Athugasemd til Þorsteins frá Hamri

Í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918-1998, rek ég mörg dæmi þess, að íslenskir rithöfundar, sem samúð höfðu með sósíalisma, en leyfðu sér að gagnrýna Kremlverja, voru hrakyrtir og þeim útskúfað úr gömlum vinahópum. Má þar nefna Benjamín Eiríksson, Stein Steinarr, Jóhann Hjálmarsson og Arnór Hannibalsson. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur treysti sér af þeim ástæðum ekki einu sinni til að taka að sér verkefni fyrir Almenna bókafélagið, eins og hann trúði framkvæmdastjóra félagsins, Baldvini Tryggvasyni, fyrir.

Sverrir hefur eflaust séð, hvernig fór fyrir skáldinu Jóni Óskari. Hann gaf 1964 út ferðabók hjá Almenna bókafélaginu, þar sem kvartað var lítillega undan því ófrelsi, sem rithöfundar ættu við að búa í Rússlandi. Svo vildi til, að sama ár fékk hann listamannalaun. Óðar hófust gegn Jóni Óskari skrif í dagblaði sósíalista, Þjóðviljanum, eins og ég rek í bók minni. Friðjón Stefánsson sagði til dæmis, að Jón Óskar hefði birt óhróður um Ráðstjórnarríkin. „Og eins og við manninn mælt: Hann skal upp í 18 þúsund króna flokk." Þorsteinn frá Hamri birti í Þjóðviljanum háðkvæði, þar sem hann setti fram sömu tilgátu: Jón Óskar hefði fengið átján þúsund krónur fyrir „sérlegt ferðastjá" sitt. Í endurminningum sínum sagði Jón Óskar, að Þjóðviljinn hefði eftir þetta skrifað gegn sér og sósíalistar hætt að heilsa sér á förnum vegi.

Þorsteinn frá Hamri skrifar nú 22. nóvember athugasemd til mín í Fréttablaðið, þar sem hann sagði háðkvæði sitt frá 1964 ekki hafa beinst að Jóni Óskari, heldur að úthlutunarnefnd listamannalauna, sem hefði fram að þessu sniðgengið Jón Óskar. Þetta er yfirklór. Kvæði Þorsteins var augljós ádeila á Jón Óskar. Ef Þorsteinn frá Hamri var ósammála úthlutunarnefndinni, en ekki Jóni Óskari, af hverju orti hann þá gegn henni, eftir að hún hafði veitt Jóni Óskari laun, en ekki á meðan hún neitaði honum um slík laun?

Og ef Þorsteinn frá Hamri tók undir gagnrýni Jóns Óskars á Ráðstjórnarríkin, hvers vegna þáði hann þá hálfs mánaðar boðsferð þangað haustið 1965, eins og ég skýri frá í bók minni?

(Grein í Fréttablaðinu 24. nóvember 2011.)


Fundur Sagnfræðingafélagsins gegn bókum okkar Þórs Whiteheads

Sagnfræðingafélagið og Reykjavíkurakademían héldu fund að kvöldi 23. nóvember 2011 undir yfirskriftinni: „Íslensk vinstri róttækni: Hugsjónabarátta eða landráð?“

Sjálf yfirskriftin var að vísu vanhugsuð, því að vitanlega geta menn verið hugsjónamenn um landráð. Til dæmis vildu kommúnistar, á meðan þeir voru upp á sitt besta, gera Ísland að ríki í Ráðstjórnarríkjunum, Sovét-Íslandi, eins og skoðanasystkini þeirra í Eistlandi, Lettlandi og Lithaugalandi gerðu með hjálp Rauða hersins árið 1940. Það var líka Otto Kuusinen hugsjónamál að gera Finnland að ríki í Ráðstjórnarríkjunum, þótt það tækist ekki.

Fundinn sóttu margir gamlir kommúnistar og sósíalistar og sátu þar eftirvæntingarfullir, til dæmis Árni Bergmann, Hjalti Kristgeirsson, Loftur Guttormsson, Þorsteinn Vilhjálmsson og Kjartan Ólafsson. Sagnfræðingafélagið valdi fjóra fræðimenn til að gagnrýna verk okkar Þórs Whiteheads, Sovét-Ísland. Óskalandið eftir Þór og Íslenska kommúnista 1918–1998 eftir mig, en bauð hvorugum okkar að svara. Ég ákvað þó að sækja fundinn og taka til máls, ef þess þyrfti með.

Framsöguerindin

Skafti Ingimarsson, sem skrifar nú doktorsritgerð um ólíka samsetningu kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins, talaði fyrstur. Hann taldi, að sjónarhorn okkar Þórs á kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn væri of þröngt. Þessir flokkar hefðu aðallega stundað verkalýðs- og þjóðfrelsisbaráttu. Óbreyttir fylgismenn þeirra hefðu ekki stefnt að byltingu.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðidoktor og höfundur bókarinnar Óvina ríkisins, tók síðan til máls. Hann svaraði ýmsum athugasemdum, sem Þór Whitehead hafði í Sovét-Ísland. Óskalandið gert við bók hans. Ekki voru þær þó stórvægilegar. Taldi Guðni Þór gera of mikið úr hættunni á kommúnistum á fjórða áratug. Lestur Guðna er aðgengilegur á heimasíðu hans.

Jón Ólafsson, rússneskumælandi heimspekidoktor og höfundur bókarinnar Kæru félaga, var þriðji framsögumaðurinn. Taldi hann Þór Whitehead túlka heimildir úr rússneskum skjalasöfnum djarflega. Aðrar túlkanir væru mögulegar, og sýndu heimildirnar meðal annars, að íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu ekki alltaf verið sammála Komintern. Sagðist Jón ekki hafa kynnt sér bók mína að gagni, en sér sýndist í fljótu bragði, að hún væri sömu annmörkum háð og bók Þórs.

Ragnheiður Kristjánsdóttir, sem skrifað hefur doktorsritgerð um kommúnistaflokkinn, steig síðust í pontu. Hún kvaðst hafa mestan áhuga á þjóðernistali íslenskra kommúnista og sósíalista. Þeir hefðu beint sjónum sínum að þeim hópum, sem útundan hefðu orðið í sjálfstæðisbaráttu nítjándu aldar, fátækum verkalýð. Önnur sjónarhorn ættu hins vegar vitaskuld rétt á sér.

Ragnheiður bar af sem framsögumaður, því að hún reyndi af fremsta megni að vera heiðarleg. Hún sá og skildi önnur sjónarmið, þótt hún væri þeim ekki samþykk. (Er hún þó langtengdust gömlu kommúnistunum framsögumannanna, því að hún er stjúpdóttir Svavars Gestssonar.) Guðni, sem venjulega er sanngjarn, var of upptekinn af því að svara Þór Whitehead í deilum þeirra um ýmis smáatriði, aðallega um Drengsmálið og Gúttóslaginn (þar sem mér sýndist Þór þó hafa meira til síns máls).

Spurningar mínar

Ég kvaddi mér fyrstur hljóðs eftir framsöguerindin og spurði hvern ræðumanna einnar spurningar.

Skafta spurði ég: Ég hef aðeins fundið eitt dæmi þess, að Sósíalistaflokkurinn hefði vikið út af línu kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna á starfstíma sínum 1938 til 1968. Það var, að flokkurinn vildi ekki fordæma kommúnistaflokka Júgóslavíu og Albaníu, eins og Kremlverjar vildu. Kannt þú fleiri dæmi?

Guðna spurði ég: Í fundarboðinu hér er sagt, að kommúnistaflokkurinn íslenski hafi viljað byltingu „með góðu eða illu“. Hvað er „bylting með góðu“?

(Þá kallaði Guðmundur Jónsson prófessor fram í utan úr sal, að „bylting með góðu“ væri, þegar hún heppnaðist. En ég svaraði á móti: Jafnvel þegar fjöldi manns er drepinn? Er það bylting með góðu? Þá þagði Guðmundur.)

Ragnheiði spurði ég: Þegar Einar Olgeirsson talaði við sendimenn Ráðstjórnarríkjanna í ársbyrjun 1947 og bað þá að gera ekki samninga við íslensk stjórnvöld um að kaupa fisk, hvort talaði Einar þá sem þjóðernissinni eða kommúnisti?

Jón Ólafsson spurði ég: Þú segir í bók þinni um ráðstjórnartengsl íslenskra sósíalista, að ekki sé ljóst af dagbókarfærslum Georgís Dímítrovs, hvað þeim Einari Olgeirssyni fór á milli, þegar Einar hitti hann í Moskvu í október 1945. En af dagbókinni sést glögglega, að þeir Dímítrov og Einar ræddu herstöðvabeiðni Bandaríkjanna, sem borist hafði í októberbyrjun, og innri málefni Sósíalistaflokksins íslenska. Hvað veldur þessari missögn þinni?

Svör framsögumannanna

Skafti nefndi í svari sínu ekkert dæmi um það, sem ég bað um, að Sósíalistaflokkurinn hefði í öðrum málum en afstöðunni til Júgóslavíu og Albaníu farið út af línu Kremlverja.

Guðni kvað ef til vill heppilegra að tala um valdatöku með góðu eða illu en nota hugtakið „byltingu með góðu“. (Það er auðvitað alveg rétt. Orðin í fundarboðinu voru bersýnilega skrifuð í flýti og vanhugsuð.)

Ragnheiður sagðist ekki kannast við þetta atvik úr rússneskum skjölum, sem ég nefndi, og vísaði því spurningunni til Jóns Ólafssonar.

Jón Ólafsson sagði, að Einar Olgeirsson hefði talað sem þjóðernissinni, þegar hann hefði beðið sendiherra ráðstjórnarinnar í ársbyrjun 1947 að flýta sér ekki að gera viðskiptasamninga við Íslendinga. Hann kvað það yfirsjón hjá sér, en ekki tilraun til að afveigaleiða lesendur, að hann skyldi ekki hafa fundið dagbókarfærslu Dímítrovs frá 1945 um það, að þeir Einar hefðu rætt saman herstöðvabeiðni Bandaríkjanna og innri málefni Sósíalistaflokksins.

Tóku nú við spurningar frá öðrum fundarmönnum og svör. Gekk það allt skaplega. Loftur Guttormsson sagnfræðiprófessor stóð upp og taldi nauðsynlegt að gera greinarmun á kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum, en kvaðst ekki ætla að lesa bók mína. Guðni Th. Jóhannesson hvatti hann hins vegar til þess að lesa bókina, hann gæti áreiðanlega fengið hana lánaða á almenningsbókasafni, ef hann kærði sig ekki um kaupa hana.

Óvænt fundarlok

Þegar leið að fundarlokum, kvaddi sér hljóðs Guðmundur Jónsson sagnfræðiprófessor. Hann gekk að pallborði, þreif þar hljóðnema af frummælendum, tók sér stöðu á miðju gólfi og hóf ræðuhöld gegn mér, þar sem ég sat á fremsta áheyrendabekk. Hann kvað mig umfram allt pólitískan erindreka, en ekki fræðimann. Mér hefði orðið stórlega á í fyrri verkum mínum, eins og alþjóð vissi, og nú væri ég að reyna að fá uppreist æru með hinni nýju bók minni, sem væri umfram allt pólitískt verk, þótt hann hefði ekki lesið hana. Það væri ekki hlutverk Sagnfræðingafélagsins að veita mér slíka uppreist æru, svo að félagið hefði ekki átt að bjóða mér að halda framsögu fyrir skömmu á fundi sínum um misnotkun sögunnar, því að það væru einmitt menn eins og ég, sem misnotuðu söguna. Guðmundi var mikið niðri fyrir, á meðan hann flutti reiðilestur sinn. Skalf hann allur og titraði, og andlitið gekk í bylgjum, jafnframt því sem hann fölnaði og roðnaði á víxl. Ekki hækkaði hann þó róminn, svo að heitið gæti. Allan tímann starði hann á mig með uppglennt augu, svo að helst minnti á saksóknara í réttarhöldum í Moskvu, lafhræddan við Stalín, að lesa yfir sakborningi. Dauðaþögn var í salnum, á meðan Guðmundur talaði, og fóru eflaust sumir hjá sér, en aðrir kímdu á laun, og einhverjum hefur sennilega ekki þótt neitt ofmælt, sem hann sagði.

Ég bað þegar um orðið, þegar sagnfræðiprófessorinn þagnaði, og svaraði á þessa leið: Það er leitt, að þú skulir hvorki hafa lesið bók mína, Guðmundur, þótt þú teljir þig geta flokkað hana til pólitískra verka, né sótt fyrirlestur minn á dögunum, þótt þú fordæmir hann. Í fyrirlestri mínum hjá Sagnfræðingafélaginu fór ég meðal annars yfir það, hvað ég hefði lært af gagnrýninni á fyrsta bindi ævisögu minnar um Halldór Kiljan Laxness. Það er, að einn texti má ekki vera of nálægur öðrum texta úr heimild, þótt ég hefði að vísu verið þar í góðri trú, því að ég hefði lesið mikið lof um það, hvernig Laxness sjálfur hefði tekið texta og notað, til dæmis dagbækur Magnúsar Hjaltasonar í Ljósvíkingnum og frásagnir Ralphs Fox í smásögunni „Temúdsjín snýr heim“. Hitt, sem ég hefði lært, hefði verið að vitna oftar og betur í ýmis smáatriði, sem fræðimenn hefðu fundið inni á söfnum, enda væri sjálfsagt að sýna þeim virðingu, og yrðu ekki margir aðrir til þess.

Sú gagnrýni, sem beint hefði verið að fyrsta verki ævisögu Laxness, hefði ekki heldur komið fram gegn öðru og þriðja bindinu.

Síðan sneri ég mér að Guðmundi Jónssyni og spurði: Þetta hef ég nú lært af mínum mistökum. Hvað hefur þú lært af þínum?

Þá sleit fundarstjóri fundi.


„varð ekki birt“

Guðný Ýr Jónsdóttir, ekkja Sigfúsar Daðasonar, mótmælir í Fréttablaðinu 19. nóvember því, sem ég segi um Sigfús í nýrri bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Þar ber ég í lokakafla stuttlega saman Jón úr Vör, sem mótmælti ofbeldisverkum Kremlverja í lok sjötta áratugar, og Sigfús Daðason, sem gerði það ekki. Guðný Ýr kvartar undan því, að ég vitni ekki í heimildir. Það geri ég fyrr í bókinni, enda er þessi umsögn í lokakaflanum aðeins upprifjun á því og tilvísun til þess.

Ég átti sérstaklega við nokkur atriði, sem nefnd eru í bókinni og Guðný Ýr getur því miður ekki um.

Í fyrsta lagi var Sigfús Daðason þá ritstjóri Tímarits Máls og menningar, sem flutti lesendum sínum lof eitt um kommúnistaríkin.

Í öðru lagi starfaði Sigfús Daðason þá hjá bókafélaginu Máli og menningu, sem Kremlverjar héldu beinlínis uppi með fjárstyrkjum, enda var það þeim hliðhollt.

Í þriðja lagi réðst Sigfús Daðason harkalega 1959 á bók Borísar Pasternaks, Sívago lækni, eins og áróðursmenn Kremlverja gerðu þá um allan heim.

Í fjórða lagi gagnrýndi Sigfús Daðason 1961 opinberlega flóttamanninn Tibor Merlay, sem hingað kom til að segja frá kúgun kommúnista í Ungverjalandi.

Í fimmta lagi hafnaði Sigfús Daðason 1963 ritgerðum Arnórs Hannibalssonar í Tímarit Máls og menningar um kúgun kommúnista í Ráðstjórnarríkjunum og þjónkun íslenskra kommúnista við Kremlverja.

Í sjötta lagi neitaði Sigfús Daðason að segja neitt opinberlega 1963 um uppgjör Halldórs K. Laxness við kommúnismann í Skáldatíma, þótt Morgunblaðið leitaði eftir því.

Á sama tíma birti Jón úr Vör magnað kvæði gegn kúgun Kremlverja, „Lítil frétt í blaðinu.“

Ekkja Sigfúsar Daðasonar segir síðan í grein sinni frá því, sem ég vissi raunar fullvel fyrir, að til er handrit að grein eftir Sigfús, þar sem hann andmælir innrás Kremlverja í Tékkóslóvakíu 1968. Á greinina var skrifað „varð ekki birt“. Með þessu staðfestir ekkjan mál mitt, svo að ekki þarf frekar vitnanna við. Sigfús Daðason treysti sér ekki til þess, þótt hann væri ritstjóri Tímarits Máls og menningar, að birta grein eftir sig um innrásina 1968 gegn vilja annarra ráðamanna Máls og menningar.

Það var einmitt gegn slíkri þögn og slíkri þöggun, sem ég samdi bók mína. Grein Guðnýjar Ýrar er frekari staðfesting á því, hversu nauðsynlegt var að ráðast í það verk. Sem betur fer þurfti ekki að skrifa á handritið að bók minni „varð ekki birt“.

(Grein í Fréttablaðinu 22. nóvember 2011.)


Ný dönsk bók staðfestir frásögn mína

Margt er skrifað um undirróður og njósnir hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar og þátt Íslendinga í þessu í nýútkominni bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Eftir að ég sendi handritið í prentsmiðju, barst mér ný dönsk bók, Verdensrevolutionens generalstab. Komintern og det hemmelige apparat (Herráð heimsbyltingarinnar. Alþjóðasamband kommúnista og launráð þess), eftir dr. Niels Erik Rosenfeldt. Þar er margt staðfest, sem ég held fram í bók minni.

Eitt er það, að Signe Sillén, eiginkona sænska kommúnistaforingjans og Íslandsfarans Hugos Silléns, sinnti verkefnum fyrir leyniþjónustu Kremlverja á þriðja og fjórða áratug. Munnlegar heimildir, sem dr. Þór Whitehead prófessor lét mig fá, hermdu, að hún hefði um skeið séð um leynilega fjárstyrki til íslenskra kommúnista. Rosenfeldt, sem þaulkannað hefur skjalasöfn í Moskvu, segir, að hún hafi stjórnað leynilegri móttöku- og sendistöð Alþjóðasambands kommúnista í Stokkhólmi.

Annað er, að Lenínskólinn í Moskvu, sem margir íslenskir kommúnistar sóttu, veittu þjálfun í byltingariðju, en af einhverjum ástæðum hafa þeir Jón Ólafsson í Bifröst og Kjartan Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, viljað gera sem minnst úr þeirri staðreynd í umræðum um eðli og hlutverk íslensku kommúnistahreyfingarinnar. Rosenfeldt segir (bls. 131):

Á námskrá voru meðal annars námskeið í marx-lenínisma, stjórnmálahagfræði, þróun hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar og sögu Ráðstjórnarríkjanna og kommúnistaflokksins. En einnig voru haldnar skotæfingar og tilsögn veitt í notkun skotvopna, undirróðri, dulmálssendingum og vopnaðri skæruliðastarfsemi.

Þetta nám var strangleynilegt, og gengu nemendur undir dulnefnum. Hefur mér tekist að hafa uppi á um tuttugu Íslendingum, sem stunduðu þetta nám. En einnig er í bók minni sagt frá nemendum, sem Sósíalistaflokkurinn kom til náms í Ráðstjórnarríkjunum og Mið-Evrópu eftir stríð, og nemendum í flokksskóla Æskulýðsfylkingar Ráðstjórnarríkjanna, Komsomol. Ekki fengu þeir þó neina hernaðarþjálfun, svo að vitað sé.

 


Kollubaninn

Á meðan Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra 1927-1932, beitti hann ákæruvaldinu, sem þá var í höndum ráðherra, óspart gegn andstæðingum. Á síðustu ráðherradögum sínum höfðaði hann til dæmis mál gegn Magnúsi Guðmundssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem tók við ráðuneytinu af honum. (Ákæran snerist um lögfræðilega ráðgjöf Magnúsar í gjaldþrotamáli.)

hermann_1122520.jpgEinn skjólstæðingur Jónasar frá Hriflu, Hermann Jónasson, var lögreglustjóri í Reykjavík og hafði einnig dómsvald þar. Sakfelldi hann Magnús dómsmálaráðherra í nóvember 1932 og dæmdi hann í nokkurra vikna fangelsi upp á vatn og brauð. Magnús sagði þegar af sér ráðherraembætti og beið dóms Hæstaréttar, sem sýknaði hann í árslok 1932.

Rösku ári síðar var Hermann sjálfur kærður fyrir lögbrot. Hefði hann skotið kollu úti í Örfirisey 1. desember 1930, en hún var þá friðuð. Sóru tvö vitni þess eið að hafa séð Hermann skjóta kolluna. Var Hermann sakfelldur í undirrétti, en sýknaður í Hæstarétti. Þá var hann orðinn forsætisráðherra. Í niðurstöðu sinni kvaðst Hæstiréttur vissulega ekki geta gengið fram hjá vitnisburði tveggja eiðsvarinna manna, er séð hefðu Hermann skjóta kolluna, en þennan dag hefði hann verið að skotæfingum, og hefði kollan flogið í veg fyrir skot úr byssu Hermanns!

Hermann kastaði fram þingvísu 1934 með skírskotun til þess, að tvær starfstúlkur þingsins hétu Svanhildur:

Ævi mín var eintóm leit

eftir villtum svani.

En ég er eins og alþjóð veit

aðeins kollubani.

En Arnór Sigurjónsson botnaði söguna. Í minningargrein um Hermann í Þjóðviljanum 29. janúar 1976 kvaðst Arnór hafa komist að því, að ellefu vindstig hefðu verið í Reykjavík daginn, sem Hermann var sakaður um að skjóta kolluna. Taldi Arnór ógerlegt að skjóta fugla við þær aðstæður og skundaði til Hermanns í því skyni að benda honum á þetta varnaratriði. Hermann hefði þá trúað sér fyrir leyndarmáli: „Ég skaut kolluna, af því mig langaði svo til þess að vita, hvort ég gæti hitt hana á löngu færi í þessu ofsaveðri.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 19. nóvember og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins.)


Góðir dómar

Ég hlýt að vera ánægður með þá dóma, sem birst hafa um bók mína, Íslenska kommúnista 1918–1998.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, sem gjörþekkir stjórnmálasögu síðustu hálfu aldar, birti umsögn í Morgunblaðinu 13. nóvember 2011, þar sem hann sagði meginniðurstöðu verksins, að íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu verið erindrekar erlends valds. Það væri staðfest á óyggjandi hátt í bók minni og í hinu mikla verki dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Íslandi. Óskalandinu, sem kom út fyrir ári. Styrmir nefndi að vísu, að hann hefði þekkt konu, sem bregður fyrir í bókinni í fremur ógeðfelldu hlutverki, Ragnheiði Möller. Sú söguhetja væri ekki konan, sem hann þekkti. Að lokum sagði Styrmir:

Mér finnst Hannes Hólmsteinn hafa unnið mikið afrek með þessari bók. Það liggur við að það sé veikleiki á bókinni hvað hann gerir lítið af því að draga ályktanir af þeim upplýsingum, sem hann hefur safnað saman, og mundi kannski einhver telja það ólíkt höfundinum, sem er betur þekktur fyrir flest annað en að liggja á skoðunum sínum. Myndirnar í bókinni eru stórmerkilegar og frágangur mjög góður.

Það er rétt hjá Styrmi, að ég lagði aðaláherslu á frásögnina sjálfa, ekki á dóma, því að ég lét þá lesendum eftir. Ég dró fram í dagsljósið staðreyndir og reyndi að skipa þeim í rökrænt samhengi í hraðri frásögn.

Eiríkur Jónsson blaðamaður bloggaði um bókina frá öðru sjónarhorni, eins og honum einum er lagið, og sagði meðal annars:

Í raun er þetta frábær bók og þá sérstaklega vegna myndanna sem prýða hverja síðu með myndatextum eins og í dönskum vikublöðum. Svo er gaman að grípa ofan í textann og mannlýsingar Hannesar Hólmsteins sem lýsir ekki bara geðslagi og hugmyndum persónanna heldur líka göngulagi og jafnvel kækjum. Hannes Hólmsteinn skrifar svo lipran texta – að engu er líkara en maður sé að lesa danskt vikublað.

Einhverjum kann að þykja hrósið blendið, þegar mér er líkt við danskan vikublaðshöfund, en ég reyndi vissulega að skrifa fyrir almenning, ekki aðeins fræðimenn, og ef Eiríkur hefur rétt fyrir sér, þá hefur það tekist.

Jón Sigurðsson, sagnfræðingur og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, birti umsögn í Fréttablaðinu 18. nóvember 2011, en Jón er öllum hnútum kunnugur í sósíalistahreyfingunni frá þeim tíma, er hann starfaði þar af slíku kappi, að hann var kallaður „Jón bolsi“. Jón sagði, að bók mín væri „læsileg frásögn, prýdd fjölda mynda og krydduð skemmtilegum arfsögnum. Kaflar eru stuttir og efnið streymir létt fram. Þetta er myndarleg bók og vel gerð.“ Hann bætti við: „En í þessari sagnasýningu er lesanda haldið við efnið um leið: við hræðilega alvöru mannkynssögunnar á 20. öld og blóði drifinn hryllingsferil kommúnismans.“ Hann sagði einnig: „Frásögnin er hröð og efnismagn feiknarlegt. Höfundur á létt með að hrífa lesandann með sér.“

Jón sagði hins vegar hið sama og Styrmir, að hann hefði sjálfur þekkt aðra og betri hlið á sumum þeim kommúnistum, sem komu við sögu í bók minni. Meðal þeirra mörgu, sem Jón nefndi, var Sigfús Daðason skáld. Margt var áreiðanlega gott um Sigfús, en það breytir engu um það, að hann var einn þeirra, sem tóku þátt í því að reyna að gera lítið úr Borís Pasternak og þagga niður í Arnóri Hannibalssyni, eins og ég rek í bók minni. Það voru einmitt margar hliðar á þessum mönnum, sumar góðar og aðrar miður góðar.

Jón sagði einnig, að „hlýðnikenningin“ hefði ekki verið staðfest í bók minni. Ég setti þar raunar ekki fram neina hlýðnikenningu, heldur lét lesandann sjálfan um að dæma um það, hversu miklu máli náin tengsl íslenskra kommúnista og sósíalista við austantjaldsríkin skiptu. Ég vildi frekar segja sögu, dramatíska, sorglega, persónulega, átakanlega sögu, en predika. Hitt er annað mál, að niðurstaða mín er, að íslenskir kommúnistar hafi hvorki verið betri né verri, meiri né minni, kommúnistar en annars staðar.


Matthías Á. Mathiesen. Minningarorð

Matthías Á. Mathiesen var vanmetinn stjórnmálamaður. Hann var ræðumaður í meðallagi og ekki alltaf skörulegur. En hann var einn lagnasti stjórnmálamaður, sem ég hef kynnst. Hann kunni leikreglur íslenskra stjórnmála út í hörgul. Hann var prýðilega gefinn, en átti líka auðvelt með að laða til liðs við sig menn, sem voru betur að sér í ýmsum efnum og bættu hann þannig upp. Hann var vingjarnlegur við alla, lága sem háa, og stutt í brosið. Hann var líka varfærinn og slyngur. Þetta olli því, að hann reyndist farsæll stjórnmálamaður ekki síður en vinsæll og hlaut meiri frama en margir höfðu séð fyrir, varð foringi sjálfstæðismanna í stóru kjördæmi og lengi ráðherra.

Matthías varð þjóðkunnur, þegar hann felldi sjálfan forsætisráðherrann, Emil Jónsson, í Hafnarfirði í vorkosningunum 1959. Á meðan Emil flutti ræður niður til Hafnfirðinga, sat Matthías glaðhlakkalegur með kjósendum yfir kaffibolla á vinnustöðum og jafnvel niðri á bryggjusporðum. Engum líkaði illa við þennan elskulega nýútskrifaða lögfræðing, aðeins tuttugu og átta ára. Ekki spillti fyrir, að kona hans, Sigrún Þorgilsdóttir, var áhugasamur stuðningsmaður, rösk og drjúg í kosningabaráttu. Matthías varð fljótt áhrifamikill á þingi. Þegar Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gerðist sendiherra í Kaupmannahöfn 1965 í því skyni að undirbúa forsetaframboð, vildi Bjarni Benediktsson gera Geir Hallgrímsson að varaformanni. Þá fóru nokkrir þingmenn með Matthías í broddi fylkingar til Bjarna og sögðu nei. Þeir vildu, að varaformaðurinn kæmi úr þingflokknum og nefndu Jóhann Hafstein. Þótt Bjarni hefði frekar augastað á Geir sem eftirmanni, lét hann undan. „Bjarni var parlamentíker,“ sagði Matthías við mig.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksis 1965 var kosið á milli Styrmis Gunnarssonar og Matthíasar í miðstjórn flokksins, en eftir kosninguna bauð Matthías Styrmi heim til sín um kvöldið, þeir fengu sér smávegis í staupin og urðu góðir vinir. Gerðist Matthías einn af helstu stuðningsmönnum Geirs Hallgrímssonar, en var samt enginn andstæðingur Gunnars Thoroddsens, sem hann kunni vel að meta fyrir gáfur og mælsku. Þegar Geir myndaði ríkisstjórn 1974, þótti Matthías sjálfkjörinn ráðherra. Gegndi hann stöðu fjármálaráðherra af prýði frekar en með tilþrifum næstu fjögur ár. Ég sat á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1978 og fékk að fara með Matthíasi í bíl um kjördæmið. Sá ég þar, hversu góðu sambandi hann var í við almenna flokksmenn. Hann mundi öll nöfn og fylgdist vel með lífi fylgismanna sinna og starfi. Hélt hann vel utan um fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi, þar sem hann var nú oddviti.

Matthías varð aftur ráðherra 1983 og fór fyrst með viðskiptamál, þar sem hann steig merkileg skref í frjálsræðisátt, en var síðan utanríkisráðherra og loks samgönguráðherra. Hann sat á þingi til 1991. Matthías hafði konu- og barnalán mikið, en átti síðustu árin við vanheilsu að stríða. Missir okkar er mikill. Íslandi veitir ekki af heiðursmönnum eins og Matthíasi Á. Mathiesen.

(Minningarorð í Morgunblaðinu 17. nóvember 2011.)


Tók hann við fjárstyrkjum frá KGB?

Einn af þeim, sem aðstoðuðu mig við bókina Íslenskir kommúnistar 1918–1998, var Ole Sohn, þá þingmaður Sósíalíska þjóðarflokksins danska, nú atvinnumálaráðherra Dana í nýrri vinstri stjórn. Sohn var á sínum tíma formaður danska kommúnistaflokksins og rannsakaði í rússneskum skjalasöfnum örlög landa síns, Arnes Munch-Petersens, sem talsvert er rætt um í bók minni, og skrifaði raunar um þau heila bók. Var Sohn svo vinsamlegur að útvega mér ljósmynd af Arne Munch-Petersen úr skjalasafni leynilögreglu ráðstjórnarinnar, sem þá hét NKVD og síðar KGB. Var hún af því, þegar Munch-Petersen var handtekinn, og birtist í bók minni.

Munch-Petersen sat um skeið á þingi fyrir danska kommúnista. Hann var samstarfsmaður íslenskra kommúnista og kemur margoft fyrir í skjölum þeirra, túlkur Einars Olgeirssonar í Moskvu 1928 og yfirumsjónarmaður danskra og íslenskra kommúnista á fjórða áratug. Það var til dæmis Munch-Petersen, sem tilkynnti íslenskum kommúnistum í Kaupmannahöfn 1934, að nú mættu þeir ekki lengur tala við Stefán Pjetursson, sem hefði verið rekinn úr kommúnistaflokknum. Munch-Petersen var handtekinn í hreinsunum Stalíns, þótt hann væri eindreginn stalínisti, og pyndaður í rússneskum fangelsum, uns hann lést þar úr veikindum og vosbúð 1940.

Þótt góður kunningi íslenskra kommúnista hyrfi skyndilega í Moskvu, spurðu þeir aldrei neinna spurninga um hann. Leiðtogi danskra kommúnista, Aksel Larsen, fékk strax að vita, hvað orðið hefði um Munch-Petersen, en sagði aldrei frá því, ekki einu sinni ekkju Munch-Petersens.

Nú er því haldið fram í Danmörku, að Ole Sohn hafi sem formaður kommúnistaflokksins danska tekið reglulega við fjárstyrkjum frá KGB allt fram til hruns Ráðstjórnarríkjanna 1991. Sohn ber af sér að hafa tekið sjálfur við slíkum styrkjum, en viðurkennir, að hann hafi vitað eitthvað um þá. Níkolaj Sjatskíkh, sem var yfirmaður KGB í Kaupmannahöfn 1984–1992, fullyrðir hins vegar, að Sohn hafi tekið við fénu eða einhver í umboði hans.

Samskipti okkar Sohns voru hin vinsamlegustu, og óskaði hann mér velfernaðar í bókaskrifum mínum. Mér fannst á bók Sohns um Munch-Petersen, að hann vildi gera yfirbót fyrir baráttu sína í þágu kommúnismans, hvort sem sú tilfinning mín er rétt eða röng.


Viðtal við mig í Kastljósi

Ég var í Kastljósi Sjónvarpsins miðvikudaginn 9. nóvember 2011 vegna hinnar nýju bókar minnar, Íslenskir kommúnistar 1918–1998. Upptöku af þættinum má sjá hér. Þar rifjaði ég upp, að bók mín hófst á Grænatorgi í nóvember 1918, þegar þeir Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson lentu í götuóeirðum og urðu kommúnistar, og henni lauk í Havana á Kúbu í nóvember 1998, þegar Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir fóru þangað í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins.

Í bókinni kemur fram, að hin íslenska hreyfing, sem oft hafði hamskipti, hét fyrst kommúnistaflokkur, síðan Sósíalistaflokkur og loks Alþýðubandalag, hafði miklu sterkari og nánari tengsl við hina alþjóðlegu hreyfingu en talið hefur verið fram að þessu. Styð ég þessa niðurstöðu rannsóknum í skjalasöfnum og bókasöfnum víða um heim, en í bókinni naut ég góðs af gögnum, sem Arnór Hannibalsson hafði safnað í rússneskum söfnum, og einnig af traustum frumrannsóknum sagnfræðinganna Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar, sem báðir veittu mér aðgang að fjölda merkilegra heimilda.

Leitaðist ég við að vinna úr öllu þessu efni lipran og hnökralausan texta og finna myndir, sem skýrðu það og dýpkuðu í vitund lesandans, en um 500 myndir eru í bókinni.

Margir gamlir fylgismenn þessarar hreyfingar tóku mér ljúfmannlega og greiddu úr spurningum, svo að ofsagt er á visir.is að kommúnistar hafi „hunsað“ mig, þótt vissulega hafi sumir ekki kært sig um að svara mér um ýmis atriði, til dæmis Svavar Gestsson. Líklega kalla fáir sig raunar enn „kommúnista“.


Viðtal við mig í DV

wdv1110319532_02.jpgFöstudaginn 11. nóvember 2011 birtist við mig viðtal í föstum dálki, „Innlit,“ í DV. Þar var rætt við mig um lífið og tilveruna og litið inn á heimili mitt. Ég sagði blaðakonunni, Svövu Jónsdóttur, sem satt var, að síðustu mánuði hefði líf mitt snúist um að ljúka því verki, sem nú er komið út, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Í þeirri bók, sem dreift hefur verið í búðir, sýndi ég fram á það með ótal heimildum, að kommúnistunum íslensku var alvara með því, sem þeir sögðu. Þeir voru kommúnistar og vildu gera byltingu. Þess vegna voru þeir ekki í sama flokki og íslenskir jafnaðarmenn. Tengsl þeirra við einræðisstjórnir kommúnista náðu miklu lengra og víðar en vitað hefur verið fram að þessu: Þeir tóku við fyrsta fjárstyrkinum frá Moskvu 1919 og fóru í síðustu boðsferðina til kommúnistaríkisins Kúbu 1998.

Kommúnisminn var mannskæðasta stjórnmálahreyfing sögunnar og mun hafa kostað hátt í hundrað milljónir mannslífa. Þessi alþjóðlega hreyfing átti sér öflugt útibú á Ísland, þar sem var fyrst kommúnistaflokkurinn, síðan Sósíalistaflokkurinn og loks Alþýðubandalagið, þótt ekki sé unnt að kalla það hreinræktaðan kommúnistaflokk. En gamli kjarninn í Alþýðubandalaginu, sem kom úr kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum, var samt alla tíð ófáanlegur til að gera upp við sovétkommúnismann þrátt fyrir ótal tillögur um það, meðal annars frá þeim Össuri Skarphéðinssyni og Hrafni Jökulssyni, á meðan þeir störfuðu í Alþýðubandalaginu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband