3.4.2007 | 02:11
Talnabrellur um banka
Fullyrðingar Þorvalds Gylfasonar prófessors um ójöfnuð á Íslandi eru hraktar í nýrri skýrslu Evrópusambandsins um lífskjör og tekjudreifingu, sem nálgast má á heimasíðu hagstofunnar. Þar kemur fram, að tekjuskipting á Íslandi var árið 2004 ein hin jafnasta í Evrópu. Þrjú ríki voru með jafnari tekjuskiptingu, 27 með ójafnari. Í samanburði milli landa hafði Þorvaldur gert vonda villu. Hann hafði reiknað með söluhagnaði af hlutabréfum og verðbréfum í tölum fyrir Ísland, en þessum stærðum er jafnan sleppt í tölum fyrir önnur lönd. Flóknara var það ekki.
En þegar eitthvað er rekið ofan í Þorvald, leiðréttir hann það ekki, heldur skiptir um umræðuefni. Hér í blaðinu í gær bölsótast hann yfir Sjálfstæðisflokknum. Nú fullyrðir hann á heimasíðu sinni, að Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafi verið seldir á undirverði. Bankarnir stundi vaxtaokur vegna vangetu hinna nýju eigenda. Til marks um það sýnir Þorvaldur línurit um, hvernig vaxtamunur inn- og útlána hafi stóraukist eftir sölu bankanna og sé nú um 15%. Einnig getur þar að líta línurit um neikvæða innlánsvexti á sparisjóðsbókum.
Þar eð bankarnir græða vel um þessar mundir, er jarðvegur frjósamur fyrir ásakanir sem þessar. Sumir trúa því, að eins gróði hljóti ætíð að vera annars tap, og þau Guðmundur Ólafsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa í sjónvarpi bergmálað orð Þorvalds. En tölur Þorvalds um vaxtaokur virðast fengnar með svipuðum brellum og tölurnar um ójöfnuð. Svo er að sjá sem hann dragi innlánsvexti á sparisjóðsbókum frá útlánsvöxtum á skammtímalánum (60 daga víxlum). Þannig fær hann sinn 15% vaxtamun. Þetta er fráleit reikningsaðferð, enda er aðeins 1,5% innlána geymt á sparisjóðsbókum og meginþorri allra útlána til heimila (um 85%) er húsnæðislán, ekki skammtímalán.
Samkvæmt viðurkenndri reikningsaðferð, sem Seðlabankinn notar, er vaxtamunur inn- og útlána á Íslandi nú 1,9% og hefur lækkað talsvert síðustu ár. Hann var til dæmis 3,3% árið 2001, ári áður en gengið var frá sölu bankanna. (Þessi vaxtamunur er reiknaður sem munurinn á heildarvaxtatekjum og heildarvaxtagjöldum bankanna í hlutfalli af meðaltali niðurstöðu efnahagsreikninga þeirra í upphafi og lok árs.) Önnur leið til að gera sér grein fyrir vaxtamun er að reikna út, hvað vaxtatekjur eru stórt hlutfall af hagnaði bankanna. Þetta hlutfall hefur hrapað úr 666% árið 1995 í 77% árið 2004.
Það segir sitt, að maður, sem leitar með logandi ljósi að einhverju misjöfnu um bankana, skuli veifa vöxtum á sparisjóðsbókum, en horfa fram hjá vöxtum á 98,5% innlána. Raunar vita langflestir Íslendingar af eigin reynslu, að vaxtakjör hafa batnað. Áður gátu menn aðeins fengið verðtryggð húsnæðislán frá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum á 6-7% vöxtum. Nú bjóða viðskiptabankarnir verðtryggð húsnæðislán á tæplega 5% vöxtum. Hitt er annað mál, að vaxtamunur milli Íslands og útlanda er mikill, vegna þess að Seðlabankinn krefst hárra vaxta á peningum til viðskiptabankanna, svo að verðbólga hjaðni. Það merkir, að vextir eru háir á Íslandi jafnt á innlánum og útlánum, ekki, að vaxtamunur inn- og útlána sé hér mikill.
Vegna aðdróttana Þorvalds um sölu bankanna verður síðan að rifja upp, að reynt var að fá erlenda aðila til að kaupa ráðandi hluti í bönkunum haustið 2001. Þeir höfðu ekki áhuga. Sumarið 2002 barst óvænt boð um viðræður um kaup á ráðandi hlut í Landsbankann frá Björgólfi Guðmundssyni og fleirum, sem höfðu efnast í Rússlandi. Þá var ákveðið að auglýsa þennan hlut til sölu, og bárust þrjú fullnægjandi tilboð. Ákveðið var að ráði HSBC, eins virtasta fjármálafyrirtækis heims, að taka tilboði Björgólfs og félaga, enda gætu þeir best sýnt fram á greiðslugetu. Ríkisendurskoðun fór vandlega yfir söluna og taldi ekkert athugavert. Raunar kom í ljós, þegar endurskoðunarstofan KPMG rannsakaði bankann eftir kaupin, að ekki hafði nægilegt fé verið lagt í afskriftasjóð, og var verðið til þeirra Björgólfs lækkað fyrir vikið. Í árslok 2003 gerði Ríkisendurskoðun aðra skýrslu að kröfu Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs um sölu nokkurra ríkisfyrirtækja, þar á meðal Landsbankans og Búnaðarbankans, og fann þar ekkert ámælisvert heldur.
Viðskiptabankarnir hafa dafnað vonum framar, fært út kvíarnar til Evrópu og grætt á tá og fingri. Það er ekki fé, sem almenningur hefur orðið af, eins og Þorvaldur Gylfason virðist trúa, heldur fé, sem hefði ekki orðið til, hefðu bankarnir ekki verið seldir.
Fréttablaðið 23. febrúar 2007.