16.4.2013 | 19:14
Friedman svarar íslenskum sósíalista
Það má síðan botna söguna með því, að við komum Friedman á óvart með því að greiða honum 5 þúsund dali fyrir fyrirlesturinn, en hann hafði ekki ætlað að taka neitt fyrir hann (þótt hann væri eftirsóttur fyrirlesari um allan heim). Smávegis afgangur varð, sem við skipuleggjendurnir notuðum til að kaupa litla tölvu, fyrsta, litla Mac-ann, til að auðvelda skipulagningu slíkra viðburða síðar meir, og fékk ég að nota hana til að semja á doktorsritgerð mína í Oxford-háskóla veturinn 19841985. Hafði Friedman sagt mér, að sjálfur hefði hann ekki mikið vit á tölvum, en David, sonur sinn, mælti eindregið með Mac-anum.
15.4.2013 | 11:57
Stutt myndband: Friedman á Íslandi skilgreinir frjálshyggju
Fáir hafa skilgreint frjálshyggju skilmerkilegar en Milton Friedman í svari við spurningu Boga Ágústssonar í Sjónvarpinu 31. ágúst 1984. Heimsókn Friedmans til Íslands markaði tímamót, en hann sýndi hér eins og annars staðar, að hann átti fáa sína jafnoka í rökræðum. Hér er stutt myndband með skilgreiningunni:
14.4.2013 | 21:59
Stutt myndband: Laffer á Íslandi að tala um fátækt
14.4.2013 | 14:04
Nýtt myndband: Frelsið skapar hagsæld!
13.4.2013 | 18:59
Uppgjör mitt á Youtube
13.4.2013 | 13:48
Boðskapurinn sem Ríkisútvarpið hefur ekki áhuga á
Booth sagði, að kreppuna megi að sumu leyti rekja til mistækra ríkisafskipta (undirmálslána í Bandaríkjunum og lágvaxtastefnu Seðlabankans), en að sumu leyti til óhóflegrar kerfisáhættu, sem ekki hafi verið séð nægilega vel við.
Athygli Ríkisútvarpsins var vakin á því, að prófessor Booth væri væntanlegur til landsins til að kynna sjónarhorn, sem varla hefur heyrst í Silfri Egils, Speglinum og í fréttum Sjónvarpsins. Haft var samband við umsjónarmenn Silfurs Egils, Spegilsins og frétta Sjónvarpsins. Engu var svarað, og ekkert var sagt frá fyrirlestrinum í Ríkisútvarpinu, hvergi, ekki í Silfri Egils, ekki í Speglinum, ekki í fréttum útvarps eða sjónvarps.
Til samanburðar má nefna, að sjónvarpið mætti og sagði frá fyrirlestri, sem finnskur embættismaður, Sixten Korkman, hélt á vegum Hagfræðideildar Háskóla Íslands og Evrópustofu, upplýsingamiðstöðvar Evrópusambandsins á Íslandi, 18. febrúar. Mælti hann þar með evru, eins og flestir viðmælendur Ríkisútvarpsins frá útlöndum hafa gert síðustu fjögur ár. Einnig mætti sjónvarpið og sagði frá fyrirlestri, sem bandarískur stjórnmálafræðiprófessor, Peter J. Katzenstein, hélt á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, 13. mars 2013. Var hann um hina alþjóðlegu fjármálakreppu, en Katzenstein sagði um hana hið sama og flestir aðrir viðmælendur Ríkisútvarpsins síðustu fjögur ár, að hún væri kapítalismanum að kenna.
Ekki þarf að minna á, að þeir, sem gefið hafa út bækur gegn frjálshyggju og kapítalisma síðustu árin, til dæmis Stefán Snævarr og Ja-Hoon Chang, hafa umsvifalaust fengið að láta ljós sitt skína í Silfri Egils og öðrum þáttum Ríkisútvarpsins. Ekki á við því að amast. Það var sjálfsagt. En á sjónarhorn Booths ekkert erindi í Ríkisútvarpið líka? Er reglan sú, að við eigum öll að greiða, en aðeins sum að njóta?
Fyrirlestur Booths er nú hins vegar kominn á Youtube. Hér geta menn hlustað á sjónarmið, sem úthýst er í Ríkisútvarpinu.
12.4.2013 | 01:51
Orsakir fjármálakreppunnar? Svör sérfræðings
Í fyrirlestri á vegum Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og RNH í Háskóla Íslands 13. mars 2013 ræddi prófessor Philip Booth frá Cass Business School og Institute of Economic Affairs í Lundúnum um hinar raunverulegu orsakir fjármálakreppunnar. Hann sagði, að oft væri kapítalismanum kennt um kreppuna og sérstaklega nefnd í því sambandi ágirnd bankamanna. Orsakirnar væru hins vegar fleiri og flóknari. Nefndi Booth undirmálslánin í Bandaríkjunum, þar sem bönkum var beinlínis skipað að lána til fólks úr minnihlutahópum, sem aldrei hefði sýnt fram að getu sína til að endurgreiða lán; sumt af því hefði hvorki átt skráðar eignir né verið í reglulegri vinnu. Einnig benti Booth á vaxtastefnu bandaríska seðlabankans frá 2001, sem stafað hefði af ástæðulausum ótta við afleiðingar samdráttarins á netmarkaðnum. Um allan heim hefði verið gnótt ódýrs lánsfjárs, og því hefði orðið lánsfjárbóla, sem síðan hefði sprungið.
Booth taldi tvær aðalorsakir lánsfjárkreppunnar kerfislægar. Í fyrsta lagi byggju bankamenn við freistnivanda. Þeir hirtu gróðann, þegar vel gengi, en kæmu tapinu af sér yfir á skattgreiðendur, þegar illa gengi. Þeir freistuðust því til að taka meiri áhættu en hóflegt gæti talist. Þeir væru ekki einu sinni látnir greiða sérstakt gjald fyrir þá tryggingu, sem ríkið veitti í raun á innstæðum almennings. Í öðru lagi hefðu alþjóðlegir staðlar um eigið fé banka og áhættumat, sem kenndir eru við Basel, í raun aukið á áhættu frekar en dreift henni og minnkað: Til hefðu orðið margir sams konar bankar, og ef einhver galli kæmi í ljós innan þeirra, næði sá galli til alls kerfisins. Eðlilegra væri, að bankar væru margir og ólíkir og kepptu um hylli viðskiptavina sinna, en þegar einhverjum banka gengi illa, ætti hann að fara í eðlilega slitameðferð án þess að draga alla aðra banka með sér í fallinu. Booth taldi brýnasta verkefnið framundan að finna leikreglur á fjármálamarkaði, sem auðvelduðu vel reknum bönkum að standa og illa reknum bönkum að falla, án þess að um yrði að ræða keðjuverkun. Hann taldi skynsamlegt að raða kröfum innstæðueigenda framar en annarra kröfuhafa á banka, því að það kynni að hemja eitthvað áhættusækni þeirra, sem legðu hlutafé eða lánsfé til banka. Hins vegar hefði ólík skattaleg meðferð skulda banka og eigna valdið óhóflegri skuldasöfnun þeirra. Þeir hefðu frekar fjármagnað sig með lánsfé en hlutafé.
Booth taldi ekki hyggilegt að bregðast við kreppunni með því að auka eftirlit eða fjölga reglum á fjármálamarkaði. Því mætti aldrei gleyma, sem almannavalsfræðingar brýndu fyrir fólki, að starfsmenn eftirlitsstofnana hefðu sjaldnast betri upplýsingar eða göfugri hvatir en aðrir. Slíkir starfsmenn hefðu tilhneigingu til að fara mjög varlega, þegar vel gengi, en látast ekki taka eftir því, þegar illa gengi, í von um, að þá myndi vandinn hverfa. Hvort tveggja væri óhagkvæmt.
Fyrirlestur Booths var vel sóttur, og urðu fjörugar umræður að honum loknum. Skafti Harðarson spurði, hvort seðlabankar ættu í raun að vera lánveitendur viðskiptabanka til þrautavara. Booth viðurkenndi, að það væri ein undirrót vandans. Hann væri hins vegar hrifinn af þeirri hugmynd að veita bönkum frelsi til þess að velja um það, hvort þeir færu eftir reglum seðlabanka, sem þá yrði um leið þrautavaralánveitandi þeirra, eða hvort þeir væru með öllu óháðir seðlabankanum, en þá tæki hann enga ábyrgð heldur á þeim, beina eða óbeina. Stefán Ólafsson spurði, hvort Booth drægi þá ályktun af rannsóknum Carmens Reinharts og Kenneths Rogoffs, að losaralegri reglur á alþjóðlegum fjármálamarkaði væru aðalorsök fjármálakreppunnar. Booth minnti þá á það sjónarmið, að starfsmenn eftirlitsstofnana hefðu ekki betri upplýsingar um almannahag eða augljósari hagsmuni af því að vinna að honum en aðrir. Allur gangur væri á því, hvort fjármálamarkaður yrði óstöðugur við losaralegar reglur. Til dæmis hefðu afar fáar reglur gilt um breska fjármálamarkaðinn á þriðja fjórðungi tuttugustu aldar, en samt hefði hann verið stöðugur.
Boðskapur Booths vakti mikla athygli. Morgunblaðið sagði frá honum 14. mars. Hið sama gerði Viðskiptablaðið, og birtist þar einnig leiðari, þar sem tekið var undir sjónarmið Booths. Einnig ræddi Vefsjónvarp Viðskiptablaðsins við Booth sama dag.
11.4.2013 | 14:02
Erindi mitt um Brasilíu
10.4.2013 | 17:21
Viðtalið komið á Netið!
Nú er sjónvarpsviðtal Björns Bjarnasonar við mig á ÍNN 27. febrúar 2013 komið á Netið, og má horfa á það hér. Í fyrri hluta viðtalsins ræddum við um stjórnmálaviðhorfið, en í síðari hlutanum snerum við okkur að efninu í fyrirlestri mínum 19. febrúar 2013 um frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalismann. Þar svaraði ég fimm bókum, sem komið hafa út síðustu ár gegn frjálshyggju og kapítalisma, eftir Stefán Snævarr, Stefán Ólafsson og fleiri, Einar Má Guðmundsson, Einar Má Jónsson og Ha-Joon Chang.
Einnig vek ég athygli á því, að vikublaðið Séð og heyrt birti fyrir skömmu viðtal við mig ásamt tveimur opnum af myndum, meðal annars myndum úr þrítugsafmæli mínu, fertugsafmæli, fimmtugsafmæli og sextugsafmæli. Er gaman að skoða, hvernig vinir og vandamenn hafa breyst eða ekki breyst með árunum. En alltaf sjást þar sömu andlitin, sem betur fer, auk þess sem aðrir bætast í vinahópinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook
7.4.2013 | 11:29
Hvar voru þeir, þegar Elín var rekin?
Nú er mikið fjaðrafok vegna þess, að Steinunn Stefánsdóttir er að hætta störfum á Fréttablaðinu, þótt það virðist raunar hafa verið í sátt við yfirmenn 365-miðla. En hvar voru allir gagnrýnendurnir, þegar Elín Hirst var rekin fyrirvaralaust af Ríkisútvarpinu? Þegar Óðinn Jónsson fréttastjóri kom til hennar í sminkherberginu og sagði, að hennar nærveru væri ekki lengur óskað?
Látið var svo heita, að Elín væri rekin af sparnaðarástæðum. Bent var á það til staðfestingar á þessu, að stjúpsonur Jóhönnu Sigurðardóttur, Gunnar Hrafn Jónsson, var rekinn um leið. En það er einn munur á: Gunnar Hrafn vinnur enn á Ríkisútvarpinu.