28.4.2012 | 11:22
Sandburg og Steinn
Bandaríska ljóðskáldið Carl Sandburg yrkir í kvæði sínu, Gras, sem hljóðar svo í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:
Hlaðið upp valköst við Waterloo og Austerlitz,
verpið þá moldu og gefið mér tóm:
Ég er gras og ég græ yfir allt.
Og hlaðið þér líkunum hátt við Gettysburg
og hrúgið þeim í kös hjá Verdun og Ypres.
Verpið þau moldu og veitið mér tóm.
Tvö ár, tíu ár,
og ferðalangur spyr fylgdarmann:
Hvar erum við nú?
Hvaða staður er þetta?
Eg er gras.
Gefið mér tóm.
Einnig þýddi Páll V.G. Kolka kvæðið.
En 7. júní 1936 birtist í Alþýðublaðinu kvæði eftir Stein Steinarr undir heitinu Gras. Þar eru þessi vísuorð:
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.Sendið milljónir manna út á vígvöllinn
hjá Verdun og Ypres,
hlaðið líkum hinna föllnu
í fjallháa hlaða:
10 ár, 50 ár, 100 ár .
Og einhver vegfarandi horfir með ólundarsvip
út um gluggann á járnbrautarklefanum
og spyr:
Hvar erum við nú?
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Steinn lét þess þá ekki getið, að þetta var lausleg þýðing á kvæði Sandburgs. Það er efni í annan pistil að rekja eftirmálin.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í sunnudagsblaði Moggans 15. apríl 2012 og er sóttur í nokkra staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook
25.4.2012 | 15:16
Landsdómsmálið í Wall Street Journal
Miðvikudaginn 25. apríl 2012 birtist eftir mig grein í Wall Street Journal um nýgenginn dóm yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Þar bendi ég á, hversu fáránlegur dómurinn virðist vera: Geir H. Haarde hélt ekki nógu marga fundi með ráðherrum sínum (sem margir hverjir voru alræmdir fyrir lausmælgi og hefðu sett allt á annan endann, hefðu þeir fengið einhverja nasasjón af erfiðleikunum, sem við var að glíma).
Ég vitna í rómverska skáldið Hóratíus um það, að fjöllin hafi tekið jóðsótt og hlægileg lítil mús fæðst. (Sama líking er raunar í dæmisögum Esóps.) Ekkert stendur efnislega eftir af landsdómsmálinu. Ofstækisfólkinu á þingi tókst ekki ætlunarverk sitt, en það var að gera Sjálfstæðisflokkinn opinberlega ábyrgan fyrir hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, sem skall svo harkalega á Íslandi.
Ég hugga ráðherrana núverandi með því, að þeir fá sennilega ekki sama dóm og Geir, að þeir haldi ekki nógu marga fundi. Mennirnir, sem nú sitja á ráðherrastólum, hafa einstaka ánægju af að hlusta á sjálfa sig tala og trúa því statt og stöðugt, að mál megi frekar leysa á fundum en með verðmætasköpun einstaklinganna úti í atvinnulífinu. Þeir verða dæmdir fyrir eitthvað allt annað en að halda ekki nógu marga fundi.
24.4.2012 | 22:17
Furðulegur dómur - og þó fróðlegur
Ég tek undir það með Geir H. Haarde, að dómurinn yfir honum er furðulegur og raunar fáránlegur. Geir er fundinn sekur um að hafa ekki haldið nægilega marga ráðherrafundi um mikilvæg mál! Ef hann er sekur um það, þá eru allir ráðherrar Íslands á lýðveldistímanum sekir um hið sama. Það kom mér ekki á óvart, að fulltrúar vinstri flokkanna í Landsdómi skyldu standa að þessum dómi. Hitt olli mér vonbrigðum, að nokkrir hæstaréttardómarar skyldu taka þátt í þessum gerningi. Þeir Garðar Gíslason og Benedikt Bogason eiga þó heiður skilinn fyrir að hafa ekki látið annarleg sjónarmið trufla sig.
Í þessu máli tóku fjöllin jóðsótt, og hlægileg lítil mús fæddist. En þótt dómurinn sé furðulegur, er hann líka fróðlegur. Þeir níu af fimmtán dómurum, sem mynduðu meiri hluta, þar á meðal fulltrúar vinstri flokkanna í Landsdómi, sýknuðu Geir af hinum efnislegu ákærum um, að hann hefði getað afstýrt falli bankanna eða gert eitthvað árið 2008 til þess að minnka skaðann á Íslandi af hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu. Ég vek athygli á því, að jafnvel fulltrúar vinstri flokkanna í Landsdómi treystu sér ekki til annars en að sýkna Geir af þessum ákæruatriðum.
Hver er þá orðinn málatilbúnaður þingmannanna, sem vildu ákæra Geir? Til dæmis þeirra fjögurra, sem greiddu atkvæði með því að ákæra hann, en ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur? Þeirra Skúla Helgasonar, Ólínu Þorvarðardóttur, Sigríðar Ingu Ingadóttur og Helga Hjörvars?
23.4.2012 | 15:54
Viðtalið við Þráin Eggertsson
Morgunblaðið birti 20. apríl fróðlegt viðtal við dr. Þráin Eggertsson hagfræðiprófessor. Ég hygg, að Þráinn sé sá íslenski hagfræðingur, sem nýtur hvað mestrar virðingar og viðurkenningar erlendis, eins og ég hef sannreynt á ráðstefnum og málstofum (án þess að ég telji það neitt úrslitaatriði, því að upphefðin kemur ekki að utan, heldur innan). Ég hef hitt fáa erlenda hagfræðinga, sem ekki hafa lesið stórmerkilegar bækur Þráins á ensku um stofnanahagfræði.
Þráinn bendir á, að bókstafurinn skiptir ekki einn máli. Í grófum dráttum eru t.d. allar þjóðir heims með sömu stjórnarskrána, og þær næstum allar með mjög ítarlega mannréttindakafla. Þegar á hólminn er komið er hins vegar allur gangur á hversu mikil vernd borgurunum er veitt og hversu vel þeir fá að nýta rétt sinn.
Í því sambandi gagnrýnir Þráinn hina umboðslausu samkundu, sem kölluð var saman á dögunum eftir ógildar kosningar, söng á hverjum fundi og samdi langan óskalista. Hugmyndin að baki stjórnarskrártillögunni er frekar barnaleg og virðist ganga að því vísu að samfélaginu megi breyta snarlega og rækilega með því að breyta nafngildi laganna. Sigurður Líndal orðaði þetta vel þegar hann benti á að áður en við smíðum nýja stjórnarskrá ættum við að reyna að fara eftir þeirri gömlu.
Þráinn minnist á siðarofið, sem hér varð eftir fall bankanna. Þegar það gerist að hagkerfið eða hluti þess hrynur myndast eðlilega mikill glundroði og óvissa. Í slíku umhverfi koma úr skúmaskotum alls konar hugmyndafræðilegar afturgöngur.
Þetta er hverju orði sannara. Vita þeir, sem krefjast til dæmis stighækkandi tekjuskatts og upptöku allrar auðlindarentu, að þeir bergmála aðeins það, sem segir í Kommúnistaávarpinu eftir Marx og Engels? Vofur hafa vaknað hér upp og ganga enn ljósum logum.
21.4.2012 | 21:12
Viðskipti við alla, valdboð einskis
En frjáls viðskipti merkja ekki, að við eigum að lúta valdboði stórra ríkja. Þess vegna áttum við ekki að láta kínversku leyniþjónustuna kaupa víðlendi á Íslandi. Það skildi Ögmundur Jónasson. Bestir eru viðurgefendur vinir, segir í Hávamálum.
Snjallast er þetta þó ef til vill orðað í Kaupmanninum í Feneyjum:
Ég vil semja við ykkur, kaupa við ykkur, ganga með ykkur, ræða við ykkur og allt það; en ég vil ekki snæða með ykkur, drekka með ykkur, né biðja með ykkur. Hvað er að frétta úr kauphöllinni?
14.4.2012 | 02:53
Ólafur Ragnar hefur rétt fyrir sér ...
um það, að Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi systurflokks Samfylkingarinnar í Bretlandi, ætti að minnsta kosti að biðja Íslendinga afsökunar á því, hvernig hann og flokksbræður hans höguðu sér í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu haustið 2008, þegar þeir settu einn íslenska bankann, fjármálaráðuneytið og Seðlabankann á lista yfir hryðjuverkasamtök! Bandamenn Breta í Atlantshafsbandalaginu, sem ekki hafa einu sinni her, voru settir við hlið Al Kaída og Talíbana! Jafnframt reyndu Bretar að þvinga Íslendinga til uppgjafar í milliríkjadeilu með því að reyna að rjúfa allar leiðir til að flytja fé til og frá landinu. Nýttu þeir sér það við þá iðju, að Lundúnir eru alþjóðleg fjármálamiðstöð.
Sjálfur er ég mikill vinur Breta, enda hlaut ég framhaldsmenntun mína þar í landi. Kann ég vel að meta engilsaxneska menningu. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum með granna okkar og vini í þessu máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.4.2012 kl. 21:11 | Slóð | Facebook
13.4.2012 | 11:48
Mörður: Heiðra skaltu skálkinn ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.4.2012 kl. 21:11 | Slóð | Facebook
10.4.2012 | 01:34
Örlagasaga flóttamanna á Íslandi
Ég vek athygli á fróðlegum útvarpsþætti, sem var á dagskrá í Ríkisútvarpinu á föstudaginn langa, um hjón á Akureyri, Höskuld Markússon og Hildigerði Georgsdóttur. Upphaflega hétu þau Harry Rosenthal og Hildegard Heller. Hlusta má á þáttinn hér.
Hann var gyðingur, en hún Aríi eins og nasistar kölluðu það, en þau máttu ekki eigast í Þýskalandi, svo að þau flúðu til Íslands, þar sem hálfsystir Harrys Rosenthals, Henný Goldstein-Ottósson, bjó.
Ég ræði nokkuð um þau hjón í ritgerð í nýjasta hefti Þjóðmála. Bróðir Harrys og Hennýar, Siegbert, lét lífið á hroðalegan hátt í fangabúðum nasista í Natzweiler. Kona Siegberts og sonur voru myrt í Auschwitz. Er af þessu mikil saga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:37 | Slóð | Facebook
4.4.2012 | 09:06
Þeir duttu í Tjörnina
Tómas Guðmundsson skáld sat sem oftar að kaffidrykkju á Hótel Íslandi einn góðan veðurdag árið 1928. Þar sá hann skólabróður sinn úr lagadeild Háskólans, Stefán Jóhann Stefánsson, heilsa dómsmálaráðherranum, Jónasi Jónssyni frá Hriflu, með virktum. Þá mælti Tómas: Hann er ekki í buxum af bæjarfógetanum núna.
Af þessu er saga. Stefán Jóhann hafði verið vinur Lárusar Jóhannessonar, skólabróður þeirra Tómasar úr lagadeildinni. Eitt sinn fengu þeir sér ærlega í staupinu, og í öllu því umstangi datt Stefán Jóhann í Tjörnina. Þá skjögraði Lárus með hann heim til föður síns, Jóhannesar Jóhannessonar bæjarfógeta (móðurafa Matthíasar Johannessen ritstjóra), sem bjó skammt frá, og lánaði honum röndóttar embættisbuxur af fógetanum. En þegar Jónas Jónsson frá Hriflu varð ráðherra sumarið 1927, lét hann það verða eitt sitt fyrsta verk að hrekja Jóhannes bæjarfógeta úr embætti fyrir smávægilegar sakir. Stefán Jóhann var þá orðinn áhrifamaður í Alþýðuflokknum, sem veitti stjórninni hlutleysi.
Í annað skipti datt kunnur maður í Tjörnina, en að þessu sinni ódrukkinn. Magister Björn Bjarnason frá Steinnesi, sem oftast var kallaður Bjúsi, var virðulegur maður og bar sig höfðinglega. Hann kenndi ensku og þýsku í gagnfræðaskóla Reykvíkinga í Iðnó. Björn bjó við Ásvallagötu og gekk jafnan til vinnu sinnar. Einn vetrarmorgun árið 1937 var Tjörnin ísi lögð og ákvað Björn að stytta sér leið og ganga á henni. Þegar hann var á miðri Tjörninni, brast ísinn undan honum, og varð slökkviliðið, sem hafði þá aðsetur í Tjarnargötu, að bjarga honum með því að renna til hans stiga. Í sömu mund var hringt út í hlé í skólanum, og urðu nemendur því vitni að slysinu. Lét Björn ekki sjá sig í skólanum fyrr en að viku liðinni.
Þar sem eftirvæntingin skein af svip hvers einasta nemanda þegar Björn birtist loks í kennslustund hóf hann mál sitt á að segja: Eins og það geti ekki komið fyrir alla að detta í Tjörnina!
(Þessi fróðleiksmoli birtist í sunnudagsblaði Moggans 1. apríl 2012.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook
3.4.2012 | 01:02
Hlakkaði í Evrópuþingmönnum?
Fróðleg frétt birtist í Morgunblaðinu á dögunum um ræðu, sem þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, Daniel Hannan, hélt nýlega. Þar kvað hann hafa hlakkað í sumum þar á bæ yfir falli íslensku bankanna: Nú hlytu Íslendingar að leita á náðir Evrópusambandsins.
Sem betur fer hefðu Íslendingar ekki gert þetta, sagði Hannan. Þeir hefðu þess vegna verið óbundnir í gjaldmiðilsmálum ólíkt Grikkjum og Írum. Þeir hefðu ekki heldur eytt fé skattgreiðenda í að bjarga lánveitendum bankanna frá eigin gerðum (þótt vert sé að rifja upp, að hagvitringarnir Már Guðmundsson og Jón Steinsson lögðu það báðir til).
Daniel Hannan benti á, að nú væru tveir þriðju hlutar Íslendinga andvígir því að ganga í Evrópusambandið. Það væri að vonum. Auðlindir þjóðarinnar yrðu þurrausnar (en sjávarútvegur er sem kunnugt er nánast alls staðar í ES rekinn með tapi og stórkostlegum styrkjum úr almannasjóðum). Alþingi yrði héraðsþing eða eins og Jónas Hallgrímsson hefði orðað það: ekki haukþing á bergi, heldur hrafnaþing í holti.