11.1.2020 | 09:48
Til hvers eru kosningar?
Íslendingar fylgjast miklu betur með stjórnmálum í Bretlandi og Bandaríkjunum en á meginlandi Norðurálfunnar, og er það eflaust vegna enskunnar, sem við höfum betur á valdi okkar en flest önnur mál, en þessi lönd eru líka nálægt okkur landfræðilega og stjórnmálalega. Bandaríkin hafa við okkur varnarsamning, og Bretland er einn stærsti viðskiptavinur okkar.
Þegar gengið er til kosninga í þessum löndum, spretta iðulega fram spekingar uppi á Íslandi og hneykslast á úrslitum, því að í hvorugu landinu tíðkast hlutfallskosningar. Donald Trump hlaut til dæmis færri atkvæði samanlagt en Hillary Clinton í bandaríska forsetakjörinu 2016. En tilgangur forsetakjörsins var ekki að mæla almennt fylgi frambjóðendanna, heldur kaus hvert af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna kjörmenn sína eftir misjöfnum reglum (sum jafnvel hlutfallskosningu), og síðan valdi kjörmannasamkoma forsetann. Bandaríkin eru ekki eitt kjördæmi, og það væri andstætt eðli þeirra að vera það. Það er bandalag fimmtíu ríkja.
Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi, og það veldur því, að stærsti flokkurinn getur fengið miklu hærra hlutfall á þingi en talið í atkvæðum, eins og gerðist nú í desemberkosningunum 2019. Kerfinu er ekki ætlað að endurspegla heildarfylgi hvers flokks, heldur sendir hvert kjördæmi einn mann á þing. Einn stór kostur er við þetta kerfi. Hann er, að ábyrgð stjórnenda og kostir um að velja verða miklu skýrari.
Tvö lýðræðishugtök eru helst notuð á Vesturlöndum. Annað er, að þingið eigi að endurspegla sem nákvæmast þjóðarviljann. Margvísleg vandkvæði eru á að gera það, en vissulega á þá hlutfallskosning við. Hitt hugtakið er, að lýðræði sé friðsamleg leið til að skipta um valdhafa, séu kjósendur óánægðir með þá. Þar á betur við fyrirkomulagið á Bretlandseyjum, enda á Clement Attlee að hafa sagt, að höfuðkosturinn við lýðræðið væri, að losna mætti við valdhafana án þess að þurfa að skjóta þá.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2019.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook