Rangfeðruð skammaskrif

Íslendingar hafa löngum skrifað skammir hver um annan og oft nafnlaust, en lesendur hafa þá reynt að geta sér til um höfunda, og hefur það gengið misjafnlega. Frægt er til dæmis, þegar Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur kom til Íslands rétt fyrir stríð eftir margra ára nám og drykkju í Kaupmannahöfn og hóf hvatvísleg skrif í sósíalistablaðið Þjóðviljann. Framsóknarmönnum líkuðu þau illa, og 29. september 1942 birtist nafnlaus klausa í málgagni þeirra, Tímanum: „Til þess að svala reiði sinni hefir Þjóðviljinn fengið glerbrot eitt, sem lengi var að flækjast á sorphaugum borgarinnar við Eyrarsund, til að skrifa níðklausu í dálka sína um Hermann Jónasson. Lætur glerbrotið allmikið yfir sér og þykist víst vera orðið eins og heil flaska.“ Líkingin af glerbrotinu og flöskunni þótti smellin, og töldu því margir, að hana hefði Jónas Jónsson frá Hriflu samið, en hann var maður meinfyndinn. Löngu seinna sagði Jónas þó Sverri, að hann hefði ekki samið þessa klausu, heldur Jón Eyþórsson veðurfræðingur, sem var eindreginn framsóknarmaðu.

Sjálfum var Sverri Kristjánssyni löngu síðar kennd svæsin skammagrein nafnlaus, sem birtist um Kristmann Guðmundsson rithöfund og kvennamann í Mánudagsblaðinu, 25. september 1961, en vitað var, að Sverrir skrifaði stundum í það blað og ekki alltaf undir nafni: „Annars segja fróðir menn, að Kristmann sé lítið karlmenni þrátt fyrir útlit sitt, sem er bolalegt, og er það haft eftir einni af konum hans. Þykjast sumir finna þar skýringuna á því, að honum hefur öllum Íslendingum verr haldist á konum. Þær hafa ýmist hlaupið eða flúið frá honum.“ Kristmann kvæntist sem kunnugt er níu sinnum. En ég hef traustar heimildir fyrir því, að Sverrir hafi ekki verið höfundur þessara dæmalausu skamma, þótt Kristmann héldi það sjálfur, heldur Einar Ásmundsson lögfræðingur, sem hafði um skeið verið ritstjóri Morgunblaðsins. Einar hafði gefið út ljóðabók, sem Kristmann hafði skrifað heldur ólofsamlegan ritdóm um, og vildi nú hefna sín.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. mars 2013.)


Árni Vilhjálmsson: Minningarorð

Eftirfarandi minningargrein birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2013:

Árni Vilhjálmsson bar ekki utan á sér, að hann var einn auðugasti útgerðarmaður landsins. Hann var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, með hvasst nef, örlítið lotinn í herðum, bláeygur, rjóður í vöngum og útitekinn eins og erfiðismaður, hógvær og kurteis, oftast með bros á vör og vildi bersýnilega forðast átök. En undir niðri var hann maður afar ákveðinn, jafnvel ráðríkur, ljóngáfaður og harðduglegur. Í honum sameinaðist á fágætan hátt fræðimaður og framkvæmdamaður.

Árni var eindreginn frjálshyggjumaður, og kynntist ég honum fyrst, þegar hann var formaður nefndar, sem Matthías Á. Mathiesen, þá fjármálaráðherra, skipaði 1977 til að skoða sölu ríkisfyrirtækja, en ungir sjálfstæðismenn höfðu þá undir forystu Friðriks Sophussonar markað sér stefnu undir kjörorðinu „Báknið burt“. Gerði Árni grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar í tímaritinu Frelsinu 1983. Ríkisstjórnin 1983–1987 framkvæmdi margar tillögur nefndarinnar. En Árni lét sér ekki nægja að skrifa um einkarekstur. Hann vildi skapa. Árið 1988 keyptu hann og viðskiptafélagi hans og vinur, Kristján Loftsson, mestallan hlut borgarinnar í útgerðarfélaginu Granda, en Davíð Oddsson, þá borgarstjóri, hafði haft forgöngu um stofnun þess 1985 upp úr Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem lengi hafði verið rekin með stórtapi. Eru allir nú sammála um, að þetta hafi verið hið mesta heillaráð.

Þegar ég sneri til Íslands haustið 1985 eftir nám í Oxford, hafði ég helst hug á því að kenna í viðskiptafræðideild. Árni var þar þá prófessor og deildarforseti og réð mig þangað í stundakennslu, sem ég sinnti um skeið mér til ánægju. Við héldum góðri vináttu, eftir að ég fluttist yfir í félagsvísindadeild. Árni fór vandlega yfir lítið rit, sem ég skrifaði vorið 1990 um skipulag fiskveiða, þar sem ég mælti eindregið með kerfi varanlegra og framseljanlegra aflakvóta. Fórum við eitt kvöldið eftir vinnu að handritinu á veitingastaðinn Café Óperu og héldum duglega upp á verkið. Árni kunni vel að gleðjast á góðri stund, þótt hann væri hófsmaður á vín. Einnig er mér minnisstæður kvöldverður með Árna og dr. Benjamín Eiríkssyni á veitingahúsinu Við Tjörnina, eftir að ég hafði gefið út ævisögu Benjamíns haustið 1996. Spurði Árni Benjamín spjörunum úr um ár hans í Harvard-háskóla, en þar hafði Árni einnig stundað nám. Rifjaði Benjamín líka upp margar skemmtilegar sögur af því, þegar hann var ráðgjafi ríkisstjórnar Íslands og bankastjóri Framkvæmdabankans, og var hlegið dátt.

Eftir að Árni sagði lausu prófessorsembætti sínu og sneri sér óskiptur að rekstri Granda, hittumst við ekki oft, en töluðum stundum saman í síma. Síðasti fundur okkar var á Hótel Borg vorið 2008, þar sem við drukkum saman kaffi með Kristjáni Loftssyni. Árni lét þá í ljós áhyggjur af hinum mikla kostnaði, sem hlaðist hafði á mig vegna málareksturs fyrir dómstólum í Reykjavík og á Bretlandi, og bauð fram myndarlega aðstoð, sem ég þáði með þökkum. Sýndi Árni það þá, sem ég vissi raunar fyrir, að hann var sannur höfðingi.


Kúgun, flekun og nauðgun

Á nítjándu öld hóf helmingur mannkyns, konur, upp raust sína og krafðist sömu stjórnmálaréttinda og karlar, og var þeirri sjálfsögðu kröfu misjafnlega tekið. Þó fengu þær liðsinni margra frjálslyndra karla, þar á meðal Johns Stuarts Mills, sem skrifaði Kúgun kvenna (The Subjection of Women) árið 1869, en hún var fyrst gefin út í íslenskri þýðingu Sigurðar Jónassonar frá Eyjólfsstöðum árið 1900. Bókin hafði talsverð áhrif hér á landi. Upp úr aldamótum voru Hannes Hafstein og Skúli Thoroddsen báðir stuðningsmenn jafnréttis, þótt andstæðingar væru í mörgu öðru. Eiginkona Skúla, Theodóra Thoroddsen, andvarpaði yfir hlutskipti sínu og annarra kvenna:

Mitt var starfið hér í heim
heita og kalda daga
að skeina krakka og kemba þeim
og keppast við að staga.

 En þótt konur fengju víðast jafnréttiskröfum sínum framgengt á öndverðri tuttugustu öld, horfðu sumar þeirra bitrar um öxl. „Konur hafa í allar þessar aldir þjónað eins og speglar sem eru gæddir þeim töfrandi og unaðslegu eiginleikum að stækka mynd karlmannsins um helming,“ skrifaði Virginia Woolf. Sumum konum fannst þrengt að sér með gömlum hugmyndum um verkaskiptingu kynjanna. „Við fæðumst ekki konur; við verðum konur,“ sagði Simone de Beauvoir. Gloria Steinem mælti háðslega: „Karlmannslaus kona er eins og fiskur án reiðhjóls.“ En þær, sem reiðastar voru körlum fyrir fornar misgerðir og lengst gengu, sögðu með Andreu Dworkin: „Erfitt er að greina flekun frá nauðgun. Þegar ætlunin er að fleka, hefur nauðgarinn fyrir því að kaupa vínflösku.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. mars 2013.)


Bókarheiti úr Biblíunni, og þó

Biblían er ekki aðeins merk í sjálfri sér, heldur líka vegna þess, hversu margt í vestrænni og þá um leið íslenskri menningu vísar í hana. Í þeim skilningi er hún þrungin menningarsögulegri merkingu, og væri mikill skaði að því að hætta að kenna kristin fræði í skólum. Þá væri ein rót þjóðarsálarinnar slitin upp, og megum við illa við því.

Mörg heiti erlendra bóka vísa beint í Biblíuna, en þeim hefur ekki alltaf verið komið til skila á íslensku, ýmist af vangá eða nauðsyn. Til dæmis heitir ein glæpasaga Agötu Christies á ensku Pale Horse. Það vísar vitaskuld í Opinberun Jóhannesar, 6, 8: „Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur; og sá er á honum sat, hann hét Dauði.“ En á íslensku var sögunni gefið nafnið Dularfulla kráin, og kom hún út 1965. Bleikur hestur hefði óneitanlega verið svipmeiri titill.

Önnur skáldsaga Christies heitir á ensku Evil under the Sun. Bókarheitið vísar í Prédikarann, þar sem kemur hvað eftir annað (5,12; 6, 1; 10, 5) fyrir orðalagið „Til er böl, sem ég hef séð undir sólinni“. Sagan birtist í íslenskri þýðingu 1983 undir heitinu Sólin var vitni. Er sú umritun skiljanleg: Böl undir sólinni hljómar illa.

Tvær af frægustu skáldsögum tuttugustu aldar bera einnig heiti úr Biblíunni, sem þó eru ekki heldur notuð í íslensku þýðingunum. Önnur er Markens Grøde eftir Knút Hamsun, sem kom út á frummálinu 1917. Orðin vísa í fimmtu bók Móse, 32, 13: „Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins og lét hann njóta ávaxtar akursins.“ Helgi Hjörvar sneri bókinni á íslensku og kallaði Gróður jarðar, sem er sennilega betri þýðing en Ávöxtur akursins.

Hin skáldsagan er Grapes of Wrath eftir John Steinbeck, sem kom fyrst út 1939, en í íslenskri þýðingu Stefáns Bjarmans í tveimur bindum 1943–1944. Það kom mér á óvart, er ég las eitt sinn, að þeir Stefán og Halldór Kiljan Laxness hefðu velt því saman fyrir sér, hvaðan bókartitillinn væri. Hann vísar beint í Spádómsbók Jesaja, 63,5, um engilinn frá Edóm, hefnandann, sem berst á efsta degi við hið illa: „Ég tróð þjóðirnar í reiði minni og marði þær sundur í heift minni og lét löginn úr þeim renna á jörðina.“ Í Opinberun Jóhannesar, 14, 19, segir enn fremur: „Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínvið jarðarinnar og kastaði honum í reiði-vínþröng Guðs hina miklu.“ Stefán Bjarman tók þann kost að kalla verkið Þrúgur reiðinnar, og lætur það dável í eyrum, enda erfitt í þessu tilviki að nota orðalagið úr Biblíunni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. febrúar 2013.)


Mynband um starfsemi RNH

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem lesa blogg mitt reglulega, að ég tek þátt í að skipuleggja starfsemi RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, en með mér í rannsóknarráði setursins sitja þeir Ragnar Árnason prófessor og Birgir Þór Runólfsson dósent. Mörg verkefni RNH eru unnin í samstarfi við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, en verndari þeirra samtaka var Margrét Thatcher, sem nú er nýlátin. Hér er myndband um samstarfsverkefni AECR og RNH síðustu fimmtán mánuði:

 


Alþýðuspeki um atvinnufrelsi

Þriðjudaginn 19. febrúar 2013 klukkan fimm hélt ég fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands og svaraði nokkrum bókum, sem miklir spekingar hafa skrifað gegn frjálshyggju og kapítalisma síðustu árin. En oft hafa raddir úr þjóðardjúpinu orðað frelsishugmyndirnar betur en fræðimennirnir. Til dæmis sagði Júlíus skóari, reykvískur smákapítalisti, í samtali við Matthías Johannessen: „Sjálfstæði er það að sækja það eitt til annarra, sem maður getur borgað fullu verði.“ Minnir þetta á söguna í Landnámu af Steinunni gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar. Ingólfur bauð að gefa henni Rosmhvalanes, „en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.“ Enn leiðir þetta hugann að Hávamálum: Viðurgefendur og endurgefendur erust lengst vinir.

Frjálshyggjumenn samgleðjast þeim, sem vegnar vel, og tortryggja ríkisvaldið. Loftur Bjarnason útgerðarmaður sagði: „Ég hef getað sofið, þó að öðrum hafi gengið vel.“ Og hið aldna, argentínska skáld Jorge Luis Borges gekk eitt sinn yfir Austurvöll í fylgd Matthíasar Johannessens. Þegar hann sá Alþingishúsið, spurði hann, hvaða hús þetta væri. Matthías sagði honum það. Þá gall í Borges: „Þetta er þá þinghúsið ykkar, þetta er þá allt og sumt! Þið getið andað hérna fyrir stjórnvöldum!“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. febrúar 2013, lítillega uppfærður.)


Nokkrar bækur, sem ég er að lesa

Síðustu vikur og mánuði hef ég þurft að fara í nokkrar langar ferðir, og þá er gott að taka með sér lesefni. Ég hef notað tækifærið til að lesa nokkrar bækur.

Ein er Why Capitalism? eftir Allan H. Meltzer, einn kunnasta hagfræðing Bandaríkjanna, fjörgamlan, en þó í fullu fjöri, nýkjörinn forseti Mont Pelerin-samtakanna, þar sem ég var í stjórn í sex ár (1998–2004). Þetta er stutt og skýr málsvörn kapítalismans, sem gerir fólki ekki aðeins kleift að brjótast úr fátækt í bjargálnir, heldur leyfir líka innan sinna vébanda fjölbreytni í leitinni að þroska. Ég keypti þessa bók í búð, þegar ég átti á dögunum leið um mína gömlu alma mater, Oxford.

Önnu er ljóðabók Stefáns Snævarrs, Bók bókanna, bækur ljóðanna, sem hann sendi mér með afmæliskveðju, en ég varð sextugur 19. febrúar síðast liðinn. Stefán hefur góða skáldgáfu. Bók hans er full af skemmtilegum hugdettum og líkingum, en ég hefði sjálfur fært þær í bundið mál, hefði ég verið höfundur. Ef til vill sýnir það aðeins, að ég sé of forn í skapi. En er ekki eitthvað til í því hjá Halldóri Laxness, að ljóð verði að vera þess eðlis, að þau megi syngja?

Þriðja bókin er stutt ævisaga Margrétar vinkonu minnar Thatchers eftir Clare Beckett. Bókin er fremur fjandsamleg Thatcher, sem getur verið kostur eins og galli. Horfa þarf á þann mikla stjórnmálamann frá mörgum hliðum.

Fjórða bókin er sjálfsævisaga Williams Rees-Moggs, sem var lengi ritstjóri Lundúnablaðsins Times og ötull stuðningsmaður Thatchers. Hún gefur góða mynd af fjölmenntuðum breskum yfirstéttarmanni og því lífi, sem hann lifði.

Fimmta bókin er á portúgölsku. A tradição anglo-americana da liberdade, engilsaxneska stjórnmálahefðin, eftir João Carlos Espada, portúgalskan prófessor, sem skrifaði doktorsritgerð um þetta efni í Oxford-háskóla. Ég kynntist Espada á ráðstefnum þeim tveimur, sem ég sótti nýlega í Petrópolis og Porto Alegre í Brasilíu. Hann ætlar að koma til Íslands og flytja fyrirlestur um þetta efni á málþingi, sem er í undirbúningi um Margréti Thatcher. Þetta er fróðleg bók, þótt ég verði að játa, að fátt í henni kom mér á óvart. Ég kynntist vel þessari stjórnmálahefð á námsárum mínum í Bretlandi. Höfundur var svo elskulegur að senda mér hana.

Annar höfundur var líka svo elskulegur að senda mér bók eftir sig. Hann var prófessor Øystein Sørensen í Oslóarháskóla, sem kom hingað og flutti tvo fyrirlestra á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt haustið 2012, en Sørensen er einn virtasti sagnfræðingur Noregs. Bókin heitir „Fra Marx til Quisling“ og er um fimm kommúnista, sem gerðust nasistar. Ég kannaðist við nokkra þeirra úr rannsóknum mínum á sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar, en einn þessara manna, Haakon Meyer, sat þing Alþjóðasambands kommúnista í Moskvu 1922, og er til ljósmynd af honum með öðrum Norðurlandabúum á þinginu, þar á meðal Ólafi Friðrikssyni, og birtist sú mynd í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Á þeirri mynd er líka Nils Flyg, sem var þá kommúnisti, en stofnaði upp úr 1930 fasistaflokk í Svíþjóð, sem gerðist hliðhollur þýskum nasistum.

Ég keypti síðan og las á Kindle bókina Bloodlands eftir prófessor Timothy Snyder, en þar er sögð hin hroðalega saga svæðisins á milli Þýskalands og Rússlands í kreppunni og seinni heimsstyrjöld, allt frá Úkraínu til Vestur-Póllands. Fyrst murkaði Stalín lífið úr milljónum bænda í Úkraínu. Síðan drap Hitler milljónir Gyðinga í Póllandi og marga aðra, — fyrir það, sem þeir voru, ekki fyrir það, sem þeir gerðu. Saman útrýmdi þeir Stalín og Hitler öllum frammámönnum Póllands, sem þeir náðu til, því að þeir vildu ekki, að neinn annar réði þar í landi. Allt mótlæti Íslendinga bliknar í samanburði við það, sem sumar aðrar þjóðir hafa orðið að þola.


Silfrið: Myndband komið á Youtube

Ég var í viðtali við Egil Helgason sunnudaginn 5. maí 2013 um efnið í fyrirlestri þeim, sem ég flutti á félagsvísindaráðstefnu á Bifröst föstudaginn 3. maí. Það var gaman að því, að Egill kunni á latínu tilvitnunina í rómverska leikskáldið Júvenalis, sem ég vék að: Quis custodiet ipsos custodes? Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum? Enn er til einhver klassísk menntun á Íslandi. Nú er viðtalið komið á Youtube:

 


30. apríl

Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn 30. apríl 1991. Þá um kvöldið hittumst við Davíð ásamt tveimur öðrum vinum okkar og konum þeirra þriggja og skáluðum. Það lýsir þó Davíð vel, að við skáluðum að hans tillögu fyrst fyrir Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra 1963–1970, en þetta var afmælisdagur hans. Hafði Davíð hagað svo málum í kyrrþey, að stjórnin var mynduð á þessum merkisdegi.

Í hönd fóru þrettán og hálft gott ár, til 15. september 2004. Þá var markaðskapítalismi á Íslandi, sem merkti, að hagkerfið var opnað, meðal annars með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, fyrirtæki ríkisins seld, atvinnufrelsi aukið, skattar lækkaðir, réttaröryggi einstaklinga aukið með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, lífeyrissjóðir efldir, traustum lagastoðum rennt undir sjávarútveg og fjárlagahalla eytt, jafnframt því sem biðstofa forsætisráðherra tæmdist (vegna þess að fyrirtæki þurftu að standa á eigin fótum, en gátu ekki vaðið í opinbera sjóði), verðbólga hjaðnaði vegna aðhalds í peningamálum og skatttekjur ríkisins jukust vegna góðærisins og þrátt fyrir skattalækkanirnar.

Eftir markaðskapítalismann, sem fylgt var frá því í apríl 1991 og fram í september 2004, tók hins vegar við á Íslandi klíkukapítalismi (sem Ayn Rand kallar „crony capitalism“), valdatíð fámennrar auðklíku með lystisnekkju í Mónakó-höfn og einkaþotu á fleygiferð milli Lundúna og Reykjavíkur, skrauthýsi á Manhattan og óskoruð yfirráð yfir stórmörkuðum, bönkum og fjölmiðlum. Þessi auðklíka átti sér fylgismenn, sem séð höfðu ofsjónum yfir markaðskapítalismanum árin á undan. Þegar höfuðpaurinn var ákærður fyrir efnahagsbrot eftir rækilega rannsókn (sem átti rætur að rekja til kæru frá fyrrverandi samstarfsmanni hans), skrifaði einn þessara fylgismanna, Þorvaldur Gylfason prófessor, í blað auðklíkunnar: „Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki?“ Stjórnmálamenn í Samfylkingunni stóðu líka í nánum tengslum við þessa auðklíku, en hirðskáld klíkunnar var Hallgrímur Helgason.

Auðklíkan tæmdi bankana, þótt hún tæki lánin á mörgum kennitölum, svo að áhættan virtist dreifðari en hún var í raun. Sennilega nefndi hún lystisnekkju sína og einkaþotu 101 vegna þess, að lánin voru á 100 kennitölum, þótt lántakandinn væri aðeins einn.  Vegna framferðis auðklíkunnar voru bankarnir því alls vanbúnir, þegar fjármálakreppan skall á. (Þess má geta, að faðir höfuðpaursins gerði sér ásamt dóttur sinni sérstaka ferð til háskólarektors 9. desember 2009 til að krefjast þess, að ég yrði rekinn úr starfi mínu hér í háskólanum fyrir andóf við auðklíkuna.)

Eftir að klíkukapítalismanum íslenska lauk með braki og brestum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, tók við dalakofasósíalismi þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Þá skyldi sama táfýlan vera af öllum, enginn ganga uppréttur og því síður skara fram úr. Skattar voru hækkaðir á þá, sem skapað geta verðmætin, erlendir fjárfestar fældir frá landinu með gjaldeyrishöftum, sem áttu samt aðeins að vera til bráðabirgða, virkjanir stöðvaðar, óvissa mynduð í sjávarútvegi, samið stórkostlega af sér í Icesave-deilunni, kropið fyrir hrokagikkjunum í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, greiddir háir vexti af óþörfu láni hjá sjóðnum, efnt til ólöglegs kjörs í stjórnlagaráð, milljarði sóað að nauðsynjalausu í stjórnarskrármálið, öðrum milljarði í aðlögunarferli fyrir aðild að Evrópusambandinu, sem ekkert verður úr, tveir viðskiptabankanna seldir erlendum vogunarsjóðum í ógagnsæju ferli og svo framvegis. Fýlan lak ekki aðeins af forsætisráðherranum, heldur bjó heift í huga hennar og liðsmanna hennar. Grið voru rofin. Veist var að fyrrverandi stjórnmálaandstæðingum, einn fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hrakinn úr Seðlabankanum og annar dreginn fyrir Landsdóm, og var hvort tveggja einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu.

Við eðlilegan markaðskapítalisma geta hvorki auðklíkur né valdaklíkur ráðið öllu um afkomu fólks og hlutskipti. Þar dreifast völdin. Þar eru þau í höndum neytenda og skattgreiðenda og fela því í sér frelsi til að velja og frelsi til að skapa. Þar er kjörorðið hvorki arðrán né ölmusa, heldur tækifæri — tækifæri vinnandi fólks til að bæta sinn hag.


Athugasemdir mínar við frétt Aftenposten

Ég skrifaði ritstjóra norska blaðsins Aftenposten athugasemd við frétt, sem birtist í netútgáfu blaðs hans 27. apríl. Nú hefur eitthvað af því, sem ég fann að, verið leiðrétt, en meginhluti fréttarinnar stendur enn, eins og sjá má hér. En athugasemdir mínar hljóðuðu svo (og skrifaði ég þær á ensku til almennari skírskotunar, en ekki á norsku):

There are several misleading or even wrong statements in the news item by Torbjørn Pedersen, NTB, on the Icelandic elections, published in Aftenposten 27 April 2013.

The Independence Party was not in power from 1980 to 2009. It was actually in government 1974–1978, 1983–1988 and 1991–2009, with coalition partners.

In the coalition government of the Independence Party and the Progressive Party in 1995–2007, the finance markets were not deregulated to any more extent than in other member-states of the European Economic Area, to which Norway belongs. The legal framework for the financial markets was precisely the same in Iceland as in other EEA countries.

Therefore, the common explanation for the collapse of the Icelandic banks, that there was too much deregulation in Iceland, is not plausible. The reason the banks collapsed was simply that they had grown rapidly, and the government and the central bank could not, on their own, keep them in operation during the international financial crisis, and there was no aid coming from abroad (while the US Fed, for example, helped the Danish and Swedish central banks at crucial moments in the crisis, thus saving Danske Bank and many other commercial banks). Moreover, the British made things worse by both forcibly closing the Icelandic-owned banks in London (unlike all other banks with offices, branches or affiliates in the United Kingdom) at the beginning of the crisis and by putting one of the banks, Landsbanki, on their list of terrorist organisations (and for a brief moment, also the Icelandic central bank and the Icelandic Ministry of Finance, and that for a country that does not even have a military force!)

There was perhaps one more reason for the collapse of the Icelandic banks: that risk was obscured by cross-ownership in the banks so that bank assets were overestimated. But the main factor was surely that in a financial crisis, a country with a large banking sector will suffer more than others.

For all these reasons, it is highly misleading to blame the two opposition parties, the Independence Party and the Progressive Party, for the 2008 bank collapse. It should perhaps also be pointed out that outgoing Prime Minister Johanna Sigurdardottir, leader of the Social Democrats, was a minister in the 2007–2009 government, and then a member of a special ministerial committee on government finances. It should also be pointed out that in 2007–2009 the minister of trade, bearing responsibility for the Financial Supervisory Agency, was from the ranks of the Social Democrats.

It is not true that there has been much economic growth in Iceland, after the 2008 collapse of the banks. In fact, the only economic growth there was, was from allowing owners of private pension accounts to take out their money. The left-wing government has raised taxes, discouraged investment, created uncertainty in the very important fisheries sector and imposed capital controls (which were supposed to be only temporary).

There has been, it is true, less unemployment in Iceland than in many other European countries. But this can be explained by the fact that the Icelanders have their own currency so that they could devaluate it in order to adjust wages to the current situation, whereas the euro countries did not have this option. It was indeed one of the campaign issues of the Social Democrats to adopt the euro which would presumable have brought about similar unemployment levels as those which can be observed in the euro area.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband