Var Laxness gyðingahatari?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur grefur iðulega upp óvæntan fróðleik, enda fer hann ekki alltaf troðnar slóðir. Nýlega hélt hann því fram í netpistli, að Halldór Kiljan Laxness hefði verið gyðingahatari. Rökin voru þau, að Laxness hefði haustið 1948 skrifað í Parísarbréfi fyrir Þjóðviljann: „Morðíngi Evrópu [Hitler] dró þessa umkomulausu flóttamenn sína hér uppi vorið 1940. Ég átti nokkra kunningja í hópi þeirra. Þeir voru pólskir. Mér er sagt að þeir hafi verið drepnir. Þeir hafa sjálfsagt verið fluttir austur til fángabúðanna í Ásvits (Oswiekim, Auschwitz) þar sem Hitler lét myrða fimm milljónir kommúnista og grunaðra kommúnista á árunum 1940-1945, jú og auðvitað „gyðínga“.“

Auðvitað voru þessi orð Laxness heimskuleg, þótt þau væru í samræmi við áróður kommúnista þau misseri, en þeir lögðu miklu meiri áherslu á ofsóknir nasista gegn kommúnistum en gyðingum. Var þess þá látið ógetið, að nasistar og kommúnistar voru bandamenn í tvö ár, allt frá því að Hitler og Stalín gerðu griðasáttmála sumarið 1939 og fram til þess að Hitler réðst inn í Rússland sumarið 1941.

Í þessu sambandi verður þó að sýna hinu stóryrta skáldi sanngirni. Rösklega hálfu ári eftir að Laxness setti þessa vitleysu saman var hann á Púshkín-hátíð í Moskvu. Hann skrapp þá einn daginn í Tretjakov-safnið og átti tal við forstöðumanninn, sem kvaðst ekki hafa á veggjum myndir eftir Chagall. Rússneskur almenningur væri ekki hrifinn af Chagall, því að hann væri meiri gyðingur en Rússi. Laxness gagnrýndi þetta dæmi um gyðingaandúð vægum orðum í „Þánkabrotum frá Moskvu“ í Tímariti Máls og menningar 1949. Vakti gagnrýni Laxness mikla athygli, jafnt á Íslandi og öðrum Norðurlöndum.

Laxness hafði ýmislegt á samviskunni. En ómaklegt er að kalla hann gyðingahatara, þótt hann hafi um skeið fylgt þeirri línu kommúnista að gera lítið úr gyðingaofsóknum nasista.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. desember 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband