Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tvö dæmi um hlutdrægni RÚV

Ríkisútvarpið hefur lögbundna skyldu til að gæta fyllstu óhlutdrægni. Skýringin er sú, að við erum öll skylduð til að greiða til þess. Við getum ekki sagt upp áskrift að því, ef við erum óánægð með það, eins og við getum að Morgunblaðinu, Stöð tvö eða DV. Með þessari lagaskyldu um óhlutdrægni er auðvitað ekki átt við, að starfsmenn Ríkisútvarpsins hljóti að vera skoðunarlausir, heldur hitt, að þeir gæti sæmilegs jafnvægis í því, sem kemur fram. Sé einn þáttastjórnandi vinstrisinnaður, þá sé annar hægrisinnaður, og svo framvegis. Ég er ekki einn um að telja, að Ríkisútvarpið hafi síðustu misserin ekki gegnt þessari lagaskyldu sinni. En þá er oft kallað eftir dæmum. Ég nefni tvö lítil dæmi úr mínu minni, sem einhverjir fjölmiðlamenn mættu rannsaka betur. Annað var á menningarnótt Reykjavíkurborgar í sumar. Þá vildu sjónvarpsmenn ekki slást í för með borgarstjóranum, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þegar hún gekk um Reykjavík, því að hún væri stjórnmálamaður. Hins vegar heimsóttu þeir Dag Bergþóruson-Eggertsson í vöfflukaffi heim til hans! Ekki veit ég, hvort það var vegna þess, að þeir töldu hann ekki stjórnmálamann, en ef svo er, þá höfðu þeir auðvitað ýmislegt til síns máls. Gauti, bróðir Dags, er miklu meiri stjórnmálamaður, eins og sést á daglegu bloggi hans. Hitt dæmið um hlutdrægni Ríkisútvarpsins var af frásögn þess af umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í októberbyrjun. Í kvöldfréttum þann dag var ræða ráðherrans endursögð athugasemdalaust. En fréttastofan hafði tafarlaust leitað til erlends „sérfræðings“ um þá skoðun Bjarna Benediktssonar, að hugsanlega bæri að segja upp samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og taldi „sérfræðingurinn“ öll tormerki á því. Var þessi „frétt“ flutt í sama fréttatíma og sagt var frá ræðu Bjarna. Þannig var reynt að ómerkja málflutning Bjarna tafarlaust.


Sungu Nallann og steyttu hnefa

staksteinarbsrb.jpgHneyksli þætti, ef einhverjir tækju upp á því, hvað þá stjórnmálamenn, að syngja opinberlega baráttusöng nasista, Horst Wessel, sem var raunar gerður að eins konar óopinberum þjóðsöng Þýskalands um skeið á Hitlerstímanum. En er nokkru betra að syngja Internationalinn hástöfum og steyta hnefa, eins og þeir Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason gerðu á þingi BSRB á dögunum? Ólafur Ragnar Grímsson og Ögmundur Jónasson slepptu því þó að steyta hnefa, hvort sem þeir hafa raulað með eða ekki. Internationalinn, Nallinn, var um skeið þjóðsöngur Ráðstjórnarríkjanna, enda er hann svipað tákn kommúnismans og Horst Wessel er nasismans. Í Svartbók kommúnismans, sem ég sneri á íslensku, er giskað á, að hátt í þrjátíu milljónir manna hafi týnt lífi af völdum nasismans, en 85–100 milljónir manna af völdum kommúnismans. Kommúnisminn var blóðug alræðisstefna. Þar sem kommúnistar höfðu tækifæri til, frömdu þeir fjöldamorð, sendu þá, sem þeir grunuðu um „óhreinar hugsanir“, í vinnubúðir eða fangelsi, fluttu fólk nauðugt úr heimkynnum sínum, bönnuðu alla gagnrýni og héldu uppi víðtækum njósnum. Í útvarpsþætti á dögunum skiptust við Gunnar Smári Egilsson á skoðunum um kommúnismann. Hann kvaðst telja, að hann nyti sömu skilyrðislausu fordæmingarinnar og nasisminn. Ég dró það í efa. Benti ég meðal annars á það, að ekki er lengra síðan en 1997, að áhrifamaður í Blaðamannafélagi Íslands og síðar í Samfylkingunni, Lúðvík Geirsson, sagði eftirlætisstjórnmálamann sinn vera Lenín. Alþýðubandalagið lauk snautlegum ferli sínum á því að senda hóp manna í boðsferð til Kúbu haustið 1998 á vegum kúbverska kommúnistaflokksins. Voru þar meðal annarra í för Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson. Núverandi formaður utanríkisnefndar, Árni Þór Sigurðsson, ber húfu með mynd af Che Guavara, liðsmanni Castros á Kúbu, en þaðan hefur 10% þjóðarinnar flúið, og er talið, að um þrjátíu þúsund manns hafi týnt lífi af völdum kúbverskra kommúnista. Þeir Össur og Árni Páll sýna fórnarlömbum kommúnismans virðingarleysi með því að syngja Internationalinn og steyta hnefa.


Strákur í stórri ætt

bilde_926013.jpgEin lítilmótlegasta blaðagrein síðustu missera birtist fyrir skömmu í Morgunblaðinu. Þar kvað Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur Thors-ættina of göfuga fyrir Björgólf Guðmundsson (sem kvæntur er dótturdóttur Thors Jensen). Guðmundur Andri birti þessa grein, eftir að Björgólfur hneig fjárhagslega í valinn í bankahruninu mikla og lá óvígur. En Guðmundur Andri þagði alla þá tíð, er völlurinn var sem mestur á Björgólfi. Hvað sem um rekstur Landsbankans gamla má segja, var Björgólfur Guðmundsson á uppgangstíma sínum sannkallaður höfðingi, sem gaf af mikilli rausn til líknar- og mannúðarmála og ekki síður til lista og vísinda. Nú hefur Guðmundur Andri birt grein á Netinu, þar sem hann segir skilið við Morgunblaðið og kvartar undan Davíð Oddssyni, eins og hann gerði raunar iðulega forðum, á meðan hann var Baugspenni og Baugsfeðgar ráku herferð sína gegn Davíð.  Guðmundur Andri segist vera hræddur um, að Morgunblaðið verði ekki margradda með Davíð sem ritstjóra. En sannleikurinn er sá, að íslenskir fjölmiðlar voru eintóna, áður en Davíð kom á vettvang. Þeir höfðu allir sömu stefnu, bergmáluðu hver annan. Annars fer illa á því, að Guðmundur Andri Thorsson vandi um við fjölmiðla. Hann situr í ritnefnd veftímaritsins Herðubreiðar. Ritstjóri þess tímarits skrifaði nýlega ósannindi um mig. Þegar ég skoraði á þann mann að finna þeim stað eða leiðrétta þau ella, svaraði sá skætingi einum. Ég sneri mér þá til ritnefndarmannsins Guðmundar Andra, sem neitaði að eiga nokkurn hlut að því að rétta hlut minn, en notaði tækifærið til sinna venjulegu stílæfinga, sem hann birti síðan hróðugur. Hann vildi bersýnilega ekki hafa það, sem sannara reyndist. Hann ætti því að hafa sem fæst orð um vandaða blaðamennsku. Eins og Bretar segja: „If you want a better world, get busy on your own little corner.“

Agli hefur farið aftur

silfuregils_ruv_926011.jpgVið þurfum öll að greiða gjald til Ríkisútvarpsins, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sú er skýringin á því, að lagaskylda hvílir á Ríkisútvarpinu um að gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögnum, fréttaflutningi og umræðum af skoðunum. Slík óhlutdrægni felst ekki í skoðanaleysi, heldur í því, að flestar skoðanir fái að koma fram. (Ég er ekki viss um, að allar skoðanir eigi að fá að koma fram í ríkisútvarpi, til dæmis gyðingahatur, en það er annað mál.) Þess vegna brýtur Egill Helgason vitanlega ekki lög með því að hafa skoðanir. Hann má hafa þær mín vegna. Egill hefur hins vegar glatað trúverðugleika sem þáttastjórnandi með hinu dæmalausa bloggi sínu, þar sem hann eys svívirðingum yfir fólk fyrir 200 þúsund krónur á mánuði. Stjórnendur Ríkisútvarpsins láta eins og þetta blogg komi þeim ekki við, þótt það beri sama nafn og umræðuþáttur hans. Öðru vísi mér áður brá. Í Morgunblaðinu 25. september 2005 birtist eftirfarandi frétt: Sigmundur Sigurgeirsson, starfsmaður Ríkisútvarpsins (RÚV) á Suðurlandi, hefur fengið áminningarbréf frá lögfræðingi RÚV vegna skrifa sinna á bloggsíðu um Baugsmálið í sumar og verður ekki látinn vinna við fréttaflutning fyrir fréttastofu Útvarpsins í bili samkvæmt upplýsingum frá RÚV. Hann sinnir samt áfram starfi sínu sem umsjónarmaður svæðisútvarpsins á Suðurlandi. Þegar málið kom upp síðla ágústmánaðar var það mat Boga Ágústssonar, forstöðumanns fréttasviðs RÚV, og Óðins Jónssonar fréttastjóra að „með skrifum sínum hafi Sigmundur sýnt slíkt dómgreindarleysi að við treystum honum ekki lengur til að vinna við fréttir í Ríkisútvarpinu“. Bogi Ágústsson staðfesti við Morgunblaðið að Sigmundur myndi ekki vinna fyrir fréttastofu Útvarps í bráð.

Hroki og hleypidómar

asgeirw.jpg„Það var ekki fyrr en eftir hrunið, sem allir sáu það fyrir,“ segir Þórarinn Eldjárn í snjallri smásögu. Allt er orðið krökkt af eftiráspekingum hér á landi. Tveir þeirra eru ungir og hrokafullir hagfræðingar, Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson. Ásgeir Daníelsson hagfræðingur, sem seint verður vændur um hægrivillu eða Davíðsdýrkun, hefur á Netinu svarað þeim skilmerkilega, enda er Ásgeir heiðarlegur maður, sem hefur meiri áhuga á að skilja það, sem gerðist, en að koma sér í mjúkinn hjá hinum nýju valdhöfum. Ég gef Ásgeiri orðið á bloggi Gauta: „Ég held að þetta sé dæmi um mjög varhugaverða aðferðafræði við rannsókn á hruninu, þ.e. að dæma aðgerðir í fortíðinni út frá því sem við vitum í dag. Út frá þeim sjónarhól eru öll vandamál í peningastjórnun – og reyndar allri annarri stjórnun líka – svo ofboðslega auðveld úrlausnar. Ég held líka að skýringar þínar á mistökum Seðlabankans steyti á þeirri staðreynd að íslenski seðlabankinn var að gera mjög svipaða hluti og seðlabankar annars staðar. Það var ekki bara íslenski seðlabankinn sem notaði endurhverf lán til þess að hjálpa lánastofnunum yfir lausafjárerfiðleika og það var ekki bara íslenski seðlabankinn sem tók veð í „ástarbréfum“ fjármálafyrirtækja. Evrópski seðlabankinn gerði þetta líka. Og það var ekki bara íslenski seðlabankinn sem tapaði á lánveitingum til íslensku bankanna. Seðlabankar um alla Evrópu hafa þurft að afskrifa háar fjárhæðir vegna slíkra lána, auk þess sem Seðlabanki Evrópu á í dag háar fjárhæðir hér á landi, eignir sem voru upphaflega veð sem hann tók í verðbréfum í íslenskum krónum sem nú eru læst inni vegna gjaldeyrishaftanna. Sumum þessarra banka er stýrt af mjög hæfum hagfræðingum.“

Iceslave-samningarnir

Íslendingar gerðu ekki neina samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana, heldur fóru samningamennirnir svonefndu út og sneru heim með reikninginn. Fyrir hvað er þessi reikningur? Íslensk alþýða hefur aldrei stofnað til þeirra skulda, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur viðurkennt þvert á ráð okkar færustu lögfræðinga, til dæmis þeirra Sigurðar Líndal og Stefáns Más Stefánssonar, og raunar þvert á samþykktir Alþingis frá því í sumar. Íslensk alþýða ber enga ábyrgð á þessum skuldum. Það gera einkaaðilar. Eins og Davíð Oddsson sagði við bankastjóra Landsbankans á fundi í Seðlabankanum snemma árs 2008: „Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn.“ Davíð skrifaði einnig Geir H. Haarde harðort bréf 22. október 2008, þegar hann var enn seðlabankastjóri og Geir forsætisráðherra, þar sem hann mótmælti öllum fyrirætlunum um, að Ísland tæki á sig stórkostlegar skuldbindingar vegna Icesave-reikninganna. „Þetta eru ekki skuldbindingar íslenska ríkisins, þetta eru ekki skuldbindingar íslenskra borgara, þetta eru skuldir Landsbankans,“ sagði Davíð í bréfinu. Raunar hafa ýmsir erlendir aðilar viðurkennt, hversu fráleitt það er, að íslensk alþýða sé skuldbundin af viðskiptum einkaaðila úti í löndum. Til dæmis vann nefnd undir forystu Jean-Claude Trichet, núverandi bankastjóra Evrópska seðlabankans, á sínum tíma skýrslu, þar sem kemur fram sú skoðun, að evrópskar reglur um innstæðutryggingar gildi ekki, þegar um bankahrun er að ræða. Þá hefur Woulter Bos, fjármálaráðherra Hollands, einnig lýst því yfir opinberlega, að evrópska innstæðutryggingakerfinu sé ekki ætlað að standa undir bankahruni. Það er eins og íslenska ríkisstjórnin vilji ekki vita ekki af neinu af þessu. Ég efast ekki um góðan vilja hennar. En hana skortir þor, þrek og getu til að semja við útlendinga. Íslands ógæfu verður flest að vopni.

Einn með Davíðsheilkennið

lobbi1.jpgVart líður svo dagur, að Guðmundur Ólafsson hagspekingur á Útvarpi Sögu agnúist ekki út í Davíð Oddsson. Það er þess vegna vert að rifja upp, að Davíð flutti ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs ári fyrir hrun, 6. nóvember 2007, þar sem hann varaði við ofvexti bankanna og skuldasöfnun þeirra. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma,“ sagði Davíð. „Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar,“ sagði Davíð einnig. Hann var þá seðlabankastjóri og varð vitanlega að fara varlega á opinberum vettvangi. Ég sat þá í bankaráði Seðlabankans og var stundum viðstaddur, þegar Davíð hitti menn úr bönkunum, og var hann þá miklu afdráttarlausari í viðvörunum sínum og brýningum til þeirra um að sýna gætni. Ég get þess vegna ímyndað mér, hvernig hann hefur talað við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hann hitti sex sinnum til að vara við ástandinu. En einn maður var þá ósammála Davíð. DV spurði Guðmund Ólafsson hagspeking 17. nóvember 2007 vegna orða Davíðs: „Erum við þá ekki á bjargbrúninni þótt þjóðin skuldi mikið og viðskiptahallinn sé geigvænlegur?“ Guðmundur svaraði: „Nei það er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Þetta er bara vitleysa.“ Guðmundur gerði síðan gys að „bjargbrúnarkenningu“ Davíðs. „Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartar yfir því að almenningur kaupi leikföng.“

Er jörðin ekki að hlýna?

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur verið fremst í flokki þeirra, sem telja, að jörðin sé að hlýna af mannavöldum og að bregðast þurfi rösklega við, takmarka stórkostlega losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, enda valdi þær þessari hlýnun. Nú bregður hins vegar svo við, að einn sérfræðingur BBC um loftslagsmál, Paul Hudson, skrifar pistil um þá staðreynd, að jörðin hefur ekki hlýnað frá 1998. Þótt óteljandi fundir hafi verið haldnir um hlýnun jarðar síðustu ellefu árin, óteljandi skýrslur verið skrifaðar um hana, óteljandi styrkir verið veittir vísindamönnum til að rannsaka hana, stendur eftir, að jörðin hefur ekki hlýnað þetta tímabil. Samt hefur losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið aukist stórlega. Hvað veldur? Þótt ég sé þeirrar skoðunar, að vísindin séu of mikilvæg til að láta vísindamönnunum þau einum eftir, dettur mér ekki í hug að efast um, að gróðurhúsalofttegundir valdi hlýnun og að jörðin hafi hlýnað mjög hratt á síðustu tveimur áratugum tuttugustu aldar. Þetta segja vísindamenn, og þessu trúi ég. En heilbrigð skynsemi segir okkur, að of lítið hafi verið gert úr náttúrlegum sveiflum í loftslagi. Hlýindaskeið var á landnámsöld, og þeystu þá engir bílar um á Íslandi. Til eru vísindamenn, sem hafa varpað fram öðrum tilgátum. Getur verið, að loftslagið breytist frekar eftir virkni sólar? Eða eftir hafstraumum? Eflaust ráða margir þættir loftslagi. Maðurinn er aðeins einn þeirra. Þurfum við ekki frekar að laga okkur að loftslaginu en að reyna að breyta því?

Björn betri en Egill

bjornbjarnason_924176.jpgBjörn Bjarnason er miklu betri þáttastjórnandi í sjónvarpi en Egill Helgason. Viðmælendur hans á ÍNN eru jafnan menn, sem hugsa af alvöru um hin ýmsu mál og eru vel að sér um þau, þótt vitaskuld séu þeir ekki alltaf sammála stjórnandanum. Umræður þar eru rökræður frekar en kappræður. Sífellt fleiri horfa á þessa þætti. Björn er vel menntaður maður með mikla reynslu af blaðamennsku og stjórnmálaafskiptum. Hann er lestrarhestur, sem fylgist vel með innanlands sem utan. Fróðlegt er einnig að bera saman dagleg blogg þeirra Björns og Egils. Björn er þar kurteis, en fastur fyrir. Egill eys svívirðingum yfir þá, sem honum eru ósammála (og fær fyrir 200 þúsund krónur á mánuði). En hvers vegna þætti mörgum fráleitt, að Björn Bjarnason stjórnaði umræðuþætti á sunnudögum í Ríkisútvarpinu? Áreiðanlega vegna þess að hann er kirfilega merktur einum stjórnmálaflokknum. Ríkisútvarpið á að lögum að gæta óhlutdrægni. En Egill Helgason er miklu kirfilegar merktur en Björn. Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni, Sjálfstæðisflokknum og íslenskum kapítalisma. Hann er orðinn að búktalara Þorvaldar Gylfasonar, bæði í þáttum sínum og bloggi. Þeir Egill, Þorvaldur og Jón Þórisson arkitekt hittast reglulega til að skipuleggja herferð sína (og hefur stundum sést til þeirra). Þeir fengu Evu Joly til landsins (á kostnað hvers?) og töldu ráðamenn á að gera hana að sérstökum ráðgjafa um rannsóknir á efnahagsbrotum, þótt hún stefni þeim rannsóknum í voða með ógætilegum ummælum. Þeir fengu einnig Joseph Stiglitz til landsins (á kostnað hvers?). Jón Þórisson, sem var ráðinn aðstoðarmaður Evu Joly, skipulagði þá heimsókn. Bæði Joly og Stiglitz komu fram í þáttum Egils, og sögðu sumt skynsamlegt að mínum dómi og annað ekki, eins og gengur. Mín vegna má Egill Helgason hafa hvaða skoðanir og reka hvaða herferð sem hann vill. En ég vil hafa rétt á að segja fjölmiðli með honum upp eins og ég get sagt Morgunblaðinu, DV eða Stöð tvö upp. Enginn neyðir mig heldur til að greiða áskrift að ÍNN eins og ég þarf að gera að Ríkisútvarpinu.

Gauti hleypur á sig

albumimage_ashx.jpgÞað er leiðinlegt, þegar ungir og gáfaðir menn eins og hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson, bróðir Dags B. Eggertssonar og ákafur Samfylkingarmaður eins og hann, hlaupa á sig, hvort sem því ráða pólitískir fordómar eða ónógar upplýsingar. Gauti hélt því nýlega fram, að mestu mistökin í bankahruninu hefðu verið 300 milljarða króna skyndilán Seðlabankans til bankanna á síðasta sprettinum án fullnægjandi veða. Þetta hafa áróðursmeistarar Samfylkingarinnar bergmálað. Nú hefur Stefán Svavarsson, fyrrverandi aðalendurskoðandi Seðlabankans, leiðrétt þessa menn (í Morgunblaðinu í dag). Í fyrsta lagi voru þetta 250 milljarðar króna. Í öðru lagi voru þessar lánveitingar ekki til viðskiptabankanna þriggja, heldur til minni fjármálastofnana, þótt þær stöfuðu hins vegar umfram allt af lausafjárskorti bankanna og á móti þessum lánveitingum væru tekin veð í bankaskuldabréfum. Í þriðja lagi taldi Seðlabankinn sig vera að leysa þennan lausafjárskort bankanna til skamms tíma, en ekki að veita þrautavaralán vegna eiginfjárvanda. Með öðrum orðum taldi bankinn sig vera að halda eðlilegu greiðsluflæði gangandi, eins og honum er skylt að lögum, en ekki vera að afstýra gjaldþroti bankanna. Samkvæmt bókum bankanna rétt fyrir hrun áttu þeir ekki í neinum eiginfjárvanda. Skuldabréfin frá þeim, sem minni fjármálastofnanir notuðu sem veð, áttu því að vera traust. Stefán rifjar upp, að það var hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því, að eigið fé bankanna væri nægilegt, en Stefán telur það hafa verið til þess vanbúið, enda bendi margt til þess, að bankarnir hafi ofmetið eignir sínar. Stefán minnir einnig á, að lausafjárkreppa bankanna var angi af alþjóðlegri lausafjárkreppu, og í þessari alþjóðlegu kreppu kom í ljós, að ýmsu er áfátt í mælingum og mati á afkomu banka og efnahag, og keppast erlendir sérfræðingar nú við að endurskoða þetta regluverk.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband