Bernanke um Ísland

Áhugi sumra fræðimanna á bankahruninu 2008 virðist einskorðast við að leita uppi innlenda sökudólga og gera að þeim hróp, ekki reyna að skýra hina flóknu atburðarás. Til dæmis voru minningar örlagavaldsins Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Breta, ekki einu sinni til á Þjóðarbókhlöðunni, fyrr en ég gerði ráðstafanir til að útvega þær. Margt er þar misjafnt sagt um Ísland. Annað dæmi er, að minningar Bens Bernankes, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Hugur til verka (The Courage to Act), eru enn ekki til á Þjóðarbókhlöðunni, og skrifar hann þar þó um Ísland.

Bernanke segir (bls. 349): „Sum lítil lönd með stóra banka voru þess vanmegna að halda áfram ein síns liðs. Til dæmis var Ísland með sína 300 þúsund íbúa bækistöð þriggja stórra banka, og teygði starfsemi þeirra sig til annarra Norðurlanda, Bretlands og Hollands. Í öndverðum október höfðu allir þrír bankarnir fallið, svo að hluthafar (aðallega innlendir) og skuldabréfaeigendur (aðallega erlendir) misstu allt sitt. Við höfðum eins og Evrópski seðlabankinn og Englandsbanki hafnað beiðni Íslands um gjaldeyrisskiptasamninga. Íslenskar og bandarískar fjármálastofnanir voru í litlum tengslum, og vandi bankanna var hvort sem er of stór til þess, að hann yrði leystur með gjaldeyrisskiptasamningum.“

Að vísu misstu skuldabréfaeigendur ekki allt sitt. Talsvert fékkst upp í kröfur þeirra. En sú ábending Bernankes, að lítil tengsl hefðu verið milli íslenskra og bandarískra fjármálastofnana, vekur upp þá spurningu, hvers vegna evrópskir seðlabankar vildu þá ekki veita hinum íslenska aðgang að lausafé. Mikil tengsl voru milli íslenskra og evrópskra fjármálastofnana. Hvað sem því líður, var vandinn ekki of stór á bandarískan mælikvarða: Ef þriggja milljarða dala samningur hefði ekki dugað, þá hefði átt að gera tíu milljarða dala samning. Á meðan Ísland var hernaðarlega mikilvægt, hefðu Bandaríkjamenn ekki hikað við: Eftir stríð fékk Ísland tvöfalt meiri Marshall-aðstoð á mann en Holland, sem þá lá í rústum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. ágúst 2017.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband