Hrun bankanna er ekki hrun Íslands

Íslensku bankarnir hrundu nokkra sögulega daga í október 2008. Ísland hrundi ekki með þeim. Landið liggur ekki í rúst eins og mörg Norðurálfuríki eftir seinna stríð. Brýr, vegir og virkjanir standa. Vélar eru óskemmdar, tölvur tengdar, enginn hefur týnt lífi af annarra völdum. Fiskur og ál eru á góðu verði á alþjóðlegum markaði. Útflutningsatvinnuvegir dafna dável, sjávarútvegur, raforkuframleiðsla, stóriðja og ferðamannaþjónusta. Þjóðin hefur orðið að sætta sig við mikla kjaraskerðingu við fall krónunnar, en það hefur þó þann kost, að hún fékk með því skýr skilaboð um, að nú yrði að herða sultarólina. Sú kjaraskerðing ætti einnig að vera tímabundin.


Kapítalismanum ekki um að kenna

Hverjum var hrun bankanna að kenna? Sumir kveða upp dauðadóm yfir kapítalismanum. En kapítalisminn, kerfi séreignar og samkeppni, verður ekki dæmdur af nokkrum vikum í október 2008, heldur af mörg hundruð ára sögu sinni. Hún sýnir, að við frjáls viðskipti á alþjóðamarkaði, harða samkeppni fyrirtækja um hylli neytenda og séreign á framleiðslutækjum skapast mestu verðmætin. „Nýfrjálshyggjan“ er ekki heldur dauðadæmd, því að hún var aldrei til. Þetta er ekkert annað en uppnefni á sígildri frjálshyggju þeirra Johns Lockes og Adams Smiths, sem felur í sér tortryggni á óheft ríkisvald og skilning á því, að mannlegt samlíf getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

Hrun bankanna er auðvitað aðallega að kenna hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, sem átti upptök sín í Bandaríkjunum og skall yfir heimsbyggðina haustið 2007, en færðist í aukana haustið 2008, þegar hver fjárfestingarsjóðurinn af öðrum varð gjaldþrota og jafnvel margir bankar. Rætur kreppunnar liggja ekki í kapítalismanum, heldur vanhugsuðum ríkisafskiptum. Bandarískir húsnæðislánasjóðir, sem störfuðu við ríkisábyrgð og rýmri reglur en venjulegir bankar, veittu lán til fólks, sem bersýnilega gat ekki staðið í skilum. Að ráði Robertu Achtenberg, aðstoðarráðherra í stjórn Clintons forseta um miðjan tíunda áratug, var lánastofnunum einnig bannað að mismuna minnihlutahópum í útlánum (til dæmis með því að lána hlutfallslega meira til hvítra manna en svartra), og skipti þá greiðslugeta litlu máli.

crop_500x.jpgAfleiðingin af þessum ríkisafskiptum varð, að eignasöfn banka fylltust af undirmálslánum, og hver hætti að treysta öðrum. Lánalínur rofnuðu, svo að skuldugustu fjármálastofnanir hrundu og aðrar stundum með þeim. Lánsfjárskortur á alþjóðamarkaði bitnaði illa á íslensku bönkunum, sem höfðu vaxið hratt og skulduðu mikið. Sumir þeirra höfðu líka í eignasöfnum sínum eins konar undirmálslán, sem þeir höfðu veitt áhættukapítalistum, sérstaklega Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og mönnum í kringum hann. Ein skýringin var, að Jón Ásgeir og aðrir honum líkir áttu stóra hluti í bönkunum. Hætt er við, að eigendur bankanna hafi lánað hver öðrum á víxl í því skyni að fara í kringum reglur um samskipti eigenda og stjórnenda einstakra banka.


Ruddaskapur Breta

Stærstu íslensku bönkunum tveimur tókst samt furðuvel að standa af sér lánsfjárkreppuna, uns bresku jafnaðarmannaleiðtogarnir Gordon Brown og Alistair Darling beittu í október 2008 lögum um hryðjuverkavarnir til að loka breskum útbúum þeirra og dótturfélögum og „frysta“ allar eignir þeirra í Bretlandi. Fjármálaráðuneyti Íslands og Seðlabanki urðu um hríð að sæta því ásamt Landsbankanum að vera á lista breskra stjórnvalda á Netinu um hryðjuverkasamtök ásamt Al-Kaída, Talibönum í Afganistan og örfáum öðrum aðilum. Við þetta var úti um bankana, jafnframt því sem stórkostlegir erfiðleikar steðjuðu að þjóðarbúinu og krónan snarféll. Allar eðlilegar greiðslur um banka stöðvast vitanlega til lands, sem er á lista um hryðjuverkasamtök. Enn er Landsbankinn á þessum lista, þótt hann hafi verið færður í sérstakan reit.

Þeir Brown og Darling báru því við, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki ætlað að standa við skuldbindingar um ábyrgð á innstæðum breskra sparifjáreigenda í íslensku bönkunum. Ekkert, sem stjórnvöld sögðu, gaf tilefni til grunsemda um það. Tryggingarsjóður bankainnstæðna starfar á Íslandi samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins og tryggir allar bankainnstæður eftir því, sem hann hefur bolmagn til. Þeir Brown og Darling létu einnig hafa eftir sér, að íslensku bankarnir hefðu flutt verulegt fé til Íslands dagana fyrir aðgerðir Breta. Rannsókn hlýtur að leiða hið sanna um það í ljós, en hvort sem það er rétt eða rangt, gaf það ekkert tilefni heldur til að beita lögum um hryðjuverkavarnir. Síðustu klukkutímana sem Lehman Brothers störfuðu, flutti fyrirtækið stórfé (rúma fjóra milljarða punda) frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Hvorki bandaríski seðlabankinn né bandaríska fjármálaráðuneytið voru sett á opinberan lista breskra stjórnvalda á Netinu um hryðjuverkasamtök og ekki heldur Lehman Brothers.

Skýringin á því, að hin alþjóðlega lánsfjárkreppa kom miklu harðar niður á Íslendingum en öðrum þjóðum, er því tvíþætt. Annars vegar voru íslensku bankarnir skuldugri en svo, að ríkissjóður og Seðlabanki hefðu bolmagn til að bjarga þeim, þegar syrti í álinn. Hins vegar ollu Bretar okkur búsifjum með ruddalegri framkomu sinni. Svo er að sjá sem Bretar reyni að neyða íslenska ríkið til að ganga miklu lengra gagnvart breskum innstæðueigendum en því ber samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Ef hinn íslenski Tryggingarsjóður bankainnstæðna hrekkur ekki til, þá hefur íslenska ríkið enga lagaskyldu til að koma honum til aðstoðar.


Skuldakóngurinn

crop_500x-2.jpgHvers vegna voru bankarnir skuldugri en svo, að ríkissjóður og Seðlabanki fengju bjargað þeim? Þegar hefur eitt svarið verið nefnt, að eigendur bankanna lánuðu hver öðrum á víxl. Sérstaklega á þetta við um Jón Ásgeir Jóhannesson. Meginhlutinn af þeim skuldum, sem bankarnir hafa stofnað til í íslensku útrásinni svonefndu, tengjast Jóni Ásgeiri beint og óbeint, hátt í eitt þúsund milljarðar að sögn fyrrverandi samstarfsmanns hans.

Ein augljósasta ástæðan til þess, hversu langt Jón Ásgeir Jóhannesson hefur komist í að hrifsa til sín sparifé almennings og nota í ævintýri erlendis, er, að hann átti flesta fjölmiðlana og hikaði ekki við að beita þeim sér í hag. Sjálfur var hann aldrei gagnrýndur í þessum fjölmiðlum, en hafnar voru rógsherferðir gegn þeim, sem létu í ljós áhyggjur af ofríki hans. Davíð Oddsson var forsætisráðherra 2004, skynjaði hættuna og bar fram frumvarp um, að auðjöfrar mættu ekki ráða öllum fjölmiðlum. Alþingi samþykkti frumvarpið. Jón Ásgeir hafði góð tengsl við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Framkvæmdastjóri eins fyrirtækis Jóns Ásgeirs hafði verið kosningastjóri Ólafs Ragnars í forsetakjöri 1996. Önnur dóttir Ólafs Ragnars var í hálaunastarfi hjá Jóni Ásgeiri. Í fyrsta skipti gekk forseti gegn þinginu með því að synja frumvarpi staðfestingar, og var það þá dregið til baka. Skömmu síðar vék Davíð úr stól forsætisráðherra.

crop_500x-3.jpgOrrustan um fjölmiðlafrumvarpið vorið 2004 varð örlagarík. Valdajafnvægi á Íslandi raskaðist. Þrír auðmannahópar eignuðust nær alla fjölmiðla, en áttu fyrir bankana og voru um leið stærstu viðskiptavinir þeirra. Þessir auðmenn bjuggu við lítið aðhald, eins og dæmin sanna. Þegar Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, sagði sig í júlí 2005 úr stjórn FL Group í mótmælaskyni við vinnubrögð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og félaga, hafði það engin eftirmál. Þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna vildi ekki hlýða öllum fyrirmælum Jóns Ásgeirs í júlí 2006, hótaði hann að stofna sérstakan lífeyrissjóð fyrir starfsfólk fyrirtækja sinna, mörg þúsund manns. Þessi yfirgangur vakti engin viðbrögð. Þegar sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins komu í september 2007 í veg fyrir, að mennirnir í kringum Jón Ásgeir fengju eignir Orkuveitu Reykjavíkur afhentar, snerust flestir fjölmiðlar gegn borgarfulltrúunum.

crop_500x-1.jpgEftir að Davíð Oddsson hafði náð sér eftir erfið veikindi, gerðist hann seðlabankastjóri haustið 2005. Hann skynjaði hina nýju hættu af skuldum bankanna (sem voru aðallega skuldir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við þá vegna útrásarverkefna) og varaði við henni, meðal annars í ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma,“ sagði hann. „Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar.“ Á Davíð var ekki hlustað, enda reyndu fjölmiðlar Jóns Ásgeirs eftir megni að gera hann tortryggilegan.


Hvers vegna sökk skipið?

Loðnuskip siglir drekkhlaðið í land. Lítið má út af bera. Fárviðri skellur á, svo að skipið sekkur, þótt mannbjörg verði. Hverjum er um að kenna? Fárviðrið er í einum skilningi orsökin, en í öðrum skilningi er það sú ákvörðun skipstjórans (með samþykki áhafnarinnar) að drekkhlaða skipið. Siglingalögunum er að sjálfsögðu ekki um að kenna, en hugsanlega eftirlitsaðilum, ef þeir hafa vanrækt eftirlitshlutverk sitt og hefðu mátt vita betur. Síðan kemur í ljós, að skipstjóri og áhöfn hafa ofhlaðið skipið vegna þess, að eigandi skipsins, útgerðarmaðurinn, lagði fast að þeim að gera það eða jafnvel skipaði þeim það. Þá ber hann ekki minni sök en skipstjórinn. Er útgerðarmaðurinn í þessu dæmi ekki útrásarmaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson?

Hvað sem því líður, eru kapítalistar ekki rök gegn kapítalisma. Aðalatriðið er ekki að prédika gegn græðgi, eins og þúsund spekingar hafa gert í þúsund ár, heldur að reyna að veita henni í farvegi, þar sem hún verður gagnleg öðrum. Það tekst aðeins við skynsamlegar leikreglur. Reynsla síðustu vikna og mánaða auðveldar okkur vonandi að endurbæta leikreglurnar. 

Menntaskólatíðindi, 3. tbl. 2008. (Myndirnar eru af snekkju Jóns Ásgeirs, 101, sem skráð er á Cayman-eyjum, og teknar af fréttavefnum AMX.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband