20.1.2018 | 07:28
Bókabrennur
Hinn 10. maí 1933 héldu nasistastúdentar bókabrennu í miðborg Berlínar, og er ljósmyndir af þeim illræmda viðburði víða að finna í ritum um Þriðja ríkið. En bókum má tortíma með fleiru en því að brenna þær, og ungir þjóðernissósíalistar voru alls ekki einir um að kjósa frekar að eyða bókum en svara þeim efnislega. George Orwell átti í erfiðleikum með að fá útgefanda að Dýrabæ (Animal Farm), því að breskir ráðamenn vildu ekki styggja Stalín, sem nú var orðinn bandamaður þeirra gegn Hitler. Bandarískir vinstri menn reyndu að hindra, að Leiðin til ánauðar (Road to Serfdom) eftir Friedrich A. Hayek kæmi út í Bandaríkjunum.
Eins konar bókabrennur áttu sér jafnvel stað á hinum friðsælu Norðurlöndum. Að kröfu Nasista-Þýskalands lagði Hermann Jónasson dómsmálaráðherra haustið 1939 hald á allt upplag bókarinnar Í fangabúðum eftir Wolfgang Langhoff, en þar sagði frá vist höfundar í dýflissu nasista. Eftir ósigur fyrir Rússum 1944 urðu Finnar að fjarlægja úr opinberum bókasöfnum ýmsar bækur, sem ráðstjórninni voru ekki þóknanlegar, þar á meðal Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, sem kom út á íslensku 1938 og ég sá um að endurútgefa á síðasta ári, en þar sagði frá vist höfundar í þrælakistu kommúnista.
Ég rakst nýlega á þriðja norræna dæmið. Árið 1951 kom út í Svíþjóð bókin Vinnuþræll undir ráðstjórn (Jag jobbade i Sovjet) eftir Ragnar Rudfalk. Höfundurinn, ungur skógarhöggsmaður, hafði ætlað að ganga til liðs við her Norðmanna ásamt norskum vini sínum, og höfðu þeir farið yfir rússnesku landamærin nálægt Múrmansk. Þeim var ekki leyft að halda áfram ferðinni, heldur var þeim varpað í þrælkunarbúðir, þar sem hinn norski förunautur lést úr vosbúð. Rudfalk þraukaði, og eftir vistina var hann dæmdur í útlegð, en fékk loks að snúa heim að tilhlutan sænskra yfirvalda. Bókin kom út í 24 þúsund eintökum og var þýdd á dönsku og norsku, auk þess sem kaflar birtust úr henni í Vísi 1952. En svo undarlega vill til, að bókin varð fljótlega ófáanleg, og ekkert var um hana rætt í Svíþjóð. Sænska jafnaðarmannastjórnin vildi fara gætilega gagnvart valdsmönnum í Moskvu og sá líklega um, að upplagið hyrfi þegjandi og hljóðalaust. Til þess að eyða bókum þarf ekki alltaf að brenna þær.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2018.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.1.2018 kl. 07:45 | Facebook