Nokkrar leiðréttingar við málflutning Stefáns Ólafssonar

Stefán Ólafsson bloggar í gríð og erg, og get ég ekki annað að dáðst að samviskusemi hans. Hann vinnur svo sannarlega fyrir öllu því fé, sem hann hefur fengið í sérverkefni frá ráðuneytum undir stjórn vinstri manna og frá öðrum aðilum, jafnt til „Þjóðmálastofnunar“, sem hann rekur við Háskólann, og til SO Consulting, einkahlutafélags hans.

En því miður þarf að leiðrétta sumt það, sem Stefán segir. Til dæmis segir hann 19. apríl: „Davíð Oddsson stýrði Íslandi inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og stærsta og dýrasta hrun sögunnar! Gerði svo Seðlabankann gjaldþrota.“

Bóluhagkerfið kom til sögu 2004, eftir að Davíð Oddsson lét af starfi forsætisráðherra, eins og kemur skýrt fram á þessu línuriti dr. Birgis Þórs Runólfssonar hagfræðidósents.

Það ár, 2004, breyttist hagkerfið úr markaðskapítalisma í klíkukapítalisma. Davíð Oddsson var einn fárra, sem vöruðu við hinni fámennu auðklíku, sem þá tók völdin. Stefán Ólafsson var hins vegar í aðdáendahópi auðklíkunnar, eins og kom ósjaldan fram í kaffitímum í félagsvísindadeild.

Bankahrunið á Íslandi var ekki heldur „stærsta og dýrasta hrun sögunnar“. Sjö aðrar þjóðir í Evrópu urðu verr úti í fjármálakreppunni, sem skall á haustið 2008, eins og sést skýrt á þessu línuriti Birgis Þórs.

Seðlabankinn varð ekki heldur gjaldþrota. Fyrirtæki verður gjaldþrota, þegar það getur ekki lengur greitt skuldir sínar. Það gerðist ekki í dæmi Seðlabankans. Skýringarnar á miklu reikningslegu tapi Seðlabankans vegna bankahrunsins voru auðvitað, að hann þurfti að gegna lögboðnu hlutverki sínu, að halda bönkunum uppi eins lengi og hægt væri. Með neyðarlögunum voru kröfur Seðlabankans á viðskiptabankana settar aftar en kröfur innstæðueigenda og með því rýrðar stórkostlega í verði. Jafnframt kom í ljós, að Fjármálaeftirlitið (undir forystu Samfylkingarmanna, en Jón Sigurðsson hagfræðingur var stjórnarformaður þess) hafði ekki gegnt hlutverki sínu nógu vel. Vandi bankanna reyndist ekki vera aðallega lausafjárskortur, heldur eiginfjárvandi. Eignir þeirra og þá aðallega lánasöfnin voru ekki eins traust og ætlað var.

Stefán Ólafsson sagði 31. mars: „Þegar gert er ráð fyrir að hægt sé að stórauka tekjur ríkissjóðs með mikum skattalækkunum (allt að því tvöfalda þær eins og línurit Hannesar bendir til), þá eru menn komnir inn á fagsvið gullgerðarmanna miðaldanna.“

Ég hef aldrei haldið því fram, að skattalækkanir myndi greiða fyrir sig sjálfar að öllu leyti til skamms tíma. Það, sem ég hef sagt (og enginn ágreiningur er um meðal þeirra, sem skoðað hafa málið), er, að við skattalækkanir fara af stað öfl, sem gera sitt til að vega á móti tekjutapi ríkisins í fyrstu. Menn skapa meiri verðmæti, leggja harðar að sér. Þessi áhrif (sem kölluð eru Laffer-áhrif eftir bandarískum hagfræðingi) koma síðan skýrar og frekar fram til langs tíma.

Í bloggi 22. febrúar sagði ég til dæmis:

Hvernig er hægt að lækka skatta við núverandi skilyrði? Svarið er, að sósíalistar hugsa sér alltaf, að lífið sé kyrrstætt. Þeir halda, að kakan sé föst stærð, sem við eigum að halda langa fundi um, hvernig skipta eigi, og skipta henni síðan í smærri og smærri sneiðar.

En frumskilyrði kökunnar er öflugt bakarí, og kakan getur stækkað, ef bakarinn fær það verð fyrir kökuna, sem hann er ánægður með. Lífið er ekki kyrrstætt, heldur á sér þar stað lífræn þróun (og stundum öfugþróun, eins og við höfum séð síðustu árin).

Síðan sagði ég, að:

með lækkun skatta myndu fjárfestingar aukast, hjól atvinnulífsins taka að snúast, fólk að skapa meiri verðmæti. … En hvað gerist til skamms tíma? Hvernig á að brúa bilið, þegar tekjur ríkisins lækka vegna skattalækkana? Svarið er einfalt. Það er verulegt svigrúm til að hagræða í ríkisrekstri. Í annan stað kemur vel til greina að selja einhverjar eignir, og í þriðja lagi má taka lán innan lands eða utan til skamms tíma, sé það notað til að brúa bilið, uns skatttekjur taka að aukast til langs tíma.

Hitt er annað mál, að stundum geta Laffer-áhrifin verið mjög öflug. Það sýndi ég á línuriti, sem ég tók frá Nóbelsverðlaunahafanum Edward Prescott, sem sýndi annars vegar skatthlutfall á fyrirtæki, hins vegar skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum sem hlutfall af landsframleiðslu fyrir árin 1985 til 2003, þegar tekjuskattur á fyrirtæki var lækkaður mjög verulega (og þetta var fyrir lánsfjárbóluna).

Þótt ótrúlegt megi virðast, fullyrðir Stefán Ólafsson, að þetta línurit Prescotts sé falsað. Birgir Þór Runólfsson hefur svarað því vel á bloggi sínu, og nægir að vísa í það. Tölur Prescotts voru fengnar úr opinberum gögnum á þeim tíma, en Birgir Þór bendir á, að niðurstaðan er hin sama, ef teknar eru tölur hagstofunnar og tölur OECD

Allt þetta hefur komið fram opinberlega. Ég geri mér grein fyrir, að þetta mun ekki hafa nein áhrif á Stefán Ólafsson. Hann mun halda áfram að endurtaka missagnir sínar. En vonandi vilja einhverjir lesendur bloggs hans hafa það, sem sannara reynist.


Hvers vegna guldu stjórnarflokkarnir afhroð?

[Þessa grein skrifaði ég fyrir kosningar á Pressuna. Ég get óhræddur birt hana nú eftir kosningar:]

 

Göran Persson, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna, kom til Íslands skömmu eftir hrun bankanna haustið 2008 og sagði: Þið eigið að leysa vandann saman og gera það strax, eins og við gerðum í okkar bankakreppu. Þið eigið á þessu stigi málsins ekki að eyða tímanum í deilur. Síðan getið þið farið í kosningar.

Vinstri menn á Íslandi með þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon í fararbroddi hlustuðu ekki á Persson. Þeir voru fullir haturs á þeim, sem höfðu gersigrað þá í hverri orrustunni af annarri næstu fimmtán árin á undan. Þeir knúðu með ofbeldi fram stjórnarskipti og kosningar (eins og Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur rekur vel í nýútkominni bók um búsáhaldabyltinguna).

En hatur, hefnigirni og minnimáttarkennd eru aldrei góðir leiðsögumenn eða förunautar, og þess vegna gerðu vinstri menn ótal mistök, eftir að þeir komust til valda. Hér skulu aðeins nokkur rifjuð upp:

  • Strax eftir hrun bankanna komst ekkert annað að hjá vinstri mönnum en að reka Davíð Oddsson úr starfi seðlabankastjóra, og hafði hann þó einn ráðamanna varað við lánsfjárþenslu bankanna. Þetta var undarleg forgangsröðun. Jafnframt voru tveir starfsbræður hans í Seðlabankanum reknir, þótt engum dytti í hug, að þeir hefðu nokkuð til saka unnið.
  • Í stað Davíðs var fyrst ráðinn í Seðlabankann furðufugl frá Noregi, sem þekkti ekkert til seðlabanka, eðlis þeirra og starfsemi. Síðan var staða seðlabankastjóra auglýst og tveir rosknir og hrekklausir sjálfstæðismenn settir í nefnd til að fara yfir umsóknir, á meðan samið var á laun við Má Guðmundsson um kjör hans sem seðlabankastjóra.
  • Már Guðmundsson höfðaði síðar mál gegn Seðlabankanum, þegar honum fundust laun hans of lág. Á sama tíma hvetja hann og undirmenn hans í bankanum fólk til að gæta hófs í launakröfum!
  • Seðlabankinn hefur gert hver mistökin af öðrum undir stjórn Más Guðmundssonar og félaga hans. Til dæmis hefur danskur banki, sem tekinn var að veði fyrir láni til Kaupþings í miðju hruninu, verið seldur á verði langt undir bókfærðu virði bankans.
  • Geir H. Haarde var dreginn fyrir Landsdóm, sem sýknaði hann af öllum efnislegum ákærum. Þetta var í fyrsta skipti í sögu Íslands, sem ráðherra hefur orðið að sæta stjórnmálaákærum af þessu tagi. Allir vita, að Geir var saklaus af ákærunum. Fjórir þingmenn Samfylkingarinnar vildu ákæra Geir, en ekki samráðherra hans, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: Helgi Hjörvar, Skúli Helgason, Ólína Þorvarðardóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Þau settu þá Íslandsmet í hræsni.
  • Í því ráðleysi, fáti og fumi, sem varð eftir hrun bankanna og myndun vinstri stjórnarinnar, ákvað ríkisstjórnin að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stórlán. Þetta var alger óþarfi, en bakaði ríkissjóði vaxtagjöld upp á tugi milljarða á ári, á meðan stóra lánið lá óhreyft inni á bankareikningi. Þetta voru mistök, sem sennilega kostuðu Íslendinga um hundrað milljarða í heild. Íslendingar gátu tekið upp aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að skapa traust, en þeir þurftu ekki lánið frá sjóðnum, ekki síst með tilliti til þess, að sjóðurinn gerðist eins konar handrukkari fyrir Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni.
  • Vinstri stjórnin samdi við Breta og Hollendinga sumarið 2009 um að taka ábyrgð á gerðum einkabanka og viðsemjenda hans í hinu svokallaða Icesave-máli. Enginn lagabókstafur var fyrir þessari ábyrgð, eins og kom skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Þessi ábyrgð ríkissjóðs hefði samkvæmt mati samningamanna kostað 290 milljarða króna, en jafnframt hefði vaxtakostnaður verið um 241 milljarður kr. (og er þá stuðst við útreikninga dr. Sigurðar Hannessonar stærðfræðings). Hvers vegna samdi stjórnin um þetta? Vegna þess að hún vildi hengja myllustein um háls Sjálfstæðisflokksins. Hún vildi hafa reikninginn, sem hún ætlaði að senda honum, nógu háan. Stjórnin hugsaði ekki um hag þjóðarinnar, heldur aðeins um stundarhag.
  • Þau Steingrímur og Jóhanna ætluðu að lauma fyrsta Icesave-samningnum óséðum í gegnum Alþingi, eins og lýst er vel í fróðlegri bók Sigurðar Más Jónssonar um Icesave-samningana. Vinstri menn höfðu ekkert á móti því að hneppa Íslendinga í skuldafangelsi, ef þeir gátu sjálf verið fangelsisstjórar, en hrakið andstæðinga sína í varanlegan skammarkrók sögunnar. Sem betur voru þeir stöðvaðir í tvennum þjóðaratkvæðagreiðslum, sem hefði hvor um sig átt að nægja til þess, að vinstri stjórnin segði af sér.
  • Vinstri stjórnin samdi um það á laun að selja tvo bankana erlendum vogunarsjóðum. Enginn veit, hverjir keyptu eða á hvaða verði. Ekkert var gagnsætt í þessum viðskiptum. Á sama tíma hneykslast vinstri menn á því, hvernig staðið var að sölu ríkisbankanna 1998–2002!
  • Í stað þess að tala máli Íslendinga opinberlega erlendis af dirfsku og karlmennsku, sat forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðardóttir, ein og önug í ráðuneyti sínu, gretti sig, horfði í gaupnir sér og tautaði ókvæðisorð um andstæðingana. Hún kom aðeins örsjaldan fram opinberlega, en við eitt slíkt tækifæri gat hún ekki einu sinni farið rétt með fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.
  • Vinstri stjórnin ákvað, að stjórnarskránni frá 1874 væri um það að kenna, að hin alþjóðlega fjármálakreppa skall harðar og fyrr á Íslendingum haustið 2008 en mörgum öðrum þjóðum. Hún efndi til kjörs á stjórnlagaþing, sem Hæstiréttur dæmi ógilt! Þá ákvað vinstri stjórnin að skipa sömu menn í svokallað stjórnlagaráð og kjörnir höfðu verið ógildu kjöri á stjórnlagaþingið. Þetta kostaði einn milljarð króna, sem tekinn var í raun af Landspítalanum og öðrum eðlilegum verkefnum hins opinbera.
  • Samfylkingin hefur ekki haft áhuga á neinni endurreisn atvinnulífsins, heldur aðeins aðild að Evrópusambandinu, á meðan allt gengur á afturfótunum í Evrópu. Vinstri grænir hafa svikið öll loforð sín til kjósenda, þar á meðal um að beita sér gegn aðild að Evrópusambandinu. Íslendingar eru kerfisbundið afvegaleiddir, sagt, að samningaviðræður eigi sér stað, þegar um er að ræða aðlögunarviðræður. Evrópustofa og aðrar áróðursstofnanir Evrópusambandsins ausa stórfé í áróður á Íslandi með dyggri aðstoð Samfylkingarinnar og Ríkisútvarpsins.

Á sama tíma og ríkisstjórnir alls staðar annars staðar reyna að skapa atvinnu með því að lækka skatta á atvinnulíf og atvinnurekendur, hækkar vinstri stjórnin íslenska skatta á atvinnulíf og atvinnurekendur, fælir fjárfesta frá landinu og stöðvar allar framkvæmdir. Opinberar fjárfestingar á Íslandi eru í sögulegu lágmarki. Hagvöxtur hefur verið ofmetinn í mælingum. Stoðar lítt, þótt keyptir málsvarar stjórnarinnar tali um, að kreppunni sé lokið. Vinstri stjórnin hefur framlengt kreppuna. Ekki hefur verið tekið á stórfelldum hallarekstri ríkisins, þótt Göran Persson segði Íslendingum einmitt haustið 2008, að það yrði að gera.

Vinstri menn fengu sitt tækifæri. Þeir sýndu, að þeir höfðu ekkert til málanna að leggja. Þeir brugðust. Þess vegna munu stjórnarflokkarnir tveir gjalda afhroð í kosningunum framundan.

 


Við Margrét Thatcher

Ég bendi á grein á heimasíðu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, RNH, þar sem Margrétar Thatchers er minnst, en ég kynntist „járnfrúnni“ talsvert. Hún var verndari AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, sem RNH sinnir mörgum samstarfsverkefnum með, þar á meðal um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“ og um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna og kommúnismann“.

Fjármálahneyksli sem þarf að rannsaka

Kristján Vigfússon benti á mjög athyglisverðar staðreyndir í nýlegum pistli á Pressunni:

„Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi í byrjun október 2008 fimm hundruð milljónir evra eins og mikið hefur verið fjallað um. Sem tryggingu fyrir endurgreiðslu tók Seðlabankinn veð í öllum hlutabréfum í FIH sem var með eigið fé upp á tæplega 1.100 milljónir evra samkvæmt uppgjöri bankans 30. september 2008.

Á síðastliðnu ári var FIH seldur og fullyrt er að endurheimtur Seðlabankans verði einungis u.þ.b. 250 milljónir evra, þrátt fyrir að bankinn hafi eigið fé yfir 735 milljónir evra samkvæmt ársuppgjöri fyrir árið 2012 og gert sé ráð fyrir góðri afkomu FIH á þessu ári samkvæmt stjórnendum bankans.

Hvað réði því að Seðlabankinn samþykkti sölu á FIH á brunaútsölu og tapaði með sölunni 250 milljónum evra af gjaldeyrisforða þjóðarinnar?

Hvað réði því að Seðlabankinn ákvað að selja FIH og taka við sem andvirði sölunnar hlutabréfi í skartgripasala í stað reiðufjár?

Getur verið að danska ríkið hafi sett Seðlabanka Íslands afarkosti og þvingað fram sölu? Kaupendur bankans voru danskir lífeyrissjóðir sem virðast hafa þrefaldað virði eignar sinnar við kaupin. Íslenska þjóðin sem eigandi Seðlabanka Íslands á heimtingu á að fá að vita hver er ástæða þess að stjórnendur Seðlabankans ákváðu að selja FIH á brunaútsölu.

Það er ennfremur athyglisvert að setja þetta mál í samhengi við stöðu íslenska ríkisins gagnvart kröfuhöfum í þrotabú gömlu íslensku bankanna sem eru þvert á fyrri spár rík að eignum. Heildarverðmæti eigna Glitnis og Kaupþings samkvæmt nýjustu uppgjörum þeirra eru 1.795 milljarðar íslenskra króna.

Ef íslenska ríkið hagaði sér með sambærilegum hætti og dönsk stjórnvöld gerðu í FIH-málinu þá myndi það þýða að íslenska ríkið bæri úr býtum um 1.200 milljarða íslenskra króna en kröfuhafar um 600 milljarða. Þessi niðurstaða þýddi að íslenska ríkið gæti greitt upp skuldir ríkissjóðs, snjóhengjan væri úr sögunni og einfalt mál yrði að aflétta gjaldeyrishöftunum.“

Þetta er fjármálahneyksli, sem þarf að rannsaka og fá skýringar á. Nýleg sala FIH-bankans sýnir, að núverandi yfirmenn Seðlabankans virðast ekki vera færir um að gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum (eins og þeir sýndu raunar með afskiptum sínum af Icesave-málinu og töku hins óþarfa láns með okurvöxtum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum).

 


Stefán Ólafsson viðrar sig upp við Framsóknarflokkinn

Það er gaman að sjá, hvernig Stefán Ólafsson prófessor viðrar sig upp við Framsóknarflokkinn síðustu vikurnar.

Sú var tíð, að vindáttin var Sjálfstæðisflokknum hagstæð, og þá viðraði Stefán sig upp við Sjálfstæðisflokkinn. Hann gaf mér til dæmis 1999 bók sína Íslensku leiðina og skrifaði inn í eintakið, að íslenska leiðin væri bláa leiðin!

Og fyrri félagar Stefáns í Samfylkingunni sitja og klóra sér í kollinum yfir því, að brellumeistarinn, sem tínt gat allar kanínurnar upp úr pípuhattinum, breytt skattalækkunum í skattahækkanir og farsæld í fátækt, skuli nú reyna að hafa vistaskipti.

Verður mér þá hugsað til þýðingar Sveinbjarnar Egilssonar á vísu eftir Schiller:

Hjá virðum sumum viskan dýr
vegleg gyðja heitir.
Öðrum er hún kosta kýr,
kálf og mjólk sem veitir.

Karl Th. Birgisson staðinn að verki

Það er auðvitað rétt, sem Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra sagði eitt sinn, að ekki ætti að eyða fallbyssuskotum á þúfutittlinga. En ég gat þó ekki orða bundist, þegar ég las eftirfarandi á bloggi Karls Th. Birgissonar, fyrrverandi ritstjóra Pressunnar og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar:

Hannes Hólmsteinn hefur lýst því í fleiri en einu samtali að þessi hópur (eða hluti hans) hafi staðið að og greitt fyrir könnunina sem nú verður (að öllum líkindum) til þess að Bjarni Benediktsson hættir sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Kannske er þetta bara karlagrobb í Hannesi, kannske gerði kosningastjóri Hönnu Birnu á Viðskiptablaðinu könnunina upp á sitt eindæmi.

Ég hef ekki átt nein slík samtöl. Og það, sem meira er: Ég hefði ekki getað átt nein slík samtöl, því að ég fór utan 21. mars og kom ekki heim fyrr en 22. apríl. Það er síður en svo neitt leyndarmál, hvar ég var, því að ég hef verið að sækja málstofu um almannavalsfræði og ráðstefnu um einkaframtak í Brasilíu, sem margt má lesa um á Netinu.

Ég var önnum kafinn hér úti og talaði ekki einu sinni í síma við vini mína heima á Íslandi, hvað þá einhverja menn, sem umgangast Karl Th. Birgisson. Ég hafði ekki hugmynd um þessa könnun, sem Viðskiptablaðið lét gera, fyrr en ég las um hana á Netinu úti (en ég var raunar ekki alltaf í netsambandi á ferðalögum mínum). Þegar Karl Th. Birgisson vitnar drýgindalega í „fleira en eitt samtal“ við mig, er hann að segja ósatt, ekki aðeins að spinna, eins og hann gerir á hverjum degi fyrir Samfylkinguna, heldur beinlínis að spinna upp. Hvað gengur honum til?


Brasilíuför mín

Ég hef setið tvær afar fróðlegar ráðstefnur í Brasilíu í aprílbyrjun. Hin fyrri var málstofa, sem bandaríska stofnunin Liberty Fund hélt 4.–7. apríl í Petrópolis um bók prófessors Randys Simmons, Beyond Politics eða Meira en stjórnmál, en í henni eru bornar saman lausnir ríkis og einstaklinga á ýmsum málum, skattlagning og verðlagning, valdboð og viðskipti. Sjá má meira um þá málstofu hér. Síðari ráðstefnan var mjög fjölmenn, og héldu samtök ungra framkvæmdamanna og frumkvöðla í fylkinu Rio Grande do Sul, IEE (Instituto Estudos Empresariais) hana í Porto Alegre 7.–9. apríl. Hún var helguð atvinnufrelsi, sérstaklega í ljósi kenningar franska rithöfundarins Frédérics Bastiats um það, sem er sýnilegt og ósýnilegt um stjórnmálahagfræði. Flutti ég þar fyrirlestur. Sjá má meira um ráðstefnuna hér. Það var skemmtilegt að sitja þar uppi á sviði við hlið leiðtoga Sósíalistaflokks Brasilíu, Eduardos Campos fylkisstjóra, sem margir sjá fyrir sér sem næsta forseta landsins.

Stutt myndband: Prescott um áhrif skattalækkana

Hér er stutt myndband með mati Nóbelsverðlaunahafans Edwards Prescotts á áhrifum skattalækkana, en upptakan er frá fyrirlestri hans á Íslandi 2007:

 

 


Ef það kvakar eins og önd ...

Stefán Ólafsson harðneitar því, að hann sé sósíalisti. Ég get ekki svarað öðru en því, sem mælt er: Ef það kvakar eins og önd, vappar eins og önd, hefur fjaðrir og fit eins og önd og er í andahjörð, þá er það önd.

Stefán kvartar eins og sósíalisti, kveinar eins og sósíalisti, kveður eins og sósíalisti og tekur við verðlaunum fyrir að vera sósíalisti. Er þá ekki nærtækt, að hann sé sósíalisti?


Tveir með félagshyggjuverðlaun

Vorið 2007 tóku ungir jafnaðarmenn upp á því að veita sérstök félagshyggjuverðlaun. Og verðlaunahafarnir voru ekki af lakara taginu. Þeir voru tveir samkennarar mínir í Háskóla Íslands, prófessorarnir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason. Getur enginn efast um, að þeir voru afar vel að verðlaununum komnir.

Svo vill líka til, að tvö mjög skemmtileg myndbönd eru til á Youtube með þessum verðlaunahöfum ungra jafnaðarmanna. Annað er af Þorvaldi Gylfasyni að tala í nafni íslenskrar alþýðu og hefur vakið athygli síðustu daga: Hitt er af Stefáni Ólafssyni að ræða við Milton Friedman: 

 

Ég hef engu við að bæta. Þessir tveir prófessorar hafa dýpkað skilning okkar á því, hvað félagshyggja eða sósíalismi sé.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband