Ræða Davíðs

Egill Helgason bloggaði svo:

Davíð flutti söguskýringu í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. (Maður hefur líka séð henni bregða fyrir í greinum eftir Hannes.) Hún er sú að upphaf ógæfunnar og hrunsins sé í fjölmiðlalögunum sem ekki voru samþykkt á sínum tíma. Þannig sé þetta í raun allt Samfylkingunni og Baugi að kenna. Ekki til dæmis í einkavæðingu bankanna sem var handstýrt í hendurnar á sérvöldum vildarvinum stjórnarflokka þess tíma. Eða í því hvernig bankarnir fengu síðan að blása út nánast eftirlitslaust – án þess að nokkur virðist hafa skilið almennilega hvað var að gerast. Því í raun má segja að fjármálamennirnir hafi nánast alfarið tekið yfir stjórn landsins á fyrstu árum aldarinnar og þeir héldu þeim þar til allt hrundi í október. Stjórnmálamennirnir gáfu völdin eftir – þeir gátu yljað sér við hugmyndina um að hér yrði fjármálaparadís eins og mátti lesa um í bókum Hannesar og í skýrslu sem var gerð fyrir Halldór Ásgrímsson. Þetta var tíminn þegar Ísland var ólígarkí. Eins og ég hef áður sagt er hugsanlegt að það hafi á síðustu metrunum breyst í kleptrókratí. Vissulega hefðum við þurft beittari fjölmiðla. Ég veit ekki hvað viðskiptaritstjórar útrásartímans fengu að launum fyrir gagnrýnisleysið; kannski var nóg fyrir þá að hafa símanúmer víkinganna í minninu hjá sér. Það gæti hafa verið næg umbun. Sumir virðast hafa fengið eitthvað meira. En þá má líka geta þess að Þjóðhagsstofnun hafði verið lögð niður. Eftir það vorum við upp á náð og miskunn greiningardeilda bankanna komin með upplýsingar um hagkerfið. Það reyndist afar illa.

Ég gerði eftirfarandi athugasemd (og er auðvitað nokkur talmálsblær á henni):

Egill! Ég veit, að þú ert ekki maður illgjarn að eðlisfari. En mér finnst þú reyna að misskilja og jafnvel rangfæra boðskap Davíðs. Auðvitað eiga hvorki heimskreppan né bankahrunið hér upptök í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið vorið 2004. En þá gerðist annað. Golíat sigraði Davíð. Bessastaðavaldið, Baugsfeðgarnir og höfundar Borgarnesræðunnar sigruðu í sameiningu Davíð Oddsson. Ólafur Ragnar Grímsson var klappstýra útrásarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efaðist um heilindi lögreglunnar í rannsóknum á auðfyrirtækjum (eins og lögreglumenn mótmæltu við hana eftir flutning Borgarnesræðunnar). Baugsfeðgar keyptu upp alla fjölmiðla og siguðu þeim eins og hundum á Davíð. Eftir það skorti tilfinnanlega á aðhald að auðjöfrunum, sem þeir þurftu svo sannarlega til að gera gagn (eins og auðjöfrar geta gert við eðlilegar aðstæður og leikreglur). Þetta olli því meðal annars, að bankarnir uxu hraðar en þeim var hollt, og eins kann að vera, að þeim hafi orðið eitthvað á í óðagotinu, þótt einnig sé margt gott um ýmsa bankamenn. Dómstólar sendu í Baugsmálinu líka röng skilaboð til auðjöfra um það, hvað teldust eðlileg viðskipti og hvað ekki. Ég veit ekki, hvort þetta var úrslitaatriði um það, hvernig fór, en það er tvímælalaust, að valdajafnvægið á Íslandi raskaðist auðjöfrunum í vil eftir sigur Golíats yfir Davíð 2004. Eini ráðamaðurinn, sem gagnrýndi auðjöfrana, var Davíð Oddsson. Allir aðrir þögðu ýmist eða klöppuðu fyrir þeim (og ég er sjálfur ekki alveg saklaus í því efni, þótt ég hafi ekki orðið skilyrðislaus aðdáandi Baugsfeðga eins og til dæmis Þorvaldur Gylfason prófessor, sem skrifaði vikulega nánast sömu greinina í Baugsmiðlana með Baugi gegn Davíð, en stundum bergmálar þú skoðanir hans, þótt hitt sé rétt, að þú hafir aldrei viljandi gengið erinda auðjöfranna). Mér finnst þú ekki sýna sanngirni, þegar þú gefur Davíð ekki einu sinni það, að hann gagnrýndi fákeppni hér (á meðan Gylfi Magnússon, núverandi viðskiptaráðherra, gerði ekkert sem formaður Samkeppnisráðs frá 2005 til að minnka fákeppni). Þú gefur Davíð ekki heldur, að hann gagnrýndi ofurlaun og peningadýrkun, á meðan Ingibjörg Sólrún flutti Borgarnesræðuna. Þú gefur Davíð ekki heldur, að hann vildi á sínum tíma dreifðara eignarhald á bönkunum, þótt hann yrði undir í því máli (og er sú saga að miklu leyti ósögð). Þú gefur honum ekki heldur, að hann varaði hvað eftir annað við ofvexti bankanna og hugsanlegu bankahruni á sex fundum með Geir og Ingibjörgu Sólrúnu 2007-2008, og var Jóhanna Sigurðardóttir á einum fundinum (en auðvitað var ekki hægt að hafa Össur og Björgvin á þeim fundum, því að þeir láku jafnharðan öllu í fjölmiðla).


Mikil mistök

220049_218_preview.jpgEins og virtir lögfræðingar benda á, braut Jóhanna Sigurðardóttir sennilega stjórnarskrána, þegar hún setti norskan stjórnmálamann í embætti seðlabankastjóra. Skýrt er kveðið á um það í stjórnarskránni, að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar. Þeir eiga að gæta íslenskra hagsmuna, ekki erlendra. Þótt Norðmaðurinn sé settur, en ekki skipaður, gilda við venjulegar aðstæður sömu hæfisskilyrði um setningu og skipun. En sé þessi maður ólöglega settur, þá kunna ýmis embættisverk hans að vera ólögleg.

Maður þessi kvaðst aðspurður ekki muna, hvenær hann var beðinn að taka að sér embættið. Sé hann tekinn trúanlegur um það, þá hefur hann varla gáfur til að sinna starfinu. Nýlega var hann á fundi í Seðlabankanum. Þá barst í tal cad-hlutfall fjármálastofnana (eiginfjárhlutfall samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins). Maðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki, hvað þetta var. Hann hefur einnig reynst ákvörðunarfælinn og taugaóstyrkur.

Maðurinn af fjöllunum þorði ekki að liðsinna Straumi, Spron og Sparisjóðabankanum, þegar þessi fyrirtæki lentu í fyrirsjáanlegum, en tímabundnum erfiðleikum. Það var Seðlabankanum ekki um megn að koma þeim til hjálpar, ólíkt því er viðskiptabankarnir þrír féllu um koll síðastliðið haust. Forráðamenn fyrirtækjanna höfðu unnið af framúrskarandi dugnaði að því að tryggja framtíð þeirra. Þessi bráðabirgðaseðlabankastjóri minnihlutastjórnar veldur því með ákvörðunarfælni sinni og taugaóstyrk, að mörg hundruð manns missa hér atvinnuna, traust á Íslandi minnkar enn erlendis og lánalínur lokast. 

Margt hefur verið gert af illri nauðsyn síðustu mánuði. En það voru mikil mistök að knýja þessi fyrirtæki í þrot og bæta þannig gráu ofan á svart. Ógeðfelldur blær er á allri framgöngu ráðamanna í málinu. Sennilega er þetta embættisverk hins norska stjórnmálamanns ólöglegt, eins og hann sjálfur. En þótt sjálfsagt sé að láta á það reyna fyrir dómstólum, er tjónið orðið og verður ekki bætt. Og hrægammarnir sveima yfir sviðinni jörð.

Morgunblaðið 24. mars 2009.


Bankastjórahneykslið

crop_260x.jpgJóhanna Sigurðardóttir heldur því fram, að hún sé heiðarlegur stjórnmálamaður. Hún ætti því að vera sjálfri sér samkvæm. En þótt hún hefði fullyrt, að brýnt væri að ganga í Evrópusambandið, skipti hún um skoðun, strax og hún gat myndað stjórn með vinstri grænum. Þótt hún hefði sagt fyrr á árum, að seðlabankastjórar skyldu njóta sjálfstæðis, hóf hún forsætisráðherraferil sinn á því að reka Davíð Oddsson, sem einn ráðamanna varaði við bankahruninu, þar á meðal á ríkisstjórnarfundum með Jóhönnu. Og þótt Jóhanna hefði margsagt, að seðlabankastjóra yrði að ráða „faglega“, setti hún norskan Verkamannaflokksmann í embættið.

Setning Norðmannsins er sennilega stjórnarskrárbrot, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor bendir á. Í stjórnarskránni er bannað að skipa mann með erlendan ríkisborgararétt í embætti. Munur á setningu og skipun hefur minnkað stórlega hin síðari ár, eftir að æviráðning embættismanna var afnumin. Þótt lögspekingar bendi á, að hugsanlega megi setja erlenda ríkisborgara til bráðabirgða í embætti, þar sem þörf er sérkunnáttu og ekki völ á henni á Íslandi, á það ekki við hér. Þessi norski stjórnmálamaður býr ekki yfir neinni sérkunnáttu umfram marga íslenska ríkisborgara.

Öðru nær. Öðru nær! Maður þessi kveðst ekki muna, hvenær hann var beðinn um að taka að sér embættið. Sá, sem man þetta ekki, hefur varla andlega burði til að gegna embætti seðlabankastjóra. Svo virðist líka sem þessi maður hafi ekki næga þekkingu til starfsins. Á fundi í seðlabankanum á dögunum barst í tal cad-hlutfall fjármálastofnana (eiginfjárhlutfall samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins). Norðmaðurinn kom af fjöllum. Hann vissi ekki, hvað cad-hlutfall er.

Kunnugir herma, að þessi fjallamaður sé taugaóstyrkur og ákvarðanafælinn. Eitt dæmi er, hvernig Straumur komst nýlega í þrot. Það fyrirtæki hafði sýnt lofsverða viðleitni til að bjarga sér út úr vandræðum hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu, og seðlabankanum var ekki um megn að liðsinna því. En bráðabirgðabankastjórinn þorði ekki að rétta hjálparhönd. Þrot Straums kann enn að rýra lánstraust Íslendinga erlendis, sem ekki var mikið fyrir, auk þess sem veruleg verðmæti fara í súginn.

Ef þessi norski stjórnmálamaður er ólöglega settur í embætti, eins og ýmis rök hníga að, kunna ýmsar embættisathafnir hans, sem íþyngja öðrum, að vera ólöglegar líka, til dæmis að stefna Straumi í þrot. Eflaust verður látið reyna á einhver slík mál fyrir dómstólum. Hugsanlega verður þá seðlabankinn (og um leið íslenskur almenningur) skaðabótaskyldur vegna afglapa þessa fjallamanns. Fyrsta verk hans var að halda einkafund í seðlabankanum með landa sínum, leiðtoga norska Verkamannaflokksins. Mun hann líka krefjast þess, að íslenska verði ekki lengur töluð á bankaráðsfundum?

Skiljanlegt er í ljósi aðstæðna, að Framsóknarflokkurinn stefni í vinstri stjórn. En hann átti að sýna stjórnarflokkunum, að taka yrði tillit til hans. Hinn fráleiti brottrekstur Davíðs Oddssonar og ólögleg ráðning mannsins af fjöllunum var kjörið tækifæri. En í seðlabankamálinu fundu stjórnarflokkarnir, að þeir þurftu hvergi að skeyta um framsóknarmenn. Frá þeim heyrist því miður aðeins dauft bergmál, ekki rómsterk rödd.

Fréttablaðið 21. mars 2009.


Eftirlætisbókin

Ég svaraði þeirri spurningu í Kiljunni miðvikudagskvöldið 17. mars, hver væri eftirlætisbók mín. Svarið var Brennu-Njáls saga. Einn kostur þeirrar bókar, sagði ég, var, að úr henni mætti lesa margt: Hún er saga um, hvernig Ísland er friðað og lög komast á. Hún er líka saga um ástir og afbrýðisemi. Í því sambandi reifaði ég kenningu mína um Gunnar á Hlíðarenda. Hann hefði ekki snúið aftur af ættjarðarást, heldur vegna afbrýðisemi í garð Hallgerðar, konu sinnar. Hann hefði ekki viljað skilja hana eftir eina á Íslandi.

Fyrirlestur í Nýju Jórvík

Niall FergusonÉg flutti laugardaginn 7. mars 2009 fyrirlestur undir heitinu „The Strange Death of Liberal Iceland“ á sérstakri aukaráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Nýju Jórvík (New York) 5.-7. mars. Á meðal annarra fyrirlesara voru Nóbelsverðlaunahafarnir og hagfræðingarnir Gary Becker og Edmund Phelps, aðrir virtir hagfræðingar, til dæmis Harold Demsetz, sérfræðingur í eignarrétti og hegðun stjórfyrirtækja á markaði, Antonio Martino (sem einnig er fyrrverandi utanríkiráðherra og varnarmálaráðherra Ítalíu) og Anna Schwartz, sem var meðhöfundur Miltons Friedmans að hinni miklu peningamálasögu Bandaríkjanna, þar á meðal skarplegri greiningu á heimskreppunni, hinn heimskunni sagnfræðingur Niall Ferguson (en hann komst einna næst því að spá fyrir um hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu vegna sögulegra hliðstæðna), Martin Wolf, ritstjóri Financial Times, og Steve Forbes, útgefandi viðskiptatímaritsins Forbes og nokkrum sinnum forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum. Hér við hliðina er mynd af Ferguson, og hér að neðan eru glærur frá fyrirlestrinum. Ég leiddi þar rök að því, að bankahrunið íslenska hefði ekki síst orðið vegna kerfisgalla í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hefði bætt gráu ofan á svart með því að setja íslenska banka og yfirvöld á lista um hryðjuverkasamtök, og eftir það hefði okkur ekki verið viðreisnar von. Stjórnendur íslensku bankanna hefðu sennilega ekki verið betri né verri en stjórnendur erlendra banka (sem vissulega reyndust misjafnlega). Aðrir fyrirlesarar greindu aðallega frá þremur orsökum kreppunnar, lausatökum bandaríska seðlabankans í vaxtamálum, óskynsamlegum afskiptum ríkisins af húsnæðislánamarkaði (meðal annars með því að hvetja vanskilafók úr minnihlutahópum til að taka húsnæðislán) og nýjungum í fjármálatækni, þar á meðal skuldabréfavafningum, skortsölu og afleiðum, sem farið hafa úr böndum. Gerðu þeir margar fróðlegar tillögur um leiðir út úr vandanum, um leið og þeir viðurkenndu, að kapítalisminn er ætíð undirorpinn sveiflum, á eftir uppsveiflu kemur niðursveifla, á eftir þenslu samdráttur.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rammpólitískur og kolólöglegur

c28986c2eafd769a3674f148dbd02f58_300x225.jpgFyrir skömmu var Jóhanna Sigurðardóttir dæmd fyrir valdníðslu í félagsmálaráðherratíð sinni. Hún hafði rekið mann ólöglega úr trúnaðarstöðu vegna stjórnmálaskoðana hans. Þessi frétt vakti furðulitla athygli í fjölmiðlum, sem höfðu þó jafnan sýnt gagnrýni á aðra ráðherra áhuga. Jóhanna notaði síðan fyrstu dagana í minnihlutastjórn, sem var mynduð í því skyni einu að sjá um kosningar, til að reka Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Með því braut hún þá reglu, sem hún hafði sjálf mælt með áður, að Seðlabankinn skyldi vera sjálfstæður. Flausturslegt og vanhugsað seðlabankafrumvarp var keyrt í gegnum þingið.

Norski stjórnmálamaðurinn, sem Jóhanna setti í stöðu seðlabankastjóra, byrjar ekki vel. Hann segist ekki muna, hvenær hann var beðinn að taka starfið að sér! Annaðhvort er hann þá óhæfur sökum greindarskorts eða fer með ósannindi. Þessi maður hefur meðal annars gegnt stöðu aðstoðarfjármálaráðherra fyrir norska Verkamannaflokkinn, systurflokk Samfylkingarinnar. Með setningu hans gleypti Jóhanna ofan í sig öll fyrri orð um „ópólitískan fagmann“ í bankann. Maðurinn er rammpólitískur, þótt hann hafi háskólapróf í hagfræði. Flokksbróðir þeirra Jóhönnu, Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, óskaði Íslendingum til hamingju með „rauðu stjórnina“.

Eins og Sigurður Líndal lagaprófessor bendir á, hefur Jóhanna sennilega brotið stjórnarskrána. Í 20. grein segir þar svart á hvítu: „Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt.“ Jóhanna svarar því til ásamt launuðum ráðgjöfum sínum, að munur sé á að setja mann og skipa. En sá munur er ekki á hæfisskilyrðum, nema sérstaklega standi á, heldur liggur hann í því, að minni kröfur eru gerðar til rökstuðnings ráðherra við setningu, þar eð hún er aðeins til bráðabirgða. Raunar dró mjög úr muninum á setningu og skipun, þegar hætt var að æviráða embættismenn.

Í Stjórnskipun Íslands segir Ólafur Jóhannesson, að hugsanlega megi þrátt fyrir  stjórnarskrárákvæðið setja erlendan ríkisborgara tímabundið í embætti, „þegar þörf er sérkunnáttu.“ Dæmi um þetta gæti verið, þegar yfirdýralæknir forfallast skyndilega, brýn þörf er á manni með sérkunnáttu hans í stöðuna og ekki völ í bili á Íslendingum. En fjöldi íslenskra ríkisborgara hefur menntun og reynslu á við hinn nýsetta Norðmann. Alþingi féll einmitt frá að binda það skilyrði í lög, að seðlabankabankastjóri skyldi vera með háskólapróf í hagfræði. Þess vegna á ekki við, að hér hafi verið „þörf sérkunnáttu“.

Margar athafnir seðlabankastjóra varða mikilvæga hagsmuni jafnt einstaklinga og fyrirtækja, til dæmis ákvarðanir dráttarvaxta og uppsagnir starfsmanna. Ef hann er settur ólöglega, þá kunna dómstólar að ógilda slíkar embættisathafnir hans. Úr þessu atriði verður ekki skorið með álitsgerðum, heldur aðeins með dómi. Stjórnarskrárákvæðið um, að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar, var til að tryggja, að þeir gættu íslenskra hagsmuna. Fyrsti gestur hins nýja seðlabankastjóra var landi hans, Stoltenberg, og sátu þeir tveir einir fund í Seðlabankanum. Var þar lagt á ráðin um, hvernig best yrði gætt íslenskra hagsmuna?

Fréttablaðið 6. mars 2009


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband