5.5.2018 | 09:08
Marx 200 ára
Það sýnir yfirborðslega söguþekkingu og grunnan heimspekilegan skilning, ef tvö hundruð ára afmælis Karls Marx í dag, 5. maí 2018, er minnst án þess að víkja að þeirri sérstöðu hans á meðal heimspekinga, að reynt var að framkvæma kenningar hans um alræði öreiganna og afnám einkaeignarréttar í hálfum heiminum með hræðilegum afleiðingum: Rösklega hundrað milljón manns týndu lífi vegna kommúnismans. Önnur hundruð milljóna kynntust aðeins eymd og kúgun.
Spurningin er auðvitað, hvort þessi ósköp megi rekja beint til kenninga Marx. Svarið er játandi. Þótt kommúnisminn tæki á sig ólíkar myndir í ólíkum löndum, svo sem Júgóslavíu, Kúbu og Kambódíu, og undir stjórn ólíkra manna, til dæmis Stalíns, Maós og Kadars, fól alræði öreiganna alls staðar í sér einsflokksríki með leynilögreglu, ritskoðun og handtökum og aftökum stjórnmálaandstæðinga. Afnám einkaeignarréttar hafði síðan þær afleiðingar, að menn urðu varnarlausir gagnvart ríkinu, enda háðir því um alla sína afkomu.
Marx lagði fyrir lærisveina sína að umskapa skipulagið. En með tilraunum til þess myndast stórkostlegt vald, sem lendir fyrr eða síðar í höndum hinna óprúttnustu. Ég hef ekkert á móti kommúnisma, sem menn stunda fyrir sjálfa sig, til dæmis á samyrkjubúum í Ísrael. En marxistar vildu líka stunda kommúnisma fyrir aðra. Þeir reyndu að neyða alla aðra inn í skipulag, þar sem einkaeignarréttur hefði verið afnuminn og menn ættu allt saman. Slíkt skipulag er dæmt til að falla, því að þar geta menn ekki notað sérþekkingu sína og sérhæfileika að neinu gagni og hafa fá sem engin tækifæri til framtaks.
Ég hef áður vakið athygli á lítilsvirðingarorðum Marx og fjárhagslegs bakhjarls hans, Friedrichs Engels, um Íslendinga og aðrar smáþjóðir. Mikið hatur býr í marxismanum. Snýst hann ekki um andúð á efnafólki frekar en samúð með lítilmagnanum?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. maí 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:12 | Facebook