Frá Poitiers

Dagana 14.–15. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu í Poitiers í Frakklandi um Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs. Fáir kannast nú eflaust við þessi nöfn, en sjálfsævisaga Valtins, Úr álögum (Out of the Night), var metsölubók í Bandaríkjunum árið 1941 og olli áköfum deilum, því að þar sagði höfundur frá erindrekstri sínum fyrir alþjóðahreyfingu kommúnista. Fyrri hluti bókar hans kom út á íslensku sama ár. Ég ritstýrði endurprentun bókarinnar árið 2015 og samdi formála og skýringar, og var mér þess vegna boðið að halda erindi á ráðstefnunni.

Krebs fæddist árið 1905, gerðist sjómaður og kommúnisti kornungur og tók þátt í byltingartilraun í Þýskalandi árið 1923. Hann varð síðan flugumaður kommúnista á meðal sjómanna, fór víða og rataði í ýmis ævintýri, en lenti í fangelsi í Bandaríkjunum 1926 fyrir tilraun til manndráps og sat þar í þrjú ár. Síðan tók hann upp þráðinn í sjómannahreyfingu Evrópu, en eftir valdatöku Hitlers 1933 handtóku nasistar hann og pynduðu. Kommúnistar skipuðu honum að gerast gagnnjósnari innan Gestapo, og létu nasistar hann lausan árið 1937. Hélt hann til Danmerkur, en þangað hafði njósna- og undirróðursnet kommúnistahreyfingarinnar í Vestur-Evrópu verið flutt. En þegar honum var skipað að fara til Moskvu í miðjum hreinsunum Stalíns, ákvað hann að forða sér vestur um haf. Þar kynntist hann blaðamanninum Isaac Don Levine, sem sá strax efnivið í góða sögu og aðstoðaði hann við að koma út sjálfsævisögunni. Krebs lést árið 1950, aðeins hálffimmtugur að aldri.

Í erindi mínu sagði ég frá viðtökum bókar Valtins á Íslandi, en íslenskir kommúnistar deildu mjög á höfundinn, og háðu þeir Halldór Kiljan Laxness og Benjamín Eiríksson harða ritdeilu um hann og verk hans (þótt Laxness virtist ekki hafa lesið bókina). Sérstaka athygli vakti sú uppljóstrun Valtins, að skipverjar á skipum Eimskipafélagsins hefðu flutt leyniskjöl milli landa fyrir kommúnistahreyfinguna. Treysti útgefandinn, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, sér ekki til að gefa út seinni hlutann, þótt fyrri hlutinn hefði selst í röskum fjögur þúsund eintökum, og kom hann loks út á vegum „Nokkurra félaga“ árið 1944. Þótt eitthvað sé um ýkjur og ónákvæmni í bókinni, er hún sannkallaður aldarspegill og afar fjörlega skrifuð. Benti ég á, að Þór Whitehead prófessor hefði staðfest ýmsar fullyrðingar Valtins í ritum sínum um kommúnistahreyfinguna, þar á meðal um íslensku sjómennina.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.)


Frá Vínarborg

Dagana 13.–14. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu í Vínarborg um austurrísku hagfræðihefðina, sem Carl Menger var upphafsmaður að, en innan hennar störfuðu einnig Eugen von Böhm-Bawerk, einn skarpskyggnasti gagnrýnandi marxismans, Ludwig von Mises og Friedrich A. Hayek. Ég var beðinn um að flytja erindi á ráðstefnunni, og skoðaði ég hugmyndatengsl Mengers og Hayeks. Menger velti því fyrir sér, hvernig ýmsar hagkvæmar og heilladrjúgar venjur og stofnanir hefðu getað orðið til án þess að vera ætlunarverk eins né neins. Nefndi hann í því sambandi peninga, venjurétt, markaði og ríkið. Hayek gerði síðan hugtakið sjálfsprottið skipulag að þungamiðju í kenningu sinni: Margt getur skapast án þess að vera skapað; regla getur komist á, án þess að nokkur hafi komið henni á; skipulag krefst ekki alltaf skipuleggjanda.

Þeir Menger og Hayek drógu báðir þá ályktun, að sósíalismi hvíldi á hugsunarvillu. Sósíalistar skildu ekki hugtakið sjálfsprottið skipulag. Þeir teldu, að allt hlyti að vera ætlunarverk einhvers, ekki afleiðing flókinnar þróunar, víxlverkunar vitunda. Þess vegna vildu sósíalistar endurskapa skipulagið, þótt það hefði að vísu endað með ósköpum í Þýskalandi Hitlers, Rússlandi Stalíns og Kína Maós. Þjóðernissósíalistar kenndu gyðingum um böl heimsins, en aðrir sósíalistar auðvaldinu. Angi af þessari hugsun er að líta á tekjudreifingu í frjálsu hagkerfi sem ætlunarverk í stað þess að átta sig á því, að hún er niðurstaða úr óteljandi ákvörðunum einstaklinga.

Þeir Menger og Hayek voru líka sammála um, að einstaklingsbundinni skynsemi væru takmörk sett. Aðalatriðið væri ekki að reyna að stýra þróuninni, heldur að ryðja úr vegi hindrunum fyrir henni, svo að hún gæti orðið frjáls. Þeir voru þess vegna í senn íhaldssamir og frjálslyndir. Íhaldssemi þeirra birtist í virðingu fyrir arfhelgum siðum og venjum, sem auðvelduðu gagnkvæma aðlögun einstaklinga. Frjálslyndi þeirra kom hins vegar fram í stuðningi þeirra við virka samkeppni á markaði, sem miðlaði þekkingu og aflaði nýrrar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. nóvember 2019.)


Frá Kænugarði

Dagana 7.–10. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna, sem haldin var í Kænugarði í Úkraínu og helguð sambandi Úkraínu við önnur Evrópulönd. Ég var beðinn um að segja nokkur orð á ráðstefnunni, og benti ég fyrst á, að Ísland og Úkraína væru mjög ólík lönd, en bæði þó á útjaðri Evrópu. Ég kvað eðlilegt, að Úkraínumenn hefðu viljað stofnað eigið ríki. Þeir væru sérstök þjóð, þótt þeim hefði löngum verið stjórnað frá Moskvu. Norðmenn hefðu skilið við Svía 1905 og Íslendingar við Dani 1918 af sömu ástæðu.

Í ræðu minni rakti ég, hvernig stækkun markaða með auknum alþjóðaviðskiptum auðveldaði smækkun ríkja: Litlar þjóðir með opin hagkerfi gætu notið góðs af hinni alþjóðlegu verkaskiptingu á heimsmarkaðnum. Því stærri sem markaðurinn væri, því minni gætu ríkin orðin, enda hefði ríkjum heims snarfjölgað á seinna helmingi tuttugustu aldar.

Nú er Úkraína auðvitað engin smásmíði. En landið er samt tiltölulega lítið í samanburði við Rússland, sem nýlega hefur lagt undir sig vænan hluta landsins með hervaldi. Vandi tiltölulega lítilla ríkja með stóra og ásælna granna væri takmarkaður hernaðarmáttur. Að sumu leyti mætti leysa slíkan vanda með bandalögum eins og gert hefði verið með Atlantshafsbandalaginu. En sú lausn væri ekki alltaf í boði, og til væri önnur: að reyna að breyta Rússlandi innan frá. Með því væri ekki átt við, að landinu væri brugguð einhver launráð, heldur að Úkraína veitti með öflugu atvinnulífi og örum framförum svo gott fordæmi, að Rússar tækju upp betri siði. Þjóðirnar eru náskyldar og ættu að vera vinir.

Það fór til dæmis ekki fram hjá kínverskum kommúnistum, hversu örar framfarir urðu eftir miðja tuttugustu öld í öðrum kínverskum hagkerfum, í Hong Kong og á Singapúr og Taívan. Danir og Svíar hefðu á liðnum öldum barist hvorir við aðra, en nú væri stríð milli þessara norræna þjóða allt að því óhugsandi. Vonandi rynni slíkur dagur upp í samskiptum Úkraínumanna og Rússa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2019.)


Við múrinn

Berlínarmúrinn féll fyrir réttum þrjátíu árum, en sigur Vesturveldanna í Kalda stríðinu var ekki síst að þakka festu, framsýni og hyggindum þeirra Ronalds Reagans og Margrétar Thatchers. Þó var sagt fyrir um þessi endalok löngu áður í bók, sem kom út í Jena í Þýskalandi 1922, Die Gemeinwirtschaft eftir Ludwig von Mises, en þar rökstuddi hann, að kommúnismi gengi ekki upp. Þess vegna yrðu kommúnistar að grípa til kúgunar.

Kúgunin fór þó alveg fram hjá átta manna sendinefnd frá Íslandi á svokölluðu heimsmóti æskunnar í Austur-Berlín í júlílok 1973. Formaður nefndarinnar var Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, og í skýrslu hennar var æskulýðssamtökum kommúnista þakkaðar „frábærar móttökur og vel skipulagt mót“. Enn sagði í skýrslu þeirra Þorsteins: „Þjóðverjarnir, sem við hittum, voru yfirleitt tiltakanlega opnir, óþvingaðir og hrokalausir.“

Auðvitað voru öll slík samtöl þaulskipulögð og undir ströngu eftirliti. En á sama tíma voru fimm ungir lýðræðissinnar staddir í Vestur-Berlín. Einn þeirra var Davíð Oddsson laganemi. Eftir að hann las skýrslu þeirra Þorsteins, skrifaði hann í Morgunblaðið, að hann hefði allt aðra sögu að segja úr stuttri heimsókn til Austur-Berlínar. Þetta væri lögregluríki, umkringt gaddavírsgirðingu og múr.

Tveir ungir Íslendingar við múrinn: annar klappaði svo kröftuglega uppi í salnum fyrir gestgjöfum sínum, að kvalastunurnar niðri í kjöllurum leynilögreglunnar drukknuðu í hávaða; hinn lagði við hlustir og heyrði hjartsláttinn í fangaklefunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2019.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband