Vændi og klám í stjórnmálaheimspeki

Á meðan ég kenndi stjórnmálaheimspeki í Háskóla Íslands, reyndi ég eftir megni að hugsa upp rök með og á móti ólíkum sjónarmiðum, reyna á þanþol hugmynda, rekja þær út í hörgul. Heimspekin á að vera frjó samræða, ekki einræða. Eitt sígilt umræðuefni var, hversu langt ríkið mætti ganga í að lögbjóða það, sem er á hverjum tíma talið gott siðferði. Ætti löstur að teljast glæpur? Eins og ég hafði kynnst, þegar ég nam stjórnmálaheimspeki í Reykjavík og Oxford, var þá nærtækt að ræða rök með og á móti því að banna með lögum vændi og klám. Það varð að vísu erfiðara með árunum að ræða þau mál, því að öfgafemínistar í röðum nemenda urðu sífellt aðsópsmeiri og vildu ekki hlusta á nein rök með því að leyfa þetta hvort tveggja. Þetta væri niðurlæging og kúgun kvenna, og með því væri málið útrætt. Þegar ég hreyfði því til dæmis, að hugsanlega mætti leyfa vændi af mannúðarástæðum, því að til væru hópar, sem gætu ekki vegna líkamslýta eða offitu útvegað sér rekkjunauta nema með því að greiða fyrir það, var ég sakaður um „fitusmánun“ og fordóma gegn fötluðum.

Kúgunarrök bannkvenna áttu eflaust stundum við áður fyrr, en þau hafa veikst, því að með netinu hafa milligöngumenn og hugsanlegir kúgarar að miklu leyti horfið, ekki síst þegar um klám er að ræða: Nú selja stúlkur beint aðgang áhorfenda sinna að lostugu athæfi, eins og fram hefur komið hér í blaðinu. Ég hafði hins vegar ekki ímyndunarafl til að smíða dæmi eins og það, sem ég rakst á nýlega um niðurlægingarrökin. Nokkrar konur í Toronto í Kanada ráku stofnun, sem yfirvöld töldu vændishús. Þær mótmæltu harðlega og skutu málinu til dómstóla. Þær buðu í fyrirtæki sínu upp á kynlífsleiki, þar sem ekki var um neina beina líkamlega snertingu að ræða, heldur voru þær í hlutverki kvalara eða drottnara, iðulega leðurklæddar, í netsokkabuxum og með svipu í hendi, og greiddu karlarnir, viðskiptavinir þeirra, fyrir að láta niðurlægja sig á ýmsan hátt. Konurnar unnu málið fyrir Hæstarétti Kanada árið 2013, og komust dómararnir að þeirri almennu niðurstöðu, að bann við vændi svipti konur, sem seldu blíðu sína, lagavernd og neyddi þær niður í neðanjarðarhagkerfið. Þegar ég las um þetta dómsmál, velti ég því fyrir mér, hvernig kalla mætti það niðurlægingu kvenna, að þær fengju sérstaklega greitt fyrir að niðurlægja karla. En eflaust myndu öfgafemínistar reyna að banna umræður um þá spurningu í stað þess að svara henni.

[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. apríl 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband