19.5.2018 | 09:17
Hvað segi ég í Brüssel?
Á ráðstefnu Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, um umhverfismál í Brüssel fimmtudaginn 24. maí 2018 kynni ég nýútkomið rit mitt, Green Capitalism (Grænan kapítalisma), og mæli með hófsamlegri verndun og nýtingu náttúrugæða í stað skilyrðislausrar friðunar þeirra. Meðal annars lýsi ég áhrifunum af bók Rachel Carsons, Raddir vorsins þagna. Höfundurinn andmælti skordýraeitrinu DDT af svo mikilli mælsku, að notkun efnisins var víðast bönnuð. En þá fór mýrakalda (malaría) aftur að láta á sér kræla, og hafa milljónir manna látist úr henni í suðlægum löndum. DDT var vissulega notað í óhófi í landbúnaði á sínum tíma, eins og Carson benti á, en það er hættulaust mönnum og enn skilvirkasta leiðin til að drepa mýið, sem smitar menn af mýraköldu. Þarf oftast ekki annað en rjóða efninu á innveggi húsa.
Ég rifja upp hrakspár friðunarsinna í kringum 1970, til dæmis í Heimi á helvegi og Endimörkum vaxtarins. Glæpir áttu að aukast vegna þéttbýlis, flest mikilvægustu jarðefni að ganga til þurrðar eftir 30-40 ár og hungursneyðir að skella á. Þetta rættist ekki. Glæpir hafa víðast minnkað og eru raunar einna minnstir hlutfallslega á tveimur þéttbýlustu stöðum heims, í Singapúr og Japan. Enn er til nóg af jarðefnum eins og kopar og jarðolíu, enda hefur mannsandinn fundið margar leiðir til að nýta betur efni og orku, meðal annars í grænu byltingunni, þegar uppskera jókst stórlega í krafti erfðabættra nytjajurta. Hlutfallslega ganga nú fleiri mettir til hvílu á hverri nóttu en nokkru sinni fyrr. Raddir vorsins fagna.
Ég tek nokkur íslensk dæmi um takmörkuð náttúrugæði, sem væru ofnýtt, væri aðgangur að þeim ótakmarkaður: laxveiðiár, beitarland á fjöllum og fiskistofnar á Íslandsmiðum. Hefur Íslendingum tekist að nýta þau skynsamlega. Aðallega ræði ég um úthafsveiðar. Með úthlutun framseljanlegra aflakvóta til þeirra, sem þegar stunduðu veiðar, tókst að beina áhuga þeirra að því að lágmarka kostnaðinn við veiðar. Þeir urðu gæslumenn gæðanna. Með framsalinu var hægt að minnka nýtinguna niður í það, sem hagkvæmast var: Fækka þurfti fiskimönnum, en þeir voru keyptir út, ekki reknir út. Ég bendi á, að eini rétturinn, sem var tekinn af öðrum við úthlutun aflakvótanna, var rétturinn til að gera út á núlli, en hann er auðvitað verðlaus.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. maí 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook