Þrjár örlagasögur

screen-shot-2018-04-17-at-16_36_52.pngÚt er komið eftir mig ritið Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir, og kynni ég það á fundi í Háskólatorgi, stofu 101 (Ingjaldsstofu), fimmtudaginn 26. apríl klukkan fimm.

Fyrsta rannsóknin er á örlögum svissnesku gyðingakonunnar Elinor Lipper, en útdrættir úr metsölubók eftir hana um ellefu ára vist í þrælakistum Stalíns birtust í Vísi og Tímanum í Kalda stríðinu. Hún virtist hafa horfið eftir útkomu bókar sinnar, en ég gróf upp í svissneskum og rússneskum skjalasöfnum, hver hún var, hvaðan hún kom og hvert hún fór, og er þar margt sögulegt.

Önnur rannsóknin er á, hvernig örlög tveggja Þjóðverja, sem bjuggu á Íslandi fyrir stríð, fléttuðust saman. Henny Goldstein var flóttamaður af gyðingaættum, Bruno Kress, nasisti og styrkþegi Ahnenerbe, „rannsóknastofnunar“ SS-sveitanna. Eftir stríð gerðist Kress kommúnisti og forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Greifswald-háskóla. Fundum þeirra Goldsteins og Kress bar saman aftur á Íslandi 1958 á einkennilegan hátt. En Ahnenerbe tengdi þau líka saman, og vissi hvorugt af því.

Þriðja rannsóknin er á þáttum úr ævi kunnasta stalínista Íslands Halldórs K. Laxness. Hvaðan var símskeytið sem varð til þess að honum var ekki hleypt inn í Bandaríkin 1922? Hvers vegna forðaði hann sér frá Bandaríkjunum 1929? Eftir elskuleg samtöl 1934 við ítalska fasista, þar sem hann reyndi að stuðla að útgáfu bóka sinna á Ítalíu, skrifaði hann Erlendi í Unuhúsi: „Ýla skal hind, sem með úlfum býr.“ Laxness kom til Berlínar 1936 með vottorð til nasistastjórnarinnar um að hann væri ekki kommúnisti en þá var hann að reyna að liðka til um útgáfu bóka sinna í Þýskalandi.

Laxness þagði í aldarfjórðung yfir því þegar hann varð í Moskvu 1938 vitni að handtöku saklausrar stúlku, Veru Hertzsch, barnsmóður Íslendings. Hann hafði líka að engu beinar frásagnir sjónarvotta að kúguninni í kommúnistaríkjunum, til dæmis rússneskukennara síns, Teodoras Bialiackinas frá Litáen, og tveggja tékkneskra vina. Ég rek undirmálin vegna veitingar Nóbelsverðlaunanna 1955 en leita að lokum skýringa á því hvers vegna Laxness og margir aðrir vestrænir menntamenn vörðu stalínismann gegn betri vitund.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2018).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband