Æpandi þögn

Ég spurði hér fyrir nokkru, hvað vandlætingarpostularnir Guðmundur Andri Thorsson og Illugi Jökulsson myndu skrifa um það, þegar stjórn Hörpu vildi ráða Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur forstöðumann hússins, en var neydd til þess að ráða þess í stað einn helsta menningarpostula vinstri manna. Þeir hafa haft ýmislegt að segja af minna tilefni. Stórlega var brotið á hæfri konu.

Auðvitað þögðu þeir Andri og Illugi. Og þögn þeirra var ærandi.

Nú verður fróðlegt að sjá, hvað þeir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason, sem skrifað hafa ófáar greinar um samúð sína með lítilmagnanum, segja við ágætri ábendingu leiðarahöfundar Morgunblaðsins:

Milljarði króna, þúsund milljónum, er eytt í einkennilega atlögu að stjórnarskrá landsins. Fjögur hundruð milljónum er kastað í óþarft hringl með ráðuneyti stjórnarráðsins. Milljörðum er sóað í aðildarumsókn að ESB sem ber dauðann í sér. Hundruðum milljóna var kastað í samninganefnd vegna Icesave sem gekk erinda andstæðinga Íslands. En MS-sjúklingar skulu verða fyrir varanlegum skaða í sparnaðarskyni! Er þetta forgangsröðun „norrænu velferðarstjórnarinnar“ eins og hún kallaði sig í upphafi?

Ég spái því, að viðbrögð þeirra Stefáns verði æpandi þögn.

Það er eftir öðru. Skjaldborgin um heimilin reyndist aðeins vera skjaldborg um heimili tveggja manna, Einars Karls Haraldssonar og Más Guðmundssonar. Og „norræna velferðarstjórnin“ gætir ekki hagsmuna hinna vinnandi stétta, heldur aðeins hinna talandi stétta. Hún stefnir ekki að sköpun, heldur skrafi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband