9.3.2008 | 15:42
Á öfugum enda
Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, er andlegur leiðtogi þeirra, sem ekkert hafa séð jákvætt við hagkerfisbreytinguna frá 1991, þegar skattar voru einfaldaðir og lækkaðir öllum til hagsbóta. Það er opinbert leyndarmál, að Indriði reiknaði út þær tölur um ójafnari tekjuskiptingu vegna skattabreytinga, sem minni spámenn ruku með í fjölmiðla haustið 2006 og reyndust síðan rangar. Ég fór yfir ýmsar hæpnar hugmyndir Indriða um skattamál í síðasta hefti vefritsins Stjórnmála og stjórnsýslu, meðal annars kröfu hans um stighækkandi tekjuskatt. Hér ætla ég hins vegar að ræða stuttlega nýjustu grein Indriða, sem vakið hefur athygli. Hún er um það, að Íslendingar geymi verulegt fé, á að giska 500 milljarða króna, í Hollandi og Lúxemborg, en einnig í skattaskjólum eins og á Ermarsundseyjum, Jersey og Guernsey, og eyjum í Karíbahafi. Ríkið verði að komast í þetta fé.
Röng nálgun
Indriði byrjar á öfugum enda. Hann spyr: Hvers vegna geyma Íslendingar stórfé erlendis? Hann ætti frekar að spyrja: Hvers vegna geyma útlendingar ekki stórfé hér? Hvað getum við gert til að laða að fé frá útlöndum? Hvernig eigum við að keppa við Holland, Lúxemborg og önnur lönd? Svarið er einfalt: Með því að gera skattaumhverfi fyrirtækja og fjármagnseigenda eins hagstætt og í þessum löndum. Þá þurfa íslenskir fjármagnseigendur ekki að geyma fé sitt erlendis, og þá sjá erlendir fjármagnseigendur sér hag í að geyma fé sitt hér. Til dæmis er söluhagnaður fyrirtækja af hlutabréfum ekki skattskyldur í Hollandi. Indriði lætur líka í ljós áhyggjur af því, að íslenska útrásin hafi ekki skilað íslenska ríkinu verulegum skatttekjum. Það er rétt, en hitt hefur skilað stórkostlegum skatttekjum, að bankarnir eru komnir úr greipum ríkisins. Skattgreiðslur þeirra voru áður nánast engar, af því að þeir voru jafnan reknir með tapi, en nema nú tugum milljarða króna á ári.
Algengar meinlokur
Indriði er bersýnilega haldinn tveimur algengum meinlokum um skattamál. Önnur er, að skattstofnar séu nánast óbreytilegir að stærð, og verkefnið sé aðeins að afla skatttekna af þeim með góðu eða illu. En skattstofnar er einmitt mjög breytilegir að stærð. Fleiri vinna til dæmis meira, ef þeir fá sjálfir í sinn hlut mestallar þær tekjur, sem vinnan skapar, í stað þess að ríkið hirði slíkar viðbótartekjur nær óskiptar, eins og Nóbelsverðlaunahafinn Edward Prescott bendir á nýútkominni bók, Cutting Taxes to Increase Prosperity. Hin meinlokan er, að fjármagnið, sem á að skattleggja, sé óhreyfanlegt. Það bíði skattheimtumannanna sallarólegt eins og sauðfé eftir slátrurum. En í heimi hnattvæðingar og sífellt betri fjarskiptatækni er fjármagnið afar kvikt. Það fer á svipstundu þangað, sem það ávaxtast best. Verkefnið er þess vegna að bjóða eigendum þess sem hagstæðust kjör.
Skattasamkeppni til góðs
Aukin skattasamkeppni milli ríkja veldur því, að jaðarskattur einstaklinga (skatturinn sem greiddur er af hæstu viðbótartekjum) hefur í iðnríkjunum lækkað að meðaltali úr 67% árið 1980 í 40%. Á sama tíma hefur tekjuskattur fyrirtækja lækkað að meðaltali í sömu ríkjum úr um 50% í 27%. Slík skattasamkeppni heldur ekki aðeins fjárfrekum stjórnmálamönnum í skefjum, heldur auðveldar hún skynsamlegar fjárfestingar einkaaðila og er þannig öllum í hag, þegar til lengdar lætur, eins og breski hagfræðingurinn Richard Teather benti á í erindi á skattadegi Deloitte í janúar síðastliðnum.
Einstakt tækifæri
Um þessar mundir er Evrópusambandið með háskattalöndin Þýskaland og Frakkland í broddi fylkingar að reyna að torvelda skattasamkeppni. Írar hafa verið ávítaðir fyrir að bjóða fyrirtækjum lága skatta, og Lúxemborg sér fram á að verða að herða reglur um fjármálastofnanir. Þetta veitir Íslendingum, sem eru utan Evrópusambandsins og óbundnir af skattareglum þess, einstakt tækifæri til að bjóða fyrirtækjum og fjármagnseigendum hagstætt skattaumhverfi. Geir H. Haarde forsætisráðherra setti þegar árið 1979 fram hugmynd um þetta í bókinni Uppreisn frjálshyggjunnar, og nefnd undir forsæti Sigurðar Einarssonar í Kaupþingi skilaði vandaðri skýrslu um málið í árslok 2006. Hugmyndin er ekki að veita illa fengnu fé skjól, heldur að bjóða fjármagni án skýrs heimilisfangs svo hagstæð kjör, að það finni sér hér bólfestu. Ísland getur orðið Sviss norðursins.
Fréttablaðið 9. mars 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Facebook