Með Dodda kúlu á Hótel Borg

Einn þeirra manna, sem sátu iðulega að kaffidrykkju með Tómasi skáldi Guðmundssyni á Hótel Borg um og eftir miðja tuttugustu öld, var Doddi kúla, sem svo var kallaður, Þórður Albertsson, bróðir Kristjáns bókmenntaskýranda. Hann var uppi 1899–1972 og starfaði aðallega að fisksölu erlendis.

Eitt sinn spurði Doddi kúla skáldið og var þá nýkominn til landsins: „Yrkir þú alltaf jafnvel, Tómas minn?“ Tómas svaraði: „Já, og því betur sem fleiri fást við ljóðasmíðar.“

Í annað sinn sagði Doddi: „Það sagði nú annað skáld, Tómas minn, að kona með fortíð ætti sér enga framtíð.“ Tómas svaraði þá með hægð: „En þeir, sem slíkri konu kynnast, hljóta að gera sér vonir um, að sagan endurtaki sig.“ Lesendur vita, að skáldið, sem vitnað var til, var Oscar Wilde.

Hina alkunnu vísu, sem kennd er Marteini Lúther, bar eitt sinn á góma:

Sá, sem aldrei elskar vín,

óð né fagran svanna,

hann er alla ævi sín

andstyggð góðra manna.

Doddi kúla kvað þá að orði: „Tómas, ég er viss um, að þú yrðir ekki í neinum vandræðum með að þrauka án söngs, en hvað myndirðu gera, ef þú þyrftir að velja á milli víns og kvenna?“ Tómas læddi þá svari út úr sér: „Ég hygg, að um hvort tveggja færi það nokkuð eftir árgöngum.“

Við annað tækifæri hreyfði Doddi kúla mikilvægu úrlausnarefni: „Tómas, hvort finnst þér betra hvítvín eða brennivín?“ Tómas var snöggur til svars: „Mér finnst satt að segja svo gaman að rannsaka það mál, Doddi minn, að ég hef hvað eftir annað frestað að skera úr því.“

Enn spurði Doddi kúla: „Tómas, ef það kviknaði í húsinu þínu og þú mættir bara bera út einn hlut, hvað myndirðu þá taka?“ Skáldið þurfti ekki að hugsa sig lengi um: „Eldinn.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 25. júní og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)


Spuninn um Seðlabankann

Ótrúlegt er að sjá enn sama spunann frá sömu spekingunum, sem allt þykjast vita og ekkert kunna. Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem þeir sáu það fyrir. Hvers vegna tapaði Seðlabankinn miklu fé fyrir og í hruninu? Til þess voru aðallega tvær ástæður:

Kröfur frá Seðlabankanum á viðskiptabankana voru með neyðarlögunum haustið 2008 settar aftar en kröfur innstæðueigenda. Með þessari aðgerð voru auðvitað eignir bankans felldar stórlega í verði.

Bankarnir ofmátu eignir sínar á móti skuldum, veðhæfi bréfa sinna, og skal hér látið liggja milli hluta, hvort því olli óhófleg bjartsýni eða eitthvað annað. Það var hins vegar skylda Seðlabankans að reyna til þrautar að halda þeim gangandi.

Rannsóknarnefnd Alþingis leitaði á sínum tíma logandi ljósi að einhverju misjöfnu um Seðlabankann og fann ekkert nema hlægileg aukaatriði. Halda menn, að hún hefði ekki gert það að neinu máli, hefði Seðlabankinn gert sig sekan um stórkostleg glöp?

Hvers vegna tala spekingarnir ekki um þá Má Guðmundsson og Jón Steinsson, sem báðir vildu ganga miklu lengra en gert var til að halda bönkunum gangandi?


Ótrúlegra en orðum taki

Á leið um Eymundsson á dögunum keypti ég pappírskilju, Mao’s Great Famine, eftir Frank Dikötter, sem er prófessor í nútímasögu Kína við Lundúnaháskóla og prófessor í hugvísindum við Háskólann í Hong Kong.

Þetta er ótrúleg lesning. Mörg mikilvægustu skjalasöfn í Kína eru lokuð öðrum en sérvöldum fræðimönnum flokksins. En sum héraðsskjalasöfn eru opin venjulegum fræðimönnum, og þar eru stundum fyrir tilviljun geymd afrit af trúnaðarupplýsingum og strangleynilegum skýrslum, sem fóru á milli helstu forystumanna kommúnistaflokks Kína.

Með rannsóknum í mörgum slíkum héraðsskjalasöfnum, samtölum við fólk um fyrri tíð og ýmsum öðrum gögnum hefur prófessor Dikötter tekist að setja saman heillega, en um leið hroðalega mynd af hinu „Stóra stökki fram á við“, sem Kínverjar tóku undir leiðsögn Maós formanns og hófst árið 1958.

Á einni svipstundu átti að gera Kína að voldugu landbúnaðar- og iðnríki, sem fullfært yrði um að taka forystuna í fylkingu sósíalistaríkja úr höndum Kremlverja. Breyta átti bændum og verkamönnum landsins í sigursælan her, sem einbeitti sér að því að auka framleiðsluna og þramma þannig inn í sæluríkið.

Þetta mistókst hrapallega. Þetta var heljarstökk út í ófæru. Afleiðingin varð mesta hungursneyð, sem riðið hefur yfir mannkyn, frá því að sögur hófust. Dikötter telur, að um 45 milljónir manna hafi týnt lífi vegna „Stóra stökksins fram á við“. Þessi niðurstaða hans er svipuð og kínversks fræðimanns að nafni Chen Yizi, sem fékk um skeið aðgang að hinu lokaða skjalasafni kommúnistaflokksins í Beijing, en flýði frá Kína eftir fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar sumarið 1989. Fáir Vesturlandamenn trúðu í fyrstu Chen Yizi. Þeir héldu, að hann væri að ýkja.

Dikötter þylur þó ekki aðeins tölur í bók sinni, heldur kann ótal sögur af venjulegu fólki og örlögum þess við óblíðar aðstæður. Valdhafarnir voru miskunnarlausir ruddar, hertir í áratuga stríði. Mannslífið var þeim einskis virði. Þó urðu afleiðingarnar af „Stóra stökkinu fram á við“ svo óskaplegar, að í kommúnistaflokknum var Maó borinn ráðum árið 1962. Strax og bændur fengu að erja jörð sína í sæmilegum friði frá stjórnvöldum, jókst matvælaframleiðsla og hungursneyðinni linnti.

Maó sætti sig við þetta um tíma, sagði fátt, en hugsaði margt. Hann hefndi sín í Menningarbyltingunni frá 1966, sem var gagnsókn hans og helstu fylgismanna hans í kommúnistaflokknum gegn hinum hófsamari mönnum.

Bók Dikötters er læsileg og afar fróðleg. Kínverski rithöfundurinn Jung Chang, sem samdi Villta svani og síðan fræga ævisögu Maós ásamt eiginmanni sínum og var gestur á bókmenntahátíð hér um árið, lýkur sérstöku lofsorði á þetta rit. Í henni fær nafnlaus og hljóður skari fórnarlambanna skyndilega rödd.

Þó blasir við, að enn er mikið verk óunnið í lokuðum, kínverskum skjalasöfnum. Þar hef ég tillögu.

geir_sigurdsson.jpgGeir Sigurðsson, sem kennir nú kínversk fræði í Háskóla Íslands, hefur skrifað margt gegn þeim, sem gagnrýna kommúnistastjórnina í Kína, til dæmis Jung Chang. Geir hefur þannig gert sitt til að vera í náðinni hjá þessari stjórn. Ætti hann ekki að reyna að fá aðgang að þeim skjalasöfnum í Beijing, sem öðrum fræðimönnum eru lokuð, af því að kommúnistaflokkurinn treystir þeim ekki? Þannig gæti Háskólinn gert kínverskum fræðum mikið gagn, ekki síst ef Geir leyfir fórnarlömbunum líka að tala, en ekki aðeins böðlum þeirra.


Lauslegar þýðingar

Sænska skáldið Esaias Tegnér sagði: Snjallar þýðingar eru, líkt og fallegar eiginkonur, ekki alltaf hinar trúustu.

Sumt verður að þýða með því að víkja frá frumtextanum. Eitt dæmi er í leikriti enska skáldsins Toms Stoppards, Night and Day, sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir mörgum árum. Þar er eftirfarandi samtal einræðisherra í Afríku og ensks blaðamanns:

[Mageeba:] Do you know what I mean by a relatively free press, Mr Wagner?

[Wagner:] Not exactly, Sir, no.

[Mageeba:] I mean a free press which is edited by one of my relatives.

Þetta missir marks, ef það er þýtt bókstaflega, eins og gert var í íslensku uppfærslunni. Davíð Oddsson stakk upp á annarri þýðingu við mig:

[Mageeba:] Veistu, Wagner, hvað ég á við með því, að frjáls blöð geri skyldu sína?

[Wagner:] Nei, herra minn, það veit ég ekki.

[Mageeba:] Ég á við það, að eitthvert skyld­­menni mitt ritstýri þeim.

Með þessari þýðingu næst merkingin án þess að fórna orðaleiknum.

Annað dæmi er áletrun á latínu yfir dyrum þinghúss aðalsmanna í Stokkhólmi, Riddarhuset: „Arte et marte.“ Orðrétt merkir hún: „Með lagni eða vopnavaldi.“ En eðlilegast væri að segja á íslensku: „Með blíðu eða stríðu.“

Í því sambandi detta mér í hug tvö vígorð róttæklingahreyfinganna í Bandaríkjunum um og eftir 1968. Annað var: „Black is beautiful.“ Því mætti snúa: „Svart er smart.“ Hitt var: „Make love, not War.“ Þá mætti segja: „Betra að ríða en stríða.“ Með þessu eru orðin þýdd á götumál frekar en klassíska íslensku, en ef til vill á það vel við um mótmælendur á götum úti.

Sennilega er þó einn enskur orðaleikur úr heimspeki með öllu óþýðanlegur á íslensku: „What is mind? No matter. What is matter: Never mind.“ Ef lesendur hafa tillögur, þá eru þær vel þegnar.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgublaðinu 11. júní og er sóttur á ýmsa staði í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út 2010 og hentar afar vel til tækifærisgjafa, til dæmis við útskriftir, fermingar og afmæli.)


Stjórnmálaskoðun Jóns Sigurðssonar

Í dag er tvö hundruð ára afmæli Jóns Sigurðssonar og eitt hundrað ára afmæli Háskóla Íslands. Menn tala spaklega um það, að aðrir megi ekki eigna sér Jón í deilumálum okkar daga, til dæmis um Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið.

1079.jpgÞegar Jónas Jónsson frá Hriflu gerði sér títt um Einar Benediktsson nýlátinn, sögðu þeir Halldór Kiljan Laxness og Steinn Steinarr, að hér væri sú nýlunda á ferð, að lifandi draugur eltist við látinn mann. Í þessari fyndni þeirra var sannleikskorn. Við getum ekki ætlast til þess, að Jón Sigurðsson hafi skoðun á deilumálum okkar daga.

En Jón Sigurðsson hafði stjórnmálaskoðun, og hún kom mjög vel fram í ritum hans og er auðflokkanleg. Hann var klassískur frjálshyggjumaður með íhaldssömu ívafi. Hann bjó mestallan sinn aldur í Kaupmannahöfn, og hann taldi eins og margir aðrir frjálslyndir menntamenn á meginlandi Evrópu, að við ættum að horfa til Breta, sem höfðu í langri þróun sett ríkisvaldinu takmörk og tryggt réttindi einstaklinga.

Tveir helstu stjórnmálahugsuðir Breta höfðu sett fram þær hugmyndir, sem klassísk frjálshyggja hvílir á. John Locke vissi, að mennirnir eru misjafnir, ekki síst valdsmennirnir, og vildi því binda hendur þeirra, dreifa valdinu, mynda mótvægi við ríkisvaldinu. Adam Smith lýsti því hins vegar, hvernig sjálfsprottin samvinna getur í krafti frjálsra viðskipta leyst af hólmi valdbeitingu og kúgun eins manns á öðrum og stuðlað um leið að hagsæld.

Jón Sigurðsson stóð á þrítugu, þegar hann birti greinina „Um Alþing á Íslandi“ 1841, þar sem hann sagði:

Frelsi manna á ekki að vera bundið nema þar, sem öllu félaginu (þjóðinni) mætti verða skaði, að það gengi fram.

Ári síðar skrifaði Jón í Ný félagsrit:

Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg.

Og í þriðja árgangi Nýrra félagsrita 1843 sagði Jón:

Þar er grundvölluð á framför og velgengni mannkynsins, að hver býti öðrum gæðum þeim, sem hann hefir, og allir styðji eftir megni hver annan. … Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.

Í ritgerðinni „Um félagsskap og samtök“ 1844 benti Jón á góða reynslu af einstaklingsframtaki á Bretlandi, og  mörgum árum síðar, 1860, skrifaði hann:

Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til almennra heilla.

Jón sá glögglega, að verkefnið í stjórnmálum er ekki að fylkja öllum saman um eina stefnu og láta þá síðan þramma í þá átt, heldur að leyfa sjálfstæðum einstaklingum að velja sér markmið og reyna síðan að tryggja eðlilegt samstarf þeirra innan marka laga og almenns velsæmis.

Í bréfi til bróður síns 1866 skrifaði Jón:

Frelsið er ekki í því að lifa einn sér og eiga ekki viðskipti við neinn. Ég efast um, að Símon Stylites eða Díógenes hafi verið frjálsari en hver önnur óbundin manneskja. Frelsið kemur að vísu mest hjá manni sjálfum, en ekkert frelsi, sem snertir mannfélagið, kemur fram nema í viðskiptum, og þau eru því nauðsynleg til frelsis.

Fræg er síðan frásögnin af því frá 1875, þegar kom fram heilbrigð íhaldssemi Jóns Sigurðssonar og virðing fyrir óskráðum reglum og venjum, sem setja okkur skorður og skilyrði, eins og vera ber. Gestur Pálsson hafði ort kvæði um, að Jón væri kappi, sem þekkti engin bönd. Jón „kastaði eindregið frá sér þeim ummælum, að hann hefði aldrei bönd þekkt, að þola stjórn og bönd væri eitt af skilyrðunum fyrir því að geta orðið nýtur maður“. Jón hélt áfram og sagði lærisveinum sínum, að „bönd væru jafnnauðsynleg inn á við sem út á við, jafnnauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn“.

Í Gísla sögu Súrssonar sagði, þegar vandræði hófust, illmæli, mannvíg og hefndir, að öll vötn rynnu til Dýrafjarðar. En af Jóni Sigurðssyni má svo margt læra, að í nánustu framtíð renna vonandi öll vötn til Arnarfjarðar.

 


Goðið sem brást

bilde_1091561.jpgGuðmundur Andri Thorsson er mér reiður, eins og sést af síðasta pistli hans í blaði þeirra Baugsfeðga. Hann er enn reiðari Einari Má Guðmundssyni, sem gerði snyrtilega upp við alla Baugspennana í lítilli bók á dögunum, Bankastræti 0.

Reiðastur er þó Guðmundur Andri sjálfum sér. Fyrir hrun var hann átrúnaðargoð margra bókhneigðra manna, sem litu upp til hans, töldu hann vaxandi höfund. En goðið brást. Guðmundur Andri fylgdi Baugsfeðgum að málum, þegar þeir ætluðu að leggja Ísland undir sig.

Guðmundur Andri skrifaði í blað þeirra Baugsfeðga 26. apríl 2004, þegar fyrirtæki þeirra var gagnrýnt fyrir heljartök á fjölmiðlum:

Hefði Baugur ekki tekið að fjárfesta á þessum markaði þá væru fjölmiðlar á Íslandi færri og einsleitari, hvort sem litið er á fréttaflutning, stuðning við póli­tísk öfl eða almennt yfirbragð. Eins og sérhver neytandi getur vitnað um þá hefur fjölbreytnin aukist – og er það vandamál?

Því er vel lýst í bók Björns Bjarnasonar, Rosabaug yfir Íslandi, hvernig tök Baugsfeðga á fjölmiðlamarkaðnum leiddu ekki til aukinnar fjölbreytni, heldur miklu frekar einsleitni. Bogesen átti plássið, og Beinteinn á Króknum skrifaði vel um hann til að missa ekki tréfótinn.

Guðmundur Andri skrifaði um lögreglurannsóknina í Baugsmálinu í blað þeirra Baugsfeðga 17. maí 2004:

Hafi þeir gerst sekir um eitthvað sem okkur almenningi er ókunnugt um þá ber að sækja þá til saka eftir hefðbundnum leiðum en það er ekki boðlegt að þeir skuli sæta ofsóknum mánuðum og jafnvel árum saman af hendi forsætisráðherra fyrir einhverjar sakir sem enginn fær botn í, einkum þegar athafnasemi þeirra beinist að vettvangi sem til langs tíma hafði einkennst af stöðnun, fákeppni, flokkshollustu og þýlyndi?

Því er líka vel lýst í bók Björns, hvernig Baugsfeðgar reyndu að mynda almenningsálit, sem síðan átti að hafa áhrif á dómara. Þó var annar Baugsfeðga að lokum sakfelldur fyrir efnahagsbrot og dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. Margt hefur síðan komið fram um hæpna gjörninga þeirra, pappírsfyrirtæki og málamyndasamninga. Þeir slá þeim Pétri Þríhross og Júel J. Júel við. En Baugsfeðgar áttu eins og Þríhrossið og Júel sína penna.

Við þurfum öll að vera sátt við okkur sjálf, við einhverja sögu okkar, og hún verður að ríma við sjálfsmynd okkar. Guðmundur Andri er að vonum ósáttur við sögu sína, því að hún rímar ekki við sjálfsmynd hans. Hvernig gat eitt helsta átrúnaðargoð vinstri manna á Íslandi orðið Baugspenni? Hvers vegna var hann í liði Bogesens, Þríhrossins og Júels? Af hverju reyndi hann að hnýta slaufu á saltfiskinn? Sagan um Guðmund Andra er saga um goð, sem brást.


Styrmir hefur lög að mæla

Styrmir Gunnarsson skrifaði 13. júní mjög fróðlega grein á Evrópuvaktina, sem ég ætla að leyfa mér að taka hér upp í heild sinni:

Við lok kalda stríðsins fyrir rúmlega tveimur áratugum voru skiptar skoðanir um það í lýðræðisríkjum Vesturlanda m.a. hér á Íslandi, hvernig standa ætti að uppgjöri við kommúnismann og glæpaverk hans. Sumir vildu láta kné fylgja kviði þegar í stað. Aðrir voru þeirrar skoðunar, að nóg væri komið af átökum og tími kominn til að skapa friðsamlegra andrúmsloft þjóða í milli og innan einstakra ríkja.

Í þessu ljósi er fundur dómsmálaráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins sl. föstudag afar athyglisverður. Þar var samþykkt ályktun, sem veitir stuðning Evrópusambandsins við að slíkt uppgjör fari fram í einstökum aðildarríkjum þess, en nokkur þeirra voru meðal leppríkja Sovétríkjanna.

Frá þessu er sagt í frétt hér á Evrópuvaktinni í dag. Þar kemur fram, að það eru Litháar, sem hafa haft forgöngu um að fá slíka samþykkt fram og stuðning aðildarríkjanna í heild við þá afstöðu. Ljóst er af fréttum af þessum fundi, að átökin í Líbýu og Sýrlandi hafa að einhverju leyti verið kveikjan að því, að dómsmálaráðherrar ESB-ríkjanna hafa komizt að þessari niðurstöðu. Víða um heim en ekki sízt í Evrópu er gerð krafa um að einræðisherrar Arabaríkjanna verði látnir standa ábyrgir gerða sinna en bæði Gaddafí og Assad Sýrlandsforseti hafa verið iðnir við það undanfarna mánuði að láta drepa fólk.

Á sama tíma og Evrópuríkin gera slíkar kröfur á hendur alræðisstjórnum í öðrum heimshlutum og reyndar líka nær sér eins og á Balkanskaga hlýtur sú spurning að vakna, hvort þau eigi ekki óuppgerð mál heima fyrir. Og það blasir auðvitað við að svo er.

Í nafni kommúnismans og nazismans voru framin fjöldamorð og það í stórum stíl. Tölur, sem teknar hafa verið saman benda til að mesti fjöldamorðingi okkar tíma hafi verið Maó, formaður í Kína. Í öðru sæti er Jósef Stalín og í því þriðja Adolf Hitler. Lærisveinar þeirra voru svo á ferð á Balkanskaga fyrir aðeins rúmum áratug og nú er verið að draga þá fyrir dóm í Haag.

Uppgjör við nazismann fór fram í Nuremberg að stríðinu loknu og áratugum saman hafa stríðglæpamenn þeirra tíma verið dregnir fyrir dómstóla. Uppgjör við glæpi kommúnismans hefur ekki farið fram og vafalaust er ein af ástæðunum sú, að lykilmenn frá dögum Sovétríkjanna ráða enn ferðinni í Rússlandi og áhrif þeirra í alþjóðamálum mikil. Það kanna að vera að það hafi ekki hentað öðrum hagsmunum Vesturlandaþjóða að ganga of hart fram gagnvart fortíð rússneska lýðveldisins.

Meðferðin á þeim þjóðum, sem búa í Eystrasaltsríkjunum svonefndu, þegar þau voru hernumin af Sovétríkjunum, var hryllileg ekki síður en meðferðin á öðrum þjóðum, sem lutu valdi þeirra. Þess vegna er mjög skiljanlegt að ein þeirra þjóða, Litháar, hafi nú forgöngu um að uppgjör fari fram við þessa fortíð og þeir dregnir til ábyrgðar, sem þátt tóku í þeim glæpum, sem framdir voru í þessum löndum og öðrum í nafni kommúnismans.

Hér á Íslandi hafa umræður um þann anga þessa máls, sem að okkur snýr, verið mjög takmarkaðar frá lokum kalda stríðsins. Það er að mörgu leyti skiljanlegt. Íslenzka þjóðin var klofin í herðar niður áratugum saman og raunar mest alla 20. öldina vegna þessara alþjóðlegu átaka og tilrauna kommúnismans til þess að ná hér fótfestu.

Bók Þórs Whiteheads, prófessors, sem út kom fyrir síðustu jól um Sovét-Ísland, markar ákveðin þáttaskil í þeim umræðum. Hún kallar á að saga Íslands á 20. öldinni verði endurskoðuð eins og hún hefur verið kennd í skólum landsins. Þór sýnir fram á með sterkum rökum að meiri vopnasöfnun hafi farið fram hér en menn hafa áður gert sér grein fyrir og meiri hætta á ferðum en við höfum gert okkur grein fyrir. Hann sýnir líka fram á, að lögreglumenn urðu fyrir meiri áverkum og voru í meiri hættu en við höfum hingað til horfzt í augu við.

Og auðvitað er ljóst að þeir, sem frömdu glæpina í ríkjum Evrópu áttu sér stuðningsmenn hér, sem ekki fóru leynt með stuðning sinn við það stjórnarfar, sem ríkti í þessum löndum um skeið. Hitler og hans menn áttu sér stuðningsmenn hér en mest fór þó fyrir þeim, sem studdu kommúnismann af heilum hug og voru tilbúnir til að horfa fram hjá þeim glæpaverkum, sem framin voru í hans nafni. Þar voru á ferð málsmetandi Íslendingar, sem þjóðin af skiljanlegum ástæðum hefur átt svolítið erfitt með að viðurkenna fyrir sjálfri sér. Sumir þeirra gerðu hreint fyrir sínum dyrum að eigin frumkvæði og þar er Halldór Laxness fremstur í flokki.

Þær umræður, sem nú eru augljóslega að hefjast í Evrópu og innan Evrópusambandsins um þessi mál og það uppgjör, sem þar stendur fyrir dyrum hlýtur a.m.k. að kalla á að hér á Íslandi verði allar upplýsingar dregnar fram í dagsljósið og liggi fyrir um það sem að okkur snýr.


Hvað var Geir að fara?

Ekki er ég viss, að allir hafi vitað, hvað Geir H. Haarde var að fara, þegar hann talaði um það á blaðamannafundi sínum á dögunum, hversu vel það ætti við, að þeir Atli Gíslason, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson settu á svið réttarhöldin yfir honum.

Geir var vitaskuld að vísa í það, að þeir Atli, Steingrímur og Ögmundur eru pólitískir erfingjar kommúnistahreyfingarinnar íslensku, en þar sem kommúnistar komust til valda, settu þeir jafnan á svið sýndarréttarhöld yfir andstæðingum sínum. (Ögmundur er raunar systursonur eins skeleggasta stalínista á Íslandi, Stefáns Ögmundssonar, sem hlaut harðasta dóminn fyrir árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949 og fór margoft í lystiferðir til Ráðstjórnarríkjanna.)

Alræmdustu sýndarréttarhöldin voru yfir Búkharín og félögum hans í Moskvu í marsbyrjun 1938, og var Halldór Kiljan Laxness viðstaddur þau. Ákærurnar voru fráleitar, enda var sök þeirra Búkharíns aðeins sú, að Stalín taldi þá ógna sér. Í væntanlegri bók minni er kafli um réttarhöldin og hina óhugnanlegu frásögn Laxness af þeim.

Sakborningarnir voru skotnir í hnakkann í kjallara Ljúbjanka-fangelsisins.

Einnig eru fræg Slánský-réttarhöldin í Prag í nóvember 1952, en um þau er annar kafli í bók minni, því að tveir sakborningar tengdust Íslandi. Bók eftir einn þeirra, ævintýramanninn Otto Katz, öðru nafni André Simone, hafði verið þýdd á íslensku, og eitt ákæruatriðið á hendur öðrum þeirra, dr. Rudolf Margolius, var, að hann hafði sem aðstoðarráðherra utanríkisviðskipta í Tékkóslóvakíu gert verslunarsamning við Ísland. Hef ég skrifast á við son Margolius, sem hefur aðstoðað mig við rannsóknir mínar. Þetta voru ekki aðeins sýndarréttarhöld, heldur líka lítt dulbúnar gyðingaofsóknir.

Sakborningarnir í Slánský-réttarhöldunum voru hengdir.

Nú krefjast þeir Atli, Steingrímur og Ögmundur þess, að Geir H. Haarde sæti tveggja ára fangelsi fyrir að hafa verið pólitískur andstæðingur þeirra, því að auðvitað vita þeir jafnvel og aðrir, að Geir framdi engan glæp, braut engin lög. Sök hans er sú ein að vera í röngum flokki.

Sennilega eigum við samt í ljósi sögunnar að þakka fyrir, að þeir Atli, Steingrímur og Ögmundar krefjast ekki harðari refsingar. En eru framfarirnar þær, að mannæturnar eru farnar að nota hníf og gaffal?


Á stuðningsmannafundi Geirs H. Haardes

Ég var þriðjudaginn 7. júní á fundi, sem stuðningsmenn Geirs H. Haardes efndu til í Hörpunni vegna ákærunnar á hendur honum fyrir landsdómi. Þar ávarpaði Geir fyrst samkomuna, en síðan flutti Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og heimspekingur, skörulega ræðu.

Geir sagði það, sem mér finnst sjálfum blasa við, að þetta eru pólitísk réttarhöld. Þau snúast ekki um afbrot, sem hafi verið framin, heldur eru þau tilraun til að jafna um gamlan andstæðing.

Hann lýsti því, hvernig þeir aðilar, sem fóru með ákæruvaldið í málinu, breyttu einnig lögum um það í miðjum klíðum og höfðu í raun áhrif á það, hverjir sitja sem dómarar í málinu. Ætti þetta eitt sér að nægja til þess, að vísa bæri málinu frá.

Kristrún benti á, að í réttarríkinu yrði sannleikurinn að ráða, ekki spuni, áburður og ásakanir. Til dæmis mætti ekki taka skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem niðurstöðu, sem hefði verið sannprófuð fyrir rétti eftir föstum og fyrirsjáanlegum reglum.

Þess vegna væri málið vanreifað. Sá meiri hluti Alþingis, sem samþykkt hefði ákæruna á hendur Geir, hefði ekki gert neina sjálfstæða rannsókn á málinu, heldur látið sér nægja að endurtaka ýmis atriði úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ljóst væri, sagði Kristrún, að þeir þingmenn, sem greiddu atkvæði með því að ákæra Geir, hefði ekki haft hina minnstu þekkingu eða skilning á alþjóðlegum bankakreppum eða viðbrögðum við þeim.

Sjálfur tel ég, að mannréttindi hafi verið brotin á Geir H. Haarde í þessu máli. Hann á sömu kröfu og hver annar íslenskur ríkisborgari til réttlátrar málsmeðferðar. Hann hefur ekki fengið hana fram að þessu. Vonandi breytist það.


Eins og talað út úr mínu hjarta

Andríki um Rosabaug yfir Íslandi eftir Björn Bjarnason:

Bókin er þannig úr garði gerð, og svo vandlega unnin, að enginn, sem skilja vill íslenskt þjóðfélag, þjóðmálaumræðuna og reiptog umsvifamikilla viðskiptamanna og skrifstofumanna hins opinbera, getur leyft sér að kynna sér hana ekki gaumgæfilega. Það er því ekkert undarlegt við það að hún seljist nú mun betur en heitar lummur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband