Jöfnuður hefur aukist á Íslandi

D.OddssonStefán Ólafsson prófessor heldur því fram, að ójöfnuður hafi aukist svo á Íslandi, að helst sé að líkja við Chile undir herforingjastjórn Pinochets. Hann segir, að Davíð Oddsson hreyki sér af skattalækkunum, en hafi í raun hækkað skatta meira en nokkur annar vestrænn þjóðarleiðtogi og sé því alþjóðlegur skattakóngur. Frá 1991 hafi kjör hinna tekjulægstu versnað í samanburði við aðra hópa og skattbyrði þeirra þyngst. Til stuðnings þessum furðulegu staðhæfingum beitir Stefán ýmsum áróðursbrellum. En sannleikurinn er sá, að jöfnuður hefur aukist á Íslandi, um leið og skattar hafa verið lækkaðir, en kjör hinna tekjulægstu hafa batnað hraðar og eru betri en í flestum öðrum vestrænum löndum, þótt auðvitað séu þau samkvæmt skilgreiningu ekki góð.


Skattahækkunarbrella Stefáns

Til að skilja skattahækkunarbrellu Stefáns skulum við taka einfalt dæmi. Í landi einu eru 100 fyrirtæki. Þau bera 30% tekjuskatt. Atvinnulífið í landinu er veikt og mörg fyrirtæki rekin með tapi, svo að aðeins 10 þeirra hafa tekjur umfram gjöld til að greiða af. Þessi 10 fyrirtæki greiða hvert 300 þúsund kr. í tekjuskatt, svo að skatttekjur ríkisins af þeim eru samtals 3 milljónir kr. Nú tekur ný ríkisstjórn við, sem eflir atvinnulífið og lækkar tekjuskatt á fyrirtæki niður í 20%. Tap snýst víða í gróða, og ný fyrirtæki eru stofnuð. Fyrirtækin verða 150, og 140 þeirra græða og greiða 200 þúsund kr. hvert í tekjuskatt, svo að skatttekjur ríkisins af þeim eru samtals 28 milljónir kr.

Þetta myndi Stefán Ólafsson kalla skattahækkun. Skatttekjur ríkisins af fyrirtækjunum fara úr 3 milljónum kr. í 28 millj. kr. En auðvitað er þetta skattalækkun úr 30% í 20%, sem ber þann ávöxt, að skattstofninn vex og skatttekjur ríkisins aukast. Í raun og veru gerðist eitthvað sambærilegt á Íslandi síðastliðinn áratug. Tekjuskattur fyrirtækja lækkaði, en skatttekjur af þeim hækkuðu. Þegar tekjuskatturinn var 45% árið 1991, námu tekjur ríkisins af honum um 2 milljörðum kr. Á síðasta ári, þegar hann var 18%, námu tekjur ríkisins af honum um 30 milljörðum kr. Gert er ráð fyrir, að þær hækki upp í 34 milljarða kr. á þessu ári.

Áður greiddu bankarnir ekki skatta, svo að heitið gæti. Þeir voru í eigu ríkisins og reknir með tapi. Stundum varð meira að segja að leggja þeim til fé úr ríkissjóði. Á síðasta ári greiddu einkabankarnir samtals um 11 milljarða kr. í tekjuskatt auk allra annarra tekna, sem ríkið hefur af þeim. Skatttekjur af bönkunum fóru með öðrum orðum úr 0 kr. í 11 milljarða kr. Stefán Ólafsson myndi kalla þetta skattahækkun. En auðvitað er þetta afleiðing af blómlegra atvinnulífi.

Ef tap fyrirtækis snýst í gróða, þá fer það að greiða tekjuskatt, sem það gerði ekki áður. Vissulega hefur skattbyrði fyrirtækisins þyngst. En það er ekki skattahækkun í eiginlegum skilningi. Hliðstætt á við um einstaklinga. Við skulum taka einfalt dæmi. Í landi einu hefur maður svo lágar tekjur eitt árið, að hann lendir undir skattleysismörkum og hlýtur margvíslegar bætur. Næsta ár er tekjuskattur einstaklinga lækkaður úr 40% í 35%. Þetta sama ár hækka tekjur mannsins í dæmi okkar verulega, svo að hann lendir ofan skattleysismarka (sem við gerum ráð fyrir í þessu dæmi, að séu óbreytt milli áranna, enda sé engin verðbólga í landinu). Maðurinn fer að greiða tekjuskatt og missir einhverjar bætur, þar sem þær eru tekjutengdar.

Þetta myndi Stefán Ólafsson kalla skattahækkun, þótt tekjuskatturinn hafi verið lækkaður úr 40% í 35%. Vissulega hefur skattbyrði mannsins í dæminu þyngst. En hún hefur þyngst af sömu ástæðu og fyrirtækisins, sem var áður rekið með tapi, svo að það greiddi ekki tekjuskatt, en er nú rekið með gróða og ber því skatt. Tekjur mannsins hafa hækkað, svo að hann er aflögufær. Eitthvað sambærilegt hefur gerst á Íslandi. Samkvæmt tölum Stefáns Ólafssonar sjálfs hafa tekjur tekjulægsta hópsins á Íslandi hækkað um 36% fyrir skatta árin 1995-2004. Þessi hópur greiðir nú meiri skatta en áður. Það er eðlileg afleiðing af góðærinu, ekki skattahækkun stjórnvalda. Síðan má alltaf deila um, hvar skattleysismörk eiga að vera. Sjálfum þykir mér eðlilegt að tengja þau við vísitölu neysluverðs, eins og nú hefur verið gert.

Skattar á Íslandi hafa lækkað verulega frá 1991. Tekjuskattur sá, sem ríkið innheimtir af einstaklingum, hefur lækkað úr rúmum 30% í tæp 23%. Tekjuskattur á fyrirtæki hefur lækkað úr 45% í 18%. Aðstöðugjald hefur verið fellt niður, einnig eignaskattur og hátekjuskattur. Erfðafjárskattur hefur líka lækkað. Þessar skattalækkanir hafa borið meiri og betri ávöxt en stuðningsmenn þeirra þorðu að vona. Atvinnulífið hefur blómgast, tap fyrirtækja snúist í gróða, kjör manna batnað, neysla aukist og skatttekjur ríkisins af öllum þessum ástæðum hækkað. Hugtök eru misnotuð, ef þetta er kallað skattahækkun, eins og Stefán Ólafsson gerir.

Einnig skiptir máli, að tveir dulbúnir skattar hafa fallið niður frá 1991. Annar fólst í verðbólgu, sem er í raun skattur á notendur peninga (eins og allir hagfræðingar eru sammála um). Hún hefur hjaðnað. Hinn skatturinn fólst í skuldasöfnun ríkisins, sem er í raun skattur á komandi kynslóðir. Ríkið hefur greitt upp mestallar skuldir sínar. Stefán Ólafsson minnist ekki á þetta. Því síður getur hann þess, að skatttekjur ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu mun samkvæmt áætlunum verða hið sama 2008 og það var 1992, 32%, svo að skattheimta mun ekki aukast á því tímabili, en skatttekjur sveitarfélaga sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aukist úr 8% í 12% og munu ekki lækka. Og auðvitað þegir Stefán um það, að á sama tíma og ríkið greiddi upp mestallar skuldir sínar, jukust skuldir sveitarfélaganna stórkostlega.


Ójafnaðarbrella Stefáns

Til að skilja ójafnaðarbrellu Stefáns skulum við taka einfalt dæmi. Í skagfirskri sveit búa 18 bændur, hver með 4 milljón kr. árstekjur. Heildartekjurnar eru þá 72 milljónir kr. Síðan kaupir Jón Ásgeir Jóhannesson jörð í sveitinni og telur þar fram tekjur sínar, sem eru 60 milljónir kr. í atvinnutekjur og 400 milljónir kr. í fjármagnstekjur. Einnig kaupir Lilja Pálmadóttir þar jörð og gerist framteljandi, en hún hefur 12 milljónir kr. í atvinnutekjur og 100 milljónir kr. í fjármagnstekjur. Heimilum í sveitinni hefur fjölgað í 20 og heildartekjur snarhækkað, í 144 milljónir kr. í atvinnutekjur og 500 milljónir kr. í fjármagnstekjur og samtals í 644 milljónir kr. Jarðir hækka síðan í verði og framkvæmdir aukast, veiðiskáli er reistur og hesthús og vegur lagður, svo að tekjur bændanna 18 hækka. Sveitarfélagið fær stórauknar tekjur. Allir græða. Enginn tapar. Þetta kallar Stefán Ólafsson aukinn ójöfnuð.

Hugtakanotkun Stefáns Ólafssonar er hæpin. Íslenska orðið „ójöfnuður“ er ekki sömu merkingar og ójöfn tekjuskipting. Það merkir miklu frekar, að menn séu ekki jafningjar, sumir beiti aðra rangsleitni, virði ekki settar reglur. Í þeim skilningi voru Hrafnkell Freysgoði og Grettir Ásmundarson ójafnaðarmenn. Í dæmi okkar úr Skagafirði er tekjuskiptingin vissulega orðin ójafnari. En það er ekki vegna þess, að neinn hafi verið órétti beittur, heldur vegna þess að sumir eru orðnir ríkari. Eitthvað sambærilegt hefur gerst á Íslandi síðustu fimmtán ár. Um 100-600 stórauðugar fjölskyldur hafa orðið til og kjósa að telja fjármagnstekjur sínar fram á Íslandi, þótt þær gætu talið þær fram annars staðar, til dæmis í Sviss eða Lúxemborg. Í stað þess að þakka fyrir þennan nýja tekjustofn kvartar Stefán Ólafsson undan því, að þetta fólk greiði aðeins 10% af fjármagnstekjum sínum í tekjuskatt, á meðan venjulegt launafólk greiði um 35% af atvinnutekjum sínum.

Tekjur ríkisins af fjármagnstekjum námu á síðasta ári um 18 milljörðum kr. Af þessum tekjum fellur röskur helmingur til vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. Það eru óreglulegar tekjur (og í rauninni ekki tekjur, heldur innlausn eigna), og erlendis er þeim þess vegna jafnan sleppt í tölum um tekjuskiptingu. Þessi hagnaður skiptist afar ójafnt, en aðrar fjármagnstekjur miklu jafnar og líkar launatekjum. Stefán Ólafsson hefur hér í blaðinu (31. ágúst 2006) og víðar birt línurit með svokölluðum Gini-stuðlum, sem eiga að sýna aukinn ójöfnuð. Hann hefur ekki sleppt úr íslensku tölunum söluhagnaði af hlutabréfum, svo að þær yrðu sambærilegar við hinar erlendu. Þess í stað hefur hann klifað á því, að íslenskur Gini-stuðull um ójöfnuð hafi aukist um tíu stig á tíu árum, úr 0,25 í 0,35. En ef fjármagnstekjur eru undanskildar, þá hefur stuðullinn íslenski samkvæmt tölum Stefáns sjálfs hækkað fyrir sambýlisfólk eftir skatt úr 0,20 í 0,24 árin 1995-2004. Það er miklu minni hækkun.

Þótt Stefán Ólafsson ýki, hefur tekjuskipting orðið ójafnari á Íslandi. Teygst hefur úr tekjunum upp á við. Með niðurfellingu hátekjuskatts og tiltölulega hægri uppfærslu skattleysismarka minnkuðu líka jöfnunaráhrif skatta. En aðalatriðið er, að kjör allra hópa hafa batnað stórkostlega. Samkvæmt tölum Stefáns sjálfs hafa tekjur 10% tekjulægsta hópsins eftir skatt hækkað um 2,7% að meðaltali á ári 1995-2004. Stefán ber þetta saman við tekjuhækkanir annarra hópa á Íslandi. En hann ætti þess í stað að bera þetta saman við tekjuhækkanir sama hóps í öðrum löndum. Ég útvegaði mér nýjustu gögn um þetta frá Efnahags- og samvinnustofnuninni, O. E. C. D. Samkvæmt þeim hækkuðu tekjur 10% tekjulægsta hópsins að meðaltali í aðildarríkjunum um 1,8% á ári 1996-2000. Með öðrum orðum hafa kjör tekjulægsta hópsins á Íslandi batnað talsvert meira en sömu hópa í flestum grannríkjum okkar. Nú í ár batna þau enn meira, þar sem skattleysismörk hafa hækkað verulega, barnabætur líka hækkað og margt fleira verið gert láglaunafólki til hagsbóta.

Þótt tekjuskipting hafi vissulega orðið ójafnari á Íslandi, hefur ójöfnuður ekki aukist, heldur minnkað. Í fyrsta lagi hefur fjármagn færst úr höndum ríkisins til einkaaðila. Það er ekki lengur skammtað eftir flokksskírteinum, heldur hagnaðarvon. Áður þurfti almenningur að bíða í löngum biðröðum fyrir utan bankana eftir fyrirgreiðslu, á meðan flokksgæðingar létu greipar sópa um sjóði. Munur var á Jóni og séra Jóni. Þetta leiddi af sér mikinn ójöfnuð, sem nú er horfinn. Nú ræður greiðslugeta lánum.

Í öðru lagi hefur verðbólga hjaðnað. Launafólk var áður helsta fórnarlamb verðbólgunnar. Það gat ekki varið sig eins vel gegn henni og fyrirtæki. Þetta fól í sér mikinn ójöfnuð, sem nú er nær horfinn.

Í þriðja lagi hefur ríkið hætt að safna skuldum. Það er orðið nær skuldlaust. Áður beitti kynslóðin, sem tók lánin og eyddi fénu, komandi kynslóðir rangsleitni með því að auka skuldabyrði hennar. Þetta var ójöfnuður milli kynslóða, sem nú er nær horfinn.

Í fjórða lagi er óverulegt atvinnuleysi á Íslandi. Það er hins vegar mikið í flestum aðildarríkjum O. E. C. D. Til dæmis er atvinnuleysi um 15% í Svíþjóð (þótt reynt sé að dulbúa það) og bitnar aðallega á ungu fólki. Atvinnuleysi er í eðli sínu samtök þeirra, sem hafa vinnu, gegn þeim, sem eru að leita sér að vinnu. Það hefur í för með sér mikinn ójöfnuð milli þessara tveggja hópa. Þessi ójöfnuður er horfinn á Íslandi.

Í fimmta lagi hafa lífeyrissjóðirnir íslensku verið styrktir ólíkt því, sem er í mörgum Evrópuríkjum, þar sem þeir munu bráðlega komast í þrot. Hér safna lífeyrisþegar í sjóðina. Síðar meir þurfa þeir ekki að verða háðir náð og miskunn þeirra, sem stjórna sjóðunum hverju sinni. Slíkur ójöfnuður er nú að hverfa.


Lausn vandans?

Til að sjá, að Stefán Ólafsson vekur ekki máls á raunverulegum vanda, má benda á nærtækustu „lausnina“ eftir forsendum hans. Ef nógu mörg fyrirtæki eru rekin með tapi, svo að þau greiða ekki skatt, þá minnka skatttekjur ríkisins. Myndi Stefán fagna þessu og kalla skattalækkun? Ef nógu margir einstaklingar lækka í tekjum, svo að þeir komast undir skattleysismörk, þá minnka skatttekjur ríkisins og skattbyrði hinna fátækustu léttist. Myndi Stefán fagna þessu og kalla skattalækkun? Ef þau Lilja Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson í dæmi okkar flytjast úr skagfirsku sveitinni, þá verður tekjuskiptingin þar jafnari. Myndu bændurnir fagna því og tala um aukinn jöfnuð? Ef fjármagnstekjuskattur verður hækkaður, þá mun þeim fækka, sem kjósa að telja hann fram hér á landi. Ríkasta fólkið mun þá gera hið sama og í Svíþjóð og flytjast burt. Myndi Stefán fagna því og tala um aukinn jöfnuð?

Svíþjóð hefur löngum verið talið fyrirmyndarríki jafnaðarmanna. En það hefur dregist aftur úr öðrum löndum. Árið 1964 voru lífskjör þar, mæld í vergri landsframleiðslu á mann, um 90% af lífskjörum Bandaríkjamanna. Nú eru þau um 75% af lífskjörum Bandaríkjamanna. Gengi Svíþjóð í Bandaríkin, þá væri ríkið eitt hið fátækasta þar, ásamt Mississippi og Arkansas. Rannsóknarstofnun vinstri sinnaðra Bandaríkjamanna, Institute for Policy Studies í Washington-borg, hefur gefið út bók, The State of Working America, sem Stefán Ólafsson styðst við í skrifum sínum. Þar kemur fram (í 8. kafla), að tekjulægsti hópurinn í Svíþjóð hefur minni tekjur en tekjulægsti hópurinn í Bandaríkjunum, þótt vissulega sé tekjumunur miklu meiri í Bandaríkjunum en Svíþjóð.

Við Íslendingar þurfum hins vegar hvorki að sækja fyrirmyndir til Bandaríkjanna né Svíþjóðar. Við höfum frá 1991 farið íslensku leiðina, sem felst í atvinnufrelsi, opnu hagkerfi, lágum sköttum og mörgum tækifærum, en þetta gerir okkur kleift að gera vel við þá, sem minnst mega sín, jafnframt því sem aðrir fá að njóta sín.

Morgunblaðið 1. febrúar 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband