Vormaður og sálufélag

Coat_of_arms_of_IcelandFyrir nokkrum misserum var gerð könnun um fallegasta orðið á íslensku, og varð „ljósmóðir“ fyrir valinu. Það var eðlilegt. Hvort tveggja er, að orðið sjálft er fallegt og þjált og að mikil birta hvílir yfir merkingarsviði þess: ný börn að koma í heiminn, mikil blessun fámennri þjóð. Hvernig ætti að þýða þetta orð? Hver tunga á sér einmitt orð, sem örðugt er að þýða, vegna þess að merkingarsvið þeirra vísa til sérstakrar sögu og menningar, hugsunarháttar og aðstæðna. Dæmi eru enska orðið „gentleman“ og danska orðið „hygge“. 

Hér bendi ég á tvö önnur sérstök orð í íslensku. Annað er „vormaður“. Það skírskotar til kynslóðarinnar, sem hóf að láta að sér kveða eftir aldamótin 1900 og var ráðin í að koma Íslandi, þá fátækasta landi Vestur-Evrópu, í fremstu röð. Þetta voru vormenn Íslands og auðvitað af báðum kynjum. Þetta voru verkfræðingar, sem lögðu vegi, hlóðu stíflur, smíðuðu brýr, reistu hús og bægðu frá óhreinindum, kulda og myrkri með vatns-, hita- og rafmagnsveitum, læknar, sem skáru burt mein og bólusettu gegn farsóttum, kennarar, sem vöktu áhuga nemenda sinna á sögu Íslands og einstæðum menningararfi og brýndu fyrir þeim að vanda mál sitt, kveiktu í þeim metnað fyrir Íslands hönd, útgerðarmenn, sem ráku vélbáta og togara og öfluðu drjúgra gjaldeyristekna, iðnrekendur, sem veittu fjölda manns atvinnu og skírðu fyrirtæki sín rammíslenskum nöfnum. Orðið „vormaður“ lýsir von íbúanna á norðurhjara veraldar um meiri birtu.

Hitt orðið er „sálufélag“. Í íslenskum þjóðsögum er hermt, að Sæmundur prestur í Odda hafi heyrt í fornum spám, að honum væri ætlað sálufélag með fjósamanni á Hólum. Eitt sérkenni Íslendinga er, að þeir eru miklu fastmótaðri heild en flestar aðrar þjóðir. Stéttamunur er hér minni og kjör jafnari en víðast annars staðar, eins og nýjustu alþjóðlegu mælingar staðfesta. Íslendingar tala ekki ótal mállýskur, og þeir geta hæglega lesið þá tungu, sem töluð hefur verið hér frá öndverðu. Hver maður á því sálufélag við alla aðra Íslendinga, frá fyrstu landnámsmönnunum, Ingólfi Arnarsyni og Hallveigu Fróðadóttur, til þeirra nýfæddu barna, sem ljósmæðurnar taka á móti þessa stundina. Mikill skaði væri að því að rjúfa þetta sálufélag eins og nú er reynt að gera í nafni fjölmenningar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. mars 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband