Við múrinn

Berlínarmúrinn féll fyrir réttum þrjátíu árum, en sigur Vesturveldanna í Kalda stríðinu var ekki síst að þakka festu, framsýni og hyggindum þeirra Ronalds Reagans og Margrétar Thatchers. Þó var sagt fyrir um þessi endalok löngu áður í bók, sem kom út í Jena í Þýskalandi 1922, Die Gemeinwirtschaft eftir Ludwig von Mises, en þar rökstuddi hann, að kommúnismi gengi ekki upp. Þess vegna yrðu kommúnistar að grípa til kúgunar.

Kúgunin fór þó alveg fram hjá átta manna sendinefnd frá Íslandi á svokölluðu heimsmóti æskunnar í Austur-Berlín í júlílok 1973. Formaður nefndarinnar var Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, og í skýrslu hennar var æskulýðssamtökum kommúnista þakkaðar „frábærar móttökur og vel skipulagt mót“. Enn sagði í skýrslu þeirra Þorsteins: „Þjóðverjarnir, sem við hittum, voru yfirleitt tiltakanlega opnir, óþvingaðir og hrokalausir.“

Auðvitað voru öll slík samtöl þaulskipulögð og undir ströngu eftirliti. En á sama tíma voru fimm ungir lýðræðissinnar staddir í Vestur-Berlín. Einn þeirra var Davíð Oddsson laganemi. Eftir að hann las skýrslu þeirra Þorsteins, skrifaði hann í Morgunblaðið, að hann hefði allt aðra sögu að segja úr stuttri heimsókn til Austur-Berlínar. Þetta væri lögregluríki, umkringt gaddavírsgirðingu og múr.

Tveir ungir Íslendingar við múrinn: annar klappaði svo kröftuglega uppi í salnum fyrir gestgjöfum sínum, að kvalastunurnar niðri í kjöllurum leynilögreglunnar drukknuðu í hávaða; hinn lagði við hlustir og heyrði hjartsláttinn í fangaklefunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2019.)


Bloggfærslur 9. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband