Ný bók um fiskveiðar

Ég á ritgerð í nýútkomnu greinasafni, Advances in Rights Based Fishing, sem þeir dr. Ragnar Árnason hagfræðiprófessor og dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent (varamaður minn í bankaráði Seðlabankans) ritstýrðu, en RSE (Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum) gaf út. Á meðal annarra höfunda eru kunnir hagfræðingar, þar á meðal Rögnvaldur Hannesson, prófessor í fiskihagfræði í Björgvin, og Gary D. Libecap, hagfræðiprófessor í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara og einn virtasti eignarréttarsérfræðingur okkar daga. Meginstef bókarinnar er, að fiskveiðar verði hagkvæmastar, þegar réttindi fiskimannanna séu skilgreind nákvæmlega, svo að hagur þeirra og almannahagur fari saman. Grein mín nefnist „The Politics of Property Rights“ og er á 171.-188. bls. bókarinnar. Hún er í raun um hugmyndasögu, því að ég bendi þar á, að margar hugmyndirnar, sem reifaðar hafa verið í umræðum um íslenska kvótakerfið, voru settar fram fyrir löngu. Til dæmis má rekja kröfuna um auðlindaskatt til bandaríska rithöfundarins Henrys Georges. Arthur C. Pigou setti einnig fram hugmyndir um það, hvernig ríkið gæti „leiðrétt“ niðurstöður markaðsviðskipta með skattlagningu, en Ronald Coase benti á hinn bóginn á, að oft geta einkaaðilar á markaði leyst sjálfir úr málum í frjálsum viðskiptum, ef viðskiptakostnaður er viðráðanlegur, en það er hann, þegar réttindi einstaklinga eru vel skilgreind.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband