Tók hann við fjárstyrkjum frá KGB?

Einn af þeim, sem aðstoðuðu mig við bókina Íslenskir kommúnistar 1918–1998, var Ole Sohn, þá þingmaður Sósíalíska þjóðarflokksins danska, nú atvinnumálaráðherra Dana í nýrri vinstri stjórn. Sohn var á sínum tíma formaður danska kommúnistaflokksins og rannsakaði í rússneskum skjalasöfnum örlög landa síns, Arnes Munch-Petersens, sem talsvert er rætt um í bók minni, og skrifaði raunar um þau heila bók. Var Sohn svo vinsamlegur að útvega mér ljósmynd af Arne Munch-Petersen úr skjalasafni leynilögreglu ráðstjórnarinnar, sem þá hét NKVD og síðar KGB. Var hún af því, þegar Munch-Petersen var handtekinn, og birtist í bók minni.

Munch-Petersen sat um skeið á þingi fyrir danska kommúnista. Hann var samstarfsmaður íslenskra kommúnista og kemur margoft fyrir í skjölum þeirra, túlkur Einars Olgeirssonar í Moskvu 1928 og yfirumsjónarmaður danskra og íslenskra kommúnista á fjórða áratug. Það var til dæmis Munch-Petersen, sem tilkynnti íslenskum kommúnistum í Kaupmannahöfn 1934, að nú mættu þeir ekki lengur tala við Stefán Pjetursson, sem hefði verið rekinn úr kommúnistaflokknum. Munch-Petersen var handtekinn í hreinsunum Stalíns, þótt hann væri eindreginn stalínisti, og pyndaður í rússneskum fangelsum, uns hann lést þar úr veikindum og vosbúð 1940.

Þótt góður kunningi íslenskra kommúnista hyrfi skyndilega í Moskvu, spurðu þeir aldrei neinna spurninga um hann. Leiðtogi danskra kommúnista, Aksel Larsen, fékk strax að vita, hvað orðið hefði um Munch-Petersen, en sagði aldrei frá því, ekki einu sinni ekkju Munch-Petersens.

Nú er því haldið fram í Danmörku, að Ole Sohn hafi sem formaður kommúnistaflokksins danska tekið reglulega við fjárstyrkjum frá KGB allt fram til hruns Ráðstjórnarríkjanna 1991. Sohn ber af sér að hafa tekið sjálfur við slíkum styrkjum, en viðurkennir, að hann hafi vitað eitthvað um þá. Níkolaj Sjatskíkh, sem var yfirmaður KGB í Kaupmannahöfn 1984–1992, fullyrðir hins vegar, að Sohn hafi tekið við fénu eða einhver í umboði hans.

Samskipti okkar Sohns voru hin vinsamlegustu, og óskaði hann mér velfernaðar í bókaskrifum mínum. Mér fannst á bók Sohns um Munch-Petersen, að hann vildi gera yfirbót fyrir baráttu sína í þágu kommúnismans, hvort sem sú tilfinning mín er rétt eða röng.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband