30.5.2008 | 07:48
Hverjir biðjist afsökunar?
Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, krefst þess í Morgunblaðinu 27. maí, að núverandi dómsmálaráðherra biðji sig og ýmsa aðra afsökunar, vegna þess að dómarar veittu lögreglu að beiðni ýmissa fyrrverandi dómsmálaráðherra heimild til að hlera síma þeirra við ýmis tækifæri árin 1949-1968. Hann segir, að tilefnið til hlerananna hafi verið óljóst: Hætta á óspektum.
Krafa Kjartans er fráleit. Í fyrsta lagi var þetta ætíð heimild, ekki aðgerð. Ósannað er, að símar hafi verið hleraðir (þótt það sé líklegt í langflestum dæmanna). Í öðru lagi var heimildin jafnan veitt af dómara, sem bar þá á henni ábyrgð. Í þriðja lagi var tilefnið oftast langt frá því að vera óljóst. Flokkur Kjartans, Sósíalistaflokkurinn, og fyrirrennari hans, kommúnistaflokkurinn, hikuðu ekki við að beita ofbeldi, þegar þeir töldu þess þurfa, enda höfðu þeir það beinlínis á stefnuskrá sinni. Forystumenn þeirra lutu fyrirmælum frá stærsta einræðisríki heims og þáðu þaðan stórfé til baráttu sinnar, eins og sést af Moskvuskjölunum.
Dæmin, sem allir þekkja, eru Gúttóslagurinn 9. nóvember 1932 og óeirðirnar á Austurvelli 30. mars 1949. Í bæði skiptin reyndu kommúnistar með ofbeldi að koma í veg fyrir lýðræðislegar ákvarðanir. Í fyrra skiptið tókst það, í seinna skiptið ekki. Fjöldi lögregluþjóna hlutu alvarleg meiðsl í þessum átökum, sumir varanleg örkuml. Mörg fleiri dæmi eru til. Kommúnistar gerðu aðsúg að bæjarstjórninni 30. desember 1930 og hleyptu upp fundi hennar. Fjórir forsprakkar óspektanna voru handteknir daginn eftir. Þá hugðust kommúnistar safna liði og freista þess að taka þá með ofbeldi úr fangageymslum, en lögreglu barst njósn af þeirri fyrirætlan, svo að þeir hættu við.
Sósíalistar ruddust margir saman inn í Sjálfstæðishúsið 22. september 1946, þegar rætt var um Keflavíkursamninginn, og reyndu að hleypa upp fundi. Þeir veittust síðan utan dyra að Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni, er þeir gengu að Alþingishúsinu, og varð lögregla að vernda þá. Aftur gerðu sósíalistar aðsúg að Ólafi og Bjarna 29. mars 1949, þegar þeir gengu úr Alþingishúsinu eftir umræður um aðild að Atlantshafsbandalaginu, og varð lögregla enn að vernda þá. Þjóðviljinn skoraði beinlínis á sósíalista á forsíðu 25. mars 1949 að hindra, að aðild að Atlantshafsbandalaginu yrði samþykkt. Næstu ár voru óeirðirnar á Austurvelli öllum í fersku minni.
Kommúnistaflokkurinn leyndi því hvergi, að hann væri reiðubúinn til valdbeitingar, gerðist þess þörf. Í stefnuskrá Sósíalistaflokksins frá 1952 segir líka: Afstaða flokksins er díalektísk, og það merkir: Hann metur valdbeitingu eftir þýðingu hennar í hinni sögulegu þróun. Höfundur stefnuskrárinnar, Brynjólfur Bjarnason, hótaði andstæðingum sínum lífláti í umræðum um Atlantshafssáttmálann, eins og lesa má í Alþingistíðindum 1948, dálki D 283. Áratugum saman hafði Þjóðviljinn í heitingum við þá, sem vildu varnarsamstarf við vestrænar þjóðir eða leyfðu sér að efast um stjórnarfar í ríki Stalíns: Bjarni Benediktsson og Ólafur Thors væru landsölumenn og föðurlandssvikarar. Jan Valtin væri þýskur lygari, Max Eastman grímulaus fasisti, Arthur Koestler falsspámaður, Viktor Kravtsénkó drykkjusjúklingur.
Þeir, sem ættu að biðjast afsökunar, eru íslenskir kommúnistar og sósíalistar, sem voru á mála hjá erlendu einræðisríki, beittu margsinnis ofbeldi og reyndu iðulega að öskra niður andstæðinga sína með ókvæðisorðum.
Fréttablaðið 30. maí 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:21 | Facebook