Stórfelld vanræksla stjórnvalda

Stjórnvöld hafa nú kynnt svör sín við athugasemdum ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, í Icesave-málinu. Hafa þau sem betur fer fengið nokkra snjalla lögfræðinga til þess að aðstoða sig við svörin, svo að þau eru vel samin og rökstudd.

En eins og Sigurður Kári Kristjánsson benti á í Morgunblaðinu miðvikudaginn 4. maí 2011 hafa stjórnvöld horft fram hjá einu. Forseti ESA, Norðmaðurinn Per Sanderud, hefur gefið mjög heimskulegar og fljótfærnislegar yfirlýsingar um málið, sem fjandsamlegar eru Íslendingum. Hann hefur jafnvel leyft sér að segja EFTA-dómstólnum fyrir verkum með því að telja víst, að hann úrskurðaði Íslendingum í óhag.

Þótt forstöðumaður hins norska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, Arne Hyttnes, taki sérstaklega fram, að á þeim sjóði sé ekki ríkisábyrgð (en um hið sama stendur einmitt deila Íslendinga við Breta og Hollendinga), vilja norsk stjórnvöld alls ekki styggja hin bresku, enda eru Bretar ein mikilvægasta viðskiptaþjóð Norðmanna. Norsk stjórnvöld eru bersýnilega ekki í neinum vandræðum með að taka stærri hagsmuni fram yfir minni, fórna frændum fyrir viðskiptavini. Sanderud þessi tekur mið af því.

Á meðan Sanderud hefur aðkomu að Icesave-málinu, fær það ekki réttláta meðferð í ESA.

Þessi maður er algerlega vanhæfur til að fara með málið. Íslensk stjórnvöld hefðu átt að krefjast þess, að hann viki sæti í þessu mikla hagsmunamáli Íslendinga. Hann á þar hvergi að koma nærri. Ég skil ekki fremur en Sigurður Kári, hvers vegna íslensk stjórnvöld sætta sig við aðkomu Sanderuds að málinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband