Frá Varsjá

Dagana 23.–24. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu um kapítalisma í Varsjá í Póllandi. Í erindi mínu gerði ég greinarmun á umhverfisvernd og umhverfistrú (ecofundamentalism). Umhverfisverndarmenn vilja nýta náttúrugæðin skynsamlega og leita þess vegna ráða til að minnka umhverfisspjöll eins og mengun og ofveiði. Eitt hið besta er að þeirra dómi að skilgreina eignarrétt (eða einkaafnotarétt) á gæðum náttúrunnar, því að þá verða til eigendur eða gæslumenn. Vernd krefst verndara. Umhverfistrúarmenn telja hins vegar, að maður og náttúra séu andstæður og að umhverfið hafi einhvers konar rétt gagnvart mönnum.

Ég benti á, að árekstrar í umhverfismálum eru í raun ekki milli manns og náttúru, heldur milli ólíkra hópa manna. Skýrt dæmi er hvalur á Íslandsmiðum. Sumir vilja veiða hann og eta. Aðrir vilja friða hann, jafnvel þótt stofnarnir á Íslandsmiðum séu sterkir. Í þeirra augum virðist hvalur vera eins og heilög kýr hindúa. En hvalir éta að mati sjávarlíffræðinga um sex milljónir lesta af sjávarfangi á ári, þar á meðal smáfiski. Við Íslendingar löndum hins vegar ekki nema rösklega einni milljón lesta af fiski. Krafa hvalfriðunarsinna er því í raun um, að við Íslendingar tökum að okkur að fóðra hvalinn fyrir þá án þess að mega nýta hann sjálfir. Þeir eru eins og freki bóndinn, sem rekur kvikfénað sinn í bithaga nágrannans og ætlast til þess, að hann sé þar á fóðrum. Hér rekast á tveir hópar manna, ekki maður og náttúra.

Annað dæmi er regnskógurinn á Amasón-svæðinu. Umhverfistrúarmenn vilja friða hann. Rökin eru að vísu veik. Það er ekki rétt, að regnskógurinn framleiði verulegt súrefni handa jarðarbúum, og tryggja má líffræðilegan fjölbreytileika með miklu minni skógi en nú vex þar. En setjum svo, að rökin séu gild og skógurinn sé mannkyni mikilvægur. Þá ættu auðvitað aðrir jarðarbúar að greiða Brasilíumönnum fyrir afnot sín af skóginum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband