Löstur er ekki glæpur

Einn skemmtilegasti einstaklingshyggjumaður Bandaríkjanna á nítjándu öld var Lysander Spooner. Hann var ákafur baráttumaður gegn þrælahaldi og stofnaði bréfburðarfyrirtæki í samkeppni við bandaríska póstinn, þótt ekki tækist honum að raska einokun hans. Ein bók hefur komið út eftir Spooner á íslensku, Löstur er ekki glæpur. Þar leiðir höfundurinn rök að því, að ekki eigi að banna svonefnd fórnarlambalaus brot, þegar menn skaða aðeins sjálfa sig, ekki aðra. Dæmi um það gæti verið margvísleg ósiðleg og óskynsamleg hegðun eins og ofdrykkja og önnur fíkniefnaneysla, fjárhættuspil, hnefaleikar, vændi og klám. Hins vegar megi og eigi að banna brot, þar sem menn skaða aðra.

Thomas-Aquinas-Black-largeÍ grúski mínu á dögunum rakst ég á óvæntan bandamann Spooners. Hann er enginn annar en heilagur Tómas af Akvínas, dýrlingur og heimspekingur kaþólsku kirkjunnar. Hluti af miklu verki hans, Summa Theologica, hefur komið út á íslensku, Um lög. Þar segir heilagur Tómas (96. spurning, 2. grein): „Lög manna eru sett fjölda manna, sem að meiri hluta eru ekki fullkomlega dygðugir. Og þess vegna banna mannalög ekki alla þá lesti, sem dygðugir menn forðast, heldur einungis alvarlegri lesti, sem meiri hlutanum er fært að forðast, og einkum þá, sem eru öðrum til sársauka og sem eru þannig, að væru þeir ekki bannaðir, væri ekki unnt að viðhalda samfélagi manna; þannig banna mannalög morð, þjófnað og þess háttar.“ (Þýðing Þórðar Kristinssonar.)

Ég fæ ekki betur séð en dýrlingurinn hitti alveg í mark. Ríkið á fullt í fangi með að verja okkur gegn þeim, sem vilja skaða okkur, svo að það bæti ekki við því verkefni, sem því verður ætíð ofviða, að siða okkur til og koma í veg fyrir, að við sköðum okkur sjálf. Í því felst auðvitað ekki, að við leggjum blessun okkar yfir ósiðlega eða óskynsamlega hegðun, heldur hitt, að lítt framkvæmanlegt er að breyta henni til batnaðar með valdboði. Vænlegra er að reyna að gera það með fordæmi og þegar það dugir ekki til með fordæmingu og þó án viðurlaga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. janúar 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband