Tómas í Hressingarskálanum

Einhvern tíma á fjórða áratug tuttugustu aldar sat Tómas Guðmundsson að kaffidrykkju í Hressingarskálanum með Sigurði Einarssyni, guðfræðingi, útvarpsmanni og alþingismanni. Þá komu þeir auga á gamlan bekkjarbróður úr Menntaskólanum í Reykjavík, Halldór Kiljan Laxness, sem þegar var orðinn þjóðkunnur rithöfundur, stika stórum á Austurstræti. Sigurður sagði þá við Tómas: „Hugsaðu þér, Tómas, hvað hefði getað orðið úr okkur, ef við hefðum haft dugnaðinn hans Halldórs.“

Í annað sinn sat Tómas með vinum sínum í Hressingarskálanum. Veður var hart, snjókoma með hvössum ágangi. Horfðu þeir á menn hraða sér yfir Austurstræti. Einn þeirra var Halldór Kiljan Laxness, annar Vilhjálmur Þ. Gíslason, þá skólastjóri Verslunarskólans, síðar útvarpsstjóri. Talið barst að því, hvað rímað gæti við Laxness. Tómas leysti þá rímþraut á augabragði:

Víst er byljótt. Hér er hann

Halldór Kiljan Laxness;

síst skal dylja mætan mann,

meistara Vilhjálm pax, þess.

Vilhjálmur var kunnur útvarpsfyrirlesari og oft kallaður „Villi pax“, þar sem hann endaði jafnan erindi sín á orðunum „Í Guðs friði“.

Eitt sinn árið 1951 fékk Tómas það óþvegið í Hressingarskálanum. Tómas sat þar við eitt borð, en þeir Steinn Steinarr og Dósóþeus Tímóteusson við annað. Dósóþeus sagði við Stein: „Hér situr Tómas skáld.“ Steinn greip orðin á lofti og mælti fram vísu:

Hér situr Tómas skáld með bros á brá,

bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.

Ó, hvað mig, vinur, tekur sárt að sjá,

að sál þín skyldi grána fyrr en hárið.

Steinn var Tómasi reiður fyrir það, að hann gerði óspart gys að atómskáldum í hláturleik, revíu, „Bláu stjörnunni,“ sem hann hafði samið ásamt öðrum manni og þá var sýnd.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 2012 og er sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, en hún er barmafull af sögum og fróðleik.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband