30.11.2008 | 14:41
Hrun bankanna er ekki hrun Íslands
Íslensku bankarnir hrundu nokkra sögulega daga í október 2008. Ísland hrundi ekki með þeim. Landið liggur ekki í rúst eins og mörg Norðurálfuríki eftir seinna stríð. Brýr, vegir og virkjanir standa. Vélar eru óskemmdar, tölvur tengdar, enginn hefur týnt lífi af annarra völdum. Fiskur og ál eru á góðu verði á alþjóðlegum markaði. Útflutningsatvinnuvegir dafna dável, sjávarútvegur, raforkuframleiðsla, stóriðja og ferðamannaþjónusta. Þjóðin hefur orðið að sætta sig við mikla kjaraskerðingu við fall krónunnar, en það hefur þó þann kost, að hún fékk með því skýr skilaboð um, að nú yrði að herða sultarólina. Sú kjaraskerðing ætti einnig að vera tímabundin.
Kapítalismanum ekki um að kenna
Hverjum var hrun bankanna að kenna? Sumir kveða upp dauðadóm yfir kapítalismanum. En kapítalisminn, kerfi séreignar og samkeppni, verður ekki dæmdur af nokkrum vikum í október 2008, heldur af mörg hundruð ára sögu sinni. Hún sýnir, að við frjáls viðskipti á alþjóðamarkaði, harða samkeppni fyrirtækja um hylli neytenda og séreign á framleiðslutækjum skapast mestu verðmætin. Nýfrjálshyggjan er ekki heldur dauðadæmd, því að hún var aldrei til. Þetta er ekkert annað en uppnefni á sígildri frjálshyggju þeirra Johns Lockes og Adams Smiths, sem felur í sér tortryggni á óheft ríkisvald og skilning á því, að mannlegt samlíf getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.
Hrun bankanna er auðvitað aðallega að kenna hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, sem átti upptök sín í Bandaríkjunum og skall yfir heimsbyggðina haustið 2007, en færðist í aukana haustið 2008, þegar hver fjárfestingarsjóðurinn af öðrum varð gjaldþrota og jafnvel margir bankar. Rætur kreppunnar liggja ekki í kapítalismanum, heldur vanhugsuðum ríkisafskiptum. Bandarískir húsnæðislánasjóðir, sem störfuðu við ríkisábyrgð og rýmri reglur en venjulegir bankar, veittu lán til fólks, sem bersýnilega gat ekki staðið í skilum. Að ráði Robertu Achtenberg, aðstoðarráðherra í stjórn Clintons forseta um miðjan tíunda áratug, var lánastofnunum einnig bannað að mismuna minnihlutahópum í útlánum (til dæmis með því að lána hlutfallslega meira til hvítra manna en svartra), og skipti þá greiðslugeta litlu máli. Afleiðingin af þessum ríkisafskiptum varð, að eignasöfn banka fylltust af undirmálslánum, og hver hætti að treysta öðrum. Lánalínur rofnuðu, svo að skuldugustu fjármálastofnanir hrundu og aðrar stundum með þeim. Lánsfjárskortur á alþjóðamarkaði bitnaði illa á íslensku bönkunum, sem höfðu vaxið hratt og skulduðu mikið. Sumir þeirra höfðu líka í eignasöfnum sínum eins konar undirmálslán, sem þeir höfðu veitt áhættukapítalistum, sérstaklega Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og mönnum í kringum hann. Ein skýringin var, að Jón Ásgeir og aðrir honum líkir áttu stóra hluti í bönkunum. Hætt er við, að eigendur bankanna hafi lánað hver öðrum á víxl í því skyni að fara í kringum reglur um samskipti eigenda og stjórnenda einstakra banka.
Ruddaskapur Breta
Stærstu íslensku bönkunum tveimur tókst samt furðuvel að standa af sér lánsfjárkreppuna, uns bresku jafnaðarmannaleiðtogarnir Gordon Brown og Alistair Darling beittu í október 2008 lögum um hryðjuverkavarnir til að loka breskum útbúum þeirra og dótturfélögum og frysta allar eignir þeirra í Bretlandi. Fjármálaráðuneyti Íslands og Seðlabanki urðu um hríð að sæta því ásamt Landsbankanum að vera á lista breskra stjórnvalda á Netinu um hryðjuverkasamtök ásamt Al-Kaída, Talibönum í Afganistan og örfáum öðrum aðilum. Við þetta var úti um bankana, jafnframt því sem stórkostlegir erfiðleikar steðjuðu að þjóðarbúinu og krónan snarféll. Allar eðlilegar greiðslur um banka stöðvast vitanlega til lands, sem er á lista um hryðjuverkasamtök. Enn er Landsbankinn á þessum lista, þótt hann hafi verið færður í sérstakan reit.
Þeir Brown og Darling báru því við, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki ætlað að standa við skuldbindingar um ábyrgð á innstæðum breskra sparifjáreigenda í íslensku bönkunum. Ekkert, sem stjórnvöld sögðu, gaf tilefni til grunsemda um það. Tryggingarsjóður bankainnstæðna starfar á Íslandi samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins og tryggir allar bankainnstæður eftir því, sem hann hefur bolmagn til. Þeir Brown og Darling létu einnig hafa eftir sér, að íslensku bankarnir hefðu flutt verulegt fé til Íslands dagana fyrir aðgerðir Breta. Rannsókn hlýtur að leiða hið sanna um það í ljós, en hvort sem það er rétt eða rangt, gaf það ekkert tilefni heldur til að beita lögum um hryðjuverkavarnir. Síðustu klukkutímana sem Lehman Brothers störfuðu, flutti fyrirtækið stórfé (rúma fjóra milljarða punda) frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Hvorki bandaríski seðlabankinn né bandaríska fjármálaráðuneytið voru sett á opinberan lista breskra stjórnvalda á Netinu um hryðjuverkasamtök og ekki heldur Lehman Brothers.
Skýringin á því, að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa kom miklu harðar niður á Íslendingum en öðrum þjóðum, er því tvíþætt. Annars vegar voru íslensku bankarnir skuldugri en svo, að ríkissjóður og Seðlabanki hefðu bolmagn til að bjarga þeim, þegar syrti í álinn. Hins vegar ollu Bretar okkur búsifjum með ruddalegri framkomu sinni. Svo er að sjá sem Bretar reyni að neyða íslenska ríkið til að ganga miklu lengra gagnvart breskum innstæðueigendum en því ber samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Ef hinn íslenski Tryggingarsjóður bankainnstæðna hrekkur ekki til, þá hefur íslenska ríkið enga lagaskyldu til að koma honum til aðstoðar.
SkuldakóngurinnHvers vegna voru bankarnir skuldugri en svo, að ríkissjóður og Seðlabanki fengju bjargað þeim? Þegar hefur eitt svarið verið nefnt, að eigendur bankanna lánuðu hver öðrum á víxl. Sérstaklega á þetta við um Jón Ásgeir Jóhannesson. Meginhlutinn af þeim skuldum, sem bankarnir hafa stofnað til í íslensku útrásinni svonefndu, tengjast Jóni Ásgeiri beint og óbeint, hátt í eitt þúsund milljarðar að sögn fyrrverandi samstarfsmanns hans.
Ein augljósasta ástæðan til þess, hversu langt Jón Ásgeir Jóhannesson hefur komist í að hrifsa til sín sparifé almennings og nota í ævintýri erlendis, er, að hann átti flesta fjölmiðlana og hikaði ekki við að beita þeim sér í hag. Sjálfur var hann aldrei gagnrýndur í þessum fjölmiðlum, en hafnar voru rógsherferðir gegn þeim, sem létu í ljós áhyggjur af ofríki hans. Davíð Oddsson var forsætisráðherra 2004, skynjaði hættuna og bar fram frumvarp um, að auðjöfrar mættu ekki ráða öllum fjölmiðlum. Alþingi samþykkti frumvarpið. Jón Ásgeir hafði góð tengsl við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Framkvæmdastjóri eins fyrirtækis Jóns Ásgeirs hafði verið kosningastjóri Ólafs Ragnars í forsetakjöri 1996. Önnur dóttir Ólafs Ragnars var í hálaunastarfi hjá Jóni Ásgeiri. Í fyrsta skipti gekk forseti gegn þinginu með því að synja frumvarpi staðfestingar, og var það þá dregið til baka. Skömmu síðar vék Davíð úr stól forsætisráðherra.Orrustan um fjölmiðlafrumvarpið vorið 2004 varð örlagarík. Valdajafnvægi á Íslandi raskaðist. Þrír auðmannahópar eignuðust nær alla fjölmiðla, en áttu fyrir bankana og voru um leið stærstu viðskiptavinir þeirra. Þessir auðmenn bjuggu við lítið aðhald, eins og dæmin sanna. Þegar Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, sagði sig í júlí 2005 úr stjórn FL Group í mótmælaskyni við vinnubrögð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og félaga, hafði það engin eftirmál. Þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna vildi ekki hlýða öllum fyrirmælum Jóns Ásgeirs í júlí 2006, hótaði hann að stofna sérstakan lífeyrissjóð fyrir starfsfólk fyrirtækja sinna, mörg þúsund manns. Þessi yfirgangur vakti engin viðbrögð. Þegar sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins komu í september 2007 í veg fyrir, að mennirnir í kringum Jón Ásgeir fengju eignir Orkuveitu Reykjavíkur afhentar, snerust flestir fjölmiðlar gegn borgarfulltrúunum.
Eftir að Davíð Oddsson hafði náð sér eftir erfið veikindi, gerðist hann seðlabankastjóri haustið 2005. Hann skynjaði hina nýju hættu af skuldum bankanna (sem voru aðallega skuldir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við þá vegna útrásarverkefna) og varaði við henni, meðal annars í ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma, sagði hann. Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar. Á Davíð var ekki hlustað, enda reyndu fjölmiðlar Jóns Ásgeirs eftir megni að gera hann tortryggilegan.
Hvers vegna sökk skipið?
Loðnuskip siglir drekkhlaðið í land. Lítið má út af bera. Fárviðri skellur á, svo að skipið sekkur, þótt mannbjörg verði. Hverjum er um að kenna? Fárviðrið er í einum skilningi orsökin, en í öðrum skilningi er það sú ákvörðun skipstjórans (með samþykki áhafnarinnar) að drekkhlaða skipið. Siglingalögunum er að sjálfsögðu ekki um að kenna, en hugsanlega eftirlitsaðilum, ef þeir hafa vanrækt eftirlitshlutverk sitt og hefðu mátt vita betur. Síðan kemur í ljós, að skipstjóri og áhöfn hafa ofhlaðið skipið vegna þess, að eigandi skipsins, útgerðarmaðurinn, lagði fast að þeim að gera það eða jafnvel skipaði þeim það. Þá ber hann ekki minni sök en skipstjórinn. Er útgerðarmaðurinn í þessu dæmi ekki útrásarmaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson?
Hvað sem því líður, eru kapítalistar ekki rök gegn kapítalisma. Aðalatriðið er ekki að prédika gegn græðgi, eins og þúsund spekingar hafa gert í þúsund ár, heldur að reyna að veita henni í farvegi, þar sem hún verður gagnleg öðrum. Það tekst aðeins við skynsamlegar leikreglur. Reynsla síðustu vikna og mánaða auðveldar okkur vonandi að endurbæta leikreglurnar.
Menntaskólatíðindi, 3. tbl. 2008. (Myndirnar eru af snekkju Jóns Ásgeirs, 101, sem skráð er á Cayman-eyjum, og teknar af fréttavefnum AMX.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.12.2008 kl. 15:25 | Slóð | Facebook
28.11.2008 | 14:52
Úrræði í peningamálum
Reiði almennings vegna kreppunnar er skiljanleg. En því má ekki gleyma, að hún er alþjóðleg lánsfjárkreppa, sem bitnar ekki aðeins á Íslendingum. Víða annars staðar riða bankar til falls, lánalínur rofna, fyrirtæki komast í þrot, fólk missir vinnuna. Við urðum harðar úti en aðrar þjóðir af tveimur ástæðum.
Í fyrsta lagi kom í ljós kerfisgalli á EES-samningnum. Samkvæmt honum var allt EES-svæðið eitt markaðssvæði, svo að ekki átti að skipta máli, hvar fyrirtæki hefði bækistöð. Þetta nýttu íslensku bankarnir sér, störfuðu víða og stækkuðu ört. En ekki voru gerðar fullnægjandi ráðstafanir á svæðinu til að tryggja þeim lausafé. Þegar á reyndi, neituðu seðlabankar á EES-svæðinu að hlaupa undir bagga. Bankarnir voru of stórir fyrir Ísland, þótt þeir væru það ekki fyrir EES-svæðið.
Í öðru lagi kom Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, tveimur íslensku bankanna á kné, þegar hann stöðvaði starfsemi þeirra í Bretlandi og setti fjármálaráðuneytið íslenska og seðlabankann á opinberan lista um hryðjuverkasamtök. Hann neytti síðan með aðstoð Evrópusambandsins aflsmunar í því skyni að flytja stórkostlegar skuldir einkaaðila yfir á herðar íslensks almennings. Þegar bandarísk fjármálafyrirtæki gerðu hið sama og hann sakaði íslensku bankana um, höfðust bresk stjórnvöld hins vegar ekki að.
Með því að ráðast á Davíð Oddsson seðlabankastjóra er verið að hengja bakara fyrir smið, því að hann hefur síðustu tvö ár, allt frá 2006, varað við hættunni af örum vexti bankanna, væru ekki gerðar ráðstafanir til að tryggja þeim nægt lausafé. Til eru næg gögn um þetta, þótt eðli málsins samkvæmt gæti Davíð ekki rætt málið opinberlega. Eflaust fóru bankarnir líka stundum að með kappi fremur en forsjá.
Deila má um, hvort það skipulag peningamála, verðbólgumarkmið og sveigjanlegt gengi, sem staðið hefur frá 2001, hafi verið heppilegt. En hvers vegna hafa aðrar þjóðir, sem bjuggu við sama skipulag, ekki orðið eins hart úti? Og hefði útlánaþensla bankanna orðið minni, hefðum við notað evru og nýtt okkur lága vexti á evrusvæðinu? Hvað sem því líður, hefur verðfall krónunnar komið þeim skilaboðum til okkar, að við verðum að spara og kaupa frekar innlenda vöru en innflutta. Hefðum við notað evru nú, hefðu þessi skilaboð ekki borist.
Ég hafna þeirri nauðhyggju, að nú sé aðeins tveggja kosta völ, að halda í krónuna og standa utan ES eða taka upp evru og ganga í ES. Til eru að minnsta kosti fjórir aðrir kostir í peningamálum. Einn er danska leiðin, að festa krónuna við evru. Annar er leið Svartfjallalands, að nota evru án þess að spyrja kóng né prest. Þriðja leiðin er myntslátturáð, eins og notað er í Hong Kong. Þá myndi íslenski seðlabankinn gefa út krónur í hlutfalli við forða sinn af þeim gjaldmiðli, sem miðað er við (til dæmis evru eða dal). Fjórði kosturinn er að leyfa fólki að velja um þann gjaldmiðil, sem mikilvægir samningar eru gerðir í. Raunar hafa Íslendingar lengi búið við slíkt kerfi, því að þeir hafa gert alla mikilvæga samninga sína í öðrum gjaldmiðli, verðtryggðri krónu, en notað venjulega krónu til að greiða í stöðumæla.
Þessi kosti þarf alla að skoða með hagsmuni íslensku þjóðarinnar fyrir augum.
Fréttablaðið 28. nóvember 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook
28.11.2008 | 14:41
Fyrirlestur um fátækt
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook
23.11.2008 | 13:28
Umræðuþættir á Bylgjunni
Sunnudagsmorguninn 23. nóvember kom ég fram í umræðuþætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni, Sprengisandi. Þar skiptist ég á skoðunum við Mörð Árnason. Fróðlegt var, að Mörður hélt þar fram, að ríkisstjórnin (því að hún tók þá ákvörðun, þótt Seðlabankinn framkvæmdi síðan ákvörðunina) hefði gert mistök með því að lána ekki Glitni 85 milljarða af fé skattgreiðenda, heldur leggja frekar fram sömu upphæð sem hlutafé í bankanum (eða í raun taka hann í sínar hendur).
Ég var í sama þætti hjá Sigurjóni M. Egilssyni með Ögmundi Jónassyni alþingismanni sunnudagsmorguninn 28. september. Þar kom ég þeirri skoðun á framfæri, að hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu mætti rekja til óheppilegra ríkisafskipta (undirmálslánanna í skjóli hins opinbera), ekki kapítalisma. Það væri því furðuleg ályktun af kreppunni að auka ríkisafskipti.
Fyrr í sumar og haust kom ég fram í tveimur þáttum á Útvarpi Sögu. Fyrri þátturinn var Miðjan í umsjón Sverris Stormskers tónlistarmanns og strigakjafts og tekinn upp og fluttur 11. júní. Sá þáttur er til á Netinu í tveimur hlutum (en í upptökunum flýtur talsvert með af tónlist). Seinni þátturinn var í umsjón Arnþrúðar Karlsdóttur, forstöðumanns Útvarps Sögu. Hann er ekki til á Netinu. Óhætt er að segja, að báðir þáttirnir voru mjög fjörugir, enda neyddist ég óspart til að segja umsjónarmönnunum til syndanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.11.2008 kl. 21:54 | Slóð | Facebook
23.11.2008 | 12:12
Ósigur frjálshyggjunnar?

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook
22.11.2008 | 00:57
Ísland grátt leikið
Í GREIN minni hér í blaðinu í gær, sem einnig birtist á ensku í Wall Street Journal, benti ég á tvær skýringar þess, að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa skall miklu harðar á Íslendingum en öðrum þjóðum. Hina fyrri má kalla kerfisgalla. Hún er, að hugmyndin um Evrópska efnahagssvæðið brást. Þessi hugmynd var, að þetta væri eitt markaðssvæði. Ríkin, sem mynduðu EES, áttu öll að starfa við sömu reglur, svo að engu breytti, hvar fyrirtæki veldu sér stað. Íslensku bankarnir tóku þetta bókstaflega, hófu harða samkeppni við erlenda banka og uppskáru óvild. Það átti áreiðanlega sinn þátt í því, að íslenski seðlabankinn kom í lánsfjárkreppunni víðast að lokuðum dyrum, þegar hann vildi fá lánalínur til að geta staðið með bönkunum í fyrirsjáanlegum lausafjárskorti. Þá skipti skyndilega máli, hvar fyrirtæki völdu sér stað. EES reyndist ekki vera eitt markaðssvæði, af því að það hentaði ekki stóru þjóðunum.
Seinni skýringin var fautaskapur jafnaðarmannaleiðtogans Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands. Með því að stöðva starfsemi Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi og setja íslenskar fjármálastofnanir á lista um hryðjuverkasamtök, við hlið Al-kaída og talíbana, gerði hann illt verra. Eftir það varð engu bjargað. Brown bætti gráu ofan á svart með því að nota ítök Breta í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu til að neyða Íslendinga til að taka við skuldum langt umfram það, sem þeim er skylt eftir lögum. Samkvæmt reglum EES ber Tryggingarsjóður innstæðna ábyrgð á innstæðum í íslenskum bönkum, ekki íslenska ríkið. Þetta er sjálfstæður sjóður með eigin fjárhag. Fádæmi er og ódæmi, að alþjóðastofnanir skuli taka að sér handrukkun fyrir Breta.
Auðvitað hljótum við líka að líta í eigin barm, eins og ég gat um í grein minni. Þótt auðvelt sé að vera vitur eftir á, hefði Fjármálaeftirlitið átt að taka fyrr í tauma, og þótt fyrrverandi stjórnendur bankanna séu flestir snjallir menn og góðviljaðir, fóru þeir of geyst. Hvað olli? Davíð Oddsson seðlabankastjóri nefndi eina skýringu á morgunfundi Viðskiptaráðsins 18. nóvember. Einn aðili hafði heljartök á flestum fjölmiðlum landsins og beitti þeim miskunnarlaust. Þetta var sami aðili og skuldaði hátt í þúsund milljarða samtals í bönkunum, þótt undir ýmsum nöfnum væri, Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi.
Íslendingar eru að súpa seyðið af því, sem gerðist fyrir hálfu fimmta ári, vorið 2004. Davíð Oddssyni, sem þá var forsætisráðherra, var ljóst, að valdajafnvægið í landinu raskaðist, ef auðmenn réðu ekki aðeins fyrirtækjum sínum, heldur líka skoðanamyndun í landinu. Hann bar fram frumvarp, sem átti að tryggja dreift eignarhald fjölmiðla. Jón Ásgeir sigaði fjölmiðlum sínum á Davíð, og hófst ein harðasta orrusta, sem háð hefur verið í íslenskum stjórnmálum. Alþingi samþykkti þó frumvarp Davíðs. En þá gerðist það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, að forseti gekk gegn vilja þjóðkjörins þings og synjaði frumvarpi staðfestingar. Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafði góð tengsl við Jón Ásgeir. Kosningastjóri hans í forsetakjöri 1996 var yfirmaður eins af fyrirtækjum Jóns Ásgeirs, og dóttir hans var í hálaunastarfi hjá Jóni Ásgeiri. Við svo búið var frumvarpið dregið til baka, og skömmu síðar vék Davíð úr stóli forsætisráðherra.
Jón Ásgeir og auðmæringar honum tengdir hrósuðu sigri. Eftir þetta töldu þeir sér alla vegi færa. Forseti Íslands var tíður farþegi í einkaþotum þeirra og dugleg klappstýra á samkomum þeirra erlendis. Þegar erlendir kunningjar forsetans skruppu til Íslands til að gera sér glaðan dag eftir fangelsisvist (eins og Martha Stewart), voru Jón Ásgeir og aðrir lendir menn að sjálfsögðu boðnir á Bessastaði. Vinsælir rithöfundar, Hallgrímur Helgason og Einar Kárason, gerðust kinnroðalaust hirðskáld auðmanna.
Fjölmiðlar veittu Jóni Ásgeiri og liði hans ekkert aðhald, enda flestir í eigu hans eða vina hans. Fjögur dæmi eru skýr. Þegar Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, sagði sumarið 2005 af sér í stjórn Flugleiða í mótmælaskyni við framferði hirðar Jóns Ásgeirs þar, hafði það engin eftirmál. Þegar Jón Ásgeir hótaði sumarið 2006 að skipa starfsfólki sínu úr Verslunarmannafélaginu, af því að lífeyrissjóður félagsins vildi ekki taka þátt í öllum hans ævintýrum, vakti sá yfirgangur engin viðbrögð. Þegar sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins komu í veg fyrir haustið 2007, að Jón Ásgeir og lið hans kæmist yfir eigur Orkuveitu Reykjavíkur, skipuðu fjölmiðlar þeim umsvifalaust á sakamannabekk. Þegar Davíð Oddsson skýrði í Sjónvarpinu í október 2008 út hinar uggvænlegu aðstæður, vel og skilmerkilega, hófst hatrömm rógsherferð gegn honum í Baugsmiðlum.
Enn er reynt að snúa öllu á hvolf. Maðurinn, sem varaði við óhóflegri skuldasöfnun, Davíð Oddsson, er skyndilega talinn bera ábyrgð á henni. Eftir að miðstjórnarvaldinu í Brüssel var beitt harkalega gegn lítilli og varnarlausri þjóð, er það talið helsta hjálpræðið að hlaupa í fangið á því. Maðurinn, sem safnaði þúsund milljarða skuldum í íslensku bönkunum, en þverskallast við að víkja úr stjórnum fyrirtækja, eins og honum er skylt eftir skilorðsbundinn fangelsisdóm, Jón Ásgeir Jóhannesson, sigar enn fjölmiðlum sínum á saklaust fólk, kallar til sín ráðherra að vild og reynir að kaupa fyrirtæki og fjölmiðla á útsöluverði.
Eitt hirðskáld Jóns Ásgeirs talaði á sínum tíma um bláu höndina. Nú mætti tala um gráu höndina, þar sem Baugur er á hverjum fingri. Ísland hefur verið grátt leikið, jafnt innan lands sem utan. Ég tek undir með Davíð Oddssyni um það, að rækileg rannsókn óháðra, erlendra aðila hlýtur að fara fram á hlut Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, bankanna, Jóns Ásgeirs og annarra aðila að atburðarás síðustu missera og ára. Eftir að niðurstöður slíkrar rannsóknar liggja fyrir, er eðlilegt, að þjóðin kveði upp sinn dóm í kosningum. Það eru einungis þeir, sem óttast slíkar niðurstöður, sem vilja rjúka í kosningar áður. Enn er margt ósagt.
Morgunblaðið 21. nóvember 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook
20.11.2008 | 07:01
Ísland skilið eftir
FYRIR rösku ári var Ísland talið fyrirmyndarríki. Eftir sextán ára umbætur í anda frjálshyggju var það eitt af tíu ríkustu og frjálsustu löndum í heimi. Skipulag fiskveiða var hagkvæmt, ólíkt því sem gerist í flestum öðrum löndum, og lífeyrissjóðir feikiöflugir. Víðtækar skattalækkanir höfðu skilað hagvexti og auknum skatttekjum. Um leið voru ríkisfyrirtæki seld fyrir hátt í tvö hundruð milljarða króna svo að ríkið gat greitt upp mestallar skuldir sínar. Hinir nýju einkabankar blómstruðu. Tekjuskipting var tiltölulega jöfn og fátækt mældist ein hin minnsta í Evrópu. Ísland naut eins og önnur Norðurlönd festu í stjórnarfari, lýðræðis og réttaröryggis.
Snögg umskipti urðu fyrstu vikuna í október 2008. Viðskiptabankarnir þrír komust í þrot. Ríkið tók við hinni innlendu starfsemi þeirra, en óvíst er hvað verður um hina erlendu. Krónan hríðféll og viðskipti við útlönd stöðvuðust að kalla enda varð nær ógerlegt að færa fé til og frá landinu. Hvers vegna skall hin alþjóðlega lánsfjárkreppa svo harkalega á Íslandi? Eitt svar og ekki fráleitt er að íslensku bankarnir hafi verið of stórir fyrir hagkerfið. Umsvif þeirra námu meira en tífaldri landsframleiðslu, svo að seðlabankinn íslenski hafði ekki bolmagn til að vera þrautavaralánveitandi þeirra. Eftir á að hyggja hefði fjármálaeftirlitið íslenska sennilega átt að sjá til þess að bankarnir minnkuðu verulega við sig.
Eflaust hafa einhverjir bankamenn íslenskir farið heldur geyst. En önnur hlið er á málinu. Ísland gerðist 1994 aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, sem er sameiginlegur markaður með Evrópusambandinu, Noregi og Liechtenstein. Hugmyndin var sú að innan EES skipti ekki máli hvar fyrirtæki væri valinn staður. Það gæti rekið starfsemi sína hvar sem væri á svæðinu ef það fylgdi réttum reglum. Íslensku bankarnir tóku þetta alvarlega og hófu starfsemi í öðrum Evrópulöndum eftir settum reglum. Þeir voru vel reknir, ágengir og nýttu nýjustu tækni, svo að þeir gátu stundum boðið betri kjör en keppinautarnir og ollu þeim sennilega ósjaldan gremju.
Þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa hófst 2007 áttu íslensku bankarnir fyrir skuldum. Þeir höfðu ekki í fórum sínum nein undirmálslán. En þeir sáu fram á greiðsluvandræði. Þegar Seðlabankinn reyndi að fá lánalínur frá evrópskum seðlabönkum, fékk hann nær alls staðar afsvar. Nú skipti skyndilega máli hvar fyrirtæki væri valinn staður. Þegar ljóst varð á fjármálamörkuðum að þrautavaralánveitendur á Íslandi væru veikir fyrir hlaut áhlaup á bankana að koma fyrr eða síðar.
Þrátt fyrir allt hefðu einn eða tveir íslensku bankanna ef til vill staðið kreppuna af sér ef breski forsætisráðherrann, Gordon Brown, hefði ekki 8. október notað lög um hryðjuverkavarnir til að taka í sínar hendur starfsemi Kaupþings og Landsbankans í Bretlandi. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn voru um skeið skráð á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtök við hlið al-Qaida og talibana. Þessar aðgerðir Breta gerðu vitanlega illt miklu verra. Bankarnir féllu og viðskipti við útlönd stöðvuðust. Ekki þarf að koma á óvart að bankar séu tregir til að færa fé til og frá hryðjuverkasamtökum.
Brown réttlætti hinar harkalegu aðgerðir sínar með því að íslenska ríkið ætlaði ekki að virða skuldbindingar við breska innstæðueigendur. Þetta var tilefnislaust. Ráðamenn höfðu hvað eftir annað sagt opinberlega að allar lagalegar skuldbindingar við innstæðueigendur á Evrópska efnahagssvæðinu yrðu virtar. Tryggingarsjóður bankainnstæðna, sem er sjálfstæð stofnun og sett upp eftir evrópskum reglum, tryggir innstæður upp að röskum 20 þúsund evrum. Ef sjóðurinn getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, hvílir engin lagaskylda samkvæmt EES-samningnum á íslenska ríkinu til að koma honum til aðstoðar.
Brown ýjaði líka að því að mikið fé hefði verið fært frá Bretlandi til Íslands síðustu starfsdagana bankanna. Væntanlega leiðir rannsókn málsins í ljós, hvað hæft er í því. En fróðlegt er í því ljósi, að síðustu starfsdaga Lehman Brothers í september voru átta milljarðar Bandaríkjadala færðir frá bækistöð þeirra í Bretlandi vestur til Bandaríkjanna. Þó voru hvorki fjármálaráðuneyti né seðlabanki Bandaríkjanna sett á lista breska fjármálaráðuneytisins um hryðjuverkasamtök.
Eftir að Brown hafði lagt að velli tvo af þremur íslensku bankanna notaði hann þá staðreynd að Lundúnir eru alþjóðleg fjármálamiðstöð, og ítök Breta í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu til að heimta að Íslendingar gengju miklu lengra en Tryggingarsjóður bankainnstæðna er skuldbundinn til að gera samkvæmt reglum EES. Forsætisráðherrann óttaðist að sjóðurinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og neyddi seint á sunnudag íslenska ríkið til að taka á sig allar skuldbindingar sjóðsins til tryggingar innstæðum útlendinga. Þetta kann að leggja tíu milljarða Bandaríkjadala skuldabyrði á þær 310 þúsund sálir, sem byggja Ísland, allt að 100% af landsframleiðslu.
Evrópsku seðlabankarnir, sem neituðu að hlaupa undir bagga með hinum íslenska, þegar á reyndi, gerðu sér sennilega ekki grein fyrir að tjónið af því takmarkaðist ekki við Ísland. Því síður skildi Gordon Brown væntanlega að hrun íslensku bankanna skaðaði breska innstæðueigendur miklu meira en hitt, að hann hefði haldið ró sinni og leitað lausna í samráði við Íslendinga.
Ekki er að furða að Íslendingum finnist evrópskar vinaþjóðir hafa snúið við þeim baki.
Grein þessi birtist á ensku í Wall Street Journal hinn 18. nóvember sl.og í íslensku í Morgunblaðinu 20. nóvember.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook
18.11.2008 | 06:25
Grein í Wall Street Journal
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook
17.11.2008 | 21:28
Fyrirlestur um frelsi

Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.11.2008 kl. 06:46 | Slóð | Facebook
5.11.2008 | 09:02
Fjölmiðlafrumvarpið 2004
Í Sölku Völku lýsir Halldór Laxness Óseyri við Axlarfjörð, þar sem Bogesen kaupmaður ræður lögum og lofum. Hann lánar Beinteini á Króknum fyrir tréfæti, en þegar Beinteinn birtir gagnrýni á kaupmanninn í sunnanblöðin, er fóturinn skrúfaður af honum. Beinteinn fær fótinn aftur, þegar hann skrifar lof um Bogesen. Menn, sem eru háðir öðrum um afkomu sína, hafa sjaldnast sjálfstæðar skoðanir.
Fyrir 1991 skiptist hagvald á Íslandi á þrjá aðila, ríki, samvinnufélög og einkaaðila. Þegar samvinnuhreyfingin hrundi, komust einstaklingar yfir eignir hennar, og hagvald í höndum ríkisins var einnig fært einkaaðilum. En Ísland er lítið land, og um 2004 var svo komið, að þrír hópar auðmanna, í kringum Bakkavararbræður, Björgólfsfeðga og Baugsfeðga, höfðu mestallt hagvald í landinu. Þessir menn voru allir snjallir og létu margt gott af sér leiða, sérstaklega Björgólfur Guðmundsson. En sumir þeirra ofmetnuðust og vildu stjórna skoðanamyndun í landinu.
Davíð Oddsson, sem þá var forsætisráðherra, skynjaði hættuna og lagði fram fjölmiðlafrumvarp, þar sem stórfyrirtækjum var bannað að eiga fjölmiðla. Baugsfeðgar beittu sér af offorsi gegn honum. Forstjóri eins fjölmiðlafyrirtækis þeirra, Sigurður G. Guðjónsson, hafði verið kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjöri 1996, og ein dóttir Ólafs Ragnars var í hálaunastarfi hjá Baugi. Eftir að Alþingi samþykkti fjölmiðlafrumvarpið, synjaði Ólafur Ragnar því staðfestingar. Í fyrsta skipti gekk forseti gegn þinginu.Jafnvægið raskaðist. Í kringum gullkálfinn hófst trylltur dans, sem Ólafur Ragnar steig harðast. Þegar Bandaríkjakonan Martha Stewart, sem setið hafði í fangelsi fyrir fjárglæfra, kom til Íslands, hélt forseti henni veislu á Bessastöðum, og sátu hana Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson, sem báðir höfðu fengið dóma fyrir efnahagsbrot. Tveir kunnir rithöfundar, Einar Kárason og Hallgrímur Helgason, gerðust hirðskáld auðmanna.
Fjölmiðlar komust allir í eigu auðmannahópanna þriggja nema Ríkisútvarpið, en starfslið þess var meðvirkt með öðru fjölmiðlafólki, enda aldrei að vita, hvenær það þyrfti að sækja um störf annars staðar. Fjölmiðlar auðmannanna héldu ekki uppi gagnrýni á eigendur sína, eins og dæmin sýna.
Þegar Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs Haarde fjármálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sagði sig í júlí 2005 úr stjórn FL Group í mótmælaskyni við vinnubrögð mannanna í kringum Baugsfeðga, hafði það engin eftirmál.
Þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna vildi ekki hlýða öllum fyrirmælum Baugsfeðga í júlí 2006, hótuðu þeir að stofna sérstakan lífeyrissjóð fyrir starfsfólk Baugs og FL Group, mörg þúsund manns. Þessi yfirgangur vakti engin viðbrögð.
Þegar sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins komu í september 2007 í veg fyrir, að mennirnir í kringum Baugsfeðga fengju eignir Orkuveitu Reykjavíkur afhentar, snerust flestir fjölmiðlar af hörku gegn borgarfulltrúunum.
Full þörf var á fjölmiðlafrumvarpi Davíðs Oddssonar. Engum er hollt að hafa of mikið vald, ekki heldur auðmönnum. Bogesen á ekki að ráða öllu á Óseyri og því síður að stjórna sunnanblöðunum líka. Ein skýringin á, hversu verr fór hér en víða annars staðar haustið 2008, var aðhaldsleysi fjölmiðla.
Viðskiptablaðið 5. nóvember 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook