Villur Jóns Ólafssonar

Ég hef hér farið yfir ýmsar brellur, firrur, gloppur og skekkjur í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna. Ýmsar þjóna þær þeim tilgangi að gera lítið úr ofbeldiseðli hreyfingarinnar og tengslum við alræðisherrana í Mosku. En sumar villur Jóns virðast engum tilgangi þjóna. Strax í upp­hafi bókarinnar Kæru félaga (bls. 15) segir Jón til dæmis frá för Hend­riks Ottós­sonar og Brynj­ólfs Bjarna­sonar á annað þing Kom­interns 1920: „Ferða­lang­arnir þurftu að fara norður alla Sví­þjóð og yfir landa­mæri Nor­egs til Rúss­lands. Þaðan svo aftur suður á bóg­inn, fyrst til Petr­ograd þar sem þingið var sett og svo austur til Moskvu.“ En sam­kvæmt frá­sögn Hend­riks, sem ástæðu­laust er að rengja, fóru þeir fyrst frá Kaup­manna­höfn til Stokkhólms til að ná í gögn og farar­eyri hjá erind­reka Kom­interns þar í borg. Síðan sneru þeir aftur til Kaup­manna­hafnar og fóru með skipum vestur og norður Noreg til Múr­m­ansk. Var þetta hin mesta svað­il­för. Urðu þeir að smygla sér í litlum báti norður að landa­mærum Noregs, því að þeir höfðu ekki far­ar­leyfi þang­að, og þaðan til Rúss­lands. Þeir misstu raunar af fyrstu dögum þings­ins í Pét­urs­garði, því að það hafði þá verið flutt til Moskvu. Komu þeir mjög seint á þing­ið og eru þess vegna ekki á skrá um þingfulltrúa, þótt þeir tækju fullan þátt í störfum þingsins.

Margar villur eru í sömu bók í frásögn Jóns af MÍR, Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, sem Jón kallar stundum ranglega (bls. 181 og 340) Menningarsamband. Jón segir (bls. 185) um átök í MÍR árin 1958–1960: „Þessi átök end­uðu með því að Krist­inn E. Andr­és­son missti ítök sín í MÍR og var bolað út úr félaginu.“ Þessu var þver­öf­ugt far­ið. Andstæð­ingar Krist­ins misstu ítök sín í MÍR og var bolað út úr félag­inu. Eftir að Sigurvin Össurarson, Adolf Pet­er­sen og fleiri menn úr Reykja­vík­ur­deild MÍR höfðu haustið 1958 upplýst rússneska erindreka um, að þeir vissu af fjár­hags­legum stuðn­ingi Moskvumanna við MÍR, varð órói í félag­inu. Beittu for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins sér fyrir því, að Reykjavíkurdeild MÍR væri tekin úr höndum þess­ara manna á aðal­fundi hennar 26. febr­úar 1960. Þeim tókst ætl­un­ar­verk sitt. Varð Árni Böðv­ars­son for­maður félags­deild­ar­innar í stað Sig­ur­vins, og annar banda­maður Krist­ins, Þorvaldur Þór­ar­ins­son, tók sæti í stjórn­inni. Einn þeirra manna, sem felldir voru úr stjórn, Adolf Pet­er­sen, skrif­aði um þetta í blöð. Málið er líka rakið nokkuð í einni SÍA-skýrsl­unni, sem Jón Ólafs­son vitnar sjálfur í (Rauða bókin (1984), bls. 126). Kristinn E. Andr­és­son og aðrir for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins réðu alla tíð yfir sjálfum heild­ar­sam­tök­un­um, enda varð Krist­inn for­seti MÍR á eftir Hall­dóri Laxness 1968.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. mars 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband