Hvað er þjóð?

Í snarpri gagnrýni á þjóðarhugtakið viðurkenndi ensk-austurríski heimspekingurinn Karl R. Popper, að líklega kæmust Íslendingar næst því allra heilda að kallast þjóð: Þeir töluðu sömu tungu, væru nær allir af sama uppruna og í sama trúfélagi, deildu einni sögu og byggju á afmörkuðu svæði. Því er ekki að furða, að þjóðerniskennd sé sterkari hér á landi en víðast annars staðar í Evrópu, þar sem landamæri hafa verið á reiki og mála- og menningarsvæði fara alls ekki saman við ríki. Til dæmis er töluð sænska á Álandseyjum, þótt þær séu hluti af Finnlandi. Þýska er töluð í Þýskalandi, Austurríki og mörgum kantónum í Sviss og jafnvel í Suður-Týrol, sem er hluti af Ítalíu. Í Belgíu mæla sumir á flæmsku (sem er nánast hollenska) og aðrir á frönsku, auk þess sem margir eru vitaskuld tvítyngdir. Katalónska er ekki sama málið og sú spænska, sem kennd er í skólum og oft kölluð kastilíska.

Vorið 1882 gerði franski rithöfundurinn Ernest Renan fræga tilraun til að skilgreina þjóðina í fyrirlestri í París, „Qu’est-ce qu’une nation?“ Hvað er þjóð? Hann benti á öll þau tormerki, sem væru á að nota tungu, trú, kynþátt eða landsvæði til þess að afmarka þjóðir, og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri viljinn til að vera ein þjóð, sem gerði heild að þjóð. Þessi vilji styddist í senn við minningar úr fortíðinni og markmið til framtíðar. Menn væru samt sem áður frjálsir að þjóð sinni. Kysi einhver þjóð að slíta sig frá annarri, þá ætti henni að vera það heimilt. Og hver maður gæti líka valið. Til þess að hann kynni vel við land sitt, yrði það að vera viðkunnanlegt. Þjóðin væri því „dagleg atkvæðagreiðsla“. Renan benti líka á, að stundum styddist viljinn til að vera þjóð ekki síður við gleymsku en minningar. Þjóðir hefðu iðulega orðið til við ofbeldi og yfirgang. Þjóðarsagan, sem kennd væri í skólum, væri því stundum hálfsögð, jafnvel fölsuð.

Hér er sérstaða Íslendinga aftur merkileg. Við deilum ekki aðeins tungu, trú, kynþætti, landsvæði og sögu, heldur höfum við engu að gleyma. Við höfum aldrei beitt neina aðra þjóð yfirgangi, þótt ef til vill hafi okkur frekar brostið til þess afl en áhuga. Og á íslensku er til fallegt orð um það, sem Renan taldi viljann til að vera ein þjóð. Það er „sálufélag“. Eins og fjósamaðurinn á Hólum átti forðum sálufélag með Sæmundi fróða, eigum við sálufélag með Agli Skallagrímssyni, Snorra Sturlusyni, Jónasi Hallgrímssyni, Laxness, Björk og íslenska landsliðinu í knattspyrnu 2018. Íslenska þjóðin stækkar af íslensku afreksfólki, án þess að aðrar þjóðir smækki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. júní 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband