Banki í glerhúsi

Einn áhrifamesti gagnrýnandi íslensku bankanna fyrir bankahrun var Danske Bank. Vorið 2006 sagði hann upp öllum viðskiptum við þá og rauf þannig meira en aldargömul viðskiptatengsl. Jafnframt birti hann skýrslu, þar sem spáð var bankakreppu (en ekki bankahruni). Næstu tvö ár tók Danske Bank ásamt vogunarsjóðum þátt í veðmálum gegn íslensku bönkunum, eftir því sem næst verður komist. Og Danske Bank átti sinn þátt í að hleypa bankahruninu af stað, þegar hann neitaði skyndilega að taka þátt í sölu norska Glitnis, eins og ráð hafði verið fyrir gert.

En voru ráðamenn Danske Bank ekki í glerhúsi, þegar þeir grýttu Íslendinga? Í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-9 riðaði Danske Bank til falls, ekki síst vegna örs vaxtar og glannalegra fjárfestinga á Írlandi, og hefði fallið, hefði danski seðlabankinn ekki bjargað honum með Bandaríkjadölum, sem fengust í bandaríska seðlabankanum. Raunar var aðaleigandi bankans líka aðalviðskiptavinur hans, skipafélagið A. P. Møller og sjóðir á þess vegum.

Nú hefur ýmislegt komið í ljós um bankann í rannsókn ötuls blaðamannahóps á Berlingske. Svo virðist sem starfsfólk bankans í útbúi hans í Eistlandi hafi aðstoðað rússneska glæpamenn og einræðisherrann í Aserbaídsjan við að skjóta fúlgum fjár undan. Bankinn hefur einnig flækst inn í svokallað Magnítskíj-mál, en Sergej Magnítskíj lést í rússnesku fangelsi eftir að hafa ljóstrað upp um stórfelld skattsvik áhrifamikilla manna í Rússlandi. Sagði bandaríski fjárfestirinn Bill Browder þá sögu á fjölsóttum fyrirlestri í hátíðasal Háskólans 20. nóvember 2015 og í bók sinni, Eftirlýstur, sem Almenna bókafélagið gaf út við það tækifæri.

Nú þegar Danske Bank og aðrir vestrænir stórbankar, sem bjargað var af almannafé í fjármálakreppunni, hafa orðið uppvísir að peningaþvætti, hagræðingu vaxta, margvíslegum blekkingum og jafnvel samstarfi við hryðjuverkasamtök og hryðjuverkaríki, er ef til vill kominn tími til að meta íslensku bankana af sanngirni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. nóvember 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband