Danskur þjóðarandi

standard_N-f-s-grundtvig-portræt.v1Á nítjándu öld minnkaði Danmörk niður í lítið þjóðríki, eftir að Danakonungur hafði misst konungsríkið Noreg, sem Svíar fengu árið 1814, og hertogadæmin Slésvík og Holtsetaland, sem Þjóðverjar lögðu undir sig árið 1864. Danir brugðust við með því að efla með sér þjóðarvitund undir sterkum áhrifum frá sálmaskáldinu og skólamanninum Nikolaj F. S. Grundtvig, sem var þjóðrækinn frjálshyggjumaður (og hafði meðal annars þýtt verk Snorra Sturlusonar á dönsku). Danir vöknuðu upp af stórveldisdraumum og tóku til starfa: Hvad udad tabes, skal indad vindes. Úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Til varð danskur þjóðarandi sjálfsprottins samstarfs allrar alþýðu í mjólkurbúum, íþróttafélögum, samvinnusamtökum, lýðháskólum og söfnuðum, jafnframt því sem frumkvöðlar nýttu sér nýfengið verslunar- og athafnafrelsi til siglinga og iðnframleiðslu og urðu skipakóngar og iðnjöfrar.

Velgengni Dana á tuttugustu öld var vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta og sterkrar samkenndar, Danskhed, folkelighed. Þjóðarandi þeirra felur í sér notalega og óáleitna afstöðu til lífsins. Grundtvig talaði um hinn glaðværa kristindóm. „Sá, sem skilur ekki spaug, kann ekki dönsku,“ sagði Georg Brandes. Þegar þýskur herforingi hældi í upphafi hernámsins vorið 1940 Ernst Kaper, borgarstjóra í Kaupmannahöfn, fyrir hinn mikla sjálfsaga, sem Danir hefðu sýnt, var svarið: „Þetta er ekki agi, heldur menning.“ Best naut danskur þjóðarandi sín við tvö óvenjuleg verkefni. Dönum tókst með átaki allrar þjóðarinnar að koma langflestum Gyðingum landsins undan til Svíþjóðar í október 1943, eftir að spurst hafði út, að þýsku nasistarnir ætluðu að handtaka þá og senda í fangabúðir. Og Danir afhentu Íslendingum hin fornu handrit okkar frá og með árinu 1971, þótt þeir hefðu eignast þau á löglegan hátt. Sómatilfinning er einn þáttur dansks þjóðaranda.

(Fróðleiksmoli í Morgunbaðinu 1. apríl 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband