Málið okkar

Furðu sætir, að sumir blaðamenn, sem hafa valið sér það starf að semja texta, skuli ekki vanda sig betur. Enskan skín sums staðar í gegn, til dæmis þegar þeir skrifa, að einhverjir hafi tekið eigið líf, í stað þess að þeir hafi stytt sér aldur eða ráðið sér bana. Og þeir nota ekki umritunarreglur úr rússnesku, sem settar voru með ærinni fyrirhöfn og eru aðgengilegar á vef Árnastofnunar. Maður, sem nú er mjög í fréttum, heitir Sergej Skrípal, þótt á ensku sé nafn hans ritað Sergei Skripal.

Stundum velti ég fyrir mér, hvort spá danska málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks muni rætast að breyttu breytanda: Enskan gangi af íslenskunni dauðri, ekki danskan. Íslenskir kennarar og rithöfundar gengu ötullega fram í málhreinsun, málvöndun og nýyrðasmíð á síðari hluta nítjándu aldar og á öndverðri síðustu öld. Þeir útrýmdu að heita má flámælinu og þágufallssýkinni. Þeir smíðuðu orð, sem féllu vel að tungunni, um ný fyrirbæri. En nú er ekki örgrannt um, að slík fyrirhöfn þyki brosleg.

Þegar ég sýndi Milton og Rose Friedman söguslóðir á Íslandi haustið 1984 spurði Rose: „Af hverju takið þið ekki upp ensku? Er það ekki miklu hagkvæmara?“ Milton andmælti henni með breiðu brosi: „Nei, Rose, ég er ekki sammála þér. Íslenskan er þeirra mál, og þeir vilja auðvitað halda í hana.“

Röksemd Miltons Friedmans er enn í fullu gildi. Ástæðan til þess, að við viljum (vonandi flest) tala íslensku, er, að hún er málið okkar. Hún er samgróin okkur, annað eðli okkar, ef svo má segja, órofaþáttur í tilvist okkar. Hún veldur því, að Ísland er ekki einvörðungu verstöð eða útkjálki, heldur bólstaður sjálfstæðrar og sérstakrar þjóðar.

Bæta má við röksemdum fyrir skoðun Miltons og gegn tillögu Rose. Ein er, að við þurfum ekki að týna niður íslenskunni, þótt við lærðum ensku svo vel, að við töluðum hana næstum því eins vel og eigin tungu (eins og við ættum að gera). Málið er eins og frjálst atvinnulíf, eins gróði þarf ekki að vera annars tap. Við getum sem hægast verið tvítyngd.

Önnur er sú, að íslenskan er ekki aðeins sérstök, heldur líka falleg. Þetta sjáum við best á vel heppnuðum nýyrðum eins og þyrlu og tölvu. Fara þessi orð ekki miklu betur í munni en helikopter og komputer?

Þriðja viðbótarröksemdin er, að með málhreinsun, málvöndun og nýyrðasmíð þjálfum við okkur í móðurmálinu, spreytum okkur á nýjum verkefnum, um leið og við endurnýjum og styrkjum sálufélag okkar við þær þrjátíu og þrjár kynslóðir, sem byggðu landið á undan okkur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband