10.6.2012 | 17:46
Hægri stefna á okkar dögum
Á nítjándu öld voru hægri flokkar íhaldssamir, sumir jafnvel afturhaldssamir, og studdust við yfirstéttir. Vinstri flokkar voru róttækir og sóttu fylgi til vinnandi stétta. Vinstri flokkurinn danski var dæmigerður. Hann var frjálslyndur bændaflokkur, enda var landbúnaður aðalútflutningsatvinnuvegur Dana og viðskiptafrelsi honum nauðsynlegt.
Tveir höfuðsmiðir íslenska flokkakerfisins höfðu hins vegar aðrar aðferðir til að flokka stjórnmálastefnur. Jónas Jónsson frá Hriflu taldi þrjá flokka eðlilega. Einn berðist fyrir sameign og styddist við verkalýð bæjanna, annar fyrir samvinnu, og mynduðu hann bændur, hinn þriðji fyrir samkeppni, og söfnuðust þar saman efnamenn.
Jón Þorláksson hafnaði hugmyndum um stéttarflokka, enda skyldu allir vinna að almannahag. Skipting í flokka réðist af hugsjónum, stjórnlyndi eða frjálslyndi annars vegar og íhaldssemi eða umrótsgirni hins vegar. Sjálfum fannst honum íhaldssemi tímabær á Íslandi, því að halda þyrfti í fengið frelsi. Þess vegna væri flokkur hans frjálslyndur íhaldsflokkur. Hann hefði orðið til í framhaldi af vinstri flokkum nítjándu aldar. Jón taldi hins vegar sósíalistaflokka stjórnlynda umrótsflokka.
Flokkun Jónasar frá Hriflu var gölluð, því að samvinna er ekki sjálfstæð hugsjón. Allir eru henni hlynntir, þótt sumir kjósi hana sjálfsprottna og aðrir valdboðna. En flokkun Jóns Þorlákssonar var vel hugsuð, þótt ekki hafi margir notað hana. Vandinn við skiptinguna í hægri og vinstri var einmitt, að gömlu hægri og vinstri flokkarnir voru á tuttugustu öld allir orðnir hægri flokkar, því að þeir stóðu andspænis róttækum sósíalistaflokkum. Til dæmis er Vinstri flokkurinn danski í raun hægri flokkur og hverfandi munur á honum og gamla hægri flokknum, Íhaldssama þjóðarflokknum.
Hægri og vinstri eru þó stutt og þægileg orð. Er hægri stefna nú á dögum að kjósa lága skatta og traustar varnir, en vinstri stefna að vilja háa skatta og veikar varnir?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook