Af andfætlingum

Stefan.jpgErfitt hlýtur að vera vinstri sinnaður menntamaður eftir hrun vinnubúðasósíalismans í Rússlandi og hnignun vöggustofusósíalismans í Svíþjóð. Hinn sigursæli kapítalismi okkar daga hefur ekki sömu þörf fyrir gáfnaljós af Aragötunni (þar sem prófessorar Háskólans bjuggu í niðurgreiddu húsnæði) og sósíalismi. Kapítalisminn spyr ekki, hvaðan menn eru, heldur hvað þeir geta. Einn af Aragötunni, Stefán Snævarr heimspekingur, hefur eftir langa leit á Netinu fundið land, þar sem kapítalismi á að hafa mistekist. Það er Nýja-Sjáland, og heimild hans er grein í Financial Times 30. ágúst 2000 eftir hagfræðiprófessorinn John Kay. Hér í blaðinu endursegir Stefán hróðugur þessa grein 9. júlí síðastliðinn.

Því miður er greining Kays hæpin og tölur hans úreltar. Einn starfsbróðir hans, prófessor Martin Wolf, skrifar ágæta grein í Financial Times 16. nóvember 2004, þar sem hann hrekur þá skoðun, að frjálshyggjutilraunin í Nýja Sjálandi hafi mistekist. Hún var viðbragð við alvarlegri kreppu, sem ríkisafskiptasinnar allra flokka höfðu komið landinu í á löngum tíma. Tilraunin var í tveimur áföngum. Fyrst hafði Roger Douglas, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins 1984-1988, forystu um lækkun tolla, frjáls gjaldeyrisviðskipti, fljótandi gengi, óhefta fjármagnsflutninga, sölu ríkisfyrirtækja og niðurfellingu styrkja. Síðan hafði Ruth Richardson, fjármálaráðherra í ríkisstjórn hins íhaldssama Þjóðarflokks 1990-1993, forystu um, að einstakir launþegar fengu aftur samningsrétt, en verkalýðshreyfing landsins hafði sem víðar tekið þann rétt af þeim og samið fyrir hönd allra. Sett voru lög um ráðningarsamninga einstaklinga og sjálfstæði seðlabanka.

Nýsjálendingar fóru þessa leið, þegar hin leiðin var fullreynd. Þeim Douglas og Richardson tókst með umbótum sínum að koma í veg fyrir fullkomnar ófarir. Hnignun landsins í samanburði við þróuð, vestræn ríki stöðvaðist. Lífskjör eru oftast mæld í vergri landsframleiðslu, VLF, á mann. Wolf bendir á, að VLF á mann í Nýja Sjálandi var komin niður í 71% af meðaltalinu í þróuðum ríkjum 1992. En árið 2002 var hlutfallið aftur komið upp í 76%. Nýja Sjáland er að hjarna við. (Kay, sem Stefán Snævarr styðst við, notaði annan sjaldgæfari mælikvarða til að mæla lífskjör.) Eftir umbæturnar á vinnumarkaði minnkaði atvinnuleysi verulega, en framleiðni (framleiðsla á hverja vinnustund) jókst. Hagvöxtur var 3,6% að meðaltali árin 1992-2002, sem er vel yfir meðallagi OECD-ríkjanna. Hann hefur síðan verið á bilinu 2-3,6%.

Ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sem komst til valda 1999, hefur ekki hreyft við neinum mikilvægum umbótum. Nú er raunar talið, að sú stjórn hrökklist brátt frá völdum. Frjálshyggjutilraunin á Nýja-Sjálandi mistókst ekki. En hún heppnaðist ekki eins vel og forsvarsmenn hennar höfðu vonað. Fjárfestingar urðu ekki eins miklar og búist var við. Ein sennileg skýring er, að stjórnvöld hafa ekki búið fyrirtækjum og fjármagnseigendum jafnhagstætt skattaumhverfi og hér og á Írlandi. Önnur skýring er, að ólíkt okkur og Írum hafa andfætlingar okkar ekki greiðan aðgang að stórum mörkuðum. Auk hins beina kostnaðar kann það að hafa óbein áhrif á framkvæmdagleði, stuðla að útkjálkahugsunarhætti.

Þótt einstök ríki eins og Nýja Sjáland séu forvitnileg til fróðleiks, verða sósíalismi og kapítalismi vitaskuld ekki dæmd af þeim, heldur af samanburði margra landa til langs tíma. Þar er niðurstaðan ótvíræð, eins og alþjóðleg vísitala atvinnufrelsis sýnir.

Fréttablaðið 1. ágúst 2008. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband