Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Óskiljanlegar hugmyndir í Kaupþingi

Vitaskuld skilja allir skynsamir menn, að bankastjórar nýju ríkisbankanna glíma við margvísleg vandræði í viðleitni sinni til að ávaxta það pund, sem þeim er trúað fyrir, hámarka verðmæti eigna bankanna. Stundum þurfa þeir að afskrifa eitthvað af skuldum í því skyni að endurheimta afganginn. En mikilvægt er, að þeir fari að settum lögum og reglum, svo að þeir eigi ekki yfir höfði sér réttvísina síðar meir eins og talað er um, að bankastjórar gömlu einkabankanna eigi. Í starfsreglum Kaupþings eru skýr ákvæði um, að áhrif ráðstafana bankans á samkeppni séu metin við ákvarðanir. Nú er rætt um, að fyrri eigendur eignist Haga (Bónus, Hagkaup og fleiri verslanir) fyrir sjö milljarða króna, en fimmtíu milljarðar séu afskrifaðir. Þetta hefur tvenns konar neikvæð áhrif á samkeppni. Í fyrsta lagi eru skuldir samkeppnisaðila ekki afskrifaðar. Hvers vegna eiga þeir að sæta þessu? Í öðru lagi eru Hagar nú þegar með um 60% hlutdeild í smásöluverslun. Er eðlilegt að stuðla að því, að svo verði áfram? Einnig eru í starfsreglum Kaupþings ákvæði um, að nýir eigendur fyrirtækja, sem bankinn þarf að endurfjármagna, skuli njóta trausts. Hvernig geta fyrri eigendur Haga notið trausts? Þeir hafa fengið dóma fyrir efnahagsbrot og reyndu að stjórna Íslandi úr farsímum sínum, þar sem þeir voru staddir í einkaþotum og á lystisnekkjum á þeytingi um heiminn. Þeir voru skuldakóngar Íslands. Allir vita, hvernig það fór. Sumir spyrja, hvers vegna Kaupþing noti ekki tækifærið og skipti fyrirtækinu upp í því skyni að auka samkeppni. Góð rök eru fyrir því, en eflaust telja Kaupþingsmenn, að með því sé verðmæti veða þeirra í fyrirtækinu ekki hámarkað. Aðrir spyrja, hvers vegna bankinn geri ekki greinarmun á stjórnendum og starfsfólki fyrirtækisins annars vegar, sem er eflaust langflest ágætt fólk, og fyrri eigendum hins vegar. Af hverju finnur bankinn ekki nýja fjárfesta, sem ganga til liðs við núverandi stjórnendur og starfsfólk, jafnvel í almennu útboði hlutafjár, um að reka þetta myndarlega fyrirtæki? Stjórnendur Haga og starfsfólk eiga ekki að gjalda fyrir fyrri eigendur.


Fulltrúaráðsfundur

height_300_upload_xd_is_images_yxajct.jpgÉg var á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík mánudaginn 2. nóvember. Þar talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um stjórnmálaviðhorfið. Hann kom mjög vel fyrir, flutti ræðu sína blaðlaust, rólega og skynsamlega, var málefnalegur og kurteis, en þó fastur fyrir. Bjarni býður af sér góðan þokka, en frá honum stafar líka traust. Hann furðaði sig á því, að forystumenn stjórnarflokkanna tóku alls ekki undir með honum á þingi Norðurlandaráðs á dögunum, þegar hann gagnrýndi frændþjóðir okkar fyrir að setja það skilyrði fyrir lánveitingum í nauðum okkar, að við létum undan Bretum í Icesave-málinu. Við megum aldrei gleyma því, að kröfur Breta eiga sér enga lagastoð. Hvergi segir í lögum, reglum eða samningum, að ríkissjóður Íslands beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Bretar ollu sjálfir miklu um íslenska bankahrunið, þegar þeir aðstoðuðu ekki Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings, einn breskra banka og settu Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana. Því miður hafa forystumenn stjórnarflokkanna ekki lært eins og Bjarni Benediktsson af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherranum, sem sagði: „Þegar ég er kominn út fyrir landstein­ana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur.“ Einnig flutti Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri eldlega hvatningarræðu á fundinum. Hún stendur sig afar vel í starfi. Sjálfstæðisflokkurinn er fullsæmdur af þessum tveimur ungu forystumönnum. Það er þeim styrkur, ekki veikleiki, að Davíð Oddsson skuli enn láta til sín taka og njóta mikils trausts, eins og skoðanakannanir sýna. Bjarni Benediktsson fyrri var aldrei hræddur við Ólaf Thors, og Ólafur Thors var aldrei hræddur við Jón Þorláksson. Þar sem næg er sólin, stendur enginn í skugga neins.


Um hvað snýst málið?

pg4_1_360_637844a.jpgBreska stórblaðið Sunday Times birti sunnudaginn 1. nóvember 2009 fréttaskýringu um hinn flókna málarekstur Jóns Ólafssonar í Bretlandi, þar sem ég var eitt fórnarlambið, og einnig ræddi Andrew Marr sama dag um þennan málarekstur í morgunþætti sínum á BBC. Fyrir skömmu vann Jón skaðabótamál gegn breska ríkinu í undirrétti (sem heitir samt High Court) í Lundúnum. Forsaga þess dóms er löng. Jón hafði höfðað mál gegn mér í Lundúnum haustið 2004 fyrir það, sem hann taldi meiðyrði (á ensku) á heimasíðu minni á vefsvæði Háskóla Íslands. Hafði hann unnið það  mál (fengið útivistardóm sem kallað er), enda hafði ég að ráði dómsmálaráðuneytisins íslenska og lögfræðings Háskóla Íslands ekki tekið til varna ytra. Þar eð breski ræðismaðurinn í Reykjavík hafði ekki stefnt mér eftir íslenskum lögum, eins og honum var skylt, hafði breskur dómari hins vegar að minni kröfu ógilt meiðyrðadóminn yfir mér í Lundúnum í árslok 2006. Um leið veitti sá dómari Jóni sérstaka undanþágu til að þurfa ekki að stefna mér aftur, en halda málinu gegn mér samt áfram. Þessari undanþágu mótmælti ég og skaut því til yfirréttar í Bretlandi (Court of Appeal), sem staðfesti hins vegar, að dómarinn hefði mátt veita þessa undanþágu frá íslenskum lögum um stefnubirtingu. Þessu skaut ég þá til lávarðadeildarinnar, sem synjaði um endurskoðun á dómnum um undanþáguna.

Í skaðabótamáli Jóns gegn breska ríkinu komst breski dómarinn að þeirri niðurstöðu, að hugsanlegur nýr meiðyrðadómur yfir mér úti í Bretlandi yrði aldrei aðfararhæfur á Íslandi, þar sem íslenskur dómari myndi áreiðanlega ekki samþykkja, að breskur dómari gæti veitt undanþágu frá íslenskum lögum. Dæmdi dómarinn Jóni því sömu upphæð og hann hafði fengið í fyrri meiðyrðadómnum, sem ógiltur hafði verið, auk málskostnaðar, sem hleypur á tugum milljóna króna. Breski dómarinn tók enga efnislega afstöðu í gamla meiðyrðamálinu, heldur var aðeins að bæta Jóni skaðann, sem hann hefði haft af því, að breska ríkið hefði af handvömm lokað fyrir honum leið til að reka mál gegn mér í Bretlandi, þar eð vonlaust yrði að ljúka því á Íslandi. Þess má geta, að kostnaður minn af þessu máli hleypur á 20–25 milljónum króna, en Jóns eflaust á talsvert hærri upphæðum.

Í mínum huga snýst þetta mál hins vegar ekki um gamlar illdeilur okkar Jóns, sem við höfum sennilega hvorugur haft sóma af, heldur meginreglur:

Hvers vegna tekur breskur dómstóll sér lögsögu yfir því, sem sagt er á allt öðrum stað, af því að það er sagt á heimsmálinu ensku? (Raunar er óskiljanleg villa í dómi yfirréttar yfir mér, þar sem segir, að heimasíða mín hafi verið hýst í Bretlandi.)

Hvers vegna telur breskur dómari sig geta veitt undanþágu frá íslenskum lögum?

Hvers vegna er kostnaður við meiðyrðamál óbærilegur í Bretlandi fyrir aðra en auðmenn, svo að þeir reyna að velja þennan vettvang öðrum fremur?

Hvers vegna eru dómar í meiðyrðamálum í Bretlandi miklu strangari en annars staðar?

Hvers vegna verndar íslenska ríkið ekki borgara sína gegn þessu einkennilega réttarfari eins og Bandaríkjamenn gera, en þar hafa í mörgum ríkjum verið samþykkt lög til að tryggja, að dómar í breskum meiðyrðamálum séu ekki aðfararhæfir?


Sjálfstæðisflokkurinn er á miðjunni

styrmir-gunnarsson.jpgStyrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, skrifar ágæta hugvekju í Sunnudagsblað Moggans. Hann segir þar, að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að færa sig inn á miðjuna. Þar sé fylgið. Meðal annars nefnir Styrmir, að flokkurinn þurfi að marka þá stefnu í velferðarmálum, að velferðaraðstoð sé rausnarleg, en nái aðeins til þeirra, sem þurfi á henni að halda. Þess vegna beri að tekjutengja ýmsar bætur í  meira mæli. Ég er hjartanlega sammála Styrmi. En þetta er það, sem gert var á hinu miklu umbótaskeiði 1991–2004. Þá voru til dæmis barnabætur tekjutengdar í miklu meira mæli en í Svíþjóð. Í Svíþjóð fær hvert barn sömu bætur óháð efnahag og hjúskaparstöðu foreldra. Á Íslandi fara bæturnar eftir efnahag og hjúskaparstöðu foreldra. Þess vegna fær einstæð móðir með fimm börn miklu hærri bætur á Íslandi en í Svíþjóð, þótt í heild verji Svíar meira fé í barnabætur en Íslendingar. Ég tel, að íslenska aðferðin sé miklu betri. Annað dæmi er ellilífeyrir. Hér voru myndaðir öflugir lífeyrissjóðir, svo að á Norðurlöndum árið 2004 voru lífeyristekjur á mann hæstar á Íslandi. Hér var þá líka fátækt meðal aldraðra minni en alls staðar annars staðar í Evrópu. Með hinni íslensku leið, sem mörkuð var 1991 og var hvorki sænsk né bandarísk, var mynduð hæfileg sátt frjálshyggju og jafnaðarstefnu, sköpunar verðmætanna og skiptingar þeirra. Menn hafa ekki gert sér fulla grein fyrir því, hversu beinskeyttri velferðarstefnu ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar fylgdu, af því að í eyrum þeirra hefur glumið áróður þeirra Stefáns Ólafssonar, Þorvaldar Gylfasonar og Indriða H. Þorlákssonar. Ég rek ýmsar rangfærslur þeirra Stefáns, reikningsskekkjur og yfirsjónir í verki, sem ég hef í smíðum og nefnist „Vék Ísland af hinni norrænu leið 1991–2004?“ Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að færa sig inn á miðjuna, því að hann er þegar þar. Hann þarf hins vegar að útfæra stefnu sína og kynna hana betur. Þar er hugvekja Styrmis góð leiðsögn.

Þjóðarspegillinn

Ég flutti föstudaginn 30. október 2009 fyrirlestur á Þjóðarspeglinum svonefnda í Háskóla Íslands, en þar kynntu fræðimenn í félagsvísindum niðurstöður rannsókna sinna. Fyrirlestur minn bar heitið „Pólitískir pílagrímar í Kína“ og var um boðsferðir Íslendinga til kínverska alþýðulýðveldisins 1952–1964. Þar rakti ég í stuttu máli atburðarásina í Kína fyrstu fimmtán árin frá valdatöku kommúnista þar haustið 1949, en eftir það hófust fjöldamorð, sem séra Jóhann Hannesson trúboði sagði frá í greinaflokkum í Morgunblaðinu sumarið 1952. Íslenskir kommúnistar tóku sér hins vegar ótrauðir stöðu við hlið skoðanasystkina sinna í Kína, og Jóhannes úr Kötlum fór þangað austur haustið 1952 og orti lofkvæði um kínverska kommúnista, sem „bjóða heiminum óð lífsins — og Maó er forsöngvarinn“. Minnti ég í því sambandi á hið ilræmda lofkvæði um Stalín, sem Halldór Kiljan Laxness sneri á íslensku, þar sem Stalín var kallaður „söngvari þjóðvísunnar“. Það var líka ótrúlegt, að íslenskir ferðalangar fullvissuðu landa sína um, að kínverskum kommúnistum hefði tekist að brauðfæða þjóðina, á sama tíma og einhver versta hungursneyð mannkynssögunnar skall á Kínverjum árin 1959–1962, eins og segir frá í Svartbók kommúnismans. Fyrirlestur minn er prentaður í riti ráðstefnunnar, en hann er þáttur í einu rannsóknarverkefni mínu um þessar mundir, Íslenskum kommúnistum 1918–1998.

Frábært framtak

olafur_thors.jpgGuðrún Pétursdóttir á lof skilið fyrir framtak sitt, en hún afhenti Borgarskjalasafni einkaskjalasafn afa síns, Ólafs Thors, miðvikudaginn 28. október: 72 öskjur með bréfum, blaðagreinum, ræðum, úrklippum, minnisblöðum, ljósmyndum, hljóðsnældum og jafnvel kvikmyndum. Þetta er mikill fengur fræðimönnum og raunar öllum áhugamönnum um sögu. Ólafur Thors var stórbrotinn einstaklingur, alþýðlegur höfðingi, gamansamur alvörumaður, þjóðsagnahetja í lifanda lífi. Hann var lengst allra formaður Sjálfstæðisflokksins, 1934–1961, og myndaði fimm ríkisstjórnir. Hann var ásamt Hannesi Hafstein, Jóni Þorlákssyni, Bjarna Benediktssyni og Davíð Oddssyni einn hinna miklu stjórnmálamanna tuttugustu aldar á Íslandi.

Mörg tilsvör Ólafs sýna, hversu lífsreyndur maður og vitur hann var, en einnig orðheppinn. Þegar hann var eitt sinn skammaður á fundi, svaraði hann: „Það þýðir ekkert fyrir ykkur að skamma mig. Ég er löngu kominn með sigg á sálina.“ Frægt er, þegar flokksbróðir Ólafs, Pétur Ottesen, vandaði um við hann snemma á þingmannsferli Ólafs (sem hófst 1926): „Þú mætir allt of illa á nefndarfundi. Þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið!“ Ólafur svaraði að bragði: „Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni!“ Þegar þingmenn kommúnista, Einar Olgeirsson og félagar hans, komu á sinn fyrsta þingfund haustið 1937, var þeim fálega tekið, nema hvað Ólafur gekk til þeirra, rétti fram höndina og sagði: „Ekki vildi maður nú fá ykkur hingað inn, en fyrst þið eruð komnir, þá verið þið velkomnir!“ Ólafur létti einnig þungt andrúmsloftið, þegar Charles Howard Smith gekk á fund ríkisstjórnarinnar 10. maí 1940 og tilkynnti um hernám Breta: „Við hefðum vitaskuld kosið ekkert hernám, — en fyrst til þess þurfti að koma, erum við fegnir, að þið voruð fyrstir til!“ Ólafur myndaði Nýsköpunarstjórnina 1944 með kommúnistum og Alþýðuflokki. Hann var snöggur upp á lagið, þegar bandarískur sendimaður spurði hann: „Hvernig stendur á því, að þér hafið tekið kommúnista í stjórn hér?“ Ólafur svaraði: „Þeir höfðu svo góð meðmæli.“ Sendimaðurinn spurði: „Frá hverjum?“ Ólafur svaraði: „Frá Roosevelt og Churchill.“

Kunnar eru líka sögur af Ólafi í kosningunum 1946, þegar hann naut sín hvað best sem forsætisráðherra Nýsköpunarstjórnarinnar. Fundarmaður kallaði fram í hjá honum: „Það er ég viss um, að Ólafur, að þú þekkir ekki einu sinni muninn á þorski og ýsu.“ Ólafur svaraði að bragði: „Ég þekki þó að minnsta kosti muninn á þér og þorski, og það er meira en margir gera.“ Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur (stjúpafi núverandi menntamálaráðherra og þeirra bræðra Sverris og Ármanns Jakobssona) var í framboði gegn Ólafi í Gullbringu- og Kjósarsýslu í þeim kosningum. Hann sagði á fundi: „Kapítalistar hugsa aðeins um peningana. Við sósíalistar hugsum um mennina.“ Ólafur greip fram í: „Já, einmitt. Kapítalistar læsa peningana inni, en sósíalistar mennina.“ Þegar nokkrir kommúnistastrákar ætluðu að gera aðsúg að Ólafi fyrir utan samkomuhús í Keflavík fyrir þingkosningarnar 1953, vatt hann sér út úr bíl sínum, gekk að strákunum og spurði: „Hvar get ég pissað, strákar?“ Glúpnuðu þeir við.

Ég gæti sagt margar fleiri sögur af Ólafi, en verð hér að láta staðar numið. En því er við að bæta, að Ingiríður Danadrottning sagði Davíð Oddssyni það eitt sinn í kvöldverði, að skemmtilegri mann hefði hún ekki hitt en Ólaf Thors, þegar hann var forsætisráðherra og þau Friðrik konungur komu til Íslands í opinbera heimsókn snemmsumars 1956.


Bjarni Ben. góður

bjarniben.jpgBjarni Benediktsson hélt vel á málstað Íslendinga á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann minnti á, að oft væri á tyllidögum talað um frændskap og vináttu annarra norrænna þjóða við okkur. En þegar á reyndi, stóðu þær hjá í hvirfilbylnum, sem skall á Íslandi. Þá komu þær ekki til aðstoðar Íslendinga án þeirra skilyrða, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti. Og eitt skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virtist vera (þótt aldrei fullreyndi á það), að Íslendingar gæfust upp fyrir Bretum, sem kröfðust þess, að íslenskur almenningur greiddi skuldir vegna einkaviðskipta manna erlendis. Fullkominn vafi lék á hinni lagalegu skuldbindingu til slíkra greiðslna, eins og okkar virtustu fræðimenn hafa bent á, en Bretar vildu ekki einu sinni leyfa Íslendingum að bera slíkan vafa undir dómstóla. Þetta létu Norðurlandaþjóðirnar óátalið, og yfir þetta lagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blessun sína. Þessir aðilar brugðust Íslendingum, eins og Bjarni benti á. En því miður hafa ráðamenn okkar, Jóhanna og Steingrímur, einnig brugðist, þótt sennilega sé það ekki af illum hug, heldur af reynsluleysi, ótta við einhverjar óskilgreindar afleiðingar af því að láta ekki undan Bretum og von um að þurfa aldrei að standa við þær skuldbindingar, sem þeir hafa lagt á Íslendinga. En þessir óheillamenn hafa riðið komandi kynslóðum þungan skuldabagga. Því miður tóku Jóhanna og Steingrímur ekki málstað Íslendinga upp á Norðurlandaráðsþinginu ólíkt Bjarna Benediktssyni. Og um þá, sem gera nú hróp að Bjarna heima fyrir, má segja: Þeir eru aðeins alþjóðasinnar í þeim skilningi, að þeir eru vinveittir öllum öðrum þjóðum en sinni eigin.


Heggur sá er hlífa skyldi

jonsteinsson.jpgHinn ungi og hrokafulli hagfræðingur Jón Steinsson hefur eins og sumir starfsbræður hans gleymt hæfilegri varúð fræðimannsins eftir bankahrunið, hvort sem það er vegna þess að hann gengst óhóflega upp í hinni óvæntu athygli, sem honum er veitt eftir hrunið, eða hann vill koma sér í mjúkinn hjá nýjum valdhöfum, „vera í vinningsliðinu“. Jón er þessa dagana stóryrtur í garð Seðlabankans fyrir að hafa haustið 2008 gert nákvæmlega hið sama og seðlabankar annars staðar í lánsfjárkreppunni, að veita skyndilán til að afstýra lausafjárskorti. Seðlabankar annars staðar keyptu til dæmis í óðaönn upp undirmálslán af fjármálastofnunum í því skyni að bjarga þeim og sitja nú eftir með sárt ennið, því að þessi lán reyndust lítils sem einskis virði. Þetta er meðal annars rakið í nýrri bók Roberts Skidelsky lávarðar, The Return of the Master. Þetta er sami Jón Steinsson og skrifaði grein í Morgunblaðið 24. mars 2006, þar sem hann taldi litla ástæðu til að hafa áhyggjur af miklum erlendum skuldum Íslendinga. „En að stærstum hluta virðist nettó skuldastaða landsins endurspegla væntingar almennings um áframhaldandi hraðan hagvöxt. Ef þessar væntingar eru raunhæfar þurfum við engar áhyggjur að hafa af nettó erlendri skuldastöðu þjóðarinnar.“ Þetta er sami Jón Steinsson og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands 18. ágúst 2008, aðeins nokkrum vikum fyrir bankahrunið, þar sem hann mælti gegn vaxtalækkun og gerði lítið úr því, að kollsteypa væri í nánd: „Það er ekkert allt að farast,“ var haft eftir honum í Morgunblaðinu daginn eftir. Með þessu er ég ekki að segja, að allt, sem Jón sagði við þessi tækifæri, hafi verið vitleysa, heldur hitt, að hann er skeikull eins og við hin, þótt hann tali niður til okkar.


Njósnir KGB á Norðurlöndum

Fróðlegt var að lesa á mbl.is, að sænski njósnasagnahöfundurinn Jan Guillou gekk erinda leyniþjónustu Kremlverja, KGB, á meðan Ráðstjórnarríkin voru og hétu. Tvær bækur Guillous hafa komið út á íslensku, Leiðin til Jerúsalem og Illskan, og sjónvarpið hefur sýnt myndir eftir sögum hans. Fram kom í fréttinni, að það var rússneski KGB-maðurinn Jevgeníj Gergel, sem náði Guillou á sitt band. Veitti Guillou Gergel ýmsar upplýsingar, meðal annars um sænska jafnaðarmannaflokkinn, og vilja sænskir jafnaðarmenn nú ólmir vita, hverjar þær voru. Gergel starfaði í sendiráði Ráðstjórnarríkjanna í Svíþjóð 1964–1970, og tókst honum þá að mynda samband við róttæklinga, sem voru andvígir Bandaríkjunum, ekki síst afskiptum þeirra af borgarastríðinu í Víetnam. En hitt er athyglisvert, að Jevgeníj Gergel vann fyrir KGB á Íslandi í sex ár, 1973–1979. Eftir það starfaði hann í höfuðstöðvum KGB í Moskvu og kynntist þá Oleg Gordíevskíj, sem seinna flýði land og ljóstraði upp um margvíslegan undirróður og njósnir Kremlverja á Vesturlöndum. Sagði Gergel Gordíevskíj ýmislegt um umsvif ráðstjórnarinnar á Íslandi. Seinna var Gergel flugumaður KGB á Möltu. KGB stundaði ekki aðeins hefðbundnar njósnir, heldur lagði áherslu á það, sem kallað var á ensku „agents of influence“. Þetta voru menn, sem voru sjaldnast yfirlýstir kommúnistar, en veittu KGB-mönnum í sendiráðum Ráðstjórnarríkjanna á Vesturlöndum upplýsingar og tóku þátt í ýmsum aðgerðum, sem komu Kremlverjum vel, til dæmis „friðarhreyfingum“. Rætt er um þetta allt, þar á  meðal starfsemi Gergels á Íslandi, í bók minni, Íslenskir kommúnistar 1918–1998, sem er enn í vinnslu, en kemur vonandi út eftir eitt eða tvö ár.

Forseti Náskersins

crop_260x-1.jpgÓlafur Ragnar Grímsson hefur nú birt nokkur þeirra bréfa til stuðnings íslenskum auðmönnum, sem hann þurfti að afhenda rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins. Hann hefur hins vegar ekki þrátt fyrir áskoranir birt þær reglur, sem hann segir, að banni honum að afhenda önnur bréf hans svipaðs eða sama efnis, enda eru engar slíkar reglur til. Nú er ekkert við það að athuga, að þjóðhöfðingi greiði götu atvinnurekenda lands síns erlendis. Það gera allir þjóðhöfðingjar. En sjá má af þessum bréfum, að Ólafur Ragnar gekk miklu lengra í erindrekstri fyrir auðmenn en aðrir telja sæma. Þessi bréf hans eru þó ekki versti vitnisburðurinn um forsetatíð hans, heldur hitt, að hann synjaði sumarið 2004 staðfestingar fjölmiðlafrumvarpi, sem átti að takmarka tækifæri auðmanna til að móta almenningsálitið sér í hag. Var það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, að forseti gekk á þann hátt gegn þingviljanum. Forseti Íslands átti að vera sameiningartákn, en ekki þátttakandi í illdeilum. Sjálfur hafði Ólafur Ragnar í kennslubók, sem kennd var áratugum saman í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, skrifað, að synjunarvald forseta væri dauður bókstafur. Ekki bætti úr skák, að Ólafur Ragnar hafði sumarið 2004 sterk tengsl við illvígasta og skuldugasta íslenska auðmanninn, fjölmiðlakónginn Jón Násker: Dóttir hans var í vinnu hjá Náskerinu, og kosningastjóri hans í forsetakjöri 1996 var forstjóri fjölmiðlafyrirtækis Náskersins. Og Ólafur Ragnar hélt uppteknum hætti. Þegar heimilisvinur forsetahjónanna, Martha Stewart, kom til Íslands, nýsloppin úr fangelsi í Bandaríkjunum, bauð Ólafur Ragnar í hóf á Bessastöðum, þar sem skilyrðið fyrir boði virtist vera dómur fyrir efnahagsbrot. Þar voru Náskerið, Pálmi í Fons og aðrir þeir, sem sett hafa Ísland á hliðina. Ólafur Ragnar er ekki forseti þjóðarinnar. Hann er forseti Náskersins. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband