Landsdómsmálið

Landsdómurinn íslenski er sniðinn eftir danska ríkisréttinum, en frægt varð mál Eriks Ninn-Hansens dómsmálaráðherra í okkar gamla sambandslandi. Hann hafði gefið embættismönnum munnleg fyrirmæli um að stinga undir stól umsóknum flóttamanna frá Srí Lanka um að fá fjölskyldur sínar til sín. Eftir að hæstaréttardómari hafði samið langa skýrslu um málið sagði danska stjórnin af sér og fólksþingið höfðaði mál gegn Ninn-Hansen. Ríkisrétturinn sakfelldi hann og dæmdi í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Ninn-Hansen skaut málinu til Mannréttindadómstólsins í Strassborg með þeim rökum að ákæran og úrskurðurinn hefðu verið stjórnmálalegs eðlis. Vísaði dómstóllinn málinu frá. Nýleg niðurstaða Mannréttindadómstólsins í málinu gegn Geir H. Haarde þarf því ekki að koma á óvart. Dómararnir í Strassborg telja að sérstakur dómstóll um ráðherraábyrgð þurfi ekki að fela í sér mannréttindabrot.

Margt annað er þó ólíkt með málum Ninn-Hansens og Geirs. Í fyrsta lagi braut Geir ekki af sér á neinn hátt. Ninn-Hansen gaf hins vegar beinlínis fyrirmæli um að ekki skyldi farið að lögum.

Í öðru lagi var Geir sýknaður af öllum þeim ákæruatriðum sem naumur meirihluti Alþingis sótti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann var hins vegar sakfelldur fyrir það smávægilega ákæruatriði, sem bættist við í meðförum þingsins og kom vart fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að hann hefði ekki tekið vanda bankanna á dagskrá ríkisstjórnarfunda. Var honum ekki gerð refsing fyrir þetta atriði og var kostnaður greiddur úr ríkissjóði.

Í þriðja lagi er ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald. Hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki. Það hefði því átt að vera bankamálaráðherrann, Björgvin G. Sigurðsson, sem hefði átt að biðja um umræður á ríkisstjórnarfundi um vanda bankanna. Formaður flokks bankamálaráðherrans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hélt hins vegar skipulega upplýsingum frá honum um þennan vanda, enda afgreiddi hún þær sem „reiðilestur eins manns“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. nóvember 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband