Grafir án krossa

arvedviirlaid2.jpgEistlendingar héldu snemma á þessu ári upp á að 100 ár eru liðin frá því að þeir urðu fullvalda. En þeir voru svo óheppnir að næstu nágrannar þeirra eru Þjóðverjar og Rússar. Þýskar riddarareglur og rússneskir keisarar kúguðu þjóðina á víxl öldum saman og stundum í sameiningu. Hún var aðeins fullvalda til 1940 og síðan aftur frá 1991.

Ein magnaðasta bókin, sem sett hefur verið saman um örlög Eistlands á tuttugustu öld, Grafir án krossa, er eftir skáldið Arved Viirlaid, sem var aðeins átján ára sumarið 1940, þegar Stalín lagði undir sig land hans. Gerðist Viirlaid „skógarbróðir“ eins og þeir skæruliðar voru kallaðir, sem leyndust í skógum og börðust gegn kommúnistum. Eftir að Þjóðverjar ruddust inn í Eistland sumarið 1941 vildi Viirlaid ekki berjast með þeim svo að hann hélt til Finnlands og gekk í sérstaka eistneska hersveit innan finnska hersins sem barðist við Rauða herinn í Framhaldsstríðinu svonefnda, sem Finnar háðu við Kremlverja 1941-1944. Eftir að Finnar sömdu um vopnahlé við Stalín var Viirlaid sendur heim. Þaðan tókst honum að flýja til Svíþjóðar og síðan Bretlands en hann settist loks að í Kanada og lést árið 2015, 93 ára gamall.

Grafir án krossa er heimildaskáldsaga, sótt í reynslu Viirlaids sjálfs og félaga hans. Gamall skógarbróðir, Taavi Raudoja, snýr aftur til Eistlands 1944 eftir að hafa barist í finnska hernum. Kremlverjar hafa þá aftur lagt landið undir sig. Hann er fangelsaður og reynir leynilögregla kommúnista að pynta hann til sagna um vopnabræður hans. Hann sleppur úr fangelsinu og gerist aftur skógarbróðir. Kona hans og sonur eru fangelsuð. Eftir ótrúlegar raunir gengur kona hans af vitinu. Leynilögreglan lætur hana lausa í því skyni að lokka Taavi í gildru. Það tekst ekki en bardagar halda áfram milli skógarbræðra og leynilögreglunnar uns Taavi ákveður að reyna að komast úr landi og segja umheiminum frá öllum hinum nafnlausu fórnarlömbum kommúnista sem hvíla í gröfum án krossa.

Bókin er fjörlega skrifuð og af djúpri þekkingu á aðstæðum. Inn í hana fléttast sögur um ást og hatur, svik og hugrekki. Hún er um þá valþröng sem einstaklingar undirokaðrar smáþjóðar standa frammi fyrir. Bækur Viirlaids voru stranglega bannaðar á hernámsárunum í Eistlandi, allt til 1991.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. apríl 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband