Hundur Rousseaus

Svo frægur var árekstur heimspekinganna Karls R. Poppers og Ludwigs Wittgensteins í Cambridge 25. október 1946, að um hann hefur verið skrifuð heil bók, Eldskörungur Wittgensteins (Wittgenstein’s Poker), sem ég hef minnst hér á. Sömu höfundar, David Edmonds og John Eidinow, hafa skrifað bók um annan frægan árekstur, að þessu sinni milli Rousseaus og Humes. Heitir hún Hundur Rousseaus (Rousseau’s Dog).

Þótt sumir teldu Jean-Jacques Rousseau vitring, má efast um það, en hitt er rétt, að hann var sérvitringur. Hann skrifaði bók um uppeldismál, en sendi þau fimm börn, sem hann gat með lagskonu sinni, á munaðarleysingjahæli. Hann kom undantekningarlaust illa fram við þá, sem veittu honum aðstoð í margvíslegum hrakningum hans, og virðist hafa verið haldinn ofsóknaræði og vænisýki. Ég hef bent á það hér, að hann vék að Íslendingum í ritum sínum. Sagði hann þá þeirra, sem sendir væru í nám til Kaupmannahafnar, sakna svo hins náttúrlega lífs ættjarðarinnar, að ýmist vesluðust þeir upp þar ytra eða drukknuðu, þegar þeir reyndu að synda heim!

David Hume var hins vegar raunsær og glaðsinna, lét fátt raska heimspekilegri ró sinni og hrakti hátimbruð hugmyndakerfi með skarplegum rökum, en naut um leið lífsins að spjalli með vinum yfir glasi af víni. Hann var um nokkurt skeið sendiráðsritari í París og var þá hvers manns hugljúfi og kallaður „Le bon David“, sá góði Davíð. Í árslok 1765 var hann að tygja sig til heimferðar, og þá birtist Rousseau í París, en átti á hættu handtöku fyrir skrif sín. Hume aumkvaði sig yfir Rousseau, tók hann með sér yfir Ermarsund í janúar 1766 og kom honum fyrir uppi í sveit. Hafði d’Holbach barón þó varað Hume við því, að hann væri að ala nöðru við brjóst sér.

Í byrjun fór vel á með heimspekingunum, en síðan hljóp hundur í Rousseau. Honum þótti tefjast, að Hume útvegaði sér lífeyri frá konungi, sem hann taldi sig eiga skilið, og komst hann loks að þeirri niðurstöðu, að Hume væri höfuðpaur í samsæri gegn sér. Hume tók því fálega og skrifaði hvert bréfið af öðru sér til varnar. Rousseau flýði loks undan samsærinu aftur yfir Ermarsund, en upplýstir Evrópubúar, sem þekktu báða af bókum þeirra, stóðu á öndinni yfir þessum ósköpum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. desember 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband