar athugasemdir til viðbótar greininni: Í frásögn visir.is af athugasemdum Friðriks Más og Portes sagði, að þeir hefðu svarað Sir Robert Wade, en það, sem þeir gerðu, var að ávarpa í lesendabréfi sínu ritstjóra Financial Times með orðinu Sir. Bréf þeirra hófst svo: Sir, Robert Wade ... . Í frásögn Ríkisútvarpsins, hljóðvarps, af grein Wades var augljóst, að honum var ruglað saman við Richard Portes. Var Wade sagður sérstakur álitsgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar. Íslenskum fréttamönnum er ekki fisjað saman. Þeir hafa í senn aðlað Robert Wade og gert hann að sérstökum álitsgjafa íslensku ríkisstjórnarinnar (eins og Portes er)! Hvað hefðu þeir gert við hinn gamla Blefken?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook
28.6.2008 | 10:28
24 stundir, Sverrir Stormsker og Mannlíf
Ég svaraði í 24 stundum laugardaginn 28. júní 2008 nokkrum athugasemdum bloggara um mig í vikulegum þætti, sem blaðið hefur hleypt af stað, þar sem menn svara ummælum annarra bloggara um þá. Skoða má viðtalið hér. Ég var í þætti Sverris Stormskers, Miðjunni, á Útvarpi Sögu, FM 99,4, tvo miðvikudaga, 11. og 18. júní, þar sem hann spurði mig spjörunum úr. Sverrir hefur sett upptökurnar á heimasíðu sína.
Ég svaraði einnig spurningu Mannlífs um, hver væri áhrifamesti Íslendingurinn. Mannlíf hefur það ekki alveg nákvæmlega eftir í síðasta hefti sínu, því að tímaritið segir, að ég hafi nefnt Davíð Oddsson einan áhrifamestan, en sannleikurinn er sá, að ég nefndi þrjá menn, hann og þá Björgólf Guðmundsson og Geir H. Haarde, og treysti mér ekki til að gera upp á milli þeirra um áhrif. Hér er tölvuskeytið, sem ég sendi Sigurjóni M. Egilssyni, ritstjóra Mannlífs:
Ég treysti mér ekki til að gera upp á milli þessara þriggja manna og raða þeim þess vegna í stafrófsröð:
1-3. Björgólfur Guðmundsson
1-3. Davíð Oddsson
1-3. Geir H. Haarde
Rökstuðningur um hvern og einn (má hafa eftir mér, en ekki eins og ég hafi raðað viðkomandi manni í eitthvert eitt sæti af þremur):
Björgólfur Guðmundsson er ekki aðeins einn ríkasti Íslendingur, sem uppi hefur verið, eigandi banka og margra annarra fyrirtækja og fjölmiðla, heldur hefur hann líka öðlast mikið siðferðilegt áhrifavald. Hann er góðgjarn og skynsamur, og menn hlusta á hann. Hann er öðrum fyrirmynd, af því að hann er lifandi dæmi um það, að menn geta ratað í mikla erfiðleika, en brotist út úr þeim aftur og jafnvel orðið meiri og betri menn.
Davíð Oddsson er svo öflugur maður, að hann hefur ekki glatað áhrifum sínum, þótt hann sé ekki lengur í fylkingarbrjósti í stjórnmálum. Rætur áhrifa hans eru tvíþættar. Í fyrsta lagi nýtur hann mikillar virðingar og trausts þorra þjóðarinnar, þótt orðastrákar á kaupi hjá óvinum hans reyni að gera lítið úr því. Menn vita, hversu heill Davíð er og heiðarlegur, hreinn og beinn og hræsnislaus. Í öðru lagi gegnir Davíð auðvitað enn lykilstöðu sem bankastjóri Seðlabankans. Hann hefur átt drjúgan þátt í því, að bankarnir virðast vera að komast út úr þeirri kreppu, sem þeir voru í. Vandlega er hlustað á Davíð í hinum alþjóðlega peninga- og bankaheimi. Fátt væri fjær Davíð en að láta gamlar væringar stjórna sér, þegar til kastanna kemur.
Geir H. Haarde hefur á stuttum ferli sínum sem forsætisráðherra bætt mjög við það traust, sem hann vann sér sem fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Hann er friðsamur og laginn, og þess vegna fer minna fyrir áhrifum hans en margra annarra, sem hærra gala. En hann er fastur fyrir, þegar á reynir. Öll þjóðin veit, þegar hún sér Geir, að hann vill vel og vinnur vel. Hann hefur líka góða menntun og er ákaflega frambærilegur. Það er til slíkra manna, sem leitað er á úrslitastundum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.7.2008 kl. 00:55 | Slóð | Facebook
27.6.2008 | 08:18
Fleiri virkjanir!
Enn fjölgar uppsögnum. Fátt er ömurlegra en fá uppsagnarbréf í hendur. Síðustu ár hefur að vísu verið auðvelt að útvega sér aðra vinnu, en það er smám saman að breytast. Samdráttur atvinnulífsins er að segja til sín. Hann var að sumu leyti fyrirsjáanlegur eftir hinar miklu virkjunarframkvæmdir á hálendinu. En Íslendingar voru svo óheppnir, að um leið skall á hörð lánsfjárkreppa í heiminum, og til að bæta gráu ofan á svart hækkuðu stórkostlega á alþjóðamarkaði tvær lífsnauðsynjar, matvæli og eldsneyti.
Við getum ekki gert að þessum erfiðleikum. En það merkir ekki, að við getum ekkert gert til að minnka þá. Í kínversku má með einu pennastriki breyta táknunum fyrir kreppu í tákn fyrir tækifæri. Í fyrsta lagi er til hefðbundið úrræði, sem hagfræðingar mæla jafnan með í samdrætti. Það er að lækka skatta á fyrirtækjum og fólki. Þá eykst ráðstöfunarfé fólks og með því væntanlega fjárfesting og neysla. Bílar og hús verða ekki lengur óseljanleg. Nú er rétti tíminn til að lækka skatta myndarlega, til dæmis um 3% á fyrirtækjum, í 12%, og um 6% á þann hluta tekjuskattsins, sem ríkið fær, í 17%.
Annað hefðbundið úrræði er til í niðursveiflu, að auka nytsamlegar framkvæmdir. Ég er enginn áhugamaður um opinberar framkvæmdir, en hlýt að viðurkenna, að nýlegar vegabætur á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi auðvelda lífið og tengja saman byggðir frá Snæfellsnesi í Vík í Mýrdal, svo að þær mynda allt að því einn markað, og það er æskilegt frá sjónarmiði frjálshyggjumanna séð. Því stærri sem markaðurinn er, því betri skilyrði eru til frjálsrar samkeppni. Þetta hefur raunar komið vel í ljós, því að talsvert er keppt um jarðir á þessu svæði, svo að þær hafa hækkað í verði. Samgöngubætur hafa margvíslegar aðrar jákvæðar afleiðingar, ekki allar sýnilegar eða mælanlegar.
Þriðja úrræðið blasir við. Þar er tækifærið. Skyndilega hefur myndast skortur á orku í heiminum. Við Íslendingar eigum tvenns konar orkugjafa, fallvötnin og jarðvarmann, sem við höfum nýtt með góðum árangri. Þessir orkugjafar eru öðrum umhverfisvænni, einkum fallvötnin, og prýði er að þeim stöðuvötnum, sem myndast hafa á hálendinu sem uppistöðulón virkjana. Orkufrek fyrirtæki erlend hafa mikinn áhuga á viðskiptum við Íslendinga. Við eigum þess vegna að snarfjölga virkjunum á Íslandi og minnka með því fyrirsjáanlega erfiðleika næstu missera.
Auðvitað hljóta nýjar virkjanir að lúta þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi verða þær að vera arðbærar. Ástæðulaust er að selja rafmagn á útsöluverði. Í öðru lagi þurfa virkjanirnar sjálfar að vera umhverfisvænar. Í þriðja lagi verða þau fyrirtæki, sem kaupa orkuna, hvort sem þau reka álver, járnblendiverksmiðjur eða netþjóna, líka að vera umhverfisvæn. Sem betur fer hefur mengun frá álverum stórlega minnkað með nýjum tæknibúnaði, svo að ekki þarf að hafa af þessu verulegar áhyggjur.
Við megum ekki snúa bakinu við því fólki, sem hefur fengið uppsagnarbréf síðustu mánuði, eða hinu, sem á von á slíkum sendingum. Draumlyndir sveimhugar íslenskir halda, að rétta ráðið gegn myrkrinu sé að syngja um ljósið. Hitt er miklu skynsamlegra, að kveikja á ljósum. Hér eru ljósin fjögur skattalækkanir, vegabætur og virkjanir vatnsafls og jarðvarma.
Fréttablaðið 27. júní 2008.
13.6.2008 | 08:19
Alþingi götunnar og krossfestingar

Morgunblaðið tók orð Magnúsar óstinnt upp. Birti það 14. júlí 1960 heldur ófagra mynd af áflogum kommúnista og nýfasista á Ítalíu og sagði í myndatexta: Hér hefur Alþingi götunnar, sem ritstjóri Þjóðviljans vildi fá til valda hérlendis í ræðu sinni að göngunni lokinni, greinilega látið nokkuð til sín taka. Dr. Bjarni Benediktsson vitnaði einnig í orð Magnúsar af nokkurri vanþóknun í Reykjavíkurbréfi 24. júlí og oft eftir það. Magnús brá við og birti 9. ágúst heilan leiðara undir heitinu Alþingi götunnar í Þjóðviljanum. Þar sagði hann meðal annars: Alþingi götunnar er einföld og auðskilin umritun á orðinu lýðræði, því stjórnarfari að lýðurinn ráði. Morgunblaðið var að vonum ekki sammála. Í Staksteinum daginn eftir sagði: Með þessu áttu kommúnistar við, eins og glöggt kom fram hjá þeim, að lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum landsins yrði steypt af stóli og ofbeldi og einræði hafið til vegs.
Leið nú að hausti. Nokkur styrr stóð um landhelgissamning við Breta, og notuðu hernámsandstæðingar tækifærið til að vekja athygli á málstað sínum. Þegar þeir efndu til mótmælafundar fyrir utan Alþingishúsið við setningu Alþingis 10. október 1960, birti Morgunblaðið frétt undir fyrirsögninni Alþingi götunnar reynir að trufla þingstörf. Daginn eftir fylgdi blaðið fréttinni eftir með leiðara um, að ofbeldismönnum yrði ekki leyft að trufla störf Alþingis. Magnús Kjartansson samdi enn einn leiðarann um málið í Þjóðviljanum 12. október 1960 og sagði í lokin: Og því aðeins er hið kjörna Alþingi Íslendinga starfi sínu vaxið, að það hafi hið fyllsta samráð við alþingi götunnar, virði að fullu ákvarðanir alþýðu manna. Var oft eftir þetta vitnað í ummæli Magnúsar, ekki síst í Morgunblaðinu.
Ummæli Magnúsar má eflaust rekja til frægra orða sænska jafnaðarmannsins Zeths Höglund, sem uppi var frá 1884 til 1956. Höglund gerðist ungur róttækur, gekk í Jafnaðarmannaflokkinn 1904 og var kjörinn á þing 1914. Hann var rekinn úr flokknum snemma árs 1917 og stofnaði þá flokk vinstrisósíalista, sem síðar breyttist í kommúnistaflokk Svíþjóðar. Þegar rætt var um útfærslu kosningarréttar á þingi 5. júní 1917, beið mikill mannfjöldi fyrir utan þinghúsið. Höglund lauk ræðu sinni svo: Leve gatans parlament! (Lifi alþingi götunnar!) Honum þótti kommúnistaflokkurinn hins vegar of hallur undir ráðstjórnina rússnesku, hraktist úr honum 1924 og gekk ásamt félaga sínum Fredrik Ström (sem kom nokkuð við sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar) aftur í Jafnaðarmannaflokkinn 1926. Höglund var borgarstjóri í Stokkhólmi 1940-1950. Dr. Benjamín Eiríksson, sem stundaði um skeið nám í Stokkhólmi, minnist á Höglund í endurminningum sínum, sem ég skráði 1996. Hann segir þar, að forystumenn Alþýðuflokksins hefðu átt að taka Héðni Valdimarssyni fagnandi 1939, þegar hann hraktist úr Sósíalistaflokknum, eins og sænskir jafnaðarmenn hefðu tekið Höglund og Ström.
Hin ummæli Magnúsar Kjartanssonar, sem fleyg hafa orðið, birtust í Þjóðviljanum hálfu ári áður. Í árslok 1959 var gert uppskátt um svonefnt Olíufélagsmál, en tvö samvinnufyrirtæki, sem seldu olíu til varnarliðsins á Miðnesheiði, höfðu orðið uppvís að því að brjóta hinar ströngu reglur, sem þá giltu um gjaldeyrisskil og tollafgreiðslu. Haukur Hvannberg, forstjóri Hins íslenska steinolíuhlutafélags, hafði játað á sig sök, en Vilhjálmur Þór, sem hafði verið forstjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga, en síðan gerst bankastjóri Landsbankans, neitað aðild að málinu. Eftir nokkurra ára rannsókn og réttarhöld var Haukur dæmdur í fangelsi, en Vilhjálmur sýknaður, þar sem hugsanleg sök hans var talin fyrnd. Jón Pálmason alþingismaður orti landskunna vísu af þessu tilefni:
Vilhjálmur hlýtur vegleg laun,
valinn til æðstu ráða,
en Haukur er látinn á Litla-Hraun,
lagður inn fyrir báða.
Hefði sumt af því, sem Haukur var dæmdur fyrir, nú ekki verið saknæmt og því síður refsivert, til dæmis að geyma fé á erlendum bankareikningum.
Þjóðviljinn krafðist þess á forsíðu 20. desember 1959, að Vilhjálmur Þór viki úr bankastjórastarfi vegna Olíufélagsmálsins, og inni í blaðinu rifjaði Magnús Kjartansson upp, að Vilhjálmur hefði hlotið fjölda heiðursmerkja. Þetta væri til marks um, hversu mannkyninu hefði miðað í sókn til fullkomnunar: Áður voru ræningjar festir á krossa; nú eru krossar festir á ræningja. Eru þetta sennilega frægustu orð Magnúsar.
Þau eru þó ekki eins frumleg og þau eru snjöll. Kveikjan að orðum Magnúsar kemur eflaust frá nafna hans Ásgeirssyni eða Þórbergi meistara Þórðarsyni. Magnús Ásgeirsson birti kvæðið Krossfestingu í ljóðabókinni Síðkveldi, sem kom út 1923. Þar sagði í lokin:
Og víst er ei líkingin lítil,
þótt líti ég í henni brestinn.
Því Kristur var festur á krossinn,
en krossinn var festur á prestinn.
Þórbergur skrifaði í Opnu bréfi til Árna Sigurðssonar, sem dagsett var á Ísafirði 14. september 1925 og þáttur í miklum þrætum hans vegna Bréfs til Láru: Kristur endaði sína á krossi. Þér endið ævi yðar með krossi.
Sennilegast er, að Magnús Ásgeirsson og meistari Þórbergur sæki líkinguna báðir í smásögu eftir Jón Trausta, Séra Keli. Þar segir frá séra Þorkeli, sem misst hafði hempuna sakir ofdrykkju og segir nokkur vel valin orð á fundi presta: Sá, sem við þjónum allir og kennum okkur við, spurði ekki um launin, meðan hann dvaldi hér á jörðinni. Launin hans voru þyrnikóróna og húðstroka, og hann bar sinn kross ekki á brjóstinu, eins og prófasturinn þarna, heldur á blóðugu bakinu og vanmegnaðist undir honum.
Það er aukaatriði, hvort þeir Þórbergur Þórðarson og Magnús Ásgeirsson hafa sjálfir vitað af því, að þeir unnu úr hugmynd Jóns Trausta. Hitt skiptir meira máli, hvernig líkingin hefur á leið sinni náð fullkomnun, orðið meitlaðri, skýrari, snjallari. Magnús Kjartansson lagar hana síðan að eigin þörfum, svo að ádeilan á kirkjunnar menn hverfur. Hann beinir sjónum að ræningjunum tveimur, sem krossfestir voru með Kristi, og virðist raunar telja, að þeir hafi hlotið makleg málagjöld ólíkt Vilhjálmi Þór. En úr því að Magnús haslaði sér völl í Jórsölum forðum, er hollt að muna, að þar kaus Alþingi götunnar Barrabas, en ekki Krist.
Þjóðmál, vorhefti 2008.
Heimildir:
Eiríkur Jónsson, fyrrv. kennari. Munnlegar upplýsingar.
Guðmundur Magnússon: Ákafafólk og opinberir fundir, Þjóðmál, vorhefti 2008.
Hannes H. Gissurarson: Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða. Bókafélagið, Reykjavík 1996.
Hannes H. Gissurarson: Kjarni málsins (óútgefið tilvitnanasafn).
Jón Trausti: Ritsafn, II. bindi. Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, Reykjavík 1960.
Magnús Ásgeirsson: Ljóðasafn, I. bindi. Helgafell, Reykjavík 1975.
Morgunblaðið (aðgengilegt á Netinu, http://www.timarit.is).
Þjóðviljinn (aðgengilegur á Netinu, http://www.timarit.is).
Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. Mál og menning, Reykjavík 1975 (m. a. bréfið til Árna Sigurðssonar).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook
13.6.2008 | 08:01
Sabína-rökvillan
Vilhjálmur var maður nefndur, kardínáli af Sabína. Hann var uppi á þrettándu öld og sendur til Noregs 1247 til að krýna Hákon konung gamla. Þá voru þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson staddur við hirð konungs og fluttu mál sitt fyrir kardínálanum. Vilhjálmur af Sabína kallaði það ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni, eins og segir í Hákonar sögu. Þetta er algeng röksemd: Einn verður að gera eitthvað, af því að allir aðrir gera það.
Röksemd Vilhjálms af Sabína er óspart notuð í umræðum um Evrópusambandið. Við þurfum að ganga í það, af því að allir aðrir eru í því. Nú er það að vísu svo, að tvær ríkustu þjóðir Evrópu eru ekki í Evrópusambandinu. Svisslendingar láta sig ekki dreyma um inngöngu, og aðild hefur tvisvar verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Noregi. Ástæður Svisslendinga og Norðmanna til þess að standa utan Evrópusambandsins eru hinar sömu og Íslendinga. Þessar þjóðir hafa með samningum tryggt sér óhindraðan aðgang að mörkuðum Evrópuríkjanna, svo að engin nauður rekur þær inn í Evrópusambandið. Um leið vita þær, að þær yrðu vegna auðlegðar sinnar að bera feikilegan kostnað af aðild.
Í mínum huga er röksemd Vilhjálms af Sabína nær því að vera rökvilla en sjálfstæð röksemd. Við þurftum ekki 1247 að þjóna undir konung, þótt allar aðrar þjóðir gerðu það. Ólán okkar þá var, að við vorum sjálfum okkur sundurþykk, svo að þjóðveldið brast. Eins þurfum við ekki nú að beygja okkur undir ráðamenn í Brüssel, þótt flestar aðrar Evrópuþjóðir geri það. Spurningin nú er, hvaða brýna nauðsyn knýr okkur inn í Evrópusambandið. Ég kem ekki auga á hana, þótt vitaskuld myndi aðild ekki merkja heimsendi, eins og dæmi Dana, Svía og Finna sýna vel.
Meginröksemdin fyrir aðild er ógild. Hún er, að við þyrftum að hafa áhrif á þær ákvarðanir, sem okkur varða og teknar eru í Brüssel. Hvort sem við værum í Evrópusambandinu eða ekki, myndum við lítil sem engin áhrif hafa á mikilvægar ákvarðanir stórþjóðanna, fremur en aðrar smáþjóðir fyrr og síðar. Lítt er að marka kurteisishjal í Brüssel við gesti, sem síðan hafa sjálfir hagsmuni af því heima fyrir að ýkja áhrif sín.
Önnur meginröksemdin gegn aðild hefur þegar verið nefnd, sem er hinn mikli og óþarfi kostnaður af henni. Hin meginröksemdin er líka gild: Við myndum afsala okkur yfirráðum yfir fiskistofnunum á Íslandsmiðum í hendur ráðamanna í Brüssel. Það er afdráttarlaus og undantekningarlaus stefna þeirra, staðfest í sáttmálum og óteljandi yfirlýsingum, að auðlindir Evrópusambandsríkjanna séu sameiginlegar. Við fengjum eflaust einkaaðgang að Íslandsmiðum í einhvern tíma, en sá aðgangur yrði fyrir náð Brüssel-manna, ekki réttur okkar. Það, sem verra er: Evrópusambandið fylgir óhagkvæmri fiskveiðistefnu, sem hefur skilað lökum árangri.
Sú röksemd, að Brüssel-menn myndu vera samvinnuþýðir við okkur í samningum um sjávarútvegsmál (sem er eflaust rétt), minnir raunar á málflutning Loðins lepps, sendimanns Noregskonungs, sem hét Íslendingum 1280 miskunn konungs, ef þeir stæðu ekki á fornum rétti. Hvað sem því líður, eru lífskjör í víðum skilningi hin bestu í heimi á Íslandi samkvæmt mælingum Sameinuðu þjóðanna, sem nýlega voru kynntar. Þótt á móti blási um stund vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu og þó minna en í mörgum grannlöndum, er ástæðulaust að hlaupa í fangið á Vilhjálmi af Sabína, Loðni lepp og sálufélögum þeirra.
Fréttablaðið 13. júní 2008.
30.5.2008 | 07:48
Hverjir biðjist afsökunar?
Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, krefst þess í Morgunblaðinu 27. maí, að núverandi dómsmálaráðherra biðji sig og ýmsa aðra afsökunar, vegna þess að dómarar veittu lögreglu að beiðni ýmissa fyrrverandi dómsmálaráðherra heimild til að hlera síma þeirra við ýmis tækifæri árin 1949-1968. Hann segir, að tilefnið til hlerananna hafi verið óljóst: Hætta á óspektum.
Krafa Kjartans er fráleit. Í fyrsta lagi var þetta ætíð heimild, ekki aðgerð. Ósannað er, að símar hafi verið hleraðir (þótt það sé líklegt í langflestum dæmanna). Í öðru lagi var heimildin jafnan veitt af dómara, sem bar þá á henni ábyrgð. Í þriðja lagi var tilefnið oftast langt frá því að vera óljóst. Flokkur Kjartans, Sósíalistaflokkurinn, og fyrirrennari hans, kommúnistaflokkurinn, hikuðu ekki við að beita ofbeldi, þegar þeir töldu þess þurfa, enda höfðu þeir það beinlínis á stefnuskrá sinni. Forystumenn þeirra lutu fyrirmælum frá stærsta einræðisríki heims og þáðu þaðan stórfé til baráttu sinnar, eins og sést af Moskvuskjölunum.Dæmin, sem allir þekkja, eru Gúttóslagurinn 9. nóvember 1932 og óeirðirnar á Austurvelli 30. mars 1949. Í bæði skiptin reyndu kommúnistar með ofbeldi að koma í veg fyrir lýðræðislegar ákvarðanir. Í fyrra skiptið tókst það, í seinna skiptið ekki. Fjöldi lögregluþjóna hlutu alvarleg meiðsl í þessum átökum, sumir varanleg örkuml. Mörg fleiri dæmi eru til. Kommúnistar gerðu aðsúg að bæjarstjórninni 30. desember 1930 og hleyptu upp fundi hennar. Fjórir forsprakkar óspektanna voru handteknir daginn eftir. Þá hugðust kommúnistar safna liði og freista þess að taka þá með ofbeldi úr fangageymslum, en lögreglu barst njósn af þeirri fyrirætlan, svo að þeir hættu við.
Sósíalistar ruddust margir saman inn í Sjálfstæðishúsið 22. september 1946, þegar rætt var um Keflavíkursamninginn, og reyndu að hleypa upp fundi. Þeir veittust síðan utan dyra að Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni, er þeir gengu að Alþingishúsinu, og varð lögregla að vernda þá. Aftur gerðu sósíalistar aðsúg að Ólafi og Bjarna 29. mars 1949, þegar þeir gengu úr Alþingishúsinu eftir umræður um aðild að Atlantshafsbandalaginu, og varð lögregla enn að vernda þá. Þjóðviljinn skoraði beinlínis á sósíalista á forsíðu 25. mars 1949 að hindra, að aðild að Atlantshafsbandalaginu yrði samþykkt. Næstu ár voru óeirðirnar á Austurvelli öllum í fersku minni.Kommúnistaflokkurinn leyndi því hvergi, að hann væri reiðubúinn til valdbeitingar, gerðist þess þörf. Í stefnuskrá Sósíalistaflokksins frá 1952 segir líka: Afstaða flokksins er díalektísk, og það merkir: Hann metur valdbeitingu eftir þýðingu hennar í hinni sögulegu þróun. Höfundur stefnuskrárinnar, Brynjólfur Bjarnason, hótaði andstæðingum sínum lífláti í umræðum um Atlantshafssáttmálann, eins og lesa má í Alþingistíðindum 1948, dálki D 283. Áratugum saman hafði Þjóðviljinn í heitingum við þá, sem vildu varnarsamstarf við vestrænar þjóðir eða leyfðu sér að efast um stjórnarfar í ríki Stalíns: Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors væru landsölumenn og föðurlandssvikarar. Jan Valtin væri þýskur lygari, Max Eastman grímulaus fasisti, Arthur Koestler falsspámaður, Viktor Kravtsénkó drykkjusjúklingur.
Þeir, sem ættu að biðjast afsökunar, eru íslenskir kommúnistar og sósíalistar, sem voru á mála hjá erlendu einræðisríki, beittu margsinnis ofbeldi og reyndu iðulega að öskra niður andstæðinga sína með ókvæðisorðum.
Fréttablaðið 30. maí 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook
16.5.2008 | 10:51
Skattalækkun skynsamleg
Fréttir berast nú af fjöldauppsögnum í bönkum og byggingarfyrirtækjum. Fátt er sárara en að missa starfið fyrirvaralaust. Við höfum öll samúð með því fólki, sem hefur orðið fyrir slíku áfalli, og vonum, að það finni fljótlega önnur störf. Sem betur fer er atvinnuástandið á Íslandi miklu betra en í ríkjum Evrópusambandsins, þar sem atvinnuleysi er stórfellt, einkum hjá ungu fólki. Tækifærin til að brjótast í bjargálnir eru nú miklu fleiri hér en fyrir röskum sextán árum, þegar ráðist var í hinar miklu breytingar í frjálsræðisátt. Það breytir því ekki, að fyrstu merkin um samdrátt eru að koma fram á venjulegu launafólki. Íslendingar gátu ekki búist við, að þeir slyppu einir þjóða við afleiðingar hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu eða verðhækkanir á olíu og matvælum.Undir slíkum kringumstæðum er skynsamlegt að lækka skatta á launþegum og fyrirtækjum, því að það örvar neyslu og fjárfestingu, svo að störfum fjölgar á ný. Með skattalækkun er fé fært frá ríkinu, sem kann lítt með það að fara, og til einstaklinganna, sem nýta það miklu betur, annaðhvort til eigin ánægjuauka eða í sparnað og með honum fjárfestingu. Ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt, að tekjuskattur á fyrirtæki verði lækkaður úr 18% í 15% frá og með næstu áramótum. Það er skref í rétta átt, en vegna fyrirsjáanlegs samdráttar ætti að ganga enn lengra og lækka tekjuskattinn niður í 12%. Jafnframt ætti að lækka tekjuskatt á einstaklinga verulega, til dæmis um 2%.
Þegar minnst er á skattalækkun, heyrist jafnan í úrtölumönnum. Þeir segja, að nú sé þensla og þess vegna sé skattalækkun ótímabær. Þetta er rangt af tveimur ástæðum. Þenslan er fyrirsjáanlega að snúast í samdrátt, svo að það, sem er óheppilegt í dag, verður heppilegt á morgun. Í öðru lagi er skattalækkun ekki aðallega hagstjórnaraðgerð, þótt vissulega megi með henni örva neyslu og fjárfestingu á næsta ári. Hún er tilfærsla á fé til þeirra, sem hafa aflað þess og eiga það skilið. Eitt brýnasta langtímaverkefni okkar er að minnka umsvif ríkisins. Skattheimta hér nemur nú röskum 40% af landsframleiðslu. Það er allt of hátt hlutfall.
Þá spyrja úrtölumenn: Hvar vilja skattalækkunarsinnar nema staðar? Hvað er eðlilegt hlutfall? Ekkert endanlegt svar er til við þeirri spurningu, en til dæmis er skattheimta rétt yfir 30% af landsframleiðslu í Sviss, sem þykir mikið fyrirmyndarríki. Er það ekki hóflegt markmið? Enn segja úrtölumenn: Hvernig á ríkið að afla fjár til nauðsynlegra verkefna, ef skattar lækka? Svarið er einfalt. Til skamms tíma þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af afkomu ríkissjóðs, því að íslenska ríkið er nánast skuldlaust. Tímabundinn fjárhagsvandi er því auðleysanlegur. Til langs tíma mun verðmætasköpun aukast við lægri skatta, svo að skatttekjur ríkisins munu hækka, eins og reynslan hefur margoft sýnt.
Það er engin lausn á aðsteðjandi vanda að taka upp annan gjaldmiðil. Ráðstöfunarfé einstaklinga eykst ekki, þótt það sé skráð í evrum. Skuldir fyrirtækja lækka ekki, þótt þær séu skráðar í pundum. En afkoma einstaklinga og fyrirtækja batnar, ef opinberar álögur á þessa aðila léttast. Við bægjum atvinnuleysisvofunni best frá með myndarlegri skattalækkun.
Fréttablaðið 16. maí 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2008 kl. 08:35 | Slóð | Facebook
2.5.2008 | 11:01
Leiðtogi sem ekki brást
Dr. Bjarni Benediktsson, sem hefði orðið hundrað ára 30. apríl 2008, var einn merkasti stjórnmálamaður Íslendinga á tuttugustu öld. Hann var lagaprófessor, áður en hann hóf stjórnmálaþátttöku, og setti fram sterk, lagaleg rök fyrir sambandsslitunum við Dani 1944, sem voru okkur nauðsynleg í óvissu og umróti stríðsins. Þá þegar studdist Ólafur Thors, lengst allra leiðtogi sjálfstæðismanna, mjög við ráð hans. Bjarni var borgarstjóri í Reykjavík 1940-1947, þegar erlendir hermenn dvöldust hér tugþúsundum saman og geipilegur húsnæðisskortur var í bænum. Réð hann fram úr mörgum erfiðum verkefnum af röggsemi og átti drjúgan þátt í viðgangi hitaveitu Reykjavíkur, þótt Winston Churchill þakkaði sér hugmyndina að henni í æviminningum sínum, og hafa raunar fleiri síðan viljað þá Lilju kveðið hafa.
Eitt vandasamasta verkefni Bjarna Benediktssonar var, þegar hann gerðist utanríkisráðherra 1947. Áttu Íslendingar að halda fast við ævarandi hlutleysi landsins, sem lýst hafði verið yfir eftir fullveldið 1918? Eða ganga til liðs við aðrar frjálsar þjóðir? Bjarni hafði í upphafi hikað við að svara. En honum var ljóst, að Íslendingar höfðu í raun horfið frá hlutleysisstefnunni með samstarfinu við breska hernámsliðið, en það var síðan staðfest opinberlega með herverndarsamningnum við Bandaríkjamenn 1941. Þjóðinni var þetta hins vegar ekki eins ljóst eins og Bjarna, og síðan voru kommúnistar beinlínis andvígir frekari tengslum við Vesturveldin. Þeir spurðu með Jóhannesi úr Kötlum: Sovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?
Á meðan Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra, 1947-1953, skýrði hann út í ræðu og riti, hvernig utanríkissstefna Íslendinga hlyti að markast af legu landsins, aðstæðum í alþjóðamálum, vonum um viðskipti og lýðræðishugsjónum. Gerðist Bjarni einna fróðastur Íslendinga um alþjóðamál. Þessi árin töldu kommúnistar Bjarna hættulegasta andstæðing sinn og beindu spjótum óspart að honum. En hann stóð allt af sér, enda hafði hann óskorað traust flokkssystkina sinna og mikið fylgi með þjóðinni. Hámarki náðu deilur um utanríkismál, þegar kommúnistar og meðreiðarsveinar þeirra gerðu árás á Alþingishúsið 30. mars 1949 til að koma í veg fyrir, að Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Var þeirri árás hrundið af lögreglunni og varaliði, sem trúnaðarmenn Bjarna höfðu skipulagt.
Bjarni var um skeið menntamálaráðherra, síðan ritstjóri Morgunblaðsins í nokkur ár, dómsmálaráðherra í viðreisnarstjórn Ólafs Thors og forsætisráðherra frá 1963 til 1970, þegar hann féll sviplega frá. Hann hafði mjög beitt sér fyrir því um 1950, að hér yrði dregið úr þrálátum höftum og skömmtunarstjórn, en vegna erfiðra aðstæðna tókst það ekki sem skyldi. Tíðarandinn var öndverður atvinnufrelsi eins og því, sem þeir Ólafur Thors og Bjarni aðhylltust, og sterk verkalýðshreyfing undir stjórn kommúnista torveldaði aðlögunarhæfni hagkerfisins. Í forsætisráðherra tíð sinni stjórnaði Bjarni af festu og skörungsskap. Stjórnmálaskoðun hans má best lýsa með því, að hann hafi verið frjálslyndur íhaldsmaður. Frjálslyndi hans kom fram í þeim umbótum, sem hann beitti sér fyrir í efnahagsmálum, en íhaldssemi hans í gætni og raunsæi, þjóðrækni, sögulegum áhuga og ræktarsemi við íslenska tungu. Bjarni fylgdist vel með alþjóðamálum og sagði, að virðing smáþjóða væri jafnan í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra á alþjóðavettvangi. Sjálfur var hann forystumaður lítillar þjóðar, sem brást ekki, þegar á reyndi. Hans verður lengi minnst að góðu.
Fréttablaðið 2. maí 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook