Blaðamaðurinn Matthías Johannessen

MJoh.Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins 1959–2000, var ekki aðeins blaðamaður, heldur líka skáld, en átti erfitt uppdráttar framan af vegna ítaka kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeim voru honum fjandsamlegir vegna eindregins stuðnings Morgunblaðsins við vestrænt varnarsamtarf. Þegar fyrsta ljóðabók Matthíasar, Borgin hló, kom út 1958, sögðu gárungar á vinstri væng, að höfundur hefði farið nærri um viðtökurnar og bættu við: „Og hún á eftir að hlæja lengi.“ Matthías lét sér hvergi bregða og gaf næstu mánuði út ritin Njála í íslenskum skáldskap (lokaritgerð sína í Háskólanum) og umtalaða viðtalsbók við Þórberg Þórðarson, Í kompaníi við allífið. Gekk þá Tómas Guðmundsson einn daginn inn í Bókaverslun Ísafoldar og spurði afgeiðslustúlkuna með hægð: „Hefur nokkur bók eftir Matthías Johannessen komið út í dag?“

Matthías leit eins og fleiri menntamenn mjög upp til Halldór Laxness, eftir að hann hafði hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Þegar hann var blaðamaður á Morgunblaðinu haustið 1956, langaði hann að taka viðtal við Halldór. Bjarni Benediktsson, þá ritstjóri Morgunblaðsins, samþykkti það, en sagði brosandi við Matthías: „Berðu þig vel, Matthías minn, og farðu ekki skríðandi.“

Mörg fleyg orð er að finna í ritum Matthíasar, og hef ég oft leitað í þá smiðju. Þegar Jorge Luis Borges kom til Íslands, sýndi Matthías honum Alþingishúsið við Austurvöll. Varð Borges að orði: „Þetta er þá þinghúsið ykkar, þetta er þá allt og sumt. Þið getið andað hérna fyrir stjórnvöldum.“ Júlíus skóari, reykvískur smákapítalisti, sagði Matthíasi: „Sjálfstæði er það að sækja það eitt til annarra, sem maður getur borgað fullu verði.“ Ragnar Jónsson í Smára fullyrti: „Ef við gætum virkjað öfundina hér á landi, þyrftum við ekki aðra orku!“ Loftur Bjarnason útgerðarmaður (faðir Kristjáns hvalveiðimanns) mælti í nokkru mildari dúr: „Ég hef getað sofið, þó að öðrum hafi gengið vel.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2024.)


Ritstjórinn Matthías Johannessen

Matthías Johannessen160Með Matthíasi Johannessen er genginn einn merkasti blaðamaður tuttugustu aldar á Íslandi. Hann var aðeins 29 ára, þegar hann varð ritstjóri Morgunblaðsins árið 1959, og gegndi því starfi í 41 ár, til sjötugs. Ég kynntist honum á seinni hluta áttunda áratugar. Útvarpsþættir, sem ég hafði séð um, Orðabelgur, höfðu vakið athygli, og Matthías bað mig að skrifa fastan dálk í Morgunblaðið, sem ég gerði í nokkur ár. Var fróðlegt að fylgjast með ritstjórunum, honum og Styrmi Gunnarssyni. Undir öflugri ritstjórn Valtýs Stefánssonar hafði Morgunblaðið orðið stórveldi. Bjarni Benediktsson styrkti blaðið enn í ritstjóratíð sinni árin 1956–1959, og þeim Matthíasi og Styrmi tókst að varðveita ítök blaðsins og jafnvel auka, ekki síst eftir að vinstri blöð tíndu tölu.    

Matthías vissi margt, sem aðrir vissu ekki. Hann sagði mér til dæmis, að á bak við dulnefnið Jón Reykvíking, sem skrifaði alræmt níð um Kristmann Guðmundsson í Mánudagsblaðið árið 1961, hefði leynst Einar Ásmundsson lögfræðingur. Hafði Einar reiðst ólofsamlegum ritdómi Kristmanns um ljóðabók eftir sig. Í dagbók sinni á Netinu sagði Matthías enn fremur frá því, að Stefán Ólafsson, þá forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hefði laumað að þeim Styrmi úrslitum skoðanakönnunar, sem Félagsvísindastofnun var fengin til að gera í trúnaði um fylgi manna í forsetakjöri 1996. Brást Háskólinn aldrei við þessu trúnaðarbroti Stefáns.

Matthías var góðvinur tveggja snjöllustu skálda samtíðarinnar, þeirra Steins Steinarrs og Tómasar Guðmundssonar, en sagði mér, að hann hefði ekki getið verið það í einu. Tómas hafði gert gys að lausamálsljóðum Steins í hláturleik (revíu), en Steinn hefnt sín með vísu um, að sál Tómasar hefði gránað fyrr en hárin. Þeir Tómas urðu ekki vinir fyrr en eftir lát Steins. Jafnframt kynntist Matthías vel hinum svipmiklu stjórnmálamönnum Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni. Ég fékk hann til að segja frá þessum fjórum mönnum í óbirtum sjónvarpsþætti, sem nú þyrfti að búa til sýningar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. mars 2024.)


Amsterdam, mars 2024

0e07e5de-cbdb-4efb-8696-b5e1c500eb97Ég hélt fyrirlestur í Amsterdam 12. mars 2024 á vegum Austrian Economics Center og Nederlands Instituut vor Praxeologie, og var hann um Evrópusambandið árið 2030. Þar rifjaði ég upp, að „feður“ Evrópusambandsins höfðu orðið vitni að getuleysi Þjóðabandalagsins milli stríða til að halda uppi friði og stuðla að frjálsum alþjóðaviðskiptum. Þeir vildu því öflugt ríkjasamband (federation), ekki aðeins ríkjabandalag (confederation). Það þyrfti að hafa her og geta lagt á skatta. En eftir seinni heimsstyrjöld réttu Bandaríkin, Kanada og Bretland ríkjunum á meginlandi Evrópu hjálparhönd, svo að þau fengu varist ásælni Kremlverja. Ekki reyndist því þörf á evrópskum her. Verkefnið núna í varnarmálum er að tryggja sem best samstarfið yfir Atlantshafið, milli ríkja Evrópu og Norður-Ameríku.

Nokkur öfugþróun hefur þó orðið innan Evrópusambandsins hin síðari ár. Það er að breytast úr opnum markaði í lokað ríki, úr ríkjasambandi í sambandsríki með stórveldisdrauma. Eðlilegasta andsvarið er umfram allt valddreifing eins og nálægðarreglan (subsidiarity principle) kveður á um: taka eigi ákvarðanir af eða sem næst þeim, sem ákvarðanirnar varða. Þessi regla er margbrotin í Evrópusambandinu, þar sem ekkert lýðræðislegt taumhald virðist vera á framkvæmdastjórninni, en Evrópuþingið er áhrifalaust hringleikahús, sem flyst mánaðarlega milli Brüssel og Strassborgar. Evrópudómstóllinn er skipaður miðstýringarsinnum, sem hafa stórlega fært út vald framkvæmdastjórnarinnar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. mars 2024.)


Lengi lifir í gömlum glæðum

IcelandPalestiniansPia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, undirritaði ásamt 345 öðrum starfsmönnum Háskóla Íslands yfirlýsingu 13. nóvember 2023, þar sem lýst var andstöðu við „nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu og þjóðarmorð“ Ísraels í tilefni þess, að Ísraelsher fór eftir árás Hamas liða á Ísrael 7. október inn á Gasa svæðið til að stöðva hryðjuverk samtakanna. Ekki var í yfirlýsingunni minnst einu orði á ódæði Hamas liða 7. október, er þeir myrtu 1.200 Gyðinga og tóku fjölda gísla, en nota síðan íbúa á Gasa sem lifandi skildi, svo að fall óbreyttra borgara verður þar miklu meira en ella. Með yfirlýsingunni skerti Pia stórlega trúverðugleika Alþjóðamálastofnunar. Prófessor Guðmundur Hálfdanarson, stjórnarformaður stofnunarinnar, virðist þó ekki hafa brugðist við.

Alþjóðamálastofnun hélt fund 9. desember, þar sem Pia var ekki mætt, eflaust vegna þess að hún hefur vitað, að þar ætti að ráðast á einn frummælandann, Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra. Guðmundur Hálfdanarson var fundarstjóri, horfði opinmynntur upp á árásina og brást ekki við. En furðuleg tilviljun er, að afi Guðmundar, Jafet Ottósson, og afi Piu, Þóroddur Guðmundsson, voru báðir í hópi þeirra 27 Íslendinga, sem sóttu hinar leynilegu þjálfunarbúðir Alþjóðasambands kommúnista, Komintern, í Moskvu, þar sem kenndur var vopnaburður, leynileg fjarskipti, fölsun vegabréfa og annarra skjala og skipulagning verkfalla og götubardaga. Jafet var þar 1930–1931 undir dulnefninu Dan Mengel, en Þóroddur 1930–1932 undir dulnefninu Otto Stein. Jafet var síðan einn af þeim, sem veittust að Bjarna Benediktssyni, afabróður og alnafna utanríkisráðherra, fyrir framan Sjálfstæðishúsið við Austurvöll haustið 1946 í átökum um varnarmál. Þóroddur sat hins vegar í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, og á fundi þar í nóvember 1947 sagði hann: „Hvað varðar mig um þjóðarhag?“ Sveinn Benediktsson, afi Bjarna utanríkisráðherra, sat líka í stjórninni. Hann upplýsti opinberlega um ummæli Þórodds, sem urðu þegar fleyg.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. mars 2019.)


Fríverslunarsinninn Snorri

SnorriStHér hef ég bent á þá stefnu Snorra Sturlusonar, að Íslendingar ættu að vera vinir annarra þjóða, en ekki þegnar, og kemur hún gleggst fram í ræðu Einars Þveræings, sem Snorri samdi auðvitað sjálfur. Ég hef líka varpað fram þeirri tilgátu, að sagan af Haraldi blátönn og landvættunum fjórum hafi verið dæmisaga, sem hinn gætni íslenski hirðmaður hafi sagt í því skyni að telja Hákon Noregskonung og Skúla jarl óbeint af því að senda her til Íslands.

Eflaust hafa einhverjir vakið athygli á þessu á undan mér. En enginn hefur, held ég, tekið eftir því, að Snorri var einn fyrsti norræni fríverslunarsinninn. Í 80. kafla Ólafs sögu Haraldssonar í Heimskringlu segir frá samkomu í Uppsölum, þar sem sænskir bændur kvörtuðu undan því við Ólaf Svíakonung, að hann færi með ófriði gegn nafna sínum í Noregi. Rögnvaldur jarl hafði orð fyrir þeim. „Taldi hann upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í en í annan stað að sitja fyrir áhlaupum þeirra og hernaði ef Noregskonungur safnaði her saman og herjaði á þá.“ Hér er kominn kjarninn í rökunum fyrir fríverslun, sem Adam Smith setti síðar fram í Auðlegð þjóðanna: að menn hagnist á því að versla, ekki síst yfir landamæri, selja það, sem þeir eiga og aðrir ekki, og kaupa það, sem aðrir eiga og þeir ekki. Ella missa þeir þeirra hluta, sem þeim er „árbót í“, eins og Snorri orðaði það.  

JónSigSnorri var fríverslunarsinni eins og Jón Sigurðsson, sem skrifaði í Nýjum félagsritum árið 1843: „Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.“ Það er bein lína frá Snorra til Jóns.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. mars 2024.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband