Fjölhæfur hugsuður sækir Ísland heim

David_Friedman_by_Gage_SkidmoreVorið 1979, fyrir fjörutíu og fimm árum, var Félag frjálshyggjumanna stofnað á áttræðisafmæli Friedrichs A. von Hayeks, eins fremsta stjórnmálahugsuðar tuttugustu aldar. Fyrsti erlendi fyrirlesari félagsins þá um haustið var David Friedman, sonur hins heimsfræga hagfræðings Miltons Friedmans. David var eins og faðir hans mikill námsmaður, hafði lokið doktorsprófi í eðlisfræði, en snúið sér að lögum og hagfræði og birt margt um þau efni. Þegar hér var komið sögu, var hann hagfræðiprófessor í Virginia Polytechnic University í Virginíu og í fremstu röð svokallaðra markaðshyggjumanna, anarcho-capitalists, en þeir voru stjórnleysingjar, sem töldu einstaklinga á markaði geta leyst í viðskiptum sín í milli úr öllum málum, svo að ríkið væri óþarft frá fræðilegu sjónarmiði séð. Færði David hugvitsamleg rök fyrir markaðshyggju í bókinni Frelsinu í framkvæmd (The Machinery of Freedom) árið 1971.

Íslenska þjóðveldið


Eitt dæmið, sem Friedman yngri nefndi, var Þjóðveldið íslenska, sem stóð 930–1262. Þótt ágreiningur sé um mörg þau verkefni, sem ríkið sinnir, telja flestir, að það hljóti að taka að sér landvarnir, lagasetningu og réttarvörslu. Friedman benti á, að í Þjóðveldinu var lagasetning og réttarvarsla í höndum einkaaðila, goðanna, sem komu saman einu sinni á ári á Þingvöllum, settu lög og skáru úr deilum. Þar eð þetta skipulag stóð í rösk þrjú hundruð ár, var það að minnsta kosti framkvæmanlegt. En var það hagkvæmt? Friedman taldi svo vera í þeim skilningi, að réttarvarslan hefði verið verðlögð eðlilega. Öll mál hefðu verið einkamál, ekki brot gegn ríkinu, því að það hefði ekki verið til. Vandamenn manns, sem var drepinn, hefðu krafist bóta fyrir hann eða gripið til þess ráðs að hefna drápsins. Fébætur hefðu þann kost fram yfir aftökur og refsivist, sagði Friedman, að fórnarlambinu eða fjölskyldu þess var bættur skaðinn, að minnsta kosti að einhverju marki. Lítilmagninn hefði getað leitað til goða síns eða framselt sök sína. Sérstakir sáttasemjarar hefðu oft verið kvaddir til, svo að stöðva mætti deilur eða gagnkvæm dráp. Íslenska þjóðveldið hefði verið tiltölulega stöðugt. Það hefði staðið í þrjú hundruð ár án stórkostlegra blóðsúthellinga ólíkt því, sem gerðist til dæmis í baráttunni um yfirráð yfir Englandi. Kristnitakan hér á landi hefði til dæmis verið furðufriðsamleg.

Samkvæmt greiningu Friedmans voru goðorðin í rauninni lítil verndarfyrirtæki, sem gátu gengið kaupum og sölum. Bændur gátu líka valið um goðorð innan síns landsfjórðungs, sagt sig frá einum goða og valið annan. Þeir nutu því tvímælalaust meira frelsis en víðast annars staðar á sama tíma. Íslendingar höfðu engan konung annan en lögin, sagði þýski sagnritarinn Adam frá Brimum hinn hrifnasti. Á Íslandi var þannig virkur markaður fyrir réttarvörslu.

Hitt er annað mál, að við greiningu Friedmans verður að bæta annarri einingu Þjóðveldisins, hreppnum. Aðild að honum var ekki frjáls, heldur var hver bóndi skyldugur að vera í þeim hrepp, sem jörð hans lá í, en venjulega afmarkaðist hreppurinn af landslagi. Hreppurinn gegndi tvíþættu hlutverki. Hann var í fyrsta lagi gagnkvæmt tryggingarfélag. Þegar á þurfti að halda, slógu bændur saman í sjóð og bættu hver öðrum tjón, sem þeir urðu fyrir vegna húsbruna eða fellis húsdýra, auk þess sem þeir sinntu framfærslu þeirra, sem ekki gátu séð um sig sjálfir. Jafnframt stjórnaði hreppurinn aðgangi bænda að beitarlöndum, sem þeir áttu og nýttu í sameiningu, aðallega upp til fjalla, svo að þessi aðgangur takmarkaðist við það, að grasnytjar yrðu sem bestar. Hver jörð átti sína „ítölu“, fastan fjölda þeirra sauða, sem reka mátti á fjall, „telja í“ almenninginn. Eins og Þráinn Eggertsson prófessor hefur bent á, leystu Íslendingar með þessu samnýtingarbölið (tragedy of the commons), sem er fólgið í því, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til ofnýtingar hennar.  (Hliðstætt dæmi er auðvitað í íslenskum sjávarútvegi.)

Fólksfjölgun og loftslagsbreytingar


David Friedman greinir eins og faðir hans Milton ýmis mál í ljósi kenningar hagfræðinnar um jaðarnotagildi. Sú kenning er einföld. Eðlilegt er að brjóta hverju vöru niður í einingar og spyrja, hversu margar einingar skuli framleiða. Svarið er, að bæta skuli við einingum að því marki, að notagildið af síðustu einingunni sé hið sama og af síðustu einingu af allri annarri vöru. Þá er hagkerfið komið í jafnvægi og verður ekki betrumbætt. Auðvitað gerist þetta aldrei, því að atvinnulífið er alltaf á hreyfingu, það er iðandi kös happa og glappa. Menn ramba stundum á snjallar lausnir, en oftar gera þeir mistök og reyna að leiðrétta þau, og ósjaldan verða óvæntar breytingar af ýmsum ástæðum, sem þeir hljóta að bregðast við. En fyrsta hagfræðilega úrlausnarefnið, sem Friedman tók til rannsóknar, var fólksfjölgun. Fram undir 1970 var sú skoðun almenn, að hún myndi leiða til hungursneyða og öngþveitis. Árið 1968 fullyrti líffræðingurinn Paul Ehrlich til dæmis, að ekkert gæti komið í veg fyrir stórkostlegt mannfall næstu ár og áratugi vegna fólksfjölgunar og fæðuskorts. Hið sama var sagt í bók, sem kom út á íslensku, Heimi á helvegi. Friedman spurði hins vegar, hver væri kostnaður og ábati af nýjum einstaklingi, sem fæddist inn í heiminn, jaðarnotagildi hans. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unnt að segja fyrir um það með neinni vissu, að neikvæðar afleiðingar fólksfjölgunar yrðu meiri en jákvæðar. Nú er ljóst, að hrakspár Ehrlichs og margra annarra hafa að minnsta kosti ekki ræst.

Friedman beitir sömu greiningu í öðru máli, loftslagsvánni svokölluðu. Þótt deilt sé um spár Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum (IPCC), þar eð þær eru sóttar í tölvulíkön, tekur Friedman mark á þeim og spyr, hverjar verði afleiðingar af hlýnun jarðar um eitt eða tvö stig næstu áratugi, eins og spáð sé. Hann spyr með öðrum orðum, hvert sé notagildi hvers viðbótarhitastigs. Neikvæðar afleiðingar verða aðallega þrenns konar: hækkun sjávarmáls, röskun margvíslegra áætlana, sem menn hafa gert með hliðsjón af núverandi loftslagi, og hugsanleg útrýming dýrategunda, sem hafa lagað sig að núverandi loftslagi. Jákvæðar afleiðingar verða hins vegar aðallega stækkun gróðurlendis, þar á meðal og ekki síst í heimskautalöndum. Þetta hefur raunar verið að gerast síðustu áratugi, þótt fátt segi af því í fjölmiðlum. Af ýmsum ástæðum verður hlýnunin meiri í köldum löndum en heitum. Fróðlegt er í þessu sambandi, að samkvæmt tölum bandarísku lýðheilsustofnunarinnar deyja tvöfalt fleiri árlega sökum kulda en hita.

Friedman kemst að sömu niðurstöðu og um fólksfjölgun, að erfitt sé eða ókleift að segja fyrir um það með neinni vissu, hvort neikvæðar afleiðingar loftslagsbreyting verði meiri en jákvæðar. Hann bendir á, að loftslagsbreytingar eiga sér stað í rúmi eins og tíma. Menn fara úr einu loftslagi í annað, þegar þeir ferðast um jörðina, og þeir laga sig þá að breyttum aðstæðum. Hið sama hljóti að eiga við um loftslagsbreytingar í tíma. Menn lagi sig að breyttum aðstæðum.

Hvert stefnir?

David Friedman er staddur á Íslandi og ætlar að koma á rabbfund, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, heldur í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (NASA), miðvikudaginn 1. maí klukkan fjögur, og þar hyggst hann ræða um helstu breytingar í heiminum, frá því að hann kom hingað fyrst árið 1979, ungur og ákafur stjórnleysingi. Ýmislegt hefur gengið á: fall kommúnismans 1989–1991, uppgangur frjálshyggjunnar, hin alþjóðlega lausafjárkreppa 2007–2009, heimsfaraldurinn, staðbundin stríð, vöxtur ríkisins og margt fleira. Friedman er með afbrigðum mælskur, frjór og fjölhæfur, óbundinn af allri hefðarspeki, ungur í anda, og verður fróðlegt að vita, hvað hann hefur að segja.


Nicosia, mars 2024

HHG2.Nicosia.29.03.2024Ég hélt upphafsfyrirlestur í menningarvikulokum evrópskra íhaldsflokka í Nicosíu á Kýpur 31. mars 2024. Þar ræddi ég um, hvaða erindi tveir merkir hugsuðir, danska skáldið og heimspekingurinn Nikolaj F. S. Grundtvig og ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, ættu við okkur nútímamenn. Grundtvig lagði áherslu á þjóðerniskennd og samtakamátt alþýðu. Hann vildi kenna fólki að verða góðir borgarar í lýðræðisríki, og búa Danir enn að arfi hans. Einaudi var stuðningsmaður frjálsra viðskipta og taldi, að nauðsynlegt væri að stofna öflugri samtök en Þjóðabandalagið reyndist vera til að verja frelsi og lýðræði Evrópuþjóða. Hann var þess vegna eindreginn talsmaður Evrópusambandsins, sem í upphafi hét Efnahagsbandalag Evrópu.

Ég hélt því fram, að Evrópusambandið ætti að vera samband þjóðríkja, og þar gætu Evrópumenn lært af þjóðerniskennd Grundtvigs, sem hefði ekki verið herská og yfirgangssöm, heldur friðsöm og sáttfús. Dönsk þjóðmenning væri til fyrirmyndar. Evrópusambandið hefði fyrstu fimmtíu árin fetað rétta braut, þegar það jók viðskiptafrelsi og auðveldaði samkeppni á Evrópumarkaði. Sú var hugsjón Einaudis. Efnahagslegur samruni er æskilegur. En síðan hefur Evrópusambandið lent á villigötum. Stjórnmálalegur samruni er óæskilegur. Skriffinnarnir í Brüssel, sem enginn hefur kosið og hvergi þurfa að leggja verk sín í dóm annarra, stefna markvisst, hægt og örugglega, að voldugu, evrópsku sambandsríki, þar sem rödd þeirra mun heyrast sem hróp, en rödd þjóðanna sem hvísl.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2024.)


Dómarar á villigötum

Í nettímaritinu The Conservative hef ég gegnrýnt nýlega úrskurði Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Félag nokkurra roskinna kvenna í Sviss höfðaði mál gegn ríkinu fyrir að aðhafast ekki nóg til að minnka hlýnun jarðar. Dómstóllinn taldi ríkið hafa brotið gegn 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu: „Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.“ Spunninn var upp réttur sérhvers manns til þess, að ríkið verndaði hann á fullnægjandi hátt gegn alvarlegum neikvæðum afleiðingum loftslagsbreytinga á líf þeirra, heilsu, vellíðan og lífsgæði. Verður slíku „réttur“ ekki á neinn hátt leiddur af 8. gr. sáttmálans.

Tveir aðrir úrskurðir varða Ísland. Meiri hluti landsdóms hafði spunnið upp lög um, að forsætisráðherra væri skylt að setja á dagskrá ráðherrafunda öll mikilvæg málefni. En stjórnarskrárákvæði um ráðherrafundi er allt annarrar merkingar. Geir H. Haarde var síðan sakfelldur fyrir að hafa brotið lög, sem hvergi eru finnanleg. Dómararnir í Strassborg staðfestu sakfellinguna, eflaust fyrir áhrif Róberts Spanós.

Spanó fékk því líka ráðið, að dómstóllinn taldi íslenska ríkið hafa brotið gegn 6. gr. Mannréttindasáttmálans um rétt á óvilhöllum dómara. Maður var staðinn að verki (á skilorði) og sakfelldur á þremur dómsstigum af níu dómurum samtals. Einn þessara dómara var ekki í hópi umsækjenda, sem sérstök matsnefnd hafði á sínum tíma talið mjög hæfa, þótt sú nefnd teldi hana hæfa og Alþingi hefði staðfest skipun hennar. Hér spann dómstóllinn upp rétt sérhvers manns til þess, að dómari í máli hans væri ekki aðeins talinn hæfur af þar til bærri matsnefnd og löglega skipaður, heldur yrði hann að hafa verið talinn mjög hæfur. Þetta er fráleitt. En eftir dómsuppkvaðninguna hefur sakborningurinn auðvitað haldið áfram afbrotum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. apríl 2024.)


Matthías og Kalda stríðið

MatthíasHKLMatthías Johannessen sætti löngum árásum vinstri manna. Hann galt þess sem skáld og rithöfundur að vera ritstjóri Morgunblaðsins og stuðningsmaður vestræns samstarfs. Árið 1963 valdi hann bók sinni, Hugleiðingum og viðtölum, einkunnarorð úr frægu ljóði Stephans G. Stephanssonar, „Og lífsins kvöð og kjarni er það að líða/og kenna til í stormum sinna tíða.“ Þá hreytti Sverrir Kristjánsson út úr sér í Tímariti Máls og menningar: „Þegar allar þrettán bækur Matthíasar Johannessens, rímaðar, órímaðar og í prósa, verða horfnar aftur til uppruna síns og orðnar að leir, munu eikur Stepháns G. Stephánssonar standa enn djúpt í sinni gömlu mold, stoltar, fagrar og í fullu laufi.“ Dómur Sverris var með afbrigðum ósanngjarn. Margt af því, sem Matthías skildi eftir sig, á eftir að lifa lengi með þjóðinni. Hér skal ég aðeins nefna eitt. Það er drengilegur stuðningur Matthíasar við hina hugrökku andófsmenn í kommúnistaríkjunum sálugu. Morgunblaðið fylgdist vel með þeim og varði þá með oddi og egg.

Unga kynslóðin og jafnvel þeir, sem nú eru miðaldra, muna ekki þá tíð, þegar kommúnistar réðu hálfum heiminum og börðu þegna sína miskunnarlaust til hlýðni. Þeir áttu sér vitorðsmenn á Vesturlöndum, sem tóku áratugum saman við fjármunum og fyrirmælum frá Moskvu. Matthías barðist ódeigur gegn þeim í Kalda stríðinu. En eftir sigurinn í því stríði árin 1989–1991 mildaðist hann og ákvað, að ekkert uppgjör við íslenska kommúnista skyldi fara fram í Morgunblaðinu. Þetta orkar tvímælis. Átti þá ekki að gera upp við nasistana í Nürnberg? Og þá, sem leynt og ljóst gengu erinda nasista? „Kalda stríðið gerði engan okkar að betri mönnum,“ sagði Matthías við Halldór Guðmundsson, forstjóra Máls og menningar, en fyrir daga Halldórs þáði það fyrirtæki stórfé að austan og býr enn að því. Ég er ekki sammála Matthíasi. Kalda stríðið var óumflýjanlegt til að halda kommúnismanum í skefjum. Sem betur fer tóku Bandaríkjamenn að sér að verja Evrópu. Kalda stríðið var aðeins þeim til minnkunar, sem skipuðu sér í sveit með kúgurunum. Þegar Matthías leit um öxl, hefði hann frekar átt að hafa eftir orð hinnar helgu bókar: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2024.)


Matthías, Bjarni og Laxness

Þegar líður að forsetakjöri, má rifja upp sögu, sem minn góði vinur Matthías Johannessen, sem nú er nýlátinn, sagði stundum. Árið 1967 var vitað, að Ásgeir Ásgeirsson forseti myndi ekki gefa kost á sér til kjörs árið 1968, en tengdasonur hans, Gunnar Thoroddsen sendiherra, hafði að sögn hug á embættinu. Um haustið var rætt um hugsanlega frambjóðendur aðra, og var nafn Halldórs Laxness iðulega nefnt. Hann var talinn fremsti fulltrúi íslenskrar menningar, og hefði hann farið fram, hefðu ráðamenn átt erfitt með að styðja hann ekki. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra bað Matthías því að kanna viðhorf Laxness. Matthías fór upp á Gljúfrastein og bryddaði upp á þessu við skáldið, sem varð undrandi (eða gerði sér upp undrun), en vísaði framboði kurteislega frá sér.

Síðar um haustið kom út greinasafn eftir Laxness, Íslendingaspjall, þar sem hann vandaði Guðmundi Í. Guðmundssyni utanríkisráðherra ekki kveðjur, en Guðmundur hafði verið sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu: „Í þessu lögsagnarumdæmi mínu höfðum við sýslumann sem sjálfsagt hefur í upphafi verið ekki ógeðslegur maður, þó marklaus með öllu, en skapari hans hafði klúðrað á hann tréhendi svo alt sem hann kom nærri varð að axarskafti.“ Laxness nefndi ekki ástæðuna til fjandskapar síns: Hann hafði orðið uppvís að því að stinga undan skatti verulegum tekjum frá útlöndum árið 1946 og Guðmundur sýslumaður orðið að innheimta skattaskuldina. Eftir útkomu bókarinnar sagði Bjarni með breiðu brosi við Matthías: „Það var eins gott, Matthías minn, að Laxness vildi þetta ekki. Hugsaðu þér ástandið, ef forsetinn hefði skrifað aðrar eins skammir um utanríkisráðherrann.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. apríl 2024.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband